16.7.2008 | 23:19
Den Brysomme Mannen
Það var kveikt á sjónvarpinu. Ég var ekki að horfa á það. Það var meira eins og það væri að horfa á mig. Ég var að gera eitthvað í tölvunni þegar norska myndin Den Brysomme Mannen (The Bothersome Man) byrjaði á BBC4. Myndin greip mig, því ég þekkti landslagið. Var þetta íslensk mynd? Nei, hún var norsk, en tekin að hluta til á Sprengisandi. Byrjunin tók langan tíma, en var samt spennandi.
Andreas, aðalpersónan, var fljótlega kominn til borgarinnar. Allt var fullkomið. Vinnan, íbúðin, vinnufélagarnir, fallega konan hans. Lífið var svo fullkomið að þegar hann sagðist ætla að yfirgefa hana því hann væri ástfangin, sagði hún að þau fengju gesti í mat á laugardag. Ó, ég er svo sem ekkert búinn að ákveða hvenær ég fer. Geturðu verið þangað til á laugardag? Já. Gott. Svo hélt hún áfram að horfa á sjónvarpið.
Ég er ekki alveg viss um að ég viti um hvað myndin er og ætla ekki að spekúlera um það hér, því það skemmir sennilega fyrir þeim sem eiga eftir að sjá hana. Ég mæli með henni fyrir alla sem eru ekki svo vissir um að nútímasamfélagið sé að virka. Ég held að þetta sé frábær mynd.
16.7.2008 | 14:55
Flottasti Öldungur í Heimi
Við fórum að sjá Leonard Cohen um helgina. Ég sá hann í Höllinni fyrir 20 árum, en hin voru græningjar. Ég vissi því að hann er ekki leiðinlegur á sviði en hann er kominn vel yfir sjötugt, svo maður var ekki að búa til neinar væntingar. Það er styst frá því að segja að gamlinginn hreyf alla með sér, spilaði í tæpa þrjá tíma og eignaðist nýja aðdáendur. Hér hefur ekkert annað verið spilað síðan.
Ef ég verð svona flottur þegar ég verð sjötíuogþriggja, hef ég ekkert á móti því að eldast. Hann er flottari en flestir þeir sem eru helmingi yngri.
Læt hér fylgja með myndband. Dance Me to the End of Love var samið eftir að hann sá ljósmynd úr útrýmingarbúðum nasista. Hlustið svo á The Future í spilaranum. Ef þið þolið svona beyttan texta.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.7.2008 | 08:40
Ég er kona
Konan fór í viðskiptaferð til Tyrklands í gær og kemur aftur á fimmtudagskvöld. Við, strákarnir, erum einir heima. Amma er að vinna þessa daga, svo það er ekkert annað að gera. Þetta er svo sem ekkert í fyrsta skipti, því hún hefur þurft að fara til Ítalíu, Frakklands, Kína og fleiri landa síðan hann fæddist, fyrir tæpum 18 mánuðum. Hún fer svo til Búlgaríu í lok mánaðarins.
Kannski er mér treyst því það er engin önnur lausn í stöðunni. Kannski erum við bara minna gamaldags en sumir. Þetta gengur vel. Hann er ánægður, fær að éta, er settur í bælið og það er skipt á honum. Var settur í bað í gærkvöld. Allt eins og það á að vera. Ég neita því ekki að hún er betri í barnastússinu, en það er auðvitað bara eðlilegt, enda eru konur hannaðar með börn í huga, meðan við karlarnir eigum að fara út og ná í mammút í matinn.
En hvernig get ég verið að skrifa bloggfærslu ef ég er svona góður pabbi? Hvar er barnið? Hann situr hérna við hliðina á mér og hjálpar við að pikka. Séu ritvillur í textanum, eru þær hans!
![]() |
Konan láti karlinn læra af reynslunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |