Misskildi þetta

Það fyrsta sem mér datt í hug var að einhver hefði strokið úr fangelsi og hans væri nú leitað erlendis eftir að hafa sloppið úr landi. Þetta er ekki ádeila á moggamenn, íslenskan bauð bara upp á þetta.

Annars er ég að leita fanga erlendis. Fór meira að segja úr landi til að finna hamingju og ríkidæmi. Það eina sem ég fann voru grá hús og feitar franskar með majonesi. Jú, og túlipana á vorin.

Best að slútta þessari færslu áður en einhver potar í óviðeigandi hnappinn að neðan.

---

PS. Það fæddist lítill drengur við hliðina um 5:30 í morgun. Ég varð ekki var við neitt, þótt ég hefði vaknað klukkan fimm og farið í vinnuna um sex. Hvað um það, var að kíkja á hann og hann er bara ansi snotur, og segi ég það ekki oft um nokkurra klukkutíma gömul börn.


mbl.is Auðurinn kemur að utan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju...

...tók þetta svona langan tíma? Það þurfti að berja fram játningu.
mbl.is Tíbetskir munkar handteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ernst II: Í Þýskalandi á morgun

Það er spurning hvað kínverjum finnst um einhvern ráðherra frá Íslandi, talandi um mannréttindi. Ef einhver spyr hversu stórt Ísland er, væri hægt að svara að fyrir hvern íslending eru 5000 kínverjar. Við erum 1000 sinnum færri en bandaríkjamenn og um 1300 sinnum færri en íbúar ESB. Þó erum við fremri flestum þjóðum í flestu. Það verður gaman að sjá hvað kemur út úr þessaari ferð.

Fyrir þremur dögum sagði ég frá Ernst van Damme, hollendingi sem ákvað að selja allt sitt og ganga til Tíbet. Hann er nú kominn langleiðina að landamærum Þýskalands, gerir ráð fyrir að yfirgefa Holland á morgun. Gangan hefur ekki verið áfallalaus. Hann fékk blöðrur fyrir helgi og hafa þær háð honum, en eru þó að skána. Hann minntist á vandamal í sambandi við söluna á húsinu sínu, en fasteignasalinn ákvað að gera allt sem þeir gátu til að leysa hvað sem kæmi upp á svo hann gæti einbeitt sér að göngunni. Hann fór ekkert frekar út í það, en virtist vera mikið létt. Ernst segist vera á áætlun þrátt fyrir þetta og heimsókn til tannlæknis fyrir helgi.

Á blogginu sínu er hann búinn að birta áætlun yfir ferðina. Engar tímasetningar eru komnar, enn sem komið er, nema fyrir Holland (sjá neðst). Nú er bara að sjá hvernig gengur.

Ernst við Amerongen (NL) 11.04.2008Hollaland
Þýskaland
Tékkía
Slóvakía
Ungverjaland
Rúmenía
Búlgaría
Tyrkland
Sýrland
Líbanon (eða hugsanlega Jórdanía)
Ísrael (og þá ekki um Ísrael)
Sádi Arabía
Sameinuðu Arabísku Furstadæmin
Abu Dhabi
Dúbai ... yfir Hormuz-sund
Íran
Pakistan
Indland
2-3 vikna hvíld á Indlandi þar sem skoðað verður hvernig best er að komast inn í Tíbet gegn um Nepal.

Gangan að landamærum Þýskalands:
Alkmaar-Amsterdam 50km (7-4-2008)
Amsterdam-Utrecht 45km (9-4-2008)
Utrecht-Maarsbergen 27km (10-4-2008)
Maarsbergen-Veenendaal 32km (11-4-2008)
Veenendaal-Rhenen 12km (11 of 12-4-2008)
Rhenen-Beuningen 33km (12-4-2008)
Beuningen-Nijmegen 8km (12 of 13-4-2008)
Nijmegen-Kleef (D) 25km (13-4-2008)

Meira seinna. Endilega kvittið fyrir lestur svo ég sjái hvort áhugi sé fyrir frekari skýrslum. 


mbl.is Viðskiptaráðherra fer til Kína í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að fórna sér fyrir börnin

Þegar sú ákvörðun að eignast barn er tekin, veit maður að það þarf að fórna ýmislegu á meðan það er að vaxa úr grasi. Þetta á sennilega sérstaklega við um fyrstu árin. Það hefur margt farið öðruvísi en ætlað var á síðustu tveimur árum. Ég hef ætlað að gera margt en ekki farið í það vegna tímaskorts. Ég byrjaði til dæmis að skrifa handrit í fullri lengd fyrir um ári síðan, en ég hef aldrei komist í að klára það því alltaf er nóg að gera í kring um barnið. Þó hef ég reynt að vinna sem mest í kvikmyndagerðinni til að halda dæminu gangandi. Mest hafa þetta verið verkefni fyrir aðra. Hún hefur þó þurft að taka þriðja sætið, á eftir barnauppeldi og launaðri vinnu.

Í dag varð ég að gefa frá mér skemmtilegt verkefni. Mér var boðið að ferðast um Evrópu í þrjár vikur og kvikmynda merkilega staði. Þetta átti svo að nota í kynningarmyndbönd. Mér voru boðin góð laun með fullu uppihaldi. Hefði barnið ekki verið til staðar væri ég farinn.

Mats er auðvitað þess virði og ég hika ekki við að setja hann í fyrsta sæti, en þetta hefði verið skemmtilegt ævintýri. Við förum bara saman í Evrópuferð þegar hann hefur vit á því. 


Ef ég lem konuna mína í spað...

...og nágrannarnir kvarta, get ég þá sagt lögreglunni sem stendur við útidyrnar að það henti ekki sem stendur að þeir komi inn?
mbl.is Arbour ekki velkomin til Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gangandi til Tíbet

Hollendingurinn Ernst van Damme lagði af stað gangandi frá heimili sínu í Alkmaar, Hollandi 1. apríl síðastliðinn. Hann kom við í Amsterdam og er nú á leið úr landi. Ferðinni er heitið til Tíbet. Hann gerir ráð fyrir að ganga 8000 kílómetra á 10 mánuðum og vonast til að hitta Dalai Lama á leiðinni. Hann mun ganga um Ungverjaland, Tyrkland, Abu Dhabi, suður Íran og Pakistan, meðal annars. Hann hefur lagt allt undir, seldi húsið sitt og innbú, bauð jafnel upp fötin sín á netinu. Það merkilega við manninn er að hann er ekki íþróttamaður. Þetta er ósköp venjulegur, fimmtugur maður með smá bumbu sem ákvað að gera eitthvað stórkostlegt.

Þegar ég komst að þessu fékk ég magaverk. Væri ég ekki í sambúð með ársgamalt barn hefði ég hringt í hann og slegist í för. Ég hefði tekið vídeótökuvélina og rölt þetta með honum. Þetta hefði verið stórkostlegasta ferðin sem ég hefði farið í og ég hefði eflaust getað gert merkilega mynd um ævintýrið. Ég er ennþá að reyna að jafna mig á því að geta ekki farið með.

Kannski kemur að því einhvern daginn að maður geri eitthvað sem skiptir máli en þar sem Tíbet hefur alltaf heillað mig hefði þetta verið fullkomið. Erfitt, en hverrar blöðru virði.

Þeir sem skilja hollensku geta fylgst með göngunni á blogginu hans. Fyrir hina mun ég fylgjast með ferðinni og leyfa ykkur að fylgjast með. 


mbl.is Gere telur að Kína eigi við djúpstæðan vanda að etja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Al Gore spornaði gegn breytingum

Fyrir þá sem ekki muna, neitaði Al Gore að skrifa undir Kyoto samninginn fyrir 11 árum. Honum fannst það ekki réttlátt að Bandaríkin skrifuðu undir meðan "þróunarlönd" þyrftu ekki að vera bundin af samningnum. Einn þessara landa var Kína, og skil ég hans sjónarmið. Hitt er annað mál að á meðan Bandaríkin neita að taka þátt geta þau ekki þrýst á aðrar þjóðir að gera það. Skammsýni?

Það verður gaman að sjá hvað hann segir um Ísland. Við erum ein mest mengandi þjóð í heimi. Merkilegt, þar sem húshitun er hrein. Vetnisævintýrið er kannski ekki dáið, en ég sé lítið talað um það. Okkar endurnýjanlega orka fæst með því að stórskemma náttúruna. Okkar orka er líka dropi í haf orkuþarfar heimsins. Út á við erum við hrein og framsýn, en raunveruleikinn er annar. Þetta verður spennandi dagur.


mbl.is Margir sporna gegn breytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er strumpur

Gunnar Svíafari er með link á strumpapersónuleikapróf. Ég tók það og er........

Painter_Smurf

Kíkið endilega á Gunnar og takið prófið. 


Púsl - við líka?

Ég verð að viðurkenna að mér finnst nýja myntin bara nokkuð skemmtileg. Hún hefði verið skemmtilegri hefðu þeir notað Brittaníu í staðinn fyrir skjaldamerki Betu gömlu, en svona eru royalistarnir.

Væri ekki gaman að gera eitthvað skemmtilegt við íslensku myntina? Fiskarnir eru farnir að þreytast. Kannski ættum við að nota kort af íslandi.

200kr. Kortið allt.
100kr. Hálendið.
50kr.  Vesturland.
10kr. Norðurland.
5kr. Austurland.
1kr. Suðurland.

Fyrst við erum að dúlla við peningana okkar gætum við lagað seðlana líka. Hvernig væri að fara aftur til gömlu krónunnar þar sem fallega staði á landinu var að sjá? Þetta yrðu auðvitað nýjir seðlar og ný hönnun. Ég get ímyndað mér að Gullfoss, Herðubreið, Dyrhólaey og fleiri staðir kæmu vel út. Svo væri hægt að nota okkar merkilegustu mannvirki líka. 

Nei? Já? 


mbl.is Lítil ánægja með nýtt útlit pundsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barist á Vesturbakka

Þegar ég kom í heimsókn til Íslands í mars 2006, sagði mamma mér í bílnum að þeir vildu stækka álverið í Straumsvík. Ég spurði af hverju þeir gerðu það þá ekki. Fá ekki leyfi til þess enn sem komið er. Þvílíkt rugl, hugsaði ég. Forsjárhyggja, sósílismi, kommúnismi, whatever. Hvað eru stjórnvöld eða bæjaryfirvöld að gera með puttana í einkafyrirtækjum? Af hverju þarf alltaf allt að vera bannað?

Í þessari ferð keypti ég Draumalandið. Ég las bókina með áfergju, en ákvað þó að kynna mér málið frá báðum hliðum. Á endanum tók ég afstöðu á móti frekari stóriðju. Það var ekki vegna Draumalandsins, ekki vegna Kárahnjúka, ekki vegna neðri hluta Þjórsár. Ástæðan var þessi græðgi, þessi bulldozer hugsanaháttur. Ryðja öllu í gegn, og þá meina ég öllu, áður en grænu fíflin fatta hvað við erum að gera. Í hvert sinn sem einhver vill byggja álver er læðst aftan að fólki, í hvert sinn er "ferlið komið of langt". Þetta virðist gerast í hvert skipti. Það skal virkja hverja sprænu fyrir ál.

Ég er því á móti frekari stóriðju, einfaldlega vegna þess að þetta er farið út í öfgar. Þetta er eins og Vesturbakkinn, fólk hatar hvort annað því það er endalaust barið á því. Ég er á móti áli því máið er svo öfgafullt og ekkert annað virðist komast að. Svo vantar alveg að álverjar færi rök fyrir sínu máli. Atvinna fyrir eitt þorp í einu, en það eru 100 þorp á landsbyggðinni. Styrkur efnahagur. Ekki hefur það gengið eftir þrátt fyrir ótrúleg náttúruspjöll.


mbl.is Undirbúningur álvers á Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband