Færsluflokkur: Kvikmyndir

Allar hliðar skoðaðar og þetta líka... og svo burt með spillingarliðið!

Ég ætla að blogga út frá fyrirsögninni, ekki fréttinni. Ég nenni nebblekki að leika hagfræðiprófessor í bili.

Því svo bar til um þær mundir að ég fór að dullast í kvikmyndagerð. Gangi allt eftir, klára ég handritið að Undir Svörtum Sandi fyrir jól. Ef allt fer ekki í rugl kem ég svo að taka hana upp í sumar. En þetta er auðvitað bara ein mynd. Allir eru að gera bara eina mynd af og til. Þeir duglegustu rembast kannski við að verpa einu eggi á 2-3 ára fresti. Eggið er svo gullið að það stendur aldrei undir sér, svo styrki þarf til. Þetta er auðvitað handónýtt. Maður fékk útrás fyrir sköpunarkláðann og allir geta verið stoltir af því að við íslendingar séum svo æðisleg, en þetta stendur ekki undir sér. Ekki gott þegar allir eru á hausnum.

Ég var veikur í gær og er enn ekki búinn að jafna mig. Ligg þó ekki lengur á sófanum í hálfgerðu móki á milli ælukasta, svo þetta er allt í áttina. Ég notaði timann og horfði á Casablanca, klassíkina með ofurtöffaranum Bogart og hinni ofurfallegu Ingrid Bergman. Þetta er tvöfaldur viðhafnarDVD og ég lét mig hafa það að skoða aukaefnið á seinni diskinum. Þar var farið í líf Hömpa og gamla stúdíókerfið í Hollywood þar sem myndunum var dælt út. Ein mynd frumsýnd í viku. Ég fór að hugsa.

Við eigum ekkert að vera að vesenast í þessum Títanik myndum, allavega ekki bara. Ef einhver á stofnfé handa mér vil ég setja upp fyrirtækið "10". Það myndi pumpa út 10 kvikmyndum á ári og ekki setja meira en 10 milljónir í hverja mynd. Þetta er auðvitað bráðsnjöll hugmynd og framkvæmanleg. Allir eru atvinnulausir og heimta ekki tíuþúsundkall á tímann. Við værum ekkert að vesenast í að byggja rosalegar leikmyndir. Handritin yrðu skrifuð þannig að staðir sem eru til yrðu notaðir. Það má nota eitthvað af tæknibrellum ef þær kosta ekki milljónir á pixel og klessa einstaka bíl ef hann er ekki of dýr. Það væri hægt að gera spennumyndir, gamanmyndir, drama og hvað sem er. Það sem öllu máli skiptir er að handritin yrðu góð.

Ef kostnaður er ekki yfir 10 milljónir á mynd ætti þetta að standa undir sér því myndirnar yrðu sýndar í bíó, sjónvarpi og færu á DVD. 

Er ekki einhver til í þetta?  


mbl.is Allar hliðar séu skoðaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtilegt framtak ... burt með spillingarliðið

Þetta er stórskemmtileg hugmynd. Enn og aftur segi ég, ef ég væri á landinu... þetta er að verða alvarlegt. Verð ég ekki að fara að plana endurkomu? Mig langar að kaupa listaverk á 5000 kall, mig langar á borgarafundinn í Iðnó, mig langar að byggja upp nýtt og betra samfélag. Mig langar að vera á staðnum svo ég geti byggt upp síðuna Nýja Ísland. Mig langar svo margt.

Í fyrradag minntist ég á hugmynd sem ég fékk. Mig langar að gera kvikmynd um lífið í kjölfar hrunsins. Mér datt í hug að hún gæti orðið fjölskyldudrama. Rakel lét sér detta í hug að gera einhverskonar háðsádeilu um ástandið, sem ég held að gæti verið skemmtilegt verkefni. Gullvagninn kom svo með þá hugmynd að gera samsærismynd um þá sem að baki hruninu standa. Það er sjálfsagt full þörf á að kafa svolítið ofan í það og gera mynd. Kíkið endilega á þá færslu og látið heyra frá ykkur.

Svo er það stóra fréttin frá því í sumar sem er orðin svo lítil í samanburði við allt. Uriah Heep hljómleikarnir verða teknir upp á fimmtudag og föstudag. Maður hefur þá eitthvað að gera hér í afdalarassgatinu Hollandi.

 

PS. "burt með spillingarliðið" er átak einhverra bloggara. Við bætum þessu við titla til að minna fólk á að við viljum spillingarliðið burt. 


mbl.is Selja verk á 5.000 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrunið - kvikmynd um fall Íslands : og burt með spillingarliðið!

Ég er að ljúka við gerð handrits sem ég vonast til að geta kvikmyndað í sumar. Mundin Undir Svörtum Sandi verður lauslega byggða á næstum því samnefndri stuttmynd. Þar sem þessi skrif eru að klárast, væri gaman að finna sér nýtt viðfangsefni.

Mér var að detta í hug að gera myndina Hrunið. Kannski að titillinn breytist eftir því sem sagan þróast. Myndin ætti að fjalla um íslenskan raunveruleika í kjölfar bankahrunsins. Hér er hugmynd.

Pabbi rekur lítið fyrirtæki og mamma er kennari. Skuldir fyrirtækisins verða óyfirstíganlegar og það fer á hausinn. Húsið og bílarnir missa verðgildi sitt meðan lánin rjúka upp. Mamma reynir að halda heimilinu gangandi, en það gengur illa á kennaralaununum. Pabbi reynir að sinna heimilisverkum þegar hann er ekki að leita sér að vinnu, en finnur út að hann er alveg hand ónýt húsmóðir. Þetta ástand hefur auðvitað hrikalegar afleiðingar. Táningarnir tveir skilja ekki hvers vegna þau geta ekki haldið áfram að eyða peningum og þar kemur enn ein togstreytan.

Pabbi var víst ekki alveg þar sem hann var séður. Fljótlega fer síminn að hringja og miður skemmtilegir menn fara að láta sjá sig. Þegar jeppinn fuðrar upp í innkeyrslunni, fer allt endanlega í hundana. Kannski að unglingarnir finni á sér nýja hlið og berjist við vondu kallana.

Ég get svo sem hóstað þessu upp, en það væri alveg ofboðslega skemmtilegt ef þetta yrði samvinnuverkefni. Ef fólk gerði athugasemdir, kæmi með persónur og atburði. Það væri gaman að sjá hvort hægt væri að þróa handritið hér á blogginu. Það sem ég skrifa hér að ofan er bara hugmynd. Handritið gæti þróast í allt aðra átt.

Látið endilega vita hvað ykkur finnst og sjáum hvort við getum gert kvikmynd allra landsmanna! 


Tækifæri fyrir Skjá 1

Eitt af því sem nefnt er í fréttinni er óvissa með verð erlends efnis. Það hlýtur að verða 2-3x dýrara en áður, eins og annað. En er þetta ástand endilega alslæmt?

Í morgun skrifaði ég um hugmynd Bjarkar og félaga þar sem atvinnulausum yrðu greidd 10-50% laun ofan á atvinnuleysisbætur. Þetta myndi halda fólki í vinnu og fyrirtæki gætu farið í verkefni sem annars væru of dýr.

Árlega eru framleiddir tugir eða hundruð stuttmynda á Íslandi. Þær sjást hvergi. Hvernig væri ef Skjár 1 tæki sig til og keypti fullt af stuttmyndum sem þegar hafa verið gerðar? Þeir gætu svo keypt myndir sem enn eru ógerðar, en eru ekki mjög dýrar í framleiðslu því launakostnaður er lægri en áður. Svo væri hægt að framleiða framhaldsþætti og kvikmyndir fyrir brot þess kostnaðar sem áður var.

Þetta er gullið tækifæri fyrir Skjá 1. Þar sem ekkert starfsfólk er eftir, geta þeir byjað með autt blað og gert það sem þeir vilja. Svona ná þeir sér í ódýrt efni, skapa fólki atvinnu og sér velvild þjóðarinnar.


mbl.is Skjárinn segir öllum upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minn Sproti - Allra Hagur

Ég horfði á Kastljós á netinu í gær. Björk hafði mikið til síns máls. Spa hugmyndin var frábær. Þetta er það sem sumir hafa verið að segja í mörg ár. Ekki öll eggin í sömu körfuna. Dreifum áhættunni og gerum eitthvað sem íslendingum finnst gaman að vinna við. Eitthvað sem bætir lífskjör okkar og ímynd út á við.

Hugmyndin með að atvinnulausir drýgi tekjurnar hjá fyrirtækjum sem hafa ekki efni á starfsfólki er ekkert annað en snilld. Þannig þarf fólk ekki að svelta á allt of lágum bótum, það fer út fyrir dyrnar í stað þess að rotna heima, fyrirtæki sem annars næðu ekki að byggjast upp geta það nú og atvinnu- og efnahagslíf staðnar ekki. Það er alveg sama hvernig ég skoða þetta, hugmyndin er tær snilld.

Hvernig myndi ég notfæra mér svona kerfi? Ég er að klára kvikmyndahandrit. Þar sem ég á ekki fullt af peningum, skrifaði ég það þannig að ekki þyrfti hópsenur eða stórar leikmyndir. Það væri ekki erfitt að taka upp mynd sem stæði undir sér ef ég væri að borga 10-50% laun til fólks sem annars sæti heima. Íslenskar myndir eru oft það dýrara að þær hafa enga möguleika á að standa undir sér. Þær geta ekki þrifist án styrkja. Með þessu kerfi, sterkum handritum sem tiltölulega einfalt er að taka upp og nútíma tækni væri hægt að framleiða fullt af íslenskum kvikmyndum sem stæðu undir sér. Því fleiri myndir sem gerðar yrðu, því stöndugra yrði fyirtækið og einn góðan veðurdag gæti það farið að borga full laun. Atvinnuleysisbæturnar hyrfu og þjóðin gengi inn í nýja tíma.

Þetta er mitt dæmi. Spa hugmyndin gerði það sama á öðrum vettvangi. Ef þúsundir íslendinga virkjuðu sína þekkingu, væri framtíðin björt. 

Björk, hvenær get ég byrjað? 

Þessi grein birtist líka á NyjaIsland.is


mbl.is Gríðarleg viðbrögð við grein Bjarkar í The Times
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HJÁLP!!! - Nýja Ísland er dautt!

Eftirfarandi birtist á vefnum, Nýja Ísland.

Eins og þeir sem lesa bloggið mitt vita, var ég frá í viku af persónulegum orsökum. Ég gat því miður ekki gefið Nýja Íslandi þann tíma og umhyggju sem ný síða þarf. Þetta fór vel af stað. Mig minnir að skráðir notendur hafi verið orðnir 20 eftir sólarhring. Þeir eru nú 30. Enginn hefur bæst við í 3-4 daga. Umræðan er mikið til sofnuð.

Það var kannski bjartsýni að halda að ég, einn og óstuddur, gæti búið til eitthvað sem myndi breyta heiminum. Kannski hef ég ekki tengslin sem til þarf, þekki ekki rétta fólkið. En það var nákvæmlega hugmyndin á bak við Nýja ísland. Að allir geti skipt máli, hversu tengdir eða ótengdir þeir væru.

Ég mun gera meira fyrir síðuna á komandi dögum og vikum. Ég mun reyna að koma henni á flug. Það væri þó gaman ef einhver með vit á vefnum og almennri kynningu gæti slegist í hópinn.

Fólkið sem ég þarf er:
Vefstjóri - Einhver sem hefur vit á heimasíðugerð og gæti byggt síðu utan um spjallborðið.
Spjallstjóri - Einhver sem getur stjórnað umræðum, séð um að þær fari ekki úr böndunum og séu á réttum stað og að spjallið sé vinalegt, skemmtilegt og málefnalegt.
Kynningarstjóri - Einhver sem sér um að kynna síðuna út á við. Ef ég væri á Íslandi myndi ég láta prenta póstkort og dreifa þeim út um allt, en ég er ekki á landinu og þarf því að gera eitthvað annað eða fá aðra til að hjálpa.
Ritstjóri Fréttabréfs - Einhver sem er til í að taka að sér útgáfu vikulegs emils sem sendur er til skráðra notenda.

Auðvitað get ég gert allt sem að ofan er nefnt, en stundum hef ég ekki tíma og það er til fólk sem hefur meiri hæfileika en ég. Það væri því gaman ef fólk hefði samband og hjálpaði Nýja Íslandi að verða að aflinu sem það getur orðið.


IMF ÞÝÐIR ENDALOK ÍSLANDS

Ég ætla að hafa þetta stutt.

IMF segist hjálpa löndum, en þeir hjálpa stórfyrirtækjum að fjárfesta í löndunum. Þannig virðast þeir hjálpa, en það sem gerist er að fyrirtækin verða rík og fólkið fátækt. Er það sem við viljum? Allar auðlindir fullnýttar og þjóðin fátækari en nú?

IMF hjálpaði Argentínu. Forsetinn sagði hins vegar að IMF hefði verið orsök vandans. Sjá þessa frétt á BBC. Það þarf reyndar ekki að gera meira en tikka imf argentina inn í Google til að finna endalausar slæmar fréttir af því samstarfi.

IMF mútar þjóðarleiðtogum. Vinni þeir ekki með sjóðnum eru þeir teknir úr umferð. Forseti Equador var myrtur því hann lét ekki múta sér. Þetta segir fyrrverandi starfsmaður sjóðsins.

Ég hvet alla til að lesa færslu Neo um málið. Horfið á myndbandið ef ykkur stendur ekki á sama um land og þjóð. 


mbl.is IMF tilbúinn að hjálpa Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guð Blessi Ísland

Þessi síðustu orð ræðunnar. Er þetta eitthvað meira en sljálfvirk orð trúaðs manns? Er eitthvað meira á bak við þau? Maður verður hálf smeykur við allan þennan hræðsluáróður og hálfkláraðar setningar. 

Ég yfirgef Ísland eftir atburðaríka viku. Ég hitti mikið af áhugaverðu fólki og sá mikið á athyglisverðum myndum. Það voru samt 2-3 manneskjur sem eg náði ekki að hitta, myndir sem ég náði ekki að sjá og hlutir sem ég kom ekki í framhvæmd. Framtíðarhugmyndirnar eru skýrari í hausnum. Það gerir kannski hreina loftið. Ég vona bara að kreppan flækist ekki fyrir og að hún fari ekki of hrjúfum höndum um almenning. Ekki að við í ESB eigum von á einhverju betra.

En hvað um það. Það var gott að koma heim og hitta fólkið sitt. Ég er aftur farinn til ESBsins þar sem allt er betra samkvæmt einhverjum krötum sem vita ekki alveg hvað þeir eru að segja.

Guð Blessi Ísland. 


mbl.is Ný lög um fjármálamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleymda Færslan

Það er gaman á Íslandi. Ég var að drattast inn úr dyrunum, eina mínútu fyrir sex að morgni. Kvikmyndasmiðjan, eða Talent Campus, er búin og ég er við glös. Ég fór nebbla ekki beint heim eftir að langdregna myndin fékk gula eggið. Það var allt of gaman í hvalaskoðunarskpinu með listaelítunni og Björk og niðrí bæ. Ég talaði að vísu ekkert við hana, en samt.

Ég hitti mikið af skemmtilegu fólki í dag og í gær. Þarna voru fallegar stelpur með fallegar hugmyndir, útlendingar sem eru soldið of artsy fartsy fyrir mig og íslendingar sem kunna að súpa. Allt gott. Skipulaginu á kampusnum var ábótavant. Kannski maður bjóði sig fram á næsta ári. Ég veit að ég gæti skipulagt Þetta betur. Held það allavega. Maður þekkir ekki Jón fyrr en misst hefur, skiluru. 

Hvað um það. Ég blogga kannski seinna um þetta dæmi. Spurning með að fara í bælið. Ég segi bara eitt. Ef ég geri ekki kvikmynd í fullri lengd á næsta ári sem verður sýnd í kvikmyndahúsum, má ég hundur heita. You can quote me on that.


Hæfileikaheimavistin, hljómleikar og kvikmynd

Stóri dagurinn er runninn upp. Kvikmyndasmiðjan, eða the Talent Campus, byrjar í kvöld. Klukkan sex þarf ég að vera úti í Norræna Húsi og súpa seyði. Eða eitthvað. Þeir kalla þetta kokkteilboð. Á ég kannski ekki að fá bílinn hennar systu lánaðan? Hvernig kemst maður bíllaus á milli staða í Reykjavík? Er það yfirleitt hægt? Hvað kostar í strætó?

Spurning með að hitta fólk og kíkja á myndir þangað til. Í gærkvöldi fór ég í Iðnó að sjá dönsku myndina Frygtelig Lykkelig (Skelfilega Hamingjusamur). Hún var fín. Ekki fullkomin, en fjandi góð. Hún verður sýnd tvisvar í viðbót og ég mæli með henni. Mér fannst kvikmyndatakan stundum vera að flækjast pínulítið fyrir sögunni, en ekki nóg til að skemma fyrir. Það er auðvitað hið besta mál að nota myndavélina á frumlegan hátt, en mér finnst kvikmyndatakan aldrei mega draga athygli að sjálfri sér. Kvikmyndataka og klipping er best heppnuð ef fólk tekur ekki eftir henni. Kannski er ég bara að rausa. Kannski tek ég eftir þessu af því ég er að spá í þessa hluti.

Ég hitti Láru Hönnu í gær. Ég ætlaði að kíkja aðeins til hennar, en sat sem fastast í 4-5 tíma. Fór af því að systa var búin að vinna og bauðst til að sækja mig svo ég gæti haft bílinn um kvöldið. Ég var aldrei í vafa um að það væri mikið spunnið í Láru og heimsóknin staðfesti það bara. Þetta er kjarnakvendi og allir ættu að hlusta á hana.

Ísland er svo lítið og sætt. Ég sendi aðalleikurunum úr Svörtum Sandi handritið að löngu myndinni áður en ég kom heim. Jóel spurði hvort hann mætti ekki senda vini sínum eintak til að krítísera. Jú, allt í lagi. Seinna kom það upp að þessi vinur er Davíð, sonur Valdísar Óskarsdóttur. Hann býr á hæðinni fyrir ofan Láru, en var ekki heima. Hann er á leiðinni til Suður Kóreu að kynna Sveitabrúðkaup og ætlað að lesa Undir Svörtum Sandi í vélinni. Sjáum hvað hann hefur að segja.

Að lokum. Ég var að fá emil frá umboðsmanni norskrar stelpu sem er að gera það gott í tónlistarheiminum og hefur fengið mikla spilun undanfarið. Hún spilar á nokkrum hljómleikum í Hollandi í nóvember og þau vilja að ég taki eina upp fyrir hugsanlega DVD útgáfu. Þetta verður tíu dögum fyrir Uriah Heep hljómleikana, svo ég get sennilega notað sama upptökulið. Sjáum til.

Ég ætla því að leyfa mér að koma með bjartsýnisspá fyrir sjálfan mig. Tvær hljómleikamyndir fyrir árslok. Kvikmynd í fullri lengd á næsta ári. Svo vil ég auðvitað Gullna Eggið um helgina. Ég tek það fram að ég er ekki búinn að vinna það og get ekki fullyrt að ég muni gera það. Fólk er eitthvað að misskilja draumóra síðustu færslu. Ég er ekki með Gullið Egg upp á vasann. Sjáum til með það líka.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband