26.10.2006 | 21:00
Hvar er leyniþjónustan...
...þegar maður þarf á henni að halda? Það er alveg ljóst að það er fólk á meðal okkar sem þarf að taka í tuskuna.
Þegar litið er á úrslit könnunnar hér til vinstri er ljóst að flestir eða 35% vilja sjá myndina í kvikmyndahúsi. Gott mál. Næstum jafn margir vilja sjá hana í sjónvarpi. Allt í lagi svo sem, nema að eftir að allir fengu sér víðskjárvörp (eða hvað wide screen er á ísl.) er fólk annað hvort of feitt eða of mjótt því enginn virðist kunna að stilla það.
25% vilja sjá myndina á netinu. Það vill hins vegar enginn sjá myndina á DVD. Enginn. Núll prósent. Ég sem ætlaði að búa til svo mikið aukaefni.
Það sem mér finnst verst er að heil 10% segjast alls ekki vilja sjá myndina. Þetta eru ekki nema tvær hræður, svo að það er spurning með að siga leyniþjónustunni á þær (þau, þá).
Ég biðst afsökunar á þessari færslu. Þetta er næst-tilgangslausasta færsla mín frá upphafi.
22.10.2006 | 09:52
Erum við að skemma mannorð íslensku þjóðarinnar?
Ég var að fá emil frá vinkonu minni hér í Hollandi með titlinum, "Þar fór mannorð þitt". Maður hafði svo sem átt von á þessu. Málið er að það er í fréttum hér úti að íslendingar séu farnir að veiða hvali á ný og nú þykjast þeir ekki einu sinni vera að gera þetta fyrir þekkingu og vísindi. Nú er þetta einfaldlega veiðar til að selja kjöt og ná í gjaldeyri.
Það hefur verið talað mikið um hvalveiðar á Íslandi, með og á móti. Erlendis eru allir á móti. Ég ætla ekki að dæma um það hvort hvalveiðar séu hættulegar hvalastofnunum, aðrir vita meira um það. Samt hef ég skoðun og hún er einföld. Það ætti að banna hvalveiðar þar til heimurinn er tilbúinn til að samþykkja þær.
Það er ekki gaman, þegar maður býr erlendis, að lenda alltaf í samræðum um hvalveiðar. Það gerist nú samt. Fólk kemur að manni í samkvæmum og matarboðum og spyr hvað íslendingar séu að spá. Það er fátt um svör hjá mér því ég veit það hreinlega ekki. Það helsta sem mér dettur í hug er þjóðremba og moldarkofar, en ég læt vera að minnast á það.
Annað sem hvalveiðar gera er að skemma atvinnutækifæri íslendinga. Hvalaskoðanir eru þekkt dæmi, ferðamannaiðnaðurinn einnig, en ég sé aðra hlið á málinu sem íslendingum á Íslandi er ósýnileg. Stærsta matvöruverslun í Hollandi gefur út tímarit sem dreift er frítt í verslanir. Blaðið er fullt að upplýsingum um mat, uppskriftir og hvaðan hráefni koma og hvernig viss vara er framleidd. Ísland var tekið fyrir í vor. Þar var talað um hvernig fiskurinn er innan við tveggja daga gamall þegar hann er seldur til neytandans hér í Hollandi. Ferlinu var lýst, myndir af togara, af löndun, úr frystihúsi, frá pökkun sem fer fram í Belgíu og loks hvernig best er að elda íslenskan fisk svo að ferska bragðið njóti sín sem best.
Það er alveg ljóst að þessi grein myndi ekki birtast í dag. Ef verslanakeðjan vill yfir höfuð halda áfram að selja íslenskan fisk, þá vill hún svo sannarlega ekki vekja athygli neytenda á því hvaðan hann kemur. Þeir færu sennilega annað í mótmælaskyni.
Það skiptir því alls engu máli hvort hvalir séu í útrýmingarhættu eða ekki, hvort markaður sé fyrir hvalkjöt, eða hvort japanir og norðmenn veiði svo við meigum líka. Það sem skiptir máli er að hvalveiðar skemma mannorð íslendinga og tækifæri erlendis. Ekki svo léttvægt hjá þjóð sem á allt sitt undir útflutningi.
![]() |
Hvalur 9 væntanlegur að hvalstöðinni um hálf tíuleytið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.10.2006 | 13:04
Stuttmynd - Sýnishorn tvö
Ég var að klára að setja saman nýtt sýnishorn. Eins og síðast er þetta ekki kynningarmyndband (trailer), þar sem myndin er ekki komin það langt í vinnslu. Tónlistina gerði ég sjálfur, þar sem eiginleg tónlist myndarinnar er ekki tilbúin. Þetta er meira til að gefa fólkinu sem hjalpaði til möguleika á að sjá hvað er að gerast.
Myndbandið hér á blogginu er í venjulegru vef upplausn, 320x240 pixlar, en hægt er að nálgast iPod útgáfu í hærri upplausn á Oktober Films heimasíðunni.
Látið svo endilega vita hvað ykkur finnst og hvort það sé góð hugmynd að setja myndbönd beint inn í færslu eins og hér er gert.
18.10.2006 | 07:00
Samkeppni?
Við vesturlandabúar erum heppin að búa í frjálsu þjóðfélagi. Þangað til annað kemur í ljós. Ég var að vinna fyrir heildsölu sem sérhæfir sig í IBM tölvum. Þar sem ég er að vinna við kvikmynd og setja upp mitt eigið fyrirtæki í kvikmyndagerð og þarf tíma til að koma því í gang vildi ég vinna þrjá daga í viku. Það var í lagi í fyrstu en þegar til stóð að efna það var fyrirkomulagið ekki nógu gott fyrir yfirmanninn og þurfti ég því að velja, halda áfram í vinnunni og gefa kvikmyndir upp á bátinn eða halda fyrir nefið og stökkva ofan í djúpu laugina, segja upp vinnunni og vona það besta.
Ég hætti. Mér var fljótlega boðin vinna hjá þýskum samkeppnisaðila. Ég myndi setja upp söluskrifstofu í Hollandi. Þrír dagar í viku eru ekkert mál og ég vinn að heiman til að byrja með. Ég keyrði til Þýskalands í síðustu viku til að hitta fólk og er skemmst frá því að segja að þar eru skemmtilegar hugmyndir í gangi. Ég myndi því byrja að vinna fyrir þjóðverjann um mánaðamótin. Fullkomin áætlun, þar sem ég er á launum, hef tíma fyrir kvikmyndir og næ mér i reynslu við að reka fyrirtæki.
Þá kom babb í bátinn. Það er lenska að setja klausu í ráðningarsamninga hér í landi að maður megi ekki vinna fyrir samkeppisaðila í heilt ár eftir að maður hættir hjá viðkomandi. Það er því búið að loka fyrir þann möguleika að ég geti unnið fyrir mér, að ég geti brúað bilið þar til kvikmyndirnar fara að gefa eitthvað af sér.
Þetta þykir víst sjálfsagður hlutur, þar sem ég þekki viðskiptavinina og veit hvernig markaðurinn er. Ég lærði þetta hjá fyrrverandi vinnuveitenda og þar með skulda ég honum víst eitthvað. Mér finnst hins vegar að hefði hann haft áhuga á að leysa þriggja daga málið á sínum tíma væri ég ennþá að vinna fyrir hann. Okkur er sagt að við búum í fjálsu þjóðfélagi, en ef þetta eru ekki nútíma átthagafjötrar, þá veit ég ekki hvað. Nú er bara að sjá hvort hægt sé að leysa málið, með góðu eða lögfræðingi ef með þarf.
Skemmtilegra málefni að lokum, ég geri ráð fyrir að hafa annað sýnishorn af myndinni tilbúið á næstu dögum.
5.10.2006 | 09:10
Íslenskar Stuttmyndir
Það vita sennilega flestir lesendur bloggsins að ég er að vinna við að gera stuttmynd. Eftirvinnsla er í fullum gangi og þetta lítur vel út. Það er því augljóst að ég hef áhuga á stuttmyndum. Það vita færri að ég lærði fjölmiðlun á árum áður og sú veira verður seint drepin. Bætum svo við að RÚV er að fara að setja mikið meiri pening í kaup á íslensku efni, og við gætum farið að sjá markað fyrir íslenskar stuttmyndir. Því var mér að detta svolítið í hug.
Erum við að fara að upplifa annað íslenskt kvikmyndavor? Kannski meira tengt sjónvarpsefni? Það er fullt af þekkingu á Íslandi. Margir sem vilja búa til kvikmyndir, en einhvers staðar þarf að byrja. Er ekki um að gera að gefa íslenskum stuttmyndum þá athygli sem þeim ber?
íslensk vefsíða sem fjallar um íslenskar stuttmyndir á að vera til. Einn staður þar sem fólk getur komið og lesið um myndir, leikara, leikstjóra, hvað er á döfinni, hvað er hægt að sjá og hvar. Það væri jafnvel hægt að horfa á myndir á síðunni, allavega kynningarmyndir svo að fólk geti ákveðið hvað það vill sjá. Þetta getur svo undið upp á sig og orðið DVD útgáfa, þar sem samansafn bestu íslensku stuttmyndanna er hægt að kaupa.
Annað sem ég myndi vilja gera er að gefa út einhverskonar tímarit, sennilega á þriggja mánaða fresti, þar sem talað er við fólk og sagt frá því helsta sem er í gangi. Þetta yrði sennilega gefið út sem PDF skrá sem hægt væri að sækja og prenta út ef fólk vill.
Þetta eru stórar hugmyndir og munu kosta mig mikinn tíma, en ef áhugi er fyrir hendi getur þetta orðið mjög skemmtilegt og þess virði. Það veltur allt á því hvað maður hefur úr miklu efni að moða. Ég vil því biðja fólk að hafa samband ef það hefur eitthvað að segja. Einnig væri það vel þegið ef þú, lesandi góður, segðir vinum og kunningjum sem eru í kvikmyndahugleiðingum frá þessari hugmynd.
Ég er búinn að skrá netfang fyrir þessa síðu, Stuttmyndir.com, svo nú er bara að koma dæminu af stað.