Færsluflokkur: Tónlist

Íslendingar Erlendis

Ég keypti Heima fyrir nokkrum vikum síðan og gerðist Sigur Rós aðdáandi með það sama. Myndin er gullfalleg, tónlistin og myndir af Íslandi passa saman. Ég er viss um að flestir íslenskir tónlistarmenn séu pínulítið öfundsjúkir út í hljómsveitina og kvikmyndagerðarmenn út í leikstjórann. Ég veit að þetta er mynd sem ég hefði viljað gera.

En það eru fleiri íslendingar að leggja undir sig heiminn. Björk er auðvitað löngu búin af því, en Mugison er líka að gera góða hluti. Ég tók upp hljómleika í Haarlem, Hollandi á föstudag. Tvö lög eru komin á netið, Mugiboogie og Jesus is a Good Name to Moan. Kíkið á hið síðarnefnda hér að neðan. Klikkið svo hér til að fara inn á youTube rásina mína svo þið getið séð bæði myndböndin og valið betri gæði.

 



Það má svo taka fram að Sigur Rós mun spila í Amsterdam í haust. Ég býð hér með fram þjónustu mína.
mbl.is Sigur Rós langsamlega best á Latitude
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmynd!

Auðvitað á að vekja athygli á eyðileggingu náttúrunnar! Þar fyrir utan, ef listamaður vill vekja athygli á einhverju máli er það hans mál. Hefði Björk viljað vekja athygli á illri meðferð barna á böngsum, hefði hún getað gert það. Hefði hún fengið sömu athygli? Sennilega ekki, en er lýðræðið og einstaklingsfrelsið ekki dásamlegt?

Bubbi er frægur og á marga aðdáendur á Íslandi. Er ekki tilvalið fyrir hann að halda veglega hljómleika til að vekja athygli á fátækt á Íslandi? Hann getur fyllt Höllina, hann getur sennilega dregið að svipað marga og komu að sjá Björk og Sigur Rós, sérstaklega ef hann fær aðra listamenn til að koma fram með sér.

Bubbi, þetta er frábær hugmynd! Ef ég væri þú, myndi ég gera þetta.


mbl.is Bubbi liggur undir ámælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flottasti Öldungur í Heimi

Við fórum að sjá Leonard Cohen um helgina. Ég sá hann í Höllinni fyrir 20 árum, en hin voru græningjar. Ég vissi því að hann er ekki leiðinlegur á sviði en hann er kominn vel yfir sjötugt, svo maður var ekki að búa til neinar væntingar. Það er styst frá því að segja að gamlinginn hreyf alla með sér, spilaði í tæpa þrjá tíma og eignaðist nýja aðdáendur. Hér hefur ekkert annað verið spilað síðan.

Ef ég verð svona flottur þegar ég verð sjötíuogþriggja, hef ég ekkert á móti því að eldast. Hann er flottari en flestir þeir sem eru helmingi yngri.

Læt hér fylgja með myndband. Dance Me to the End of Love var samið eftir að hann sá ljósmynd úr útrýmingarbúðum nasista. Hlustið svo á The Future í spilaranum. Ef þið þolið svona beyttan texta.

 


Útlit

Glöggir gestir sem eru ekki að líta við í fyrsta sinn hafa sennilega tekið eftir að bloggið er breytt. Ég valdi annað þema og breytti því smá til að fullnægja mínum óskum. Það væri samt gaman ef Mogginn setti inn fleiri þemu. Þau eru orðin ansi gömul og ekki mikið af þeim. Mér finnst allir vera að nota sömu 2-3 útlit.

Þess má geta að myndin af mávunum sem "prýðir" hausinn var tekin af mér í Oban, Skotlandi í maí (frekar en júní) 2006. Það var rigning. Það er alltaf rigning í Oban. Við leituðum skjóls í viskíbúð og smökkuðum hið ofurljúffenga Ben Nevis, sem drýpur að hverju strái í nágrenni Fort William á vesturströndinni, norður af Oban.

Að lokum má geta þess að ég var að setja inn Overload hér til hliðar. Þetta er lag af nýju plötu Uriah Heep, Wake the Sleeper. Þetta verður vafalaust í myndinni okkar í haust.


Aukahíp

Meira af Uriah Heep dæminu. Eins og ég sagði í athugasemd í gær, get ég sennilega lekið meiri upplýsingum hér en á enskumælandi síðu. Þetta er auðvitað allt saman á voðalega viðkvæmu stigi, svo ég segi ekki allt of mikið, en hér er það sem ég segi samt.

Á mánudag sendi ég þeim lista yfir það hvernig ég vil vinna verkið. Diskurinn ætti að vera í pappahulstri, þar sem þau eru mikið flottari. Venjulegu plasthulstrin eru svo ljót og cheap. Helst vil ég láta veglega bók, eða allavega bækling fylgja með. Ég bauðst til að koma á 2-3 hljómleika bara til að taka myndir svo við hefðum um nóg að velja.

Hljómsveitin er kraftmikil á sviði og ég vil að það sjáist í myndinni. Ekkert baksviðs bull, engir aðdáendur blaðrandi við dyrnar um hvað þeir eru æðislegir. Bara hrein orka frá upphafi til enda.

Svo er það aukaefnið. Ég kom með eftirfarandi hugmyndir. Örmynd þar sem hljómsveitin er sýnd baksviðs. Viðtal með spurningum sem aðdáendur hafa sett inn á síðuna þeirra á vikunum fyrir hljómleikana. Betlarasöngur, þar sem söngvarinn og gítarleikarinn spila lög sín á götum úti. Stutt mynd tekin upp í rútunni um það hvernig þeir ferðast milli borga. Svo er það spurning með að finna karaokebar þar sem eitthvað af þeirra tónlist er til boða og sjá hvað fólk segir ef þeir taka lagið. Fyrir hverja hljómleika er hljóðið prufað, svo það er um að gera að láta eitthvað af því fylgja með.

Spurning hvort maður nái ekki að búa til skemmtilega disk með svona efni.

Læt svo að lokum eitt lag fylgja með. Þetta er Gipsy af fyrstu plötunni, en tekið upp nýlega. Fyrir 2007 þó, því gamli trymbillinn er ennþá að berja bumbur. Hann hætti í ársbyrjun vegna liðagigtar, skilst mer.

 


Mugison

Uriah Heep eru ekki einu fórnarlömbin. Ég tók upp þrjá hljómleika í maí og er hægt að sjá afraksturinn á Oktober Films síðunni. Mugison verður með pínulitla hljómleika á kaffihúsi í Haarlem þann 18. júlí og mun ég taka þá upp. Þetta verður einfalt, enda um lítinn stað að ræða. Við munum taka þetta upp með tveimur vélum og setja afraksturinn á youTube. Það er því alveg tilvalið fyrir íslendinga í Hollandi að fjölmenna.

Staðurinn er Patronaat. Meira hér. Síðan er á hollensku, en það sem skiljast þarf skilst. Vilji fólk vita meira er um að gera að vera í sambandi.

Svo var ég í sambandi við Önnu Brynju nýlega. Margir ættu að þekkja hana sem Emilíu í Svarta Sandinum. Við erum að skoða spennandi verkefni. Meira um það seinna. 


Tvöfaldur Hljómleikadiskur

Áður en ég byrja á færslunni ætla ég að segja eitt. Nú verður breyting á högum músar. Ég nenni ekki að blogga um fréttir til að fá heimsóknir. Ég mun héðan í frá skrifa um það sem mér er í huga án þess að nota fréttir líðandi stundar til að lokka fólk til mín. Lesi þeir sem lasa vilja. Búið og pasta með tómatssósu.

Ég var ekki á Bjarkar Sigur Rósar hljómleikum í gær. Var í vitlausu landi. Hafði samt nóg að gera. Vann á Schiphol frá 6:30-13:00, kom heim og hellulagði hluta af garðinum. Fór í eldsnöggt bað og keyrði til Haarlem, þar sem Uriah Heep tróðu upp. Ég hitti þá baksviðs fyrir hljómleikana, tók þá upp á eina kameru svo við getum stúderað þá áður en alvöru hljómleikamyndin verður tekin upp í haust. Hitti þá svo baksviðs eftir á aftur. Þetta eru öðlingar, ofurskemmtilegir náungar. Ég fékk sömu tilfinningu og þegar ég fór á bak við hjá Mark Knopfler og röflaði við Guy Fletcher og Danny Cummings. Frábærir náungar, allir saman.

Það verður gaman að vinna við þessa mynd. Þetta verður dúndur diskur þegar hann kemur út. Ég held ég hafi fengið snert að Heep-æði í gær.

Meira seinna. 


Ungir og Gamlir

Gaman að sjá að rokkið er enn í fullu fjöri. Ekki að ég hafi haldið að það væri dáið, enda setti ég inn myndband með Blood Red Shoes um daginn. Gamla fólkið er þó enn að. Ég var að ræða við umboðsmann Uriah Heep í síma rétt áðan um að taka upp tónleikamynd í haust. Ég og mínir samstarfsmenn munum að öllum líkindum taka upp næsta hljómleika DVD þeirra. Í High-Definition, að sjálfsögðu. Það verður gaman að sjá hvað kemur út úr þessu. Læt fylgja með eitt eldgamalt myndband þar sem þeir spila sitt þekktasta lag, Easy Livin'.

 


mbl.is Nota þýðingu Jónasar í þungarokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að ná þeim gömlu á filmu

Leitt að heyra að Bo Diddley sé farinn. Hann var einn af frumkvöðlum þess sem við köllum rokktónlist. Flestir þekkja hann þó sjálfsagt gegn um Eric Clapton, en hann spilaði Before You Accuse Me á Unplugged plötunni sinni.

Annars hef ég verið að hjálpa til við að kvikmynda gömlu raggí gaurana. Þeir koma velflestir frá Jamaica og spiluðu með Bob Marley sem unglingar. Reyndar eru þeir flestir alls ekkert síðri. Marley meikaði það bara.

Hér að neðan er lag með Winston Francis sem við tókum upp í Melkweg (Vetrarbrautinni) í Amsterdam fyrir tveimur árum. Mig minnir að hann hafi verið að tala um að hafa kennt Bob að spila á gítar. Veit svo sem ekki hvort það sé satt eða ýkjur. Hann kann allavega að skemmta fólki, þótt hann sé kominn vel yfir sjötugt.

 



Þess má geta að ég var að reyna að fá að kvikmynda hljómleikana með Leonard Cohen í júlí, en það er að ganga örðuglega. Þeim fannst það góð hugmynd og við ræddum málið, en hann er svolítið feiminn framan við myndavélar. Það strandar sennilega á því. Ekki það að ég megi ekki búa til tónleikamynd fyrir hann, heldur fær enginn að gera það.
mbl.is Tónlistarmaðurinn Bo Diddley látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Live in the Lowlands

Kíkið hér að neðan. Ég var að búa til opnunarmynd. Hún verður notuð í upphafi laga sem ég mun taka upp á hljómleikum og setja á youTube eða eitthvað svipað. Þetta mun byrja með 1-2 lögum með Rick Treffers á Hollensku. Annað kvöld mun ég taka upp hljómleika með tveimur lítið þekktum, en voða góðum, flytjendum. Þau eru Rik van den Bosch, hollendingur sem syngur delta blús betur en flestir. Svo er það K.C. McKanzie, sem býr í Berlín. Hún hljómar kannski helst svipað Suzanne Vega. Samt öðruvísi. Svo er það Mugison. Hann mun spila hérna í júlí og ég mun filma hann.

 



Hvað finnst fólki annars um þennan 20 sekúndna bút að ofan?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband