Torrent ævintýrið dáið?

Fyrr í dag sá ég frétt á MBL.is þar sem Vodafone var að kvarta yfir því að merki þess væri sjáanlegt á thevikingbay.org.

Eins og lesendur þessa bloggs vita hef ég áhuga á netinu og niðurhali. Stuttmyndin Svartur Sandur var sett á netið í desember í kjölfar málsins í kring um Torrent.is. Ég skráði mig inn sem notandi á Viking Bay fyrir nokkru síðan til að skoða hvað væri í gangi. Ég er ekki svo viss um að þessir hlutir séu á góðri leið.

Það varð frægt þegar Páll Óskar bað Torrent.is um að fjarlægja nýju plötuna sína. Það var gert, vegna þess að hann bað um það án þess að vera með leiðindi. Nýja síðan, Viking Bay, sem spratt upp eftir að Torrent.is var lokað fjarlægir ekki efni þótt beðið sé um það. Skráaskipti eru komin til að vera og það er lítið sem við, framleiðendur kvikmynda og tónlistar, getum gert í því, nema að reyna að notfæra okkur þessa nýlegu tækni. Þó að Torrent.is hafi farið fyrir brjóstið á sumum, hikuðu þau ekki við að fjarlægja íslenskt efni, enda erum við svo fá og markaðurinn lítill. Það munar um hvern seldan disk. Því miður virðist sami skilningur ekki vera fyrir hendi á Víkingaflóa.

Hér á eftir má lesa bréfaskrif sem ég fann á "Hótanir" hluta Viking Bay. Það er leiðinlegt ef þetta er viðhorfið.

Ef einhver vill ekki að ég sé að birta þetta má láta mig vita.

Þessu bréfi var svarað af stjórnendum TVB vegna þess að Unnar var í útlöndum er það var sent

Póstur #1 frá Zolberg
Sæll kæri viðtakandi
Ég heiti Ragnar Sólberg og er söngvari hljómsveitarinnar Sign auk
þess að reka útgáfufyrirtækið R&R músik

Ég hef komist að því að platan okkar "The Hope" er til niðurhals á
thevikingbay og í gær voru 150 manns búnir að downloada henni.

Við höfum marg rætt þetta á milli okkar og við viljum ekki að platan
sé á síðunni ykkar (eða annari) í heilt ár eftir að hún kemur út.

Ég vil því biðja ykkur/þig fallega um að fjarlægja plötuna sem fyrst
og vona að ég þurfi ekki að beita öðrum aðferðum til að koma því í gegn.

kv. Ragnar
Svar #1 frá Stjórnanda
Sæll, Ragnar, afsakaðu hvað ég svara seint.

Plötuni ykkar hefur þegar í stað verið eytt útaf.

Ástæða eyðingar,
Þar sem póstur þinn hljómar vinalegur þá gerum við það að eyða þessu eintaki útaf.
Póstur #2 frá Zolberg
Ok cool
Takk kærlega fyrir það
Stjórnandi sem var með völd á sínum tíma gerði þetta í leyfisleysi. Þetta var leiðrétt:

Leiðrétting frá Stjórnanda
Sæll Ragnar, Ég (************) skrifa fyrir hönd TheVikingBay núna, og vill segja þér að
einhver misskilningur hefur verið á milli stjórnenda, þar sem við eyðum engu efni útaf vefsíðunni okkar.
 
Sá stjórnandi gerði það í leyfisleysi, og munum við sjá til þess að þetta gerist ekki aftur.
Ef einhver notandi sendir inn eitthvað efni með Sign inn, munum við ekki eyða því aftur að ósk þinni eða einhverra annara,
því það er ekki stefna okkar.
 
Við munum ræða þetta við þann stjórnanda sem eyddi efninu út.
 
Ég afsaka þennan misskilning, þetta mun ekki koma fyrir aftur og mun efni þitt haldast inni á vefsíðunni okkar.
 
Í von um gott samstarf, og í von að þetta eyðileggi ekki traustið á milli okkar, TheVikingBay.
Póstur #3 frá Zolberg
******** ********
Ef þú vilt fara erfiðari leiðina þá er það í lagi mín vegna, ég er alveg viss um að þú átt ekki eftir að vinna þá baráttu
Annað hvort með lögum og reglugerð eða blóði og barsmíðum : )

Heyri í þér fljótlega

og já þú ert afsakaður

kveðja Ragnar
Leiðrétting #2 frá Stjórnanda
stfu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta viðhorf flóamanna er bara hreint út sagt fáránlegt.

Bjöggi (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 10:17

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ekki spurning. Þeir eru að skemma fyrir niðurhalssinnum og breikka bilið milli þeirra sem vilja ná í efni á netinu og þeirra sem lifa á að framleiða það. Einhversstaðar er málamiðlun, en flóamenn eru ekki að leita hennar. Hefði þetta verið viðhorfið í desember hefði ég ekki farið út í tilraunina.

Því miður höfum við öfgamenn í báðum fylkingum, SMÁÍS sem allt vill banna og Víkingaflóa sem ekkert virðir. 

Villi Asgeirsson, 28.3.2008 kl. 11:52

3 identicon

Blessunarlega er Unnar Geir hættur sem talsmaður þeirra, og við því allavega laus við ÞETTA bull.. bara spurning hver tekur við starfinu. Hins vegar er Istorrent að fara að opna aftur eftir (vonandi) nokkrar vikur, þegar Hæstiréttur samþykkir dóm Héraðsdóms. Þá mun aftur opna síða sem listamenn geta unnið MEÐ ekki á móti, og sem tekur beiðnir um úttök efnis MJÖG alvarlega. Hvað ætli verði um Víkingana þá ?

Og Villi, diskurinn er löngu kominn.. rúllaði framhjá tollyfirvöldum, sem var alveg ákaflega ánægjulegt :D Ég fékk Inamorata diskinn sendann og borgaði meira í toll og meðferðargjöld heldur en diskurinn kostaði úti :/

BizNiz (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 16:46

4 Smámynd: Villi Asgeirsson

Gott að vita að þessi Unnar sé horfinn og að diskurinn hafi komist til skila óáreyttur. Verra með Inamorata. Vona að Fletcherinn sé þess virði.

Annars verður gaman að heyra hvað Istorrent hefur í huga. Láttu endilega vita ef þú fréttir eitthvað. 

Villi Asgeirsson, 28.3.2008 kl. 17:20

5 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég á ekki orð

Gunnar Helgi Eysteinsson, 29.3.2008 kl. 00:51

6 Smámynd: Túrilla

Ég fer enn ekki ofan af því að þú fórst rétta leið með stuttmyndina þína, en ranga leið með greiðslufyrirkomulag. Langflestir notendur torrent-síðna eru undir tvítugsaldri og kunna nákvæmlega ekkert á PayPal. Hefðu strax verið gefnar upplýsingar um íslenskan bankareikning þori ég að hengja mig upp á að þú hefðir fengið mun meira greitt. Það eru fáir, sem ekki eru nú þegar með PayPal-reikning, sem leggja í að opna einn slíkan, fyrir utan að ungur aldur kemur í veg fyrir að þeir sem vilja borga geti það. Svo má bæta því við að tíminn var óheppilegur, jólin í nánd, fólk að styrkja Istorrent og ýmislegt fleira. Desember er ekki góður tími í svona tilraunaverkefni.

Ég vil líka nefna að ég, mjög vanur PayPal notandi til fjölmargra ára, lenti í vandræðum þegar ég ætlaði að borga. Ég komst ekki inn á síðuna og eftir margar tilraunir komst ég að því að það var vegna þess að fyrst þurfti að slá inn þá upphæð sem ég ætlaði að borga. Þetta er ekki „venjuleg“ PayPal-leið og því ekki furða að þeir sem ekkert kunna á þetta hafi hreinlega gefist upp. Væri ég ekki þrjóskupúki þá hefði ég örugglega gefist upp líka, en ég ætlaði mér að borga og það hafðist á endanum.

Ég ráðlegg þér að gera aðra tilraun með þetta, ekki að gefast upp strax, og ekki dæma torrent-notendur af þessu dæmi einu. Skoðum málið í heild því þetta er framtíðin. Ég segi fyrir mig að hefði ég fyrst þurft að borga og síðan að niðurhala þá hefði ég aldrei sótt þessa mynd og því auðvitað aldrei greitt fyrir hana. Ég tel það ekki rétta leið að láta fólk borga fyrst, þá getur það alveg eins keypt hlutina í venjulegri verslun því þar er sami háttur hafður á.

Svona rétt í lokin á þessari umræðu: Myndin er frábær og diskurinn barst mér beint í póstkassann.
Kærar þakkir fyrir mig og gangi þér sem allra best í framtíðinni.


Síðan er það Víkingaflóinn. Ég er sammála þér þar, svör þeirra sem þar eru við stjórn bera vott um ungan aldur og þroskaleysi. Þeir reyna að vera eins töff og þeir mögulega geta, enda að stíla inn á notendur sína, sem eins og áður segir eru enn það ungir að árum að flestum þeirra finnst þetta „geðveikislega sniðugt“. Það er grátlegt að sjá þessa síðu eyðileggja fyrir torrent-samfélaginu á Íslandi því Istorrent hafði byggt upp mjög góða síðu með góðum og kurteisum stjórnendum og skýrum reglum, sem var fylgt í hvívetna. Allt efni var fjarlægt um leið og þess var óskað og tel ég að SMÁÍS hafi á heildina litið tapað á því að fara út í þessar aðgerðir sínar. Vegna þeirra hafa sprottið upp margar torrent-síður og þar með sannast að það er vonlaust að ætla að stöðva niðurhal af netinu.

Þessar torrent-síður eru eins misjafnar og þær eru margar, en Víkingaflóinn ber þó af í barnaskap, töffaraleik og dónaskap stjórnenda. Ég held að öllum væri fyrir bestu að Istorrent yrði opnað aftur sem fyrst því það var og verður alltaf best og hægt er að treysta á samvinnu forsvarsmanna síðunnar. Það ætti öllum að vera ljóst að orðið samvinna er ekki til í orðaforða Víkingaflóamanna. Ég er sannfærð um að þó að þessi Unnar Geir sé hættur, að sá sem við tekur hefur ekki nægan þroska, frekar en fyrirrennarinn, til að vera forsvarsmaður síðu sem þessarar. Svona fólk á ekki að koma fram fyrir hönd fyrirtækja eða nokkurs annars sem krefst talsmanns út á við. Það er skömm að TheVikingBay.

Túrilla, 30.3.2008 kl. 10:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband