Stefnumál Aðfaraflokksins

- Aðfaraflokkurinn mun beyta sér fyrir loftbrú milli Mjóddar og Hlemms. Þetta er gert í því skyni að minnka umferð við Bústaðaveg. Aðrir flokkar hafa talað um göng, en við trúum að loftbrú sé betri hugmynd. Göng eru dýr (ekki skepnur heldur kostnaðarsöm), útsýnið er lélegt og þau sóma sér ekki á fallegum myndum í túristabæklingum eins og loftbrú myndi gera.
 
- Fleiri bílastæði þegar þörf er á. Aðfaraflokkurinn vill ekki að borgin verði eitt stórt bílastæði. Við trúum að borgin eigi að vera græn og falleg, en því er ekki að neita að stundum er þörf á fleiri bílastæðum, svo sem við kirkjur á Sunnudagsmorgnum, bari kvöldið áður (xAð er ekki fylgjandi stútum undir stýri), við kvikmyndahús og tónleikahallir. Lausnin er einföld, bæta við stæðum þar sem þörf er á, þegar þörf er á. Tilraunir hafa verið gerðar erlendis með farstæði, uppblásin bílastæði sem hægt er að setja upp þar sem þörf er á og brjóta svo saman eftir á. Skemmtilegt er einnig að farstæði þessi eru fánleg í mörgum litum og munu þau því án efa setja skemmtilegan svip á bæinn.
 
- Árbæjarsafn út í Viðey. Það vita allir sem óvitlausir eru að núverandi staðsetning Árbæjarsafns er vægast sagt klúðursleg. Útlendingar fara ekki upp í Árbæ. Íslendingar fara ekki einu sinni upp í Árbæ nema þeir nauðsynlega þurfi þess. Ef að safnið á að vera okkur til sóma verður það að vera aðgengilegt og umhverfið verður að vera fallegt. Aðfaraflokkurinn mun beita sér fyrir því að safnið verði flutt út í Viðey. Svo verður byggð loftbrú frá Höfða svo að allir sem vilja geti heimsótt safnið án þess að þurfa bát.
 
- Flugvöll á Sandskeið. Reykjavík á að eiga glæsilegan flugvöll á fallegum stað. Aðfaraflokkurinn er á móti flugvelli í sjó þar sem slíkt er dýrt og bjánalegt. Sandskeið heitir svifflugvöllur rétt utan við borgina. Með smá fjárfestingu er hægt að byggja þar glæsilegan flugvöll steinsnar frá höfuðborginni. Það þarf að byggja við flugstöðina sem fyrir er og kannski malbika flugbrautirnar, en aðstaðan er fyrir hendi og sjálfsagt að nota hana.
 
- Að lokum er Aðfaraflokkurinn að sjálfsögðu fylgjandi fríum leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og finnst þar að auki að frítt eigi að vera á íslenskar bíómyndir. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband