Nýársvarp

Góðir íslendingar og aðrir,

Nú árið er liðið, að mestu. Þetta hefur sennilega verið hraðskreyðasta ár í mínu lífi. Ég man hvernig ég drakk mig ekki fullan í síðustu viku til að halda upp á hið nýja ár, 2007. Ég man hvernig Filma1ég pikkaði færslu þar sem ég sagði frá öllu því sem ég ætlaði að gera á árinu. Það varð auðvitað ekkert af neinu, nema að ég man eftir að hafa farið á klósettið einu sinni. Restin er eitt stórt blör, svört hola sem gleypti allt. Þannig lagað.

HerbergiÁ árinu 2007 var ég með svipað í tekjur og fyrstu tvo mánuði 2006. Ég sagði nebbla upp vinnunni og ákvað að gerast kvikyndagerðarmaður. Það hefur ekkert með pening að gera, virðist vera, því ég fór í hlutastarf og það er ennþá að borga reikningana... þannig lagað. En var 2007 gott ár? Sjáum til.

Í janúar fæddist unginn. Ég var varaður við að hann myndi umturna öllu og að áætlanir mínar myndu breytast hraðar en. Það var rétt. Hann er sætur og góður, en étur upp allan minn tíma, fyrir utan það þegar ég er að rembast við að nappa pening á Schiphol flugvelli. Kvikmyndagerð? Þetta er að breytast í tómstundagaman án tómstunda. Við komum í heimsókn til Íslands í apríl til að halda upp á afmæli afa. Sambúð vor var vígð í Skotlandi í júní. Kisan dó í haust og við fengum okkur nýja.

Ekki gerði ég heimildamynd um Rúmeníu. Stuttmyndin var ekki tilbúin fyrr en í ágúst. Kvikmyndin í fullu lengdinni er ekkert annað en hálfklárað handrit. Ég hjálpaði þó við gerð tveggja hljómleikamynda þar sem gamlir raggíguðir frá Jamæku komu fram í Hollandi, þeir Winston Francis og Alton Ellis. Einnig gerði ég tólf myndbönd fyrir hollendinginn Rick Treffers, sem eru sýnd meðan hann spilar lög af nýútkomnum diski sem enginn hefur heyrt. Við erum svo að fara út í að gera alvöru myndband við lag af diskinum fyrrnefnda.

2008? Veit ekki. Ég er hættur að rembast, í bili. Handritið er enn í vinnslu og ég er með slatta af hugmyndum, svo einn daginn verður myndin gerð. Svo hitti ég stelpu um daginn. Við fórum að tala og það fæddist hugmynd. Gæti verið stórskemmtilegt. Hvað gerir geimvera á jörðinni ef hún kemst ekki til baka? Þessi hugmynd varð til eftir að Svarti Sandurinn fór á netið. Við vildum sjá hvort hægt væri að taka það dæmi, dreifingu á netinu, lengra. Meira um það seinna, en ef þú veist hvað strönduð geimvera myndi gera meðal oss, láttu endilega vita. 

Sem sagt, 2007 skilur eftir blendnar tilfinningar og 2008 er óvissan ein. Sjáum til.

Vér óskum öllum óbrenndra áramóta og gleðilegs árs. 


mbl.is Ráðleggur hvernig efna megi nýársheitin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Criterion

Spines_ShortMovies

Fyrir nokkru síðan fékk ég þá flugu í höfuðið að íslenskar myndir þyrfti að varðveita. Það er þekkt mál að filma skemmist með tímanum, svo ekki er upphaflega formið gott til geymslu. Svo finnst mér líka að list sé lítils virði fái fólk ekki að njóta hennar.

366_box_128x180Eitt besta átak sem ég veit um er Criterion safnið. Merkilegum myndum er safnað saman, þær hreinsaðar og lagfærðar eins vel og nútímatækni leyfir. Myndin er svo sett á high-definition stafrænt form til geymslu. Að lokum er myndin svo gefin út á DVD í betri gæðum en áður hafa sést og með miklu aukaefni. Það skemmtilega við Criterion safnið er að um er að ræða myndir allstaðar að úr heiminum, hvort sem það er Hollywood, Bollywood, Japan eða Svíþjóð. Það minnst skemmtilega er að það sem þetta er bandarískt átak, eru myndirnar einungis fáanlegar á Region 1 NTSC diskum.

Ég fékk sem sagt þessa hugmynd. Hvernið væri að skanna inn bestu eða merkilegustu íslensku kvikmyndirnar, sjá til þess að þær varðveitist og gefa út á diskum sem eru þeim sæmandi.  Þetta þyrftu ekki bara að vera kvikmyndir, heldur mætti gefa út stuttmyndasöfn og fleira.

En ég á engan pening, svo það þarf einhver annar að taka þetta að sér. 


mbl.is Kvikmyndafortíðin varðveitt til framtíðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til fjandans...

Benazir Bhutto...með allt þetta helvítis pakk sem ekkert getur skilið nema það standi í einhverri helvítis skruddu sem einhverjir valdagráðugir barnanauðgarar settu saman og eru svo notaðar sem stýritæki af hálfvitum sem ekkert vilja nema dauða þeirra sem í vegi standa fyrir því að þeir geti kúgað auðtrúa sálir.

Það var einhver von fyrir Pakistan á meðan Bhutto lifði. Þetta lið er búið að skrifa undir eigin dauðarefsingu. 


mbl.is Hörmuleg áminning um fórnir sem færðar eru fyrir lýðræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðileg Jól til allra!

Það er leiðinlegt að lesa um hve margir þurfa á hjálp að halda um jólin, en jafnframt gott að vita til þess að til er nóg af fólki sem vill hjálpa. Ég ætlaði að segja að það sé fórn að eyða jólunum í að sjá um aðra, langt frá ættingjum, en sennilega er það ekki rétt. Að hjálpa til hjá Hjálpræðishernum og öðrum er sennilega það mest gefandi sem hægt er að gera um jólin.

Ég sendi bestu kveðjur til allra, héðan úr hinu hvíta Hollandi. Ég þakka þeim 820 sem sótt hafa stuttmyndina og þeim sem hjálpað hafa á árinu sem er að líða.

Ég hefði viljað skrifa meira eða bara eitthvað skemmtilegra, en í kjöltu minni er smábarn sem var ekki komið í heiminn um síðustu jól, og það þarf athygli.

xmas2007


mbl.is Allir eigi samastað um jólin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvær vikur á netinu

Stuttmyndin Svartur Sandur hefur nú verið tvær vikur á netinu. Eins og lesendur fyrri færsla vita var þetta tilraun til að sjá hvort það væri hægt að setja efni á netið og biðja fólk fallega um að greiða fyrir.

Við lifum í heimi kaupsýslu þar sem ekkert fæst fyrir ekkert og allt er til sölu. Þegar viss hagsmunasamtök lokuðu á vissa heimasíðu sem miðlaði skemmtiefni og forritum reis fólk upp og hrópaði óréttlæti. Það myndi greiða fyrir ef verðið væri ekki svona hátt og benti á, með réttu, að 2000 kr. og meira er ansi mikið fyrir kvikmynd á DVD diski.

Svartur Sandur hefur verið sóttur 799 sinnum síðan hann var settur á netið, 1. desember. Þetta er fínn árangur og meira en ég bjóst við. Mest var um niðurhal fyrstu dagana. Þess má geta að talan var 797 í gær, svo fokviðrið er farið hjá. Það má segja að myndin hafi fengið mikla dreifingu miðað við að flestir sem að henni komu eru óþekkt nöfn. Hins vegar er auðvelt að gera sér upp vinsældir þegar ekki þarf að greiða fyrir.

Af þessum 799 hafa tíu greitt fyrir myndina. Samkvæmt könnun hér til hliðar hefðu fleiri gert það ef birt hefði verið íslenskt bankareikningsnúmer. Ég er að reyna, en það er erfitt þar sem ég er í Hollandi. Getur einhver sagt mér hvað það kostað að millifæra til Hollands? Kannski að það sé lausnin.

Tíu greiðslur erum 1.2% sækjenda. Ef ég margfalda dæmið með fimm, samanber könnunina, yrðu það fimmtíu greiðslur fyrir 799 niðurhöl, um 6%. Gott eða slæmt? Dæmi hver sem vill.

Smá reikningsdæmi. Myndin kostaði um 350.000 kr. Sé þeirri upphæð skipt milli 799 manns, er útkoman 438 krónur. Það þarf ekki mikla kynningu til að koma niðurhölum í 3500. Þá þyrfti hver að greiða 100 krónur til að myndin stæði undir sér.  

Ég er óendanlega þakklátur öllum þeim sem hafa, og munu, leggja eitthvað til hliðar fyrir myndina. Þó er ég ekki viss um að þetta sé dreifingaraðferð framtíðarinnar. Er ekki iTunes dæmið það sniðugasta? Borga 200 kall og þú færð þáttinn eða stuttmyndina. Fá marga til að borga lítið? Þannig munar fólki ekki um greiðsluna, margir sjá myndina og hægt er að fjárfesta í næstu mynd.

Tvær vikur eru stuttur tími, jólaönnin og útlát að drekkja fólki, svo kannski er ekki alveg að marka dæmið enn sem komið er. Við sjáum til.


Erum við frjáls?

Frjálsir fjölmiðlar hljóta að vera grundvöllur frjáls þjóðfélags. Ef við fáum ekki að heyra allan sannleikan er hægt að gera ljóta hluti í skugga fáfræðinnar. Það eru til mörg dæmi um þjóðfélög sem kúguð hafa verið með samþykki þegnanna, vegna þess að þeir vissu ekki betur. Sárasta dæmið í nútímanum er sennilega Bandaríkin. Fjölmiðlar eru frjálsir að nafninu til, en ef málið er skoðað kemur annað í ljós.

Stórfyrirtæki eiga flesta stóra fjölmiðla á vesturlöndum. Þeir flytja fréttir af því sem þeir vilja að þú vitir. Komi eitthvað illa við þá eða stóru viðskiptavinina sem kaupa dýrustu auglýsingatímana, sleppa þeir þeim fréttum. Séu ríkisstjórnir með puttana í vafasömum hlutum, eins og stríðum sem erfitt er að réttlæta, hóta sömu ríkisstjórnir að hlunnfara þá fjölmiðla sem ekki haga sér vel. Ef þú ert ekki fyrstur með fréttirnar og enginn auglýsir hjá þér ferðu á hausinn. Það vill enginn, svo fréttastofum er sett fyrir hvað megi tala um og hvað ekki.

Talandi um frelsi, ég rakst á frétt á The Register þar sem talað er um ritvörn á nýjum flökkurum frá Western Digital. Um er að ræða 1TB USB drif. Drifið leyfir ekki að flestum tónlistar- og videoskrám sé deilt. Hér er greinilega, enn og aftur, verið að stimpla alla sem þjófa. Það vill þannig til að ég keypti svona drif um daginn. Það var að vísu 500GB, svo ég vona að þessi ritvörn eigi ekki við þar. Ég er nefninlega ekki að skiptast á skrám, heldur er ég að vinna í mínum verkefnum og kæri mig ekki um að einhvert bindi útí heimi ráði hvað ég geri við mínar skrár. Ég er að nota tvær tölvur. Það er nauðsynlegt, þar sem önnur er oft upptekin við að skrifa diska eða annað sem tekur tíma. Meðan PowerMakkinn er að byggja DVDinn nota ég PowerBókina til að uppfæra síðuna, prenta umslög og fleira. Og stundum til að opna önnur verkefni sem voru unnin í PowerMakkanum. Ég get ekki sætt mig við að drifið skikki mig til að nota sömu tölvuna gegn um allt verkefnið.

Ég skil ekki hvað það kemur Western Digital við hvað ég geri við diskana mína. Ef ég væri að gera eitthvað ólöglegt, væri það í verkahring yfirvalda að skoða málið. Þetta kemur WD hreinlega ekkert við. Fyrir áhugasama er hægt að lesa hvaða skrám er ekki hægt að deila hér.

Frelsið er viðkvæmt. Það er auðvelt að taka það af okkur og erfitt að fá aftur þegar það er farið. Það er þrennt sem auðvelt er að nota til að svipta okkur frelsinu; hryðjuverk, falskar fréttir eða fréttir sem sleppt er og tölvurnar okkar. Það er bara eitt sem getur komið í veg fyrir að frelsið verði tekið af okkur, við sjálf. 

Það er svo af stuttmyndinni að frétta að hún hefur verið sótt 767 sinnum. Ég veit ekki hversu margir hafa sótt hana í Víkingaflóa. Tíu hafa greitt fyrir hana. Endilega takið þátt í skoðanakönnuninni hér til hliðar.

Teikningin að ofan er "fengin að láni" af síðu Inga Jenssonar. Endilega kíkja! 


mbl.is Skiptar skoðanir um frelsi fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pappírslaus heimur?

Fyrir mörgum árum var talað um pappírslausu skrifstofuna. Tölvur áttu að leysa þykkar möppur, skjala sem enginn las, af hólmi. Þetta gerðist ekki, heldur hefur pappírsnotkun aukist stórkostlega. Heilu bækurnar eru prentaðar út, lesnar (eða ekki) og hent. Margir prenta út emilinn. Stofnanir á vegum ríkisins (sem hefur allt í einu áhuga á umhverfinu) krefst þess að allar nótur og reikningar séu geymdir á pappír. Við erum því lengra frá pappírslausu skrifstofunni en nokkurn tíma í fortíðinni, held ég.

Ég setti stuttmyndina Svartan Sand á netið fyrir viku. Ég setti hana ekki á DVD með tilheyrandi bók og pappaumslagi. Hún fór beint á netið. Við, framleiðendur kvikmynda, verðum að líta fram á veginn og reyna að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér. Síðast þegar ég gáði hafði myndin verið sótt 745 sinnum. Ég bauð fólki upp á að greiða hvað sem það vildi fyrir myndina, 100 kall, 100.000 kall, fólk ræður því sjálft. Nú hafa níu borgað. Við sjáum til hvað gerist á komandi dögum.

Ég er viss um að þetta, eða eitthvað þessu líkt, er framtíðin. Segjum að Hollywood mynd slái í gegn. Hvað verða seld mörg eintök á DVD, sem kostar olíu, timbur og ál til að framleiða? 100.000? Milljón? Tíu milljónir? Það fer gríðarlega mikið hráefni í að framleiða diskana. Svo er það olían sem fer í að flytja þá milli staða. Það má því segja að tónlistar- og kvikmyndaiðnaðurinn hafi gríðarleg völd yfir regnskógum og olíuforða jarðarinnar. Sé milljón eintökum af kvikmynd dreift á netinu kostar það sáralítið, ef miðað er við núverandi kerfi. Af hverju að borga 2000 kr. fyrir DVD þegar hægt væri að dreifa myndinni á netinu fyrir 300 kr?

Svartur Sandur er stuttmynd og virkar því svolítið öðru vísi. Venjulega eru þær ekki seldar á DVD, heldur sýndar í sjónvarpi eða á hátíðum. Markaðurinn er sáralítill, svo þær fáu sem gerðar eru sjást aldrei. Fjölmiðlar hafa verið að tala um stuttmyndir sem eru að gera það gott erlendis, en hver hefur séð þær? Hafi fólk ekki verið að horfa á RÚV klukkan 23:30 á þriðjudagskvöldi hefur það sennilega ekki séð hana. Þá er ég að gera ráð fyrir að hún hafi yfir höfuð verið sýnd. En hvað ef fólk borgar 150kr. fyrir stuttmyndir sem því líkar og 300-400kr. fyrir kvikmyndir í fullri lengd?

Ef allir þeir 745 sem sótt hafa myndina borguðu 150kr, værum við komin með fyrir fjórðung kostnaðarins sem lagt var út í. Með betri markaðssetningu væri sennilega lítið mál að ná til 2500 manns og ef þeir allir borguðu 150kr, væri myndin komin á slétt. Við, kvikmyndafólk, höfum það ekkert slæmt. Við erum bara ekki að nota þá möguleika sem til eru.

Svo er það auðvitað næsta spurning. Mun fólk borga ef það er því í sjálfs vald sett, eða þurfum við að halda áfram að loka á neytendur, læsa skrám og hleypa engum inn nema þeim sem greitt hafa fyrir fram? Þurfum við að halda áfram að láta eins og listamenn og fólk sem nýtur verka þeirra séu tveir ólíkir þjóðflokkar sem rembast við að féfletta hvern annan? Getum við treyst fólki til að borga fyrir efni sem það hefur gaman að eða þurfum við (eða viljum við) halda áfram að kæra hina og þessa?

Náttúruvernd þarf ekki að kosta okkur lífskjörin. Ef við breytum áherslunum, hættum að kaupa diska og sækjum þá löglega á netið, erum við að vernda Amazon og aðra regnskóga, spara pening og styrkja listamenn.

Hver tapar á því? 


mbl.is Meira en helmingur Amazon regnskógarins gæti eyðst fyrir 2030
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgar sig að gefa út á netinu?

Eins og margir vita er ég að gera svipaða tilraun og Radiohead. Eftir því sem ég best veit er dæmið að ganga vel hjá þeim félögum. Spurningin er þó, virkar þetta bara ef maður er frægur eða er þetta framtíðin fyrir alla sem eru að búa til frumsamið efni, tónlist eða kvikmyndir?

Villi og JóelÉg setti stuttmyndina Svartan Sand á netið fyrir tæpri viku. Hún hafði verið sótt 732 sinnum fyrr í dag. Eins og fram kemur í athugasemdum við fyrri færslu er hún líka komin inn á nýja íslenska torrent síðu. Ég hef ekki aðgang að henni, svo ég get ekki sagt um hvað er að gerast þar.

Átta manns hafa borgað fyrir myndina, rúmt eitt prósent. Það segir þó ekki alla söguna, því margir hafa sennilega ekki enn haft tækifæri til að sjá hana. Einnig hafa verið gerðar athugasemdir við að einungis er hægt að nota greiðslukort eða PayPal. Væri hægt að millifæra beint í heimabanka myndu fleiri geta borgað.

Ég hef sett inn nýja skoðanakönnun þar sem fólk getur látið vita. Komi í ljós að fólk vill frekar greiða fyrir myndina með millifærslu, mun ég bæta þeim möguleika við.

Af einhverjum ástæðum get ég bara haft eina skoðanakönnun inni í einu, svo sú fyrri þar sem spurt var um álit fólks á myndinni verður sett inn aftur þegar þetta mál er farið að skýrast. 

Takk fyrir áhugann! 


mbl.is Radiohead tilkynnir tónleikaferð um Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SVARTUR SANDUR

Hér að neðan er hægt að nálgast stuttmyndina Svartur Sandur. Myndin var kvikmynduð á Íslandi í ágúst 2006 en var sett á netið á fullveldisdaginn, fyrsta des. 2007.

Anna Brynja í bílBíllinn æðir áfram á ógnarhraða á fjallveginum. Pétur tekur ekki eftir konunni sem stendur við veginn fyrr en það er of seint. Sem betur fer meiddist enginn. Emilía fær far, þar sem bíllinn hennar fer ekki í gang. Fljótlega fer hún þó að haga sér undarlega.

Hvað hefur andvana barnið, jarðað seint á 18. öld með þau að gera? Eða parið í kirkjugarðinum rétt fyrir 1930? Þegar þau upplifa bílslysið aftur, verða þau að horfast í augu við kaldan raunveruleikann.

Náið í stuttmyndina Svartur Sandur...

HÉR

Listi yfir alla sem tóku þátt í gerð myndarinnar (í stafrófsröð):

Anna Brynja Baldursdóttir: aðal kvenhlutverk
Guy Fletcher: samdi tónlist fyrir myndina
Hans Ris: aðstoð við upptökur, bóma
Helena Dögg Harðardóttir: hárgreiðsla
Johan Kriegelstein: klipping, bóma
Jóel Sæmundsson: aðal karlhlutverk
Kristinn Ingi Þórarinsson: bóma
Kristín Viðja Harðardóttir: leikkona í aukahlutverki
Oddný Lína Sigurvinsdóttir: leikkona í aukahlutverki
Rhona Wiersma: leikmunir, skripta
Sonja Berglind Hauksdóttir: farði
Villi Asgeirsson: kvikmyndataka, leikstjórn, klipping, framleiðandi, höfundur
William Kowalski: aðstoð við handrit

Black Sand SkógarEinnig vil ég þakka Ásdísi Ásgeirsdóttur og Eyþóri Birgissyni fyrir keyrsluna og gistinguna, Hrefnu Ólafsdóttur fyrir að redda hlutunum á síðustu stundu, Guðgeiri Sumarliðasyni fyrir að segja mér frá konunni á heiðinni, Sigurlínu Konráðsdóttur fyrir minkinn, Leikfélagi Selfoss fyrir búningana, Eiríksstöðum í Haukadal fyrir aðstöðuna, Skógasafni sömuleiðis, Café Pravda líka, Þorkeli Guðgeirssyni fyrir afnot af skrifstofunni, Sigrúnu Guðgeirsdóttur fyrir hjálpina við að finna tökustaði, Erlingi Gíslasyni og Brynju Benediktsdóttur fyrir æfingahúsnæðið og öllum hinum sem ég gleymdi að nefna.

Ég vona að þið njótið myndarinnar. Endilega skrifið hér að neðan hvað ykkur finnst.


Auglýsing!

Þessi er að vísu algerlega frí og endurgjaldslaus, en hvað um það. Kíkið á færsluna hér að ofan. Þar er boðið upp á glænýja íslenska stuttmynd. Hægt er að ná í hana og horfa á, setja á iPottinn og borga svo það sem fólk vill. Ekki krónu meira eða minna.

Annars er ég að skoða spennandi verkefni. Mig langar til að búa til þáttaröð sem dreift verður á netinu endurgjaldslaust. Þáttaröðin yrði fjármögnuð með auglýsingum. Meira um það seinna. Kíkið nú á færsluna SVARTUR SANDUR hér að ofan. 


mbl.is Netið að verða þriðji stærsti auglýsingamiðillinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband