Færsluflokkur: Sjónvarp
16.9.2007 | 10:33
Rick Treffers II - Pissstaur í vindi
Hér er falleg færsla á Sunnudegi, laus við væl, vesen og vandræði heimsins. Eins og ég sagði fyrir viku eða tveim er ég að vinna við að búa til kvikmyndahluta sviðsmyndar Ricks nokkurs Treffers fyrir hljómleikaferðina sem verður haldin í vetur og kannski fram á sumar. Ekki sat ég á fingrum mér, heldur notaði æeg þá til að munda myndavél og pota í hnappa forritsins Final Cut Pro, sem landsmenn þekkja kannski ekki af fenginni reynslu.
Verkefnið var tiltölulega einfalt. Ljósmyndir voru teknar af kappanum. Þær eru svo notaðar í bókina sem kemur með disknum. Þetta eru flottar myndir, skotnar á Hasselblad myndavél. Þegar hann innti mig eftir hugmyndum, hvað skyldi nú spilast fyrir aftan hann og spilafélagana, var ég ekki lengi að svara. Nei, mér leist ekki á hugmynd hans um að fara að spila VJ, allt of mikið verk og myndi kosta hann of mikið. Kannski texta? Nei, það er næstum vonlaust að synca það þannig að textinn sé á réttum stað þegar spilað er live. Nei, sagði ég, KISS. Ha, KISS? Já, Keep It Simple Stoopid, eigum við ekki bara að endurskapa ljósmyndirnar? Já, sagði hann, asskoti gæti það virkað.
Þannig var þetta sem sagt unnið. Ljósmyndirnar voru fyrirmyndin og við reyndum að gera hreyfanlegar útgáfur með því að fara aftur á sama stað og myndin var tekin og reyna að ná sama effect. Þetta er sem sagt ekki tónlistarmyndband eða músikkvídíó og ekki hannað til að vera kúl sem slíkt. Þetta á að fylla upp í reynsluna af hljómleikunum, án þess að draga óþarflega mikla athygli frá tónlistarmönnunum.
Hvað finnst ykkur, landar góðir? Hér er eitt sýnishorn af tólf. Ég má til með að vara við því að textinn er á hollensku.
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.8.2007 | 14:08
Kvikmyndalandið Ísland?
Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu í dag, Sunnudag 26 ágúst. Ég hef ákveðið að henda henni hér inn svo fólk geti rætt innihaldið. Það væri gaman að heyra hvað fólki finnst. Það fylgdi að vísu ekki slóð með greininni, en við sjáum til.
Íslenska kvikmyndavorið hófst árið 1980 með gerð myndarinnar Land og Synir. Upp að því hafði verið lítið um innlenda kvikmyndagerð. Átta myndir voru framleiddar á Íslandi frá 1949 til 1977. Fimmtán ár liðu á milli 79 af Stöðinni (1962) og Morðsögu (1977)[1]. Árin á eftir voru að meðaltali gerðar tvær til þrjár kvikmyndir á ári, þó að oft hafi þær ekki verið nema ein. Þó að eitthvað hafi framleiðslan aukist frá aldamótum koma enn í dag u.þ.b. þrjár til fjórar kvikmyndir út á ári.
Á vef Kvikmyndamiðstöðvarinnar má lesa að ekki færri en fjórar kvikmyndir verði framleiddar ár hvert. Þar stendur einnig. "Aðilar eru sammála um að miða við að meðalframleiðslukostnaður kvikmynda verði í lok samningstímans 210 milljónir króna."[2] Þar er átt við árið 2010. Aðilarnir sem átt er við eru menntamálaráðherra, fjármálaráðherra og samtök í íslenskri kvikmyndagerð. Ég er viss um að þessir aðilar vita hvað þeir eru að tala um og vil ég alls ekki draga það sem sagt er í efa. Spurningin er hins vegar, þarf þetta að kosta svona mikið og eru fjórar kvikmyndir á ári nóg?
210 milljónir er ekki mikið fyrir kvikmynd. Þetta er klink ef miðað er við Hollywood. Sé myndin tekin upp á hágæða (high-definition) video í staðinn fyrir filmu og þurfi hún ekki flóknar leikmyndir má sennilega taka upp kvikmynd í fullri lengd fyrir vel innan við 10 milljónir. Hvað þarf til?
Upptökuvél sem tekur upp HDV 1080i kostar um 500.000 krónur. Það er sama upplausn og var notuð við tökur nýju Star Wars myndanna. SinCity var einnig tekin upp með sömu tækni.[3]
Klipping færi fram í tölvu. Tölva með skjá í HD upplausn og forritin sem til þarf kostar um hálfa milljón. Þá er allt komið sem þarf til að taka upp og klippa bíómynd fyrir innan við milljón. Þetta er auðvitað hægt að nota við gerð margra kvikmynda. Þetta er startgjaldið.
Segjum að tökur stæðu yfir í fjórar til sex vikur. Tíu leikarar taka þátt, hver fær 150.000 fyrir ómakið. Þetta er jú "low-budget" mynd og sennilega ekki um fullan vinnutíma að ræða. Það er 1,5 milljónir. Leikstjóri, hljóð, kvikmyndataka, skrifta, bílstjórar, bílar, matur. Milljón? Gott handrit er undirstaða góðrar myndar, svo höfundur fær milljón. Klipping og önnur eftirvinnsla tekur mánuð, kannski tvo, ef vel er að staðið. Fimmhundruðþúsund. Setjum milljón í púkkið fyrir bensíni, spólum, bókhaldi og öðru tilfallandi.
Þessi mynd kæmi því til með að kosta fimm milljónir, gróft reiknað. Er þetta bjartsýni eða er þetta hægt? Væri ekki gaman ef til væri sjóður sem styddi eina mynd í mánuði? Það væru tólf nýjar íslenskar kvikmyndir á ári, fyrir utan stóru myndirnar. En hvaðan kæmu þessar 60 milljónir?
Hvað kostar að fara í bíó á Íslandi? Þúsundkall? Það þyrftu því aðeins 5000 manns að sjá hverja kvikmynd í bíó. 10.000 ef maður reiknar vask, kostnað kvikmyndahúss og allt það. Þetta er slatti af bíóferðum, en íslendingar eru duglegir við það. Svo er sjónvarp og DVD. Ef fyrirtæki styrktu gerð myndarinnar til að byrja með, er þá ekki um að gera að nota hana sem auglýsingu og hreinlega gefa hana á DVD? Það væri auðvitað auglýsing á diskinum þegar hann er settur í spilarann. Það væri auglýsing á hulstrinu. Kannski yrði diskurinn ekki gefinn einn og sér heldur með pylsupakka, gosdrykkjum eða hvað það er sem styrktaraðilinn er að selja. Gefur þetta ekki líka skattaafslátt?
Sé farið eftir þessu kerfi má gera ráð fyrir að hver mynd verði ekki lengi á markaði. Þar kemur einstaklingurinn inn. Ef hægt er að treysta því að ný mynd komi út mánaðarlega er hægt að selja áskrift. Fyrir 500 kr. á mánuði færðu alltaf nýjasta diskinn sendan heim og nafnið þitt á skjáinn í lok myndarinnar. Segjum að eitt prósent þjóðarinnar gerist áskrifendur, þá erum við að tala um 3000 manns, 1,5 milljónir á mánuði. Áskriftin gæti kostað meira, en við höfum áhuga á að sem flestir sjái myndirnar, ekki að þetta verði gróðafyrirtæki.
Hver á að setja svona sjóð á laggirnar? Mér finnst að kvikmyndagerðarfólkið sjálft eigi að eiga fordæmi um þetta. Þekktir og óþekktir listamanna myndu vinna við myndirnar. Þannig fengju þær athygli til að byrja með. Það yrði svo verk listafólksins að nógu góðar framleiða myndir til að halda áhuga fólks vakandi. Það er engin ástæða til annars en að gæðastaðallinn haldist. Á Íslandi koma árlega út vel yfir 1000 skáldsögur. Tólf handrit ættu ekki að vefjast fyrir þjóðinni.
Það verða alltaf til sögur sem þurfa meira. Það er ekki hægt að gera stórmyndir fyrir fimm milljónir. Það er hins vegar hægt að gera virkilega góðar myndir fyrir lítið. Þetta kæmi ekki í staðinn fyrir "alvöru" bíómyndir, teknar upp á filmu á stórum sviðsmyndum með toppfólki í hverri stöðu, frekar en að pylsa komi í staðinn fyrir steik. Þetta er eitthvað sem getur hjálpað hæfileikafólki við að komast af stað svo það geti gert stórmyndir í framtíðinni.
Vorið er búið. Það er komið sumar.
Heimildir:
1. http://is.wikipedia.org/wiki/Listi_yfir_%C3%ADslenskar_kvikmyndir
2. http://www.kvikmyndamidstod.is/log-og-reglugerd/
3. http://en.wikipedia.org/wiki/CineAlta
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.8.2007 | 10:58
Við viljum stríð!!!
Árið er 2000. Einhver api vinnur kosningar í "vöggu lýðræðisins" af því að pabbi hans er svo áhrifamikill og af því að hann svindlaði, eyddi kjörseðlum og fékk einhverja Hitler-ungliða wannabes til að banna þeldökkum að kjósa. Ég man að ég hugsaði með mér að þetta vissi ekki á gott. Ég var hræddur um að nú færi allt til fjandans.
Allt fór til fjandans. Apinn byrjaði að vísu á að vera bara grátbroslega heimskur, en hann vann lottóið þann 11 september 2001. Hann fór í stríð við Afghanistan. Maður kannski skildi það því það var gróðrastía ofstækis og ógeðs. Þetta varð svo mikið turn-on og apinn kominn í ham að nú varð að klára það sem pabbi hafði skilið eftir. Íraksstríðið fór af stað með "shock and awe" látum. Margir sáu að þetta myndi enda með ósköpum. Næstum allir nema einhverjir ráðherrar á Íslandi og víðar.
Það eru komin fjögur ár síðan Írak fór af stað og apann er farið að klæja í rassinn. Tíminn er líka að renna út. Hann þarf að hætta eftir ár. Síðustu forvöð að upplifa enn eitt orgy-ið. Það er sem betur fer nóg af hermönnum til staðar, herinn er ekki ofþaninn, þjóðin sem kaus hann reyndar í seinna skiptið (2000 var svindl, 2004 var amerísk heimska) styður sem betur fer við bakið á yfirapanum sínum. Heimurinn, sem hefur ekkert með kosningar í USA að gera en þarf samt að lifa við fáránleikann sem þaðan kemur, er kominn í stuð. Allt sem við viljum er stríð, helst kjarnorkustríð á meðan það helst í mið-austurlöndum og það eru bara arabar sem verða að frumeyndum eða kolum. Það verður svo spennandi að horfa á CNN ef sveppurinn verður sýndur í beinni. Þetta þarf ekkert að vera stór sveppur, lítill er í lagi. Það verður líka gaman að sjá hvað Rússland og Kína gera þegar USA fer endanlega yfir um.
Nú er bara spurningin, Dabbi og Dóri eru farnir. Mun Ísland styðja þriðju útilegu apans?
Segir Bandaríkjastjórn vilja gera árás á Íran | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2007 | 20:44
Ekki huxa svona mikið!
Ég skreif færslu nýlega um fimm milljóna myndir. Þetta var hugdetta og ég ákvað að skrifa hana niður áður en hún færi leið flestra minna hugmynda... hver sem sú leið er. Ég var búinn að skrifa þetta og hélt að þar með væri málinu lokið, en svo var ekki. Ekki af minni hálfu að minnsta kosti. Nú er þetta að verða einhver árátta sem mun ekki láta mig í friði fyrr en hún hefur sannfærst um að ég muni ekki gera neitt í málinu.
En er þetta ekki bara málið, búa til kvikmynd í fullri lengd með aðstoð Egils, SS, ISAL eða hvers sem vill láta merki sitt sjást. Fá litlar fimm millur sem engan munar um, gera góða kvikmynd, henda henni á DVD og gefa hann svo. Ekki selja ódýrt, ekki láta borga burðargjald. Nei, gefa diskinn og biðja um ekkert í staðinn.
Damn, mig langar að gera þetta. Mig langar eiginlega meira að gera þetta svona en fá mynd eftir mig sýnda í bíó.
Þetta mun sennilega ganga yfir.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.7.2007 | 11:01
Svartur Sandur, fyrstu þrjár mínúturnar
Í tilefni þess a það er 7.7.7. í dag, að fólk er að hugsa um umhverfismál og að Svartur Sandur er tilbúinn...
The sýnishorn. Þetta er ekki trailer, sem slíkur, heldur fyrstu þrjár minúturnar af myndinni.
Njótið!
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.3.2007 | 09:26
Um Land, Þjóð, Fána og Þjóðsöng
Spaugstofan grínaðist með þjóðsönginn og virðist þar með hafa opnað box Pandoru. Margir eru móðgaðir yfir þessu "virðingarleysi". Það eru jú lög sem kveða á um að ekki megi flytja hann í breyttri mynd. En hvað er þjóðsöngur og hvert er hlutverk hans?
Það er engin spurning að af hinni þjóðlegu þrenningu, landinu, fánanum og söngnum er landið dýrmætast. Án landsins er fáninn og söngurinn einskis virði.
Þjóðsöngurinn á að fjalla um landið, hversu dásamlegt það er og okkur dýrmætt. Þjóðsöngurinn okkar fjallar hins vegar um Guð meira en hvað annað. Kristin trú er þjóðtrúin og nenni ég því ekki að kvarta um það. Að söngurinn sé torsunginn hafa aðrir skrifað um. Það er sennilega rétt. Allavega kann ég hann ekki og gæti sennilega ekki sungið hann þó svo væri. Ekki að ég hefði neinn sérstakan áhuga, því ef ég hugsa um landið mitt vil ég ekki endilega blanda Guði eða trú inn í það. Ísland, landið sjálft, er það dýrmætasta sem íslenska þjóðin á og landið á skilið alla þá virðingu og ást sem við getum gefið. Landið er okkar, landið ar þeirra sem á undan lifðu og landið er þeirra sem á eftir koma. Það er merkilegt að sjá fólk sem styður stórvægilegar skemmdir á landinu, óafturkræfar skemmdir, móðgast þegar þjóðsöngurinn er notaður til að verja landið. Þjóðsöngurinn ætti að vea eign allra landsmanna, sameiningartákn. Ef að gerð er þungarokksútgáfa er það betra en núverandi ástand þar sem flestum er nokkuð sama um þetta "kórlag".
Fáninn er líka svolítið skemmtilegt fyrirbæri. Hann er kross, tákn trúarinnar, en litirnir tákna eld, ís og haf. Það sem mér finnst hvað merkilegast hér er að fáninn má ekki snerta jörðina, jörðina sem hann er tákn fyrir. Það er sennilega ástæða fyrir því, en ég get ekki ímyndað mér hver hún er.
Þjóðin sem býr í landinu hefur rétt á að nýta það, njóta þess og elska. Þjóðin hefur ekki rétt til að þurrmjólka það svo að ekkert standi eftir fyrir komandi kynslóðir.
Það að standa vörð um fánann og þjóðsönginn en eyðileggja landið er hræsni. Á sennilega mikið sameiginlegt með fólki sem ver kirkjuna en gengur þvert á það sem trúin boðar. Þjóðsöngvar og fánar eru tákn fyrir landið, rétt eins og kirkjur og krossar eru tákn trúarinnar. Okkur væri hollast að bera virðingu fyrir því sem virkilega skiptir máli, landinu sjálfu og þjóðinni. Þá kemur virðing fyrir öðrum hlutum af sjálfu sér.
Spaugstofumenn brutu lög um þjóðsönginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.2.2007 | 22:12
Hver vill sjá myndina?
Eins og bloggvinum og öðrum er sennilega ljóst, er stuttmyndin Svartur Sandur um það bil tilbúin. Við erum ennþá að laga og bæta, en þetta eru smáhlutir sem pússast af með fínum sandpappír. Það eru ennþá smá vandamál með hljóð sem verða leyst í vikunni, örfáir staðir þar sem klippingin hefði mátt vera pínulítið öðruvísi.
Nú er spurningin einfaldlega, er eitthvað varið í ræmuna? Er þetta frábær mynd sem mun umbylta íslenskri kvikmyndagerð eða er þetta della, tímasóun fyrir alla sem komu að þessu? Hvorugt sennilega, en hvar á skalanum er hún? Ég get ekki dæmt um það. Ég samdi handritið, framleiddi og leikstýrði, hélt yfirleitt á kamerunni. Ég er svo samdauna myndinni að ég hef enga hugmynd um hvað fólki mun finnast um hana. Þannig að...
Ég var að spá í að fá vel valið fólk, sem þekkir mig og minn hugsanahátt sama og ekkert, til að horfa á myndina þegar hún er tilbúin. Hún er gerð á Íslandi, fyrir íslendinga. Ég hef hins vegar engan aðgang að íslendingum í mínu daglega lífi. Þessi síða er því staðurinn til að finna fólk sem maður þekkir lítið sem ekkert. Ef lesendur þessa bloggs vilja sjá myndina þegar þar að kemur, eftir 1-2 vikur, er um að gera að láta mig vita. Þetta er auðvitað endurgjaldslaust, en fólk verður að skrifa mér og segja mér hvað því fannst um myndina. Var hún vel gerð eða amatörsleg, spennandi eða leiðinleg, auðskiljanleg eða óskiljanleg? Skildi hún eitthvað eftir sig og þá hvað? Hvað hefði mátt vera öðruvísi? Það er sem sagt hægt að sjá myndina endurgjaldslaust, en það þarf að vinna fyrir því.
Látið mig endilega vita á info@oktoberfilms.com ef áhugi er fyrir hendi.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.2.2007 | 10:25
Svartur Sandur í vinnslu
Við erum á fullu að klára myndina. Enski, íslenski og hollenski textinn er tilbúinn og ég er að klára DVD valmyndina, menuinn, whatever. Myndin sjálf ætti svo að vera tilbúin um helgina.
Hvað um það, mér datt í hug að henda inn smá óopinberu sýnishorni. Þetta er DVD Main Menu. Voða einfalt, en gefur kannski einhverja hugmynd.
Svo er bara að koma myndinni fyrir augu almennings, og ykkar sem hafið fylgst með hér á blogginu.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.2.2007 | 17:25
SVARTUR SANDUR
Nú fer alveg að koma að því, myndin, sem hefur bara verið kölluð myndin fram að þessu, er svo gott sem tilbúin. Ég var að koma frá klipparanum þar sem við horfðum á hana og töluðum um hvað þarf enn að gerast.
Það þarf enn að leiðrétta örfá klippimistök og fínpússa hér og þar. Það þarf að velja stafagerð svo að allir titlar líti rétt út og leiðrétta pínulítið, þar sem ég virðist ekki geta pikkað án þess að pota í vitlausan takka. Mitt eigið nafn var meira að segja vitlaust stafað. Svo þarf ég að þýða myndina á hollensku og gera íslenska, enska og hollenska textann tilbúinn fyrir prufudiskinn. Við gerum ráð fyrir að þessi vinna verði búin í vikunni og að við getum gert prufudiska eftir viku.
Það sem gerist næst er að við sýnum völdu fólki myndina og heyrum hvað það hefur um hana að segja. Ef það sér mistök verða þau leiðrétt. Ef eitthvað er einstaklega hallærislegt verður það lagað ef hægt er en látið standa ef ekki.
Hvað finnst fólki svo um nafnið sem ég er loksins búinn að finna? SVARTUR SANDUR eða BLACK SAND eins og hún verður kölluð í erlandi?
Svo er bara spurningin, hvar á maður að sýna hana fyrst?
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.1.2007 | 08:50
Spáin fyrir 2007
Halló öll og Gleðilegt Ár! Seint í rassinn gripið að segja þetta núna þegar þrettándinn er innan seilingar, en það er bara svona. Ég ákvað að taka mig frekar hátíðlega og setja inn færslu á nýársdag, eitthvert Nýársávarp sem yrði svo fastur liður um alla framtíð, en tíminn var ekkert að bíða eftir mér. Sem sagt, hátíðleikinn fokinn og það er bara fínt.
Ár hvert er málið að strengja áramótaheit, en ég ákvað að sleppa því í ár. Árið 2007 verður ár breytinga svo ég læt það bara koma og við sjáum hvað eftir stendur í árslok. Hvað mun breytast? Einfalda svarið er allt, en hér er smá útskýring.
Til að skilja það sem er að gerast er best að fara í gegn um það sem þegar er breytt. Árið 2004 hóf ég nám í kvikmyndagerð. Það er búið og ég hef verið að byggja upp dæmið síðan. 2006 var undirbúningsárið mikla. Ég sagði upp góðri vinnu og tók stórt stökk inn í fjárhagslegt óöryggi. Spurning hvort ég hafi verið of fljótur á mér, en málið er að ég hefði ekki komið neinu í verk hefði ég haldið áfram. Kvikmyndir eru samt bara lítill hluti. Það er ungi á leiðinni og það þýddi að við þurftum að taka húsið í gegn. Eldhúsið var orðið einhverra áratuga gamalt. Unginn þarf herbrgi svo tómstundaherbergið þurfti að fjúka. Við erum búin að vera í byggingavinnu síðan í september, fyrst í eldhúsinu, síðan á háaloftinu þar sem tölvurnar eru nú og núna erum við að klára barnaherbergið.
Það er ekki hægt að segja að manni leiðist. Vinna, viðhald (ekki önnur kona samt) og breytingar og svo kvikmyndadæmið. 24 tímar á dag eru ekki nóg. Í gær var ég að vinna á Schiphol frá 5 um nótt til 2 eftir hádegi. Síðan var ég á fundi þar sem nýja fyrirtækið sem verður stofnsett á mánudag var rætt. Við ræddum líka um verkefnin sem framundan eru. Þar á meðal er heimildamynd um Rúmeníu, um Amsterdam-Dakar keppnina, einhverjar hljómleikamyndir og heimildamynd um hluti sem gerðust á Íslandi um aldamótin 1900. Svo erum við líka að plana íslenska framhaldsþætti, en framtíð þeirra veltur á því hvernig hugmyndinni verður tekið heima. Ég var kominn heim um 7, borðaði og fór svo í að svara emilum frá fólki sem er að taka þátt í stuttmyndinni og myndinni um Rúmeníu. Dagsverkinu var lokið um 21:30. Ég held ég hafi verið sofnaður rétt eftir tíu. Þetta er bara ósköp venjulegur dagur. Ég vona innilega að þetta dæmi fari að skila einhverju af sér.
Árið eins og það lítur nú út er einhvernvegin svona:
Janúar - fjárlögin fyrir Rúmeníu eru tilbúin.
lok-Janúar - tónlistin er tilbúin.
4. Febrúar - nýr einstaklingur kemur í heiminn.
mið-Febrúar - stuttmyndin er tilbúin.
lok-Febrúar - stuttmyndin hefur verið skoðuð og fínpússuð og er tilbúin fyrir DVD.
Mars - undirbúningi Rúmeníu lokið.
mið-Mars - DVD diskurinn er tilbúinn og stuttmyndin er tilbúin til dreyfingar.
2. Apríl - stuttmyndin frumsýnd.
Apríl - unnið að íslenskri heimildamynd.
Maí - upptökur í Rúmeníu.
Maí - undirbúningur framhaldsþáttanna hafinn.
Júní - undirbúningur að kvikmynd hafinn.
Júlí - Rúmenía tilbúin.
Ágúst - Amsterdam-Dakar (ég fer sennilega ekki með).
Ágúst - Rúmenía tilbúin til dreifingar.
Ég þori ekki að plana lengra. Ég vona að þetta gangi upp og ég sé ekki að drepa sjálfan mig. Það er að vísu svo að þó ég sé að mestu leyti sjálfur að vinna í þessum verkefnum enn sem komið er, mun ég fá annað fólk til að axla ábyrgð á nýja árinu. Þannig er ég í sambandi við fyrirtæki í Rúmeníu sem er að vinna í fjáröflun, við kvikmyndagerðarmann þar sem mun sjá um tökur og fyrirtæki í Rotterdam sem mun hjálpa til við undirbúning og að afla þekkingar. Það sama mun gerast á Íslandi þegar undirbúningur að framhaldsþáttunum hefst. Ég vil líka finna gott fólk í íslensku heimildamyndina. Ég fer ekki með í kappaksturinn (held ég). Þetta virðist því vera að færast meira í áttina að framleiðslu. Við sjáum til. Svo er bara að sjá hvort beibið éti upp allan minn tíma.
Hvort sem 2007 verður gott ár eða ekki, er það alveg a hreinu að það verður ekki langdregið. Ég býst við að halda upp á 2008 í næstu viku.