27.11.2007 | 08:05
4 dagar - Anna Brynja Baldursdóttir
Eins og fram hefur komið mun ég setja Svartan Sand á netið á laugardaginn. Ég ætla að reyna að vera með daglega pistla meðan ég geri hana tilbúna.
Er einhver spurning með höfunarrétt? Sá sem býr til efni á réttinn, nema sá hinn sami hafi samið hann af sér. Það er sennilega stóra vandamálið í þessu öllu saman. Listamenn eru að semja af sér sín eigin verk sem lenda svo í höndum stóru útgefendanna sem neitendur hafa enga samúð með. Samúðarleysið á sér margar ástæður, en það sem maður heyrir mest er okur á kaupendum og að listamaðurinn sjálfur sjái aðeins lítið brot teknanna. Það var vegna þessa að ég ákvað að setja Svarta Sandinn á netið. Ég á höfundarréttinn og ef fólk sem nær í mynina borgar, fer það allt til mín og þeirra sem hjálpuðu til við gerð myndarinnar. Kaupandinn er því beint að styrkja gerð fleiri mynda en ekki borga lögfræðikostnað eða eitthvað álíka.
Í dag ætla ég að tala um aðal leikkonuna. Ég hafði snemma samband við þekkta íslenska leikkonu. Ég segi ekki hver hún er, en hún er nafna einnar bloggvinkonu minnar. Hún hafði áhuga, vildi skoða þetta, en á endanum gekk það ekki upp, því hún var að fara í annað verkefni. Ég var því í smá vandræðum. Rúmur mánuður til stefnu, ég var leikkonulaus og erlendis. Áhugasamir geta farið aftur í tímann á þessu bloggi og séð færslur þar sem ég er að biðja leikkonur um að vera í sambandi. Einn daginn fékk ég emil frá Önnu Brynju. Hún hafði séð sömu auglýsinguna og Jóel og ákvað að reyna, þótt seint væri. Ég hafði ekki um margt að velja, svo hún fékk hlutverkið án þess að ég hefði nokkurn tíma séð hana. Hún hafði verið í Stelpunum og leit vel út, svo ég sló til.
Það kom fljótt í ljós að hún var fullkomin. Hún var í stöðugu sambandi, hafði hugmyndir og vildi vita allt um Emilíu, konuna sem hún myndi leika. Ég man eftir einu skiptinu þar sem hún spurði mig hverjar stjórnmálaskoðanir Emilíu væru. Anna Brynja fer eins djúpt og hún kemst til að skapa trúverðugan karakter og það sést þegar horft er á myndina.
Þegar ég kom til Íslands sá ég að hún var rétta manneskjan í hlutverkið. Hún leit út eins og Emilía átti að líta út. Þar að auki var hún brosmild, skemmtileg, blíð og til í allt. Stundum þurftum við að leggja af stað klukkan fimm að morgni, en það var ekki vandamál. Þegar við tókum upp á Eiríksstöðum vorum við lögð af stað um fimm og komin til baka upp út ellefu um kvöldið. Enginn kvartaði. Þvílíkur hópur, hversu heppinn getur maður verið? Þessar tvær vikur var hún leikkona í myndinni og ekkert annað komst að.
Anna Brynja notaði hverja mínútu til að fullkomna leikinn. Á löngum bílferðum lagði hún sig, las textann, lærði handritið utan af. Ég held ég hafi aldrei unnið með mannseskju sem gaf sig verkefninu eins algerlega og hún, enda sá ég ekki handrit þegar tökur hófust. Þetta var allt í hausnum á henni. Hún vildi alltaf vita hvað yrði tekið upp og hvenær, svo hún gæti verið eins vel undirbúin og hugsanlegt var. Ef að hlutirnir breyttust, eins og í Bláfjöllum, var hún sveigjanleg og gerði sitt besta. Hennar besta var betra en ég hafði þorað að vona.
Svo má ekki gleyma hárinu. Myndin gerist á fjórum tímabilum. Við ákváðum að hún myndi lita á sér hárið til að skapa andstæður. Hún er ljóshærð og við notuðum það á víkingastúlkuna (nema hvað) og dívuna frá 1927. Konan í bílnum varð auðvitað að vera dökkhærð. Það má því segja að tökur myndarinnar hafi verið skipulagðar með tilliti til háralits Önnu Brynju.
Svo má minnast á að hún er tungumálaséní. Hún sótti um hlutverkið vegna þess að ég var að biðja um enskumælandi leikara. Hún hefði líka getað svarað hefði ég beðið um spænsku, þýsku eða norðurlandamálin.
Það er með hana eins og Jóel, ég vil endilega vinna með henni aftur. Ég er að vinna í því að búa til nýtt verkefni svo við getum sameinast aftur. Get ekki beðið
Fyrri færslur um Svartan Sand:
5 dagar - Jóel Sæmundsson
6 dagar - um gerð Svarta Sandsins
Oft ég Svarta Sandinn leit...
Hart barist um höfundarréttinn á torrent-síðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Kvikmyndir | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Vefurinn | Facebook
Athugasemdir
Ég er stolt af þér fyrir að fara þessa leið í útgáfu þinni og ég skal lofa þér því að ég kaupi myndina hvort sem innihaldið höfðar til mín eða ekki. Ástæðan er einfaldlega sú að ég hef þá hugsjón að styrkja alla íslensku listamennina sem fara réttu leiðina - sem er að treysta neytendum, ekki afætunum sem hirða allan ágóðann af ykkur.
Gangi þér allt í haginn.
Túrilla, 27.11.2007 kl. 08:49
Takk fyrir það. Ég er að brosa allan hringinn, ekki vegna greiðslunnar sem þú minnist á, heldur vegna þess sem að baki býr.
Villi Asgeirsson, 27.11.2007 kl. 08:51
Ég hélt að glugginn ætlaði aldrei að opnast svo ég gæti kvittað.
Þetta er spennandi.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 27.11.2007 kl. 20:42
Þér er alveg óhætt að halda áfram að brosa allan hringinn. Vinir mínir eru sama sinnis og ég svo þú átt eftir að selja nokkuð mörg eintök bara fyrir þessa ákvörðun þína. Þetta er hugsjón sem við framfylgjum eins lengi og okkur er mögulega unnt - fjárhagslega. Enn sem komið er hefur enginn farið á hausinn og ekki eigum við von á því á næstunni. Við komum því til með að halda þessari hugsjón okkar á lofti næstu misserin og kaupum af öllum gáfuðu listamönnunum sem skilja tæknina og fylgja henni. Við gerum okkar besta til að auglýsa þig og alla hina sem við fréttum af og fara sömu leið og þú.
PS. Kann ekki mikið á þetta kerfi hér ennþá, enda ný í bloggheiminum, en mig langaði að hafa þig sem bloggvin til að auðvelda mér að fylgjast með þér og verkum þínum. Þessi möguleiki virðist ekki virka hér efst á síðunni svo ég kasta boltanum til þín.
Túrilla, 28.11.2007 kl. 04:57
Gunnar Helgi Eysteinsson, 29.11.2007 kl. 16:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.