Uriah Heep uppteknir

Var að skríða inn úr dyrunum, klukkan langt gengin í fjögur að nóttu til. Allt er stillt og hljótt.

Síðustu dagar hafa verið allt annað en rólegheit. Ég fékk mér alveg ofboðslega stóran bita og svelgdist næstum því á honum. Ég myndi setja saman hóp og kvikmynda tvenna Uriah Heep hljómleika. Það gæti ekki verið svo erfitt. En allt klikkar auðvitað.

Á þriðjudag rétt fyrir hádegi fæ ég þær fréttir að ég eigi að taka hljóðið upp á margrása tæki, ekki bara myndina. Það varð uppi fótur og fit því ég hafði enga möguleika á því. Þetta reddaðist samt. Hljóðið var tekið upp á 24 rásir í voða gæðum (24bit, 48kHz (töluvert betra en CD)) og hljóðmaðurinn sagði mér að allt hefði gengið upp. Hann hafði hlustað á upptökuna frá í gær og hún hljómar víst alveg rosalega vel. Ég hafði eitthvað skoðað myndina og það sem ég sá leit mjög vel út. Ég hef trú á að við höfum náð að búa til eitthvað spes sem við og hljómsveitin getum verið stolt af.

enschedehilco_17

Andrúmsloftið er mikilvægt þegar farið er í svona verk. Einhver hollendingur skipti sér af og var að setja reglur. Allt átti að fara í gegn um hann. Hann var leiðinlegur, en ég röflaði ekkert. Ég sá hann svo ekki á hljómleikunum, enda sóttist ég ekkert eftir því. Tour manager hljómsveitarinnar vildi halda utan um allt, þar á meðal okkur og það er bara fínt. Ég sá að hann gat orðið afskaplega orðljótur ef honum fannst fólk vera úti að aka og hann var eitthvað skellandi hurðum í dag, en við fundum aldrei fyrir neinu öðru en elskulegheitum.

Undanfarnir dagar, frá þriðjudagsmorgni, hafa verið skrítnir. Stundum hefur maður svo mikið að gera að tíminn hverfur. Þessir dagar hafa verið eitthvað mikið meira en það. Þess má geta að á miðvikudag sagði konan, "sjáumst á laugardaginn". Ég sé hana í fyrramálið í fyrsta skipti síðan þá, þótt við séum bæði heima utan vinnutíma.

Þetta er þó ekki búið, því nú þurfum við að setja þessa 25 klukkutíma af efni inn í tölvu og byrja að klippa. Það þarf að hljóðblanda svo að úr verði stereo og 5.1 hljóð. Svo þarf að setja allt saman á DVD. Þetta er rétt að byrja, en mikilvægasti hlutinn er búinn og hann heppnaðist vel, sýnist mér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Skilaðu kveðju til Mrs. M (Davis) og Allan.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 15.11.2008 kl. 03:20

2 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

PS Birti myndir frá Heep (vensjóninu á Spánijá) strax og Sara (Davis) lurkast til að láta mig hafa myndavélina svo ég geti yfirfært.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 15.11.2008 kl. 03:23

3 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Fullt að gera hjá þér og ég held þú hafir höndlað ástandið vel. Flott mynd af hljómleikunum.

Jórunn Sigurbergsdóttir , 15.11.2008 kl. 13:09

4 Smámynd: Villi Asgeirsson

Myndin með blogginu er ekki mín. En það var að duga eða drepast, redda þessu eða sleppa þessu alveg. Ég er búinn að vera að skoða það sem við tókum upp á fyrri hljómleikunum og þetta lítur bara fjandi vel út. Það verður gaman þegar ég get sýnt eitthvað af þessu. Við erum allavega komin inn í eftirvinnsluna og það er bara gott mál.

Hlakka til að sjá myndirnar, Helga.

Villi Asgeirsson, 15.11.2008 kl. 22:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband