Færsluflokkur: Dægurmál
14.5.2007 | 14:14
5%
Það þýðir ekki að gráta úrslit kosninganna. Þetta er búið og gert. Eitt er það þó sem nagar mig, þetta með fimm prósentin. Einhverjum datt í hug að útiloka flokka sem ná ekki 5% fylgi. Ég hafði ekki hugmynd um þetta fyrir kosningar en það er bara mín fáfræði. Ég hef samt reynt að skilja hugsunina á bak við þetta ákvæði en get bara séð eina ástæðu, að útiloka minni flokka og sjá til þess að þeir flokkar sem settu þessi lög haldi sínum mönnum inni á þingi. Einhver skrifaði að þetta væri til að koma í veg fyrir að alls konar sérhagsmunasamtök kæmust inn á þing með einn þingmann. Það eru skrítin rök, því ef þessi "sérhagsmunasamtök" ná þeim atkvæðum sem til þarf hljóta þau að hafa stuðning nógu stórs hluta þjóðarinnar. Þau hljóta þá að hafa rétt á sér. Það er hugmyndin á bak við lýðræði, ekki satt?
Þetta eru mikil vonbrigði fyrir Ísland, íslendinga og lýðræðið í landinu. Ég hélt að kosningalöggjöfinni hefði verið breytt á undanförnum árum til að gera vægi atkvæða jafnara og dreifingu þingsæta réttlátari. Við virðumst hinsvegar vera á svipuðu róli og Bandaríkin þar sem atkvæði eru ekki það sem skiptir mestu máli.
Það er mikið talað um að Ómar Ragnarsson hafi hjálpað ríkisstjórninni að halda meirihluta en mér sýnist hún hafa gert það sjalf með því að setja þessi skrítnu lög. Ég vona að hann gefist ekki upp. Það er mikið verk fyrir höndum og við höfum ekki efni á að láta þetta bitna á landinu sem við og framtíðarkynslóðir byggjum.
Þessar kosningar skilja eftir sig súrt bragð. Ég hélt að Ísland væri fyrimyndarland þegar lýðræði er annars vegar.
![]() |
Líklegast að stjórnin sitji áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2007 | 08:34
Stjórnin fallin!
Þegar þetta er skrifað hafa 99.4% atkvæða verið talin.
Væri Ísland eitt kjördæmi hefði stjórnin nú 48.4% atkvæða, hún væri því fallin. Sennilega með 30 eða 31 þingmann. Við eru enn föst í gamla kjördæmakerfinu og því er komin upp sama staða og í Bandaríjunum árið 2000 að eiginlegur sigurvegari hefur tapað. Al Gore hafði meirihluta kjósenda á bak við sig en George Bush komst inn í Hvíta Húsið með þeim afleiðingum sem við öll þekkjum. Stjórnin heldur velli með minnihluta kjósenda á bak við sig, þökk sé kerfi sem mismunar atkvæðum eftir búsetu.
Hvað um það, raunveruleikinn er sá að stjórnin stendur, naumlega þó. Hvaða möguleikar eru í stöðunni?
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn (32 þingmenn) gætu haldið núverandi stjórn lifandi, þó sjúk sé. Það er þó ólíklegt, held ég. xB er þreyttur flokkur og þjóðin vill hann ekki í stjórn. Verði það þó ofan á má gera ráð fyrir óvinsælli stjórn sem nær ekki að lifa fram að næstu kosningum, árið 2011.
Kaffibandalag Samfylkingar, VG og Frjálslyndra (31 þingmaður) yrði minnihlutastjórn og því afar veik. Það er ólíklegt að þessi stjórn kæmi miklu í verk nema að gert væri samkomulag við Framsókn um að standa ekki í vegi fyrir frumvörpum. Þetta gæti kannski verið sniðugur leikur fyrir Framsókn, vera í stjórnarandstöðu, en hafa þó mikil völd og tækifæri til að laga almenningsálitið í leiðinni.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar (42 þingmenn) yrði sterkasta stjórnin í stöðunni eins og hún er núna, með 42 þingmenn á móti 21. Ég spái að þetta verði ofan á. xD er hægriflokkur og Samfylkingin er meira á miðjunni en til vinstri, svo þeir ættu að geta unnið saman. Auðvitað eru ágreiningsmál sem þyrfti að strauja út en það er yfirleitt svoleiðis. Þessi stjórn myndi sennilega halda áfram á svipaðri braut og gamla stjórnin þar sem sjálfstæðismenn eru sterkari flokkurinn. Það er hugsanlegt að eitthvað verði hægt á stóryðjumálum í bili, en þegar hægir um og stjórnin er búin að koma sér fyrir fer það allt af stað á ný. Vilji Samfylkingarinnar til að stoppa stóriðju er ekki nógu sterkur til að eitthvað gerist í þeim málum.
Sjálfstæðisflokkur og Vinstri Grænir (33 þingmenn). Sjá VG hér að neðan um af hverju þetta gæti verið góð hugmynd.
En hvað er best fyrir flokkana?
xB - Framsókn er best að koma sér úr stjórn og leita til vinstri flokkanna. Komandi kjörtímabili væri best varið í að hreinsa af sér núverandi ímynd spillingar og gamaldags hugsanaháttar. Framsókn gekk vel í kosningunum 1995 og hún þarf ekki að vera dauð, en best væri að halda sig frá stjórnarsetu í a.m.k. fjögur ár og koma með nýjan lista með nýju fólki fyrir næstu kosningar.
xD - Sjálfstæðisflokkurinn er að gera það gott, enda tók Framsókn á sig allt skítkastið sem stjórnin fékk. Það eru allar líkur á að flokkurinn haldi áfram í stjórn og að Geir sitji áfram sem forsætisráðherra. Þetta gæti þó orðið erfitt kjörtímabil og sjálfstæðismenn verða að vanda sig vilji þeir ekki lenda í vandræðum með almenningsálit og spillingu. Það sýnir óánægja með tiltekna alþingismenn og möguleikar til stjórnarsamstarfs.
xF - Frjálslyndir eru smáflokkur sem náði að halda sínu með því að búa til hávaða. Þeir eiga litla sem enga möguleika á að komast í stjórn. Þeirra stærsta mál næstu fjögur árin er að lifa af.
xI - Íslandshreyfingin kom fram með fallegar hugmyndir en dæmið gekk ekki upp. Þau væru með tvo þingmenn væri Ísland eitt kjördæmi, en það er ekki svo. Spurning hvað fór úrskeiðis, en ég er hræddur um að liðhlaupar úr öðrum flokkum hafi ekki hjálpað til. Mitt persónulega álit var alltaf að Ómar og co. hefðu virkað betur sem þrýstihópur. Spurning hvort það verði hlutverk Íslandshreyfingarinnar, því framtíð á þingi er ólíkleg.
xS - Samfylkingin er í erfiðri stöðu. Kaffibandalagið er dautt nema Samfylkingin og Framsókn neiti að vinna með xD. Það yrði veik minnihlutastjórn og ekki líkleg til að bæta ímynd vinstri flokkanna. Veik vinstristjórn yrði bara til að sópa atkvæðum til hægri í næstu kosningum. Stjórn með sjálfstæðismönnum yrði sterk ef flokkarnir vinna saman, en Samfylkingin hefur átt erfitt með að spila samhljóða svo það er erfitt að segja til um hvað gerist í stjórn. Samfylkingin er milli steins og sleggju, að fara í stjórn sem kjósendur hennar styðja ekki, fara í minnihlutastjórn sem brotnar sennilega við fyrsta skerið eða halda sig í stjórnarandstöðu og sjá hvað setur. Þetta er sennilega sá flokkur sem á erfiðustu valkostina fyrir höndum.
xV - Vinstri Grænir eru í góðum málum. Þeir vinna á og geta farið í stjórn eða ekki og haldið andlitinu. Þeir fljóta með. Hér eru þrír valkostir. Stjórnarandstaða, minnihlutastjórn eða stjórn með Sjælfstæðismönnum. Já, því ekki? Sjálfstæðismenn eru ágætir í fjármálum og VG sér til þess að græðgin fari ekki úr böndunum og að vel verði haldið á umhverfismálum. Þetta er sennilega besta stjórnin sem hugsanleg er eftir kosningarnar í gær.
Það verður gaman að sjá hvort að Hægri-Vinstri stjórn verði rædd á næstu dögum.
![]() |
Miklar sviptingar í þingsætum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.4.2007 | 12:28
Aðfaraflokkurinn III
Fyrir um ári síðan skrifaði ég tvær færslur þar sem Aðfaraflokkurinn var kynntur. Því miður hef ég verið vant við látinn og kosningabarátta okkar ekki fengið þá athygli sem nauðsynleg er til að komast í Kastljós. Við munum því ekki komast á kjörseðla heldur. Hér til vinstri hef ég því sett upp skoðanakönnun þar sem fólki gefst kostur að kjósa þann flokk sem það vill. Þetta eru okkar mini-kosningar. Aðra flokka þekkja lesendur sennilega, svo ég læt mér nægja að kynna stefnuskrá Aðfaraflokksins
Áttir og Meðlimir:
Aðfaraflokkurinn sér sig hvorki sem vinstri eða hægri flokk. Það er kerfi er löngu úrelt. Dæmi hver fyrir sig hvar við erum. Athugasemdir eru vel þegnar svo við getum valið lit á lógóið. Meðlimir flokksins eru ekki á veggspjöldum hér og þar því við trúum því að stefnumál, ekki sæt fés og vinapólitík skipti máli.
Fjárlög og Skattar:
Skattar munu haldast óbreyttir. Ísland er ekki það ofurskattland sem það var. Við viljum sem minnst aðhafast beint á vinnumarkaði, en ríkið hefur sínar skyldur sem því ber að sinna og þar þarf fjármagn til.
Almannaheill:
Spítalar, dagheimili, skólar og almenningssamgöngur skulu vera á vegum ríkisins. Einkavæðing banka og margra fyrirtækja er hið besta mál, en stofnanir sem fara með almannaheill skulu ekki einkavædd því það stríðir gegn þjónustuhlutverki þeirra. Þau eru best sett sem eign þjóðarinnar.
Landsvirkjun má undir engum kringumstæðum verða einkavædd.
Langvarandi atvinnulausir (3 mán.) skulu eyða þremur dögum í viku á þartilgerðum skrifstofum þar sem þeim er veittur aðgangur að blöðum, netinu og ráðgjöf. Eftir 12 mánaða atvinnuleysi er fólki sköffuð atvinna, sem getur verið allt frá gatnavinnu til hreingerninga og annars viðhalds á almannastöðum. Enginn á að þurfa að vera atvinnulaus á Íslandi.
Atvinnumál:
Atvinnuleysi er hverfandi á Íslandi. Flestir vinna hjá fyrirtækjum sem ekki eru rekin af ríkinu. Þetta er stefna sem Aðfaraflokkurinn mun fylgja og skerpa. Ríkið hefur það hlutverk að hlúa að fyrirtækjum, sérstaklega sprotafyrirtækjum, og skapa umhverfi sem hvetur einstaklinga og fyrirtæki til að skapa auðævi. Hátækni- og ferðamannaiðnaður munu fá sérstakan stuðning því fjölbreytni og menntun er lykillinn að bjartri og öruggri framtíð.
Stóriðja:
Stóriðja á rétt á sér upp að vissu marki. Því marki hefur verið náð og mun Aðfaraflokkurinn beita sér fyrir stoppi á frekari virkjun landsins. Ástæðurnar eru þrjár:
- Náttúra landsins er meira virði en það sem fæst fyrir rafmagn í stóriðju. Sé svo ekki nú, verður það svo í náinni framtíð og er því engin ástæða til að eyða þeim möguleika fyrir fullt og allt
- Menntaðir íslendingar vilja fjölbreytt atvinnulíf. Þó að vinna í álveri sé ekki endilega slæm eru sennilega flestir sammála því að fjölbreytt atvinnulíf er meira virði en einhæft.
- Þeir peningar sem ríkið annars hefði fjárfest í stíflum er betur varið í aðrar atvinnugreinar. Erlend lán og þensla er ekki að borga sig, vextir eru of háir, aðrar framkvæmdir eru látnar sitja á hakanum.
Innflytjendur:
Ísland er frjálst og opið land. Fólki er því frjálst að flytjast hingað ef það vill. Þó skal það vera skilyrðum háð:
- Allir innflytjendur skulu tala íslensku innan tveggja ára. Ríkið mun sjá til þess að allir geti sótt námskeið. Þótt það sé ekki skylda að sæjka námskeið, skulu innflytjendur þó þurfa að standast próf.
- Á Íslandi ríkir trúfrelsi. Fólki er ekki mismunað eftir trú, en trú gefur heldur engin auka réttindi.
- Sömu atvinnuleysisreglur skulu gilda um alla. Innflytjendur munu þurfa að vinna til að eignast rétt á bótum á Íslandi.
Alþjóðamál:
Ísland er friðsamt land og þjóðin skal gæta fyllsta hlutleysis á alþóðavettvangi. Þetta þýðir þá líka að Ísland mun ekki taka þátt í stríði, nema það sé bundið til þess, svo sem með NATO sáttmálanum. Ísland skal aldrei styðja innrás í annað land.
Þetta er fyrsta uppkast svo ég hef sennilega gleymt einhverju, en athugasemdir eru vel þegnar og ég mun reyna að svara þeim eftir bestu getu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.3.2007 | 09:26
Um Land, Þjóð, Fána og Þjóðsöng
Spaugstofan grínaðist með þjóðsönginn og virðist þar með hafa opnað box Pandoru. Margir eru móðgaðir yfir þessu "virðingarleysi". Það eru jú lög sem kveða á um að ekki megi flytja hann í breyttri mynd. En hvað er þjóðsöngur og hvert er hlutverk hans?
Það er engin spurning að af hinni þjóðlegu þrenningu, landinu, fánanum og söngnum er landið dýrmætast. Án landsins er fáninn og söngurinn einskis virði.
Þjóðsöngurinn á að fjalla um landið, hversu dásamlegt það er og okkur dýrmætt. Þjóðsöngurinn okkar fjallar hins vegar um Guð meira en hvað annað. Kristin trú er þjóðtrúin og nenni ég því ekki að kvarta um það. Að söngurinn sé torsunginn hafa aðrir skrifað um. Það er sennilega rétt. Allavega kann ég hann ekki og gæti sennilega ekki sungið hann þó svo væri. Ekki að ég hefði neinn sérstakan áhuga, því ef ég hugsa um landið mitt vil ég ekki endilega blanda Guði eða trú inn í það. Ísland, landið sjálft, er það dýrmætasta sem íslenska þjóðin á og landið á skilið alla þá virðingu og ást sem við getum gefið. Landið er okkar, landið ar þeirra sem á undan lifðu og landið er þeirra sem á eftir koma. Það er merkilegt að sjá fólk sem styður stórvægilegar skemmdir á landinu, óafturkræfar skemmdir, móðgast þegar þjóðsöngurinn er notaður til að verja landið. Þjóðsöngurinn ætti að vea eign allra landsmanna, sameiningartákn. Ef að gerð er þungarokksútgáfa er það betra en núverandi ástand þar sem flestum er nokkuð sama um þetta "kórlag".
Fáninn er líka svolítið skemmtilegt fyrirbæri. Hann er kross, tákn trúarinnar, en litirnir tákna eld, ís og haf. Það sem mér finnst hvað merkilegast hér er að fáninn má ekki snerta jörðina, jörðina sem hann er tákn fyrir. Það er sennilega ástæða fyrir því, en ég get ekki ímyndað mér hver hún er.
Þjóðin sem býr í landinu hefur rétt á að nýta það, njóta þess og elska. Þjóðin hefur ekki rétt til að þurrmjólka það svo að ekkert standi eftir fyrir komandi kynslóðir.
Það að standa vörð um fánann og þjóðsönginn en eyðileggja landið er hræsni. Á sennilega mikið sameiginlegt með fólki sem ver kirkjuna en gengur þvert á það sem trúin boðar. Þjóðsöngvar og fánar eru tákn fyrir landið, rétt eins og kirkjur og krossar eru tákn trúarinnar. Okkur væri hollast að bera virðingu fyrir því sem virkilega skiptir máli, landinu sjálfu og þjóðinni. Þá kemur virðing fyrir öðrum hlutum af sjálfu sér.
![]() |
Spaugstofumenn brutu lög um þjóðsönginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.11.2006 | 14:19
Gullgrafari eða fórnarlamb?
Hver ætli sannleikurinn sé? Þau gerðu ekki kaupsamning þegar þau giftust. Frekar illa hugsað af Paul myndi maður halda, en hann átti auðvitað langt hjónaband að baki sem endaði með dauða Lindu. Maður hefði samt haldið að það væri fólk kring um hann sem hefði ráðlegt honum að gera samning.
Ef Heather er fórnarlambið, má hún alveg útskýra af hverju. Hún fær væna summu við skilnaðinn, ekki spurning með það. Þarf hún virkilega helminginn af eignum Pauls? Hún á sennilega rétt á þeim nema hægt sé að flækja málið, en ef þetta er svona sársaukafullt ferli, af hverju ekki bara sætta sig við 100 milljón pund og kalla það gott?
Maður veit aldrei.
Eitt að lokum, endilega lesið þetta og kjósið svo hér til hliðar.
![]() |
Mills: Skilnaðurinn verri en að hafa misst útlim |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.11.2006 | 08:51
Fyndnasti bloggarinn er...
Fyrir einhverjum mánuðum síðan bað ég fólk að tilnefna fyndnasta bloggarann á Blog.is. Það er augljóst að það eru ekki margir fyndnir pennar hér, þar sem aðeins var stungið upp á þremur. Nema að bloggið mitt sé bara ekki vinsælla en svo að enginn hafi séð þessa færslu og þar af leiðandi ekki vitað af þessari samkeppni. Verum ekkert ap velta okkur upp úr því. Sannleikurinn getur verið pínlegur.
Það komust sem sagt þrír bloggarar í úrslit. Hægt er að kjósa hér til hliðar. Endilega potið í hlekkina hér að neðan og kynnið ykkur málið
Beitt og skemmtilegt sjálfsháð sem fáir leika eftir. (Galdrmeistarinn)
-
Gunnar Helgi Eysteinsson er nátturlega bara algjör snilld... (Petra)
-
...hún hefur sérlega skemmtilega sýn á hversdagsleikann. (Vala)
Svo má koma með athugasemdir þar sem stungið er upp á hvað skal vera í vinning. Ég náði ekki að hugsa dæmið svo langt.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.11.2006 | 21:59
SAMKEPPNI!!! - Fyndnasti bloggari á blog.is
Innflytjendur. Rasismi. Það er orðið svo þungt yfir öllu, eins og svart ský eftir pælingar liðinna daga. Það er eins og þjóðin sé komin í heilagt borgarastríð. Spurning með að koma með létta keppni til að létta lund í hinu meinta skammdegi sem virðist vera að leggjast yfir.
Spurningin er, hver er fyndnasti bloggarinn á blog.is?
Reglurnar eru einfaldar. Setjið inn athugasemdir hér fyrir neðan þar sem þið útnefnið þann bloggara sem fær ykkur til að hlægja. Það má útnefna fleiri en einn, þið getið jafnvel útnefnt ykkur sjálf. Eftir viku set ég svo upp skoðanakönnun hér til vinstri þar sem kosið verður.
Nú er bara að vona að undirtektirnar verði nógu góðar til að keppnin verði spennandi.
7.11.2006 | 17:22
Hvað eru fordómar?
Eftir því sem ég best veit eru fordómar það að dæma fyrirfram, og þá án þess að skilja málið til fulls. Endilega leiðréttið mig ef ég er að bulla. Ég hef ekki búið á Íslandi í 13 á og get verið farinn að ryðga eitthvað.
Þessi umræða um útlendinga og moskur er komin út í þvílíkt rugl. Íslenskir stjórnmálaflokkar virðast vera fastir í einhverjum pólitískum rétttrúnaði (political correctness) sem hefur ekkert með raunveruleikann að gera. Frjálslyndi Flokkurinn segir eitthvað um að það væri kannski allt í lagi að skoða innflytjendalöggjöfina því við erum svo fá og meigum við svo litlu. Hvað ætti að gerast? Þeir sem eru á móti því ætti að koma með mótrök, þeir ætti að útskýra af hverju þeir séu á móti því að takmarka magn innflytjenda. Hvað gerist? Þeir koma með ómálefnanlegt bull og skítkast.
Hefur einhverjum dottið í hug að skoða þá þróun sem átt hefur séð stað í Evrópu á síðustu áratugum? Er það kannski slæm hugmynd að gera það? Maður vill auðvitað ekki vera stimplaður rasisti.
Ef Ísland er ekki að gera mistök, útskýrið þá af hverju. Að láta eins og smábörn á róló lítur ofsalega hallærilega út. Mér hafði aldrei dottið í hug að ég ætti nokkurn tíma eftir að eiga samleið með Frjálslyndum. Það hafa sennilega verið einhverjir fordómar af minni hálfu í þeirra garð.
![]() |
Lýsa yfir vonbrigðum með trúarbragðafordóma meðal Frjálslyndra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.11.2006 | 21:48
Fullkomið jafnrétti trúarbragða?
Það hefur verið töluverð umræða á blogginu síðan íslenskum múslimum var neitað um lóð undir mosku. Það mátti búast við heitum umræðum og þær létu ekki á sér standa. Það er alltaf svona þegar trú á í hlut.
Það er endalaust talað um virðingu fyrir hinum og þessum trúarhópum. Ef einhver segir að hann trúi á einhverja veru verð ég sjálfkrafa að bera virðingu fyrir því. Það er svo sem allt í lagi, mér er sama á hvað fólk trúir og sé enga ástæðu til að sýna einhverjum vanvirðingu af því hann trúir á eitthvað sem ég er kannski ósammála. Það er eins og að líta niður á Volvo eigendur af því mér finnst Volvo bílar ljótir. Maðurinn getur verið hin besta sál, vel gefinn, fyndinn og skemmtilegur. Það að hann keyri um á Volvo gerir það ekki að verkum að mér finnist hann vitlaus, heimskur, asnalegur eða að hann tilheyri ekki mér og mínum. Ég myndi ekki kaupa bílinn af honum, en þar fyrir utan get ég umgengist hann án vandræða.
Þó að mér finnist allt í lagi að þessi maður keyri um á Volvo, er ekki þar með sagt að ríki og sveitarfélög eigi að styrkja hann og hans líka í Volvodellunni sinni með skattpeningunum mínum. Af hverju á að innræta barninu mínu í skóla að Volvo séu fallegir bílar og að öryggið sem því fylgir að keyra um á Volvo réttlæti hærra verð? Svo kemur barnið heim og kvartar yfir því að ég eigi ekki Volvo. Ég þarf að reyna að útskýra fyrir barninu að Volvo sé ekki endilega besti og fallegasti bíllinn í heimi. Á meðan börnum er kennt að Volvo sé fallegur og öruggur bíll fær Félag Volvoeigenda úthlutaða lóð svo að þeir geti sett upp félagsheimili með litlu Volvo safni. Það er líka bara sanngjarnt, því Toyotaklúbburinn fékk líka lóð. Svo er Audiklúbburinn að sækja um.
Það er sennilega auðséð að Volvoinn í þessum pistli er Guð og þá einhver ein útfærsla á honum. Skiptir ekki máli hvort hann heiti Guð, Allah, Jahwed, Óðinn eða hvað. Það eru til ótal útgáfur af Guði. Það er hið besta mál að fólk fái að iðka sína trú í friði fyrir fordómum. Það er líka mikilvægt að það sé ekki gert upp á milli trúarbragða. Síðast en ekki síst er mikilvægt að trúleysingjar njóti sama jafnréttis.
Eftir því sem ég hugsa meira um þetta mál styrkist ég í þeirri trú að fullkomið trúfrelsi geti aðeins orðið að veruleika ef ríki og sveitarfélög hafa ekkert með trúfélög að gera. Það yrði engin þjóðkirkja, a.m.k. ekki þekki kirkja sem fólk gengur sjálfkrafa í. Þjóðkirkjan yrði sjálfstætt félag sem þyrfti að fleyta sér áfram á framlögum félaga. Sama myndi gilda um múslima, ásatrúarmenn, búddista og hverja þá sem finna þörf fyrir eigið trúfélag. Ef öll trúfélög yrðu sjálfstæð, fengju engar lóðir, enga styrki eða sérstaka meðferð frá hinu opinbera, kæmist á fullkomið trúfrelsi. Þá þyrfti enginn að kvarta yfir að sér væri mismunað því það fengi enginn neitt.
Látum Volvoeigendur byggja sitt eigið félagsheimili sjálfir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.11.2006 | 09:48
Múslimar vilja byggja?
Þetta er það fyrsta sem ég heyri af þessu máli og fréttin segir svo sem ekki mikið um málið.
Skil ég það rétt að trúfélög fái lóðir endurgjaldslaust, eða er þetta einfaldlega spurning um skipulag?
Hvað eru margir meðlimir í félagi múslima á Íslandi? Ég geri ráð fyrir að þeir vilji byggja mosku. Verður hún öllum opin, eða verður sama viðkvæmispukri og maður sér erlendis viðhaft, þar sem múslimar eiga sér samastað, innfæddir (hér notað um þjóðina sem bjó fyrir í landinu) eru ekki velkomnir og klerkar tala um að steypa stjórninni, taka af venjur og setja á fót islamskt ríki? Ég geri ráð fyrir að bænum sem farið er með fimm sinnum á dag verði ekki útvarpað um hverfið um hátalara á byggingunni eins og tíðkast víða? Fyrsta bænin fer oft í loftið milli fjögur og fimm á morgnanna. Eins og ég segi geri ég ekki ráð fyrir þessu, en það er sjálfsagt að koma því á hreint áður en framkvæmdir fara af stað.
Hvað finnst íslenskum múslimum um slæður, almennt frelsi borgarans, trúfrelsi og jafnrétti kynjanna?
Það er sjálfsagt mál að gefa múslimum sömu möguleika og öðrum, en það er líka nauðsynlegt að þeir virði reglur, lög og venjur heimalands síns fyrst og trúar sinnar þá. Íslensk lög og venjur verða að hafa meira vægi en Múhameð spámaður. Annars get ég ekki ímyndað mér að moska í Reykjavík gæti gengið upp.
![]() |
Félag múslima undrast að félagið fái ekki lóð í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)