Færsluflokkur: Tónlist
7.11.2008 | 09:24
Kommon! og burt með spillingarliðið!
Ég ætla ekki að tala um tónlist eða karakter Bubba. Ég ætla ekki að spekúlera um það hvort tónlist geti breytt heiminum. En kommon!
Það vantar eina og hálfa milljón upp á að dæmið gangi upp. Á borgin það ekki til?
Hver svo sem staða borgarsjóðs er, geta þau að minnsta kosti druslast til að svara. Nei er betra en ekkert. Við vitum þá allavega hvað við höfum þau. Við vitum það svo sem, því þögnin er hávær.
PS. "burt með spillingarliðið" er átak einhverra bloggara. Við bætum þessu við titla til að minna fólk á að við viljum spillingarliðið burt.
Ekkert svar við styrkumsókn Bubba | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.10.2008 | 09:38
Hæfileikaheimavistin, hljómleikar og kvikmynd
Stóri dagurinn er runninn upp. Kvikmyndasmiðjan, eða the Talent Campus, byrjar í kvöld. Klukkan sex þarf ég að vera úti í Norræna Húsi og súpa seyði. Eða eitthvað. Þeir kalla þetta kokkteilboð. Á ég kannski ekki að fá bílinn hennar systu lánaðan? Hvernig kemst maður bíllaus á milli staða í Reykjavík? Er það yfirleitt hægt? Hvað kostar í strætó?
Spurning með að hitta fólk og kíkja á myndir þangað til. Í gærkvöldi fór ég í Iðnó að sjá dönsku myndina Frygtelig Lykkelig (Skelfilega Hamingjusamur). Hún var fín. Ekki fullkomin, en fjandi góð. Hún verður sýnd tvisvar í viðbót og ég mæli með henni. Mér fannst kvikmyndatakan stundum vera að flækjast pínulítið fyrir sögunni, en ekki nóg til að skemma fyrir. Það er auðvitað hið besta mál að nota myndavélina á frumlegan hátt, en mér finnst kvikmyndatakan aldrei mega draga athygli að sjálfri sér. Kvikmyndataka og klipping er best heppnuð ef fólk tekur ekki eftir henni. Kannski er ég bara að rausa. Kannski tek ég eftir þessu af því ég er að spá í þessa hluti.
Ég hitti Láru Hönnu í gær. Ég ætlaði að kíkja aðeins til hennar, en sat sem fastast í 4-5 tíma. Fór af því að systa var búin að vinna og bauðst til að sækja mig svo ég gæti haft bílinn um kvöldið. Ég var aldrei í vafa um að það væri mikið spunnið í Láru og heimsóknin staðfesti það bara. Þetta er kjarnakvendi og allir ættu að hlusta á hana.
Ísland er svo lítið og sætt. Ég sendi aðalleikurunum úr Svörtum Sandi handritið að löngu myndinni áður en ég kom heim. Jóel spurði hvort hann mætti ekki senda vini sínum eintak til að krítísera. Jú, allt í lagi. Seinna kom það upp að þessi vinur er Davíð, sonur Valdísar Óskarsdóttur. Hann býr á hæðinni fyrir ofan Láru, en var ekki heima. Hann er á leiðinni til Suður Kóreu að kynna Sveitabrúðkaup og ætlað að lesa Undir Svörtum Sandi í vélinni. Sjáum hvað hann hefur að segja.
Að lokum. Ég var að fá emil frá umboðsmanni norskrar stelpu sem er að gera það gott í tónlistarheiminum og hefur fengið mikla spilun undanfarið. Hún spilar á nokkrum hljómleikum í Hollandi í nóvember og þau vilja að ég taki eina upp fyrir hugsanlega DVD útgáfu. Þetta verður tíu dögum fyrir Uriah Heep hljómleikana, svo ég get sennilega notað sama upptökulið. Sjáum til.
Ég ætla því að leyfa mér að koma með bjartsýnisspá fyrir sjálfan mig. Tvær hljómleikamyndir fyrir árslok. Kvikmynd í fullri lengd á næsta ári. Svo vil ég auðvitað Gullna Eggið um helgina. Ég tek það fram að ég er ekki búinn að vinna það og get ekki fullyrt að ég muni gera það. Fólk er eitthvað að misskilja draumóra síðustu færslu. Ég er ekki með Gullið Egg upp á vasann. Sjáum til með það líka.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.8.2008 | 07:35
Fallegt bros
Flott hjá Baltasar að fá James Newton Howard til að semja tónlistina fyrir sig. Málið er nefninlega frekar einfalt, reyni maður ekki, gerist ekkert.
Baltasar Kormákur er að gera góða hluti, er kominn með flotta ferilsskrá og á það skilið að geta umkringt sig góðu fólki. Eins og margir lesendur þessa bloggs vita tókst mér, óþekktum bardúsaranum, að fá Guy Fletcher til að semja tónlistina við stuttmyndina Svartan Sand. Guy er þekktur sem hljómborðsleikari Dire Straits. Hann hefur líka unnið með Roxy Music, Tinu Turner og fleiri heimsþekktum nöfnum. Ég ákvað að gefast ekki upp fyrirfram, heldur reyna bara. Hann myndi þá bara segja nei.
Skemmst er frá því að segja að hann sagði ekki nei. Hann hafði í raun ekki tíma í þetta, en notaði jólafríið 2006 til að semja fimm verk. Eitt þeirra endaði svo á plötu sem hann gaf út í upphafi þessa árs.
Ég veit ekki hvort það sé eitthvað íslenskt að ráðast á garðinn þar sem hann er hár. Málið er bara að miða hærra en maður vill komast. Þá getur maður sætt sig við útkomuna. Stundum hittir maður í mark, þótt hátt sé miðað og þá er gaman að vera til.
Ég óska auðvitað Baltasar til hamingju og óska honum ennþá hærra flugi.
Fær Batman-tónskáld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.8.2008 | 13:21
Var á svæðinu og sá...
Ég er á landinu í þrjá daga. Fer aftur í fyrramálið. Hafði það þó af að láta draga mig á Örkina í gærkvöldi að sjá Megas spila. Þetta var svo yndislega íslenskt. Heyrðu, Megas er að spila í Hveragerði. Eigum við ekki að skella okkur? Jú, endilega. Svo var brunað af stað.
Hann var bara flottur eins og búast mátti við. Hljómsveitin var frábær, Lóa á sínum stað, Paradísarfuglinn hló og Heimspekilegar vangaveltur um þjóðfélagsstöðu fóru fram.
Skemmtilegt kvöld. Gaman að koma heim. Nenni ekki að fara út aftur. Það er svo mikið að gera, margt fólk að sjá. Ég verð lengur næst.
Blómstrandi dagar í Hveragerði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.8.2008 | 11:51
Pækluð Plóma
Þessi færsla er stutt og ómerkileg. Þetta er blogga við frétt færsla. Þó ekki um hundinn minn eða páfagauk, né um smákökubakstur. Ég setti heilmikið viðtal við Megas á bloggið fyrir einhverjum dögum. Það er eflaust stærsta og mesta færsla sem ég hef skrifað, en ég festi hana ekki við frétt.
Vilji aðdáendur stórskáldsins lesa viðtal frá því í apríl 1990, rétt áður en Pæklaðar Plómur urðu frægar, er um að gera að skoða færsluna hér. Ef ekki, bendi ég á þetta.
Það hefði verið gaman að sjá snillinginn á sviði, en maður er að rolast erlendis eins og alltaf, svo ég læt mér nægja að hlusta á Gasstöðina við Hlemm í iTunes og bílnum.
Megas loksins á Iceland Airwaves | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2008 | 18:39
MEGAS - Viðtal frá því í apríl 1990
Viðtal þetta var tekið í apríl 1990 í Útvarpsstöðinni Útrás í Undirheimum, félagshúsnæði nemenda við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, sem lokaverkefni á Fjölmiðlabraut. Það er til á kasettu, en ég á ekkert kasettutæki lengur, svo ég læt nægja að setja það inn í textaformi. Þess má geta, til fróðleiks og gamans fyrir þá sem hafa ahuga á tíma, að þegar þetta er sett inn á bloggið, eru jafn mörg ár liðin frá því að viðtalið var tekið, og frá viðtalinu aftur til fyrstu plötu Megasar.
Engu hefur verið breytt. Spurningar mínar og svör Megasar eru eins og þau komu fyrir á sínum tíma. Þar sem minnst er á lög upp ur þurru, eins og í formálanum, er það vegna þess að þetta var tekið upp eins og útvarpsþáttur. Þar var viðkomandi lag spilað. Spurningarnar eru feitletraðar en svörin ekki. Það er því ekkert minnst á það sem hann hefur verið að gera síðustu árin, enda vissi það enginn þá. Njótið!
Hann kvaddi sér hljóðs, steig niður til heljar, reis upp aftur og byrjaði upp á nýtt.
Þjóðfélagið sem við búum við var hannað með meðalmanninn í huga. Málið er að vera eins og allir hinir. Þegar koma svo fram menn sem eru að einhverju leyti frábrugnir fjöldanum er þeim annað hvort fagnað sem hetjum eða þeir eru útskúfaðir af samfélaginu eins og Skúli Fógeti fékk að reyna þegar hann reyndi að iðnvæða þjóðina strax á átjándu öld. Sumir hafa reynt hvort tveggja, þeirra á meðal er Magnús Þór Jónsson.
Hans varð fyrst vart árið 1972 þegar hann sendi frá sér sína fyrstu plötu, mörgum til mikillar skelfingar. Hann tók á samfélaginu eins og hann sá það, og dró ekkert undan. Textarnir fóru fyrir brjóstið á mörgum, og söngstíllinn á enn fleirum. Platan eins og hún lagði sig var bönnuð í útvarpinu og hálfgert hatur breiddist út meðal viðkvæmari hluta þjóðarinnar, en um leið varð hann þjóðhetja annarra. Í gegn um tíðina hefur hann aldrei þokað frá því markmiði að semja góða texta, texta sem segja eitthvað. Nú er hann einn vinsælasti, og örugglega virtasti tónlistarmaður landsins. En var það alltaf ætlunin að verða listamaður?
Það má kannski orða það þannig. Það er svolítið erfitt að eiga við þetta orð, listamaður. Það er notað svo mikið með tilfinningalegum hætti, maður veigrar sér við að nota það umsjálfan sig. Þegar ég var barn teiknaði ég afskaplega mikið og ég sá fyrir mérað ég myndi fást við eitthvað þvíumlíkt þegar ég yrði stærri. Ég var nú ekki gamall þegar ég fór að fást við músík, eitthvað ellefu ára gamall. Þá átti ég mér draum um að vera í sviðsljósi, afskaplega þokukenndur draumur. En það má kannski segja sem svo að ég hafi stefnt að því, meðvitað eða ómeðvitað, að verða einhverskonar fyrirbæri, fyrirbæri sem menn kalla listamann.
Þú hefur stundum átt í erfiðleikum með að koma efni frá þér, bæði hefur það verið peningaleysi og það að menn hafa ekki alltaf verið jafn fúsir að gefa afurðir þínar út. Var það ekki einmitt málið með fyrstu plötuna?
Það má kannski segja að það sé minn ódugnaður sem ræður svolítið ferðinni. Ég hef ekkihaft í mér löngun til að standa í þessu sjálfur. Fyrsta platan var einhverskonar félagslegt átak stúdenta í Noregi. Þar var fremstur í flokki afskaplega mikill einstaklingshyggjumaður og kapítalisti, hneigðist til dýrkunar á markaðslögmálum. Hann var sá duglegasti í fyrirtækinu. Í slúttið lenti það síðan á mér að fjármagna það sem þurfti og síðan að dreifa plötunni. Í slúttið var þetta því mín útgáfa. Ég hafði ekki kraft til að stíla upp á slíka útgáfu aftur og ætlaðist til að ég fengi útgefanda. En þá brá svo til, um 1973, að það vildi hreinlega enginn gefa mig út. Ég fór til allra útgefenda á landinu, meira að segja á Akureyri. Þá var þessi fyrsta plata komin út, og ég var með fullt af demo upptökum, bæði sóló og með hljómsveit, en það treysti sér enginn til aî gefa þetta út.
Það liðu þrjú ár þar til næstaplata, Millilending, kom út
Það var ekki fyrr en Ingibergur Þorkelsson hjá umboðsskrifstofunni og útgáfufyrirtækinu Demant kom til skjalanna sem hyllti undir næstu plötu. Það var nú hálfgert glæpafyrirtæki. Ingibergur vildi fá mig til að gefa út plötu sem væri svipuð fyrri plötunni, en ég hafði ekki lengur áhuga á að vera akústikk, í einfaldri spilamennsku, ég vildi gera rokkplötu. Hann féllst á það og framkvæmdi það sem ég bað hann um, hann réði rokkband.
Þú fékkst Júdas, sem var vinsæl hljómsveit á þeim tíma, en þeir voru ekkert allt of hrifnir af því semþú varst að gera. Hvernig gekk þetta upp?
Ég veit ekki hvernig það atvikaðist að þeir tóku þetta að sér. Það getur ekki verið að þeir hafi verið mjög andsnúnir þessu. Þeir voru það virtir og vinsælir á þessum tíma að þeir þurftu ábyggilega ekki að vinna fyrir brauði sínu með þessum hætti. Þeir gátu gert eitthvað annað. En sennilega hefur það að vinna í stúdíói freistað þeirra. Ég held að þeir hafi þá um svipað leyti verið að pæla í eigin tónsmíðum og plötuupptöku. Ég átti með þeim afskaplega ánægjulegt samstarf en einhvern vegin hafði ég á tilfinningunni að þeim fyndist ég of kántríóríentaður. Kántrí þótti afskaplega lágkúruleg músik á þessum síðhippatímum þegar allir voru í einhverskonar virðulegum tilraunum. Þessi tihneiging mín að hafa þetta einfalda kántrísöngva á köflum og þjóðlagarokk, það þótti kannski svolítið frumstætt, þeim fannst þeir kannski aðeins vera að spila niður fyrir sig.
Eftir að Fram og aftur blindgötuna kom út, '76, fékkstu listamannalaun. Kom það ekki á óvart?
Það er nú freistandi að segja að það hafi komið mér á óvart, en það kom mér ekkert einhvern vegin á óvart á þessum tíma, hlutirnir bara gerðust. Ég var svolítið undrandi að enginn vildi gefa út efnið mitt á árunum '73 - '74 en upp úr því fóru hlutirnir að hætta að koma mér á óvart. Þegar ég fékk þessi listamannalaun, var þetta svolítið furðulegt, en ég pældi ekki mikið í því, enda var þetta allt í stíl. Að ég fékk listamannalaun var eitthvað flipp, það urðu allir brjálaðir, þetta þótti ægilegt hneyksli og þá var þetta allt eins ogþað átti að vera.
1977 kom út platan Á bleikum náttkjólum sem þú gerðir með Spilverki Þjóðanna. Hvernig kom þetta samstarf til?
Mig minnir að það hafi verið þannig að vinur minn í þann tíma, Páli Baldvinssyni, hafi þótt ég heldur illa staddur á vegum þeirra Demantsmanna, og hann vildi endilega koma mér að hjá vini sínum Jóhanni Páli hjá Iðunni. Þá var einhver áhugi hjá Iðunnarmönnum að gefa út hljómplötur, og ég held að það hafi verið Páll sem seldi Jóhanni Páli útgefanda þá hugmynd að ég og Spilverk Þjóðanna, sem þá var afskaplega vinsæl grúppa, slægjum okkur saman og gerðum plötu sem átti að vera einhverskonar súpersession. Honum leist ágætlega á þá hugmynd og mér leist mjög vel á hana líka.
Svo leið ár og þú gafst út barnaplötu, hvernig datt þér það í hug?
Þar er sami maður á ferð. Þessi sami Páll stakk þeirri hugmynd að mér að ég þyrfti að búa til barnaplötu. Ég fattaði ekki strax hvað þetta var brilljant hugmynd en ég tók hana til greina og hugleiddi, og eftir því sem ég hugsaði meira um hana leist mér betur á. Þetta reyndist vera afskaplega spennandi verkefni. Ég var þarna að glíma við lög og texta sem ég hafði ekki samið sjálfur, og svo var ég með klassísku deildina í undirleik. Ég var með konsertmeistarann Guðnýju Guðmunds á fiðlu og skoskan bassaleikara Scott Gleckler. Þetta var byggt uppsem prógramm músik og mér fannst afskaplega gaman að vinna að þessu.
Á þeirri plötu er Ókindarkvæði. Svo hefurðu sungið um persónur í Íslandssögunni eins og Ragnheiði Brynjólfsdóttur, Skúla Fógeta, Ingólf Arnarson, Snorra Sturluson, Jón Arason og fleiri. Ertu hrifinn af arfleifð þjóðarinnar?
Ég er alinn upp við voða mikla tradisjón, mikla sinnu á arfleifð þjóðarinnar og ég lít á það sem mjög nærtækan efnivið til dægurlagagerðar að búa til vísur um þetta fólk sem allir þekkja, og ef fólk ekki þekkir ókindina verður að koma henni til skila. Það verða allir að þekkja ókindina, sérstaklega öll börn. Þau verða að átta sig á að það eru til ókindur og göt í dalnum sem hægt er að detta niður í og ekki síður í borginni, það er allt fullt af götum, það er alveg gat við gat.
Þú hélst hljómleika í M.H. '78 sem þú kallaðir Drög að sjálfsmorði. Einhverntíma sagðirðu að þá hefði gamall draumur um að gerast rokkstjarna ræst.
Já, ég minntist áðan á gamla þokukenda drauma um að vera í sviðsljósi. Ég hafði náttúrulega áður sungið með bandi á sviði, en kannski ekki svona langt og töff prógramm, svo að einhversstaðar hef ég látið þau orð falla að gamall draumur hafi ræst. Þetta var prógramm sem var búið að vera mjög lengi í smíðum. Það var fyrir löngu búið að fá ákveðið lagaupplegg, ákveðin pæling var búin að fá þetta nafn. Það kom til greina að taka þetta upp í stúdíói eins og venjulega plötu. Þetta var allavega tveggja platna efni og það var ódýrara að taka það upp á hljómleikum. Það hefði farið gígantískur upptökutími í stúdíóið. Platan hefði náttúrulega orðið öðruvísi, hún hefði orðið betri að mínu mati. En fyrst þetta var svona dýrt fyrirtæki var ákveðið að gera það aðeins viðráðanlegra með því að æfa fyrst í ódýru æfingastúdíói og taka síðan upp á hljómleikum með það í huga að bæta hugsanlega við hljóðfærum eða laga eitthvað eftirá. Síðan voru teknir upp tveir hljómleikar, og ég held að aðrir hljómleikarnir standi óbreyttir, engu bætt við.
Eftir að Sjálfsmorðið kom útheyrðist ekkert frá þér í fjögur ár. Fólk var jafnvel farið að tala um að þú hefðir framið sjálfsmorð í alvöru. Hvað varstu að gera þennan tíma?
Þessi þjóðsaga að ég hefði framið sjálfsmorð með ýmsum hætti stóð ekki í fjögur ár. Hún var eiginlega rétt upp úr þessum hljómleikum. Hljómleikarnir voru í nóvember, svo gekk þetta fjöllunum hærra í desember og eitthvað fram í janúar, held ég. Það hékk bara í sambandi við titilinn á hljómleikunum. Síðan hvarf ég af þessum vettvangi í byrjun '79 og fór að sinna málum sem ég þurfti að glima við. Ég fór í meðferð, og var í henni fram á sumar. Þegar ég kom út úr því dæmi, gaf ég þessum bransa frí, án þess að ákveða það neitt sérstaklega. Mér fannst ég ekki eiga heima þar lengur. Ég gerðist afskaplega áhugasamur um það sem var aðgerast í íslenskri tónlist. Ég fór að vinna á Eyrinni, hjá Hafskip, afskaplega hamingjusamur með það eftir á. Ég hef sérstakar taugar til hafnarinnar. Ég fór og skemmti mér í myndlistarnámi, bara mjög gaman.
Svo var það upprisan. Þú komst aftur '83 en þó ekki einn, þú varst með Tolla [bróður Bubba]. Hvernig kom það samstarf til?
Eins og ég sagði, það var engin sérstök hugsun á bak við það að ég fór ekki út í tónlist, ég fann bara engan flöt á því dæmi og hugsaði ekkert um það frekar. Ég fylgdist með því sem var að gerast, og Bubbi var gamall vinur minn frá því um '74 - '75. Þá var hann stráklingur og langaði til að búa til plötu, var samt ragur við það og var lengi að herða sig upp í að kýla á það. Sumarið '82 vorum við að skemmta okkur við að syngja saman fullt af lögum inn á tape heima hjá vini okkar. Þar á meðal var eina lagið sem ég hafði samið síðan ég hætti, Fatlafól. Það var innspírað af ágætum manni sem bar út blöð. Ég hafði svo mikla samúð með honum,fannst þetta erfitt mál, svo ég samdi þetta lag mér til ánægju. Um líkt leyti var einhverskonar næturútvarp, sem síðar varð Rás 2 að fara í gang, sem Stefán Jón Hafstein stjórnaði. Hann fékk lánaða þessa spólu og spilaði lagið. Síðan gerðist það um áramótin '82 - '83 að Bubbi hermdi upp á mig gamalt loforð um að gesta á plötu hjá honum. Á svipuðum tíma var Tolli að ljúka námi í Myndlista- og handíðaskólanum, þar sem ég var staddur líka, og hann ákvað að búa til hljómplötu sem lokaverkefni. Hann kom til mín og spurði hvort ég væri fáanlegur til að vera einhverskonar lukkutröll í stúdíóinu, og hann bauð mér þau kjör að ég mætti hafa afnot af hljómsveitinni, sem var Ikarus. Mér leist vel á þetta, þakkaði pent fyrir og ákvað að vera með. Ég var einmitt með nokkrar hugmyndir í gangi, og mér fannst alveg kjörið að nota þetta tækifæri.
Um sama leyti og ég var að vinna með Bubba og Tolla teiknaði ég helvíti öfluga mynd af einhverju fyrirbæri sem var maður og krókódíll. Þetta var á þessu nýlistaskeiði þegar allir yngri listamenn voru að hræra saman dýrum, búa til mann úr dýri. Ég var að búa til grafíkmyndir og bjó til krókódílamanninn og lag um leið. Mér fannst þetta skemmtilegt og hugsaði með mér, það er best að gera meira af þessu, og þannig fór ég í gang.
Krókódílamaðurinn... þar syngurðu um ófarir ungrar stúlku sem lendir í höndunum á manni sem vill gera henni eitthvað ljótt. Þú hefur fjallað svolítið um þannig menn í gegn umtíðina, af hverju?
Það eru ekki ófarir reyndar því hún sleppur, stúlkukindin. Laufey kemur og bjargar henni. Þetta er alltaf að ske, einhverjir pervistar liggja fyrir unglingunum og hremma þá sem eru of drukknir til að berja frá sér. Ég hef tilhneigingu til að búa til texta úr hverju sem er, ég sé allstaðar einhvern efnivið, kannski sérstaklega í því sem ekki er annars notað. Mér finnst alveg sérstaklega viðhæfi að gera svona furðufuglun sem eru litnir hornauga af samfélaginu skil. Ég hef einhverja tilfinningu fyrir afvegunum, fyrir þeim sem eru átómatískt að akautanvegar. Þessi ágæti maður er kannski ekkert að aka utanvegar, hann lítur bara þannig á að unglingarnir séu bara til að hremma þá. Plastpokamaðurinn [Loftmynd, 1987] lítur þannig á að einstæðar mæður séu til að vera gripnar og íbúðirnar þeirra drukknar út. Það dæma allir slíka menn voða þungt, en það erhver einasti maður að exploídera einhvern annan, það eru allir að níðast áöllum. Það er kannski skýrast þarna. Svo er það aumingja flassarinn [Hvassaleitisdóninn, Loftmynd], hann er nú kannski simpatískastur af þeim.
Í september 1983 voru haldnir miklir friðartónleikar í Höllinni og er sagt að þú hafir farið hamförum og ekkert gefið pönkhljómsveitunum, sem voru mest áberandi á þessum tíma, eftir. Ertu svolítill pönkari í þér?
Ég veit það ekki... allir gömlu rokkararnir, allir sem voru þátttakendur í fyrstu rokkbylgjunni voru hálfgerðir ræflarokkarar. Það var engin fágun komin til sögunnar þá, þetta var allt saman hrátt og lifandi, svolítið pönkað. Mér var það frekar eðlilegt að syngja í mjög hráum stíl. Það var kannski af því að ég var svo ófágaður sjálfur og gat ekki performerað öðruvísi.
1985 fluttirðu passíusálma Hallgríms Péturssonar við eigin lög. Varstu ekki svolítið hræddur við gagnrýni frá húsmæðrum í vesturbænum?
Ég er ofvitlaus til að vera hræddur við gagnrýni, ég hef það náttúrulega á tilfinningunni hvenær ég er að gera eitthvað sem hugsanlega gæti verið stoppað. Ég fékk þessa hugmynd í kring um '73 að semja rokklög við passíusálmana, og ég gerði það. Ég hélt hljómleika með rokkbandi um páskana '73 og þá var úrval af þessum lögum frumflutt. Svo ákvað ég '83 að það væri tímabært að draga þessi lög fram og gera eitthvað við þau. Ég var ekki hræddur við húsmæður í vesturbænum, en égvar hræddur við yfirvöld. Það þurfti að sækja um leyfi fyrir þessu. Þegar ég sótti um þurfti það bæði að ganga í gegn um biskupsskrifstofuna og lögreglustjóraembættið og ég var uppfullur af paranoju gagnvart þessum embættum að þau myndu bara í hugsunarleysi stoppa þetta af, og þau voru afskaplega paranojd gagnvart mér að ég stefndi að því að framkvæma einhver helgispjöll. Þeir gerðu kröfu um að fá að vera viðstaddir æfingu og kanna hvað ég væri að gera við sálmana, og þá eyddist allur misskilningur. Það kom að vísu greinilega í ljós að klerkar töldu sig eiga sálmana, en þeim var ósárt að lána mér þá eina kvöldstund og ég hélt mína hljómleika. Þeir voru afskaplega vandaðir og voru teknir upp fyrir plötu.
Árið eftir gafstu út kassa með öllum verkum þínum fram að því, alls níu plötur, og svo fyrstu sólóplötuna í sjö ár. Er ekki mikið fyrirtæki að gefa út svona kassa?
Jú, það var heilmikið fyrirtæki að grafa upp gömlu teipin og filmur, og endurvinna. Það er ekkert smá verkefni að vinna kassa með níu hljómplötum, það er nógu djöfullegt að vinna eina. Það var byrjað á þessu 1985 og kassinn kom út að vorlagi '86.
En svo kom fyrsta sólóplatan í sjö ár...
Það var náttúrulega kominn aðdragandi að henni. '83 er ég farinn að vinna með þessu fyrirbæri, Ikarus. '84 er ég með sólóhljómleika í Austurbæjarbíó, þar er eitthvað af nýju efni, svo að ég er kominn í gang með að vinna með hinum og þessum músiköntum. '85 fer ég á mitt fyrsta hljómleikaferðalag um landið með hljómsveit. Þar er ég að lansera nýju efni. Í september '85 er ég með hljómleika með Kuklinu með eintómu nýju efni, 60 mínútur af nýju efni. Ég var með svo mikið af nýju efni að það hlaut að koma að því að ég setti það ásjálfstæða plötu.
Loftmynd kom út '87. Hún var samansafn af lögum um Reykjavík. Voru þetta lög sem þú hafðir geymt eða ákvaðstu bara að gefa út svona plötu og settist niður og samdir?
Ég ákvað að gefa út svona plötu og settist niður og samdi. Ég var búinn að vera með í kollinum að ég þyrfti að búa til plötu, eingöngu um Reykjavík. Á öllum plötunum var eitthvað efni sem hafði Reykjavík að sögusviði, en þarna langaði mig að gefa út plötu sem fjallaði einvörðingu um Reykjavík. Það var eðlilega í sambandi við 200 ára afmælið. Ég var ekkert að ergja mig yfir tímanum svo að það var ekki fyrr en um sumarið '87 sem ég settist niður og samdi. Ég ákvað fyrst nafnið á plötunni, síðan titla og efni á slíka plötu, og síðan samdi ég. Eina gamla efnið á plötunni var Plastpokablúsinn. Mér fannst vel við hæfi að hann yrði með þó hann væri þá orðinn þriggja ára gamall. Svo hafði hrafl úr einum texta birst annars staðar og ég vann það betur upp, en að öðru leyti var þetta allt samið þetta sumar. Síðan tók ég upp Reykjavíkurplötu um haustið.
Loftmynd [diskurinn] inniheldur 17 lög. Sex mánuðum eftir útkomu hennar kom út önnur plata í fullri lengd, nefnd Höfuðlausnir. Hvernig ferðu að því að semja svona mikið?
Ég sem yfirleitt nokkuð mikið, en þarna um sumarið er ég að vinna Reykjavíkurplötu, ég er að semja lög eftir ákveðnu prógrammi. Meðan ég er að vinna það eru aðrarhugmyndir sem detta inn í mig og ég sinni þeim í bland. Það voru lög sem höfðu Reykjavík ekkert endilega að yrkisefni, svo að meðan ég er að vinna að þessu prógrammi verður til stór hluti af því sem síðan fór á Höfuðlausnir. Svo að um leið og ég er búinn með Reykjavíkurplötuna er ég farinn að hugsa um næstu. Höfuðlausnir áttu upphaflega ekki að verða long play plata. Hún átti bara að vera upptökur til að eiga í ellinni, þegar maður sæti við arininn í ruggustólnum. Þessi hugmynd um að taka bara upp prívat breyttist. Ég var kominn með tíu lög, í staðinn fyrir fjögur, og það var heil plata.
Höfuðlausnir, þetta er gamalt, tekið úr íslendingasögunum...
Þetta er gamalt og nýtt. Höfuðlausn Egils [Skallagrímssonar] frænda míns er samin fyrir Englandskonung sem ætlaði að lífláta hann fyrir margvíslegar vammir og skammir. Egill vann sér til lífs að yrkja fyrir kónginn værðarljóð, og forðaði þannig höfðinu frá því að vera höggvið af honum. Þessi plata inniheldur tíu Höfuðlausnir, það eru tíu kóngar sem vilja mig feigan og ég yrki tíuhöfuðlausnir og forða þannig lífi mínu.
Ást þín á Thailandi hefur ekki farið fram hjá neinum. Þú hefur farið þangað og dvalið mánuðum saman. Hvað er svona sérstakt við Thailand og hvað ertu að gera þangað?
Ég held að ég hafi einhverntíma í fyrri lífum verið búsettur í Thailandi. Allavega þegar ég fór þangað fyrst, snemma árs '87, fannst mér eins og ég ætti bara að vera þar, mér fannst ég vera kominn heim til mín. Thailand er kannski einna kræsilegast af þessum suð-austur Asíu löndum, eymdin sem er víða annars staðar er ekki eins áberandi þar. Það er afskaplega mikil fátækt þar en fátækt og eymd er ekki það sama. Það er afskaplega mikil eymd hér á vesturlöndum þó að það sé ekki svo mikil fátækt. Í Thailandi er hugmyndafræðin allt önnur. Þar geta menn verið fátækir án þess að það bitni á sjálfsvirðingunni. Svo er annað, Thailand er afskaplega auðugt af matvælum, þar hafa nánast allir eitthvað að éta. Það eru einungis fá svæði þar sem er virkilega erfitt að fá eitthvað í sig. En þessi veröld heillaði mig bara, litirnir, fólkið bara heillaði mig. Ég var ekki í rónni fyrr en ég var búinn að fara þangað aftur og dvelja þar lengi.
Hefurðu einhverja hugmynd um það hverskonar fólk hlustar helst á þig... hefur það breyst með árunum?
Ég hef náttúrulega hugmyndir um það hvers konar fólk hlustar á mig, en ég geri mér enga heildarmynd af því. Ég verð alltaf glaður ef ég veit að einhverjum finnst tíma sínum vel varið í að hlusta á það sem ég er að gera, og þó að mér finnist ég vera að gera góða hluti finnst mér ekkert sjálfsagt að menn séu að eyða tíma í að hlusta á það.
Þegar þú varst að byrja í tónlist varstu ekkert allt of hrifinn af þjóðfélaginu í kring um þig...
Hrifinn af þjóðfélaginu... ég hef í sjálfu sér ekkert út á þetta þjóðfélag að setja, en það eru alltaf hlutir sem pirra mann, sem manni leiðist og finnst vitlausir. Ég þoli illa einhverskonar sjálfsskipað átoritet, einhverskonar embættismannaátoritet sem hefur ekkert til brunns að bera nema að vera æviskipað í eitthvað embætti og telur sig þannig yfir annað fólk sett. Ég hef antipat á slíku átoriteti og ég véfengi hæfni þess til að sinna sínu starfi. Kannski mjög ómaklegt hjá mér en þetta er bara tilfinning, og það sem virkar hjá mér sem einhverskonar þjóðfélagsgagnrýni eru bara mínir fordómar og pirringur. Ég hef haft það að leiðarljósi að setja allt mögulegt í dægurlagatexta, allt sem ég hugsa, allt sem mér dettur í hug, og þess vegna verður andúðar minnar á svona embættisfólki heilmikið vart. En ég get ekki litið svo á að ég sé að gagnrýna, ég lít svo á að þeir sem gagnrýni geti hugsanlegabent á eitthvað alternatíf, einhverja aðra lausn, og gagnrýni með rökum... ég er ekkert í slíku, ég bara að pirrast og er með andúð.
Er hægt að lifa á tónlist á Íslandi?
Það er afskaplega erfitt, þetta er svo voða lítill markaður. Það verður enginn feitur af tónlistarframleiðslu á íslandi. En með því að sinna henni og svo einhverjum skyldum greinum, þá geta menn svo sem aurað saman fyrir einhverskonar lífi, samt ekkert óskaflega fínt líf eða ríkmannlegt. Ég vinn ídagskrárgerð ásamt þessarri tónlistarframleiðslu. Ég hef ekki grætt neitt á hljómplötuframleiðslu, af ýmsum ástæðum virðist hún ekki gera sig hér á landi. Hljómplatan er of dýr í framleiðslu, hún selst í of litlu upplagi og verð á hljómplötum í hlutfalli við kostnað og annað á markaðinum er of lágt þó það virki grimmdarlegt að segja það. Hún hefur ekki fylgt ýmsum öðrum varningi, svo að potturinn er alltaf minni og minni og kotnaðurinn eykst. Það finnst alltaf fleiri og fleiri aðilum að þeir ættu að geta lifað á hljómplötugerð, t.d. auglýsingastofur. Það er bara einn aðili sem verður útundan og það er höfundurinn.
Þú hefur aldrei átt þér draum um að verða heimsfrægur?
Nei. Mínir frægðardraumar, þegar ég var lítill, voru svo þokukenndir að það var ekki hægt að merkja neitt ákveðið af þeim. Svo þegar ég fór út í að vinna þessa hluti, var þetta svo tengt ákveðnu tungumáli, ákveðinni lókal pælingu, að það kom ekki til greina að ég væri að hugsa þann möguleika að markaðssetja mig á einhverjum öðrum vettvangi. Ég hef sennilega ekki nógu mikið hugmyndaflug, ég er of mikill sveitalubbi, til að setja mig inn í slíka drauma. Og vegna þess hefur mér þótt heimsfrægðardraumar annarra popplistarmanna oft nett hallærislegir og illa grunnaðir, og bera vott um naívitet, og kannski var það bara út af eigin naíviteti. Kannski voru þetta allt góðir möguleikar. Það virkar hinsvegar á mig sem fullkomlega eðlilegur hlutur hvað Sykurmolarnir hafa komist langt, þeir hafa unnið bilingual, þeir hafa unnið jöfnum höndum á íslensku og ensku. Þeir haf verið alla tíð í góðum tengslum við ýmsar hræringar í Bretlandi, svo að þetta kemur bara sem eðlilegur hlutur. Hins vegar hefur maður vitað af heimsfrægðardraumum sem hafa verið, fyrst og fremst, þungar draumfarir, lítið sem skeði í raun og veru nema hvað hljómsveitir og einstaklingar voru orðnir heimsfrægir í Keflavík, og það var oft mjög hallærislegt.
Nú eru flestar afurðir þínar orðnar uppseldar fyrir löngu síðan, er ekki von á þeim aftur, og þá jafnvel á diskum?
Ég myndi kjósa að þessar gömlu plötur væru velflestar fáanlegar, og ekki síst á diskum. Við vorum áðan að tala um hvað markaðurinn væri lítill, og allur stofnkostnaður er svo ofboðslegur. Það eru svo takmörkuð upplög sem er nokkur von að seljist, þannig að það er afskaplega hæpið að endurútgefa þetta efni uppá eigin spýtur. Það er alveg eins víst að það yrði aldrei annað en kostnaðurinn. Auðvitað er fullt af fólki sem myndi kaupa þetta en það myndi bara ekki nægja til. Ég hef enga smjörlíkisverksmiðju til að fjármagna framleiðslu sem stendur ekki undir sér. Einhverjir hljómplötuútgefendur gætu haft þetta sem hluta af einhverju prógrammi, en ég er ekki í náðinni hjá neinum hljómplötuútgefanda og enginn hljómplötuútgefandi er í náðinni hjá mér. Einhverntíma koma þessar plötur hugsanlega út á diskum, en það er ekki í fyrirsjáanlegri framtíð.
Það er ný plata á leiðinni frá þér...
Já, tilviljunin hagaði því þannig að loks gef ég út plötu sjálfur eins og íupphafi. Ég ætlaði aldrei að fara út í eigin útgáfu en ég er með ansi góðanu mboðsmann, Hjört Jónsson. Hann skipuleggur þetta. Við ætlum að selja hana í áskrift, fólk skrifar nafnið sitt á lista. Dæmið á að geta gengið upp með þvíað halda kostnaðinum í lágmarki. Þessi plata verður utan markaðar, hún verður ekki í búðum, þannig á þetta að geta gengið upp. Hún skilar samt ekki neinum peningum af gagni.
Þannig er mál með vexti að ég hugði ekkert sérstaklega á hljómplötuútgáfu, og það að ég er ekki í tygjum við neinn útgefanda gerir það að verkum að ég ætlaði bara að hinkra við og sjá hverju fram yndi. Ég var með ákveðið prodjekt, ákveðið konsept í huga um ákveðið plötuprógramm, að vísu að mestu leyti ósamið en nokkuð fastar hugmyndir. Í millitíðinni var ég bara búinn að gera svo helvíti mikið af efni, nánast ósjálfrátt, svo að ég var kominn með stóran lager af efni sem þótti nokkurn veginn sýnt að færi ekki á plötu. Svo að þegar þessi hugmynd um að gera svona áskriftardæmi kom upp, vantaði ekkert efni.
Verður hún eitthvað í líkingu við fyrri plötur?
Hún verður náttúrulega mjög mikið í líkingu við fyrri plötur að því leytiað það er sami maður sem semur lögin og textana og syngur. En maður er alltaf að reyna eitthvað nýtt, bæta einhverju við sig, og mér sýnist á öllu að hún ætli að verða svolítið mikið ólík Höfuðlausnunum. Mörg lögin verða mikið meira akústik en varð nokkurn tíma á þeim. Eitt lag er meira að segja nokkurn vegin læf, svo að hún hlýtur að verða töluvert frábrugin.
Hún kemur út í maí, það gerðu Höfuðlausnirnar líka. Þú ert ekkert að stíla inn á jólaplötumarkaðinn?
Nei. Ég verð bara að segja að ég er orðinn hundleiður á jólaplötumarkaðinum. Þessir aðal útgefendur eru í stríði, allt sem fer á markaðlendir í því stríði. Það stríð er í algleymingi fyrir jólin. Hitt er annað málað markaðurinn er aldrei laus við þessa styrjöld. Þegar Höfuðlausnir komu út ímaí [1988], tóku allir útgefendur sem réðu yfir hljómplötuverslunum sig til og bojkotteruðu þá plötu, henni var ekkert dreift. Hún var tekin til dreifingar í flestar verslanir af nafninu til. Þegar þessi tvö - þrjú eintök voru uppseld voru þeir ekkert að panta meira. Þetta útgefendastríð olli því að hún fékk enga dreifingu. Það var í maí og þá voru þeir ekkert að hlynna að eigin framleiðslu. Þegar jólaplatnaflóðið er í algleymingi, þegar þessir aðilar eiga virkilegra hagsmuna að gæta, þá setja þeir plötum frá öðrum útgefendum stólinn fyrirdyrnar. Ég er búinn að lenda í því með allar mínar plötur í seinni tíð að á stærstu mörkuðunum, sem eru í höndunum á þessum útgefendum, er plötunum illa stillt upp og þær eru yfirleitt ekki til síðustu dagana fyrir jól. Svo að ég erorðinn hundleiður á markaðinum og mér er það afskaplega ljúft að selja plötu með þessum hætti, í áskrift, utan þess markaðar.
Svo mörg voru þau orð. Hann stóð upp, kvaddi og hvarf út í iðandi mannlíf borgarinnar. Hann mátti ekkert vera að þessu. Það biðu hans upptökur á plötu og útvarpsþætti, og tónleikahald. Sem sagt nóg að gera hjá Megasi.
Hljómplötur Megasar, 1972-1990
MEGAS -1972
MILLILENDING - 1975
FRAM OG AFTUR BLINDGÖTUNA - 1976
Á BLEIKUM NÁTTKJÓLUM - 1977 - Megas + Spilverk Þjóðanna
NÚ ER ÉG KLÆDDUR OG KOMINN Á RÓL - 1978
DRÖG AÐ SJÁLFSMORÐI - 1979
Í GÓÐRI TRÚ - 1986
LOFTMYND - 1987
HÖFUÐLAUSNIR - 1988
BLÁIR DRAUMAR - 1988 - BUBBI + MEGAS
HÆTTULEG HLJÓMSVEIT OG GLÆPAKVENDIÐ STELLA - 1990
Tónlist | Breytt s.d. kl. 18:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
29.7.2008 | 09:35
Bloggið endurrisið...
Mín síða var að detta inn. Ég er að vísu með appelsínuþema, en samkvæmt fréttinni ætti það að lagast fljótlega. Svona hlutir geta gerst, en ef vel er að málum staðið ættu engin gögn að glatast. Maður vonar það besta.
Nú er bara að bíða eftir að allt komist í lag, svo að ég geti hent inn viðtalinu við Megas sem beðið var um, um helgina. Það þýðir ekkert að hafa það myndalaust, svo ég bíð þangað til bloggið er komið í lag.
Bloggið opnað að hluta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.7.2008 | 12:17
Spilar Sjónvarpið Með?
Einhvern tíma las ég að leikstjóri myndarinnar um Bubba hafi þurft að borga RÚV meira fyrir myndefni en það sem þeir borguðu honum fyrir sýningar. Það er vonandi að hlutirnir gangi betur núna og verkefnið mæti meiri skilningi.
Annars tók ég viðtal við Megas sem lokaverkefni í fjölmiðlafræði frá FB fyrir mörgum árum. Ég á það ennþá einhvers staðar. Spurning með að henda því hérna inn. Þetta var skemmtilegt viðtal, hann vað í góðum gír og kennarinn var mjör ánægður með árangurinn.
Megas er frábær. Hann er auðvitað frábær tónlistarmaður, textahöfundur af guðs náð, en hann er líka ofsalega viðkunnanlegur og gaman að vinna með honum.
Lær eina myndina sem ég tók þá fylgja með. Ég á betri, en hef ekki tíma til að grafa þær upp í dag.
Heimildarmynd um Megas í undirbúningi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.7.2008 | 12:22
Viðtalið, dómur og myndbönd
Eins og glögg veit, hef ég verið að rausa um þennan karakter, Mugison. Við ákváðum að upptroðningurinn hns í Hollandi yrði kvikmyndaður, sem hann var. Hægt er að sjá tvö myndbönd hér.
Svo er hægt að lesa viðtalið sem Mogginn krækti ekki á hér og hljómleikadóma á sömu síðu hér.
Nú er þessu lokið í bili, enda er ég ekki málpípa Mugs.
Huldumaður kenndi Mugison allt um listina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.7.2008 | 12:17
Mugison kvikmyndaður í Hollandi
Það er um að gera að skrifa svolítið um Mugison hljómleikana á föstudag. Ég ætlaði að bæta við síðustu færslu með athugasemd, en það hefði orðið langloka og þær geta verið svo sóðalegar.
Ég og Hans Ris, aðstoðarmaður minn þegar ég er ekki aðstoðarmaður hans, mættum á svæðið um átta leytið. Við gengum inn í salinn. Ég hafði búist við tveimur kassagítörum, svipuðu dæmi og Murr Murr í Gargandi Snilld. Það sem blasti við var eitthvað allt annað. Salurinn var enn tómur, þar sem hljómleikarnir áttu ekki að byrja fyrr en um 22:30, en sviðið var fullt af hljóðfærum sem ég hafði ekki átt von á. Þarna stóð trommusettið og fimm rafmagnsgítarar, auk magnara og annars dóts sem á auðvelt með að bræða hvaða kamerumæk sem er. Barþjóninn leit á okkur með lævíslegu brosi. Ætlið þið að taka þá upp með þessu, spurði hann og benti á hljóðneman á vélinni. Já. Gangi ykkur vel. Þeir eru háværir.
Við hittum hljómsveitina og viti menn, þeir voru fjórir, ekki tveir. Ég hentist heim og náði í sumarfrísvélina, litlu Canon vélina sem ég nota aldrei nú til dags. Jú, það var hleðsla á henni. Við hentumst til baka og náðum að setja hana á þrífót fyrir ofan sviðið. Svo var bara að vona það besta.
Hljóðið úr báðum dýru vélunum var vonlaust. Þetta hefði verið flott á þjóðlagatónleikum, en ekki hér. Til að koma í veg fyrir truflanir og prump höfðum við báðir lækkað í þeim, en við fengum lítið hljóð með prumpi. Gamla Canon vélin stóð sig best, kannski af því hún var ekki í beinni línu við hátalarana og það er hljóðið sem við notuðum.
Hans tók teipin með sér heim og klippti eins og óð fluga. Hann hringdi í mig á mánudagsmorgni og sagðist vera búinn að klippa alla hljómleikana. Ég fór í heimsókn og við dáðumst af þessum rosalega tónlistarmanni.
Þetta var hverrar mínútu og bensíndropa og kasettu virði. Það er vonandi að við náum að vinna saman aftur í framtíðinni og þá við eitthvað meira en youTube rugl, eins og Mugi kallaði þetta verkefni.
Læt svo hitt myndbandið, Mugiboogie, fylgja með þessari færslu. Ef þið viljið kíkja á þetta í betri gæðum, farið hingað og veljið lag. Potið svo í "watch in high quality" undir myndbandinu.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)