Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Níu dagar í heimsendi

Sólarupprás í HalfwegHeimsendir er útreiknaður þann 4. Febrúar 2007, á sunnudaginn eftir viku. Það er allavega heimsendir hvað mitt gamla líf varðar. Það er dagurinn sem unginn ætti að láta sjá sig. Allt mun breytast, ekki spurning. Það er kannski hægt að segja að síðustu mánuðirnir hafi verið æfing, þar sem við höfðum allt of mikið að gera við að lappa upp á hluti, lagfæra og endurnýja eldhúsið.

Alla vega, þetta er komið á tíma. Ef allt fer eins og ætlast er til, verður húsið orðið hávaðasamt og lyktandi innan örfárra daga. En hvað tekur við? Barnið veit það ekki ennþá, en það er auðvitað hálfur íslendingur. Það þýðir tvær fjölskyldur með ólíkan bakgrunn og tungumál. Ættingi minn á Íslandi varaði okkur við tungumáladæminu. Málið er að börn fædd erlendis tala oft ekki tungumál fjarfjölskyldunnar og ef þetta er ekki enskumælandi land, eru miklar líkur á að það geti alls ekki talað við ættingja sína.

Ég hef verið að lesa greinar um þetta og þær mæla með því að foreldrarnir tali eigin tungumál við barnið. Hún hollensku og ég íslensku. Við verðum að vanda okkur því að barnið notar okkur til að skilja tungumálin að. Ef ég tala hrærigrautinn sem ég tala núna, sambland þriggja tungumála, mun barnið ruglast, ekki skilja hvaða tungumál er hvað, og lenda í erfiðleikum seinna. Þá stend ég frammi fyrir tveimur vandamálum. Ef ég tala bara íslensku, hvernig tjái ég mig við fólk hér? Það sem verra er, það er  ótrúlega erfitt að tala íslensku eftir að hafa verið erlends í 14 ár. Þegar ég kem heim stama ég og hika í nokkrar múnútur áður en móðurmálið kemst í gang. Það er ekki erfitt, því það eru alSólarupprás 1lir að tala þetta í kringum mann. Að rausa þetta einn útí heimi er allt önnur gella. Spurning með að kenna beibinu ensku og fá ættingjana til að senda barnaefni með íslensku tali, svo það sé bara formsatriði að komast inn í málið seinna. Veit ekki.

Annars er baðið komið í hús. Ójá, þetta verður fæðing í vatni. Betra svona, því hollendingar eru strangir á því að fólk fæði heima hjá sér.

PS. Myndirnar tók ég hér í Halfweg í desember.

Seinna!!! 


Föðurland

Föðurland. Hvað er það? Ég skil að það er yfirleitt landið þar sem maður fæddist, þar sem rætur manns eru. Manni líður vel þar og þekkir til. Maður skilur tungumálið og almenna siði. En föðurland er eitthvað miklu meira.

Fugl á flugiÉg get ekki ímyndað mér að fólk sem býr allt sitt líf í heimalandi sínu geti skilið til fulls hvað föðurland er. Það er erfitt að meta landið ef maður er alltaf umlukinn því. Maður saknar hlutanna ekki fyrr en maður hefur misst þá, saknar fólksins síns ekki ef maður umgengst það dags daglega.

Ég hef oft verið spurður hvort ég sakni ekki Íslands. Standard svarið hefur verið nei, ég sakna landsins ekki en ég sakna fólksins. Þetta er samt ekki svona einfalt. Þegar ég var á Íslandi siðasta sumar naut ég landsins jafn mikið og fólksins. Ég dró djúpt andann og fann lyktina af íslenskri náttúru. Ég horfði í kringum mig og dáðist af þessu stórbrotna og stórkostlega landslagi. Ég gerði eins og páfinn, lagðist í jörðina og faðmaði landið mitt. Ég naut þess að hlusta á útlendingana sem komu með, talandi um hvað litirnir í íslenskri náttúru væri sérstakir. Ég tók eftir að það skipti ekki máli hvort við stæðum frammi fyrir sandauðnum eða fjöllum, samspil náttúrunnar var það sem gerði ísland stórkostlegt.

Mig hafði lengi grunað þetta, en ég fékk staðfestingu á því að Ísland, og ekkert annað land, er land mitt og ég mun koma heim einhvern daginn. 


Sluppum...

Það er merkilegt hvað lífið getur verið brothætt. Ég fór að hugsa um þetta í gærkvöldi eftir að líf okkar breyttist næstum því.

Þannig var að við vorum í Haarlem að versla. Það var orðið dimmt þegar við keyrðum út á hraðbrautina á leið heim. Það byrjaði að rigna. Eins og gengur í Hollandi var töluverð umferð. Hámarkshraði þar sem við vorum er 120KM, en þar sem var dimmt og rigningin að versna keyrði fólk eitthvað hægar. Regnið versnaði enn og skyggni var orðið slæmt. Við vorum að nálgast slaufu og þar var röð af rauðum ljósum. Ég hægði á mér, var kominn niður í 90, held ég. Allt í einu var eins og öll umferð á hægri akreininni snarstoppaði. Ég var á vinstri akreininni, en sá sem var rétt á undan mér hægra megin lenti aftan á röðinni. Hann hentist yfir á vinstri akreinina. Við sluppum, en þetta var sentimetraspursmál. Hann fyllti upp í baksýnisspegilinn. Ég vona að sá sem var á eftir mér hafi náð að stoppa og ekki lent á honum. Við keyrðum áfram. Það ver engin ástæða til að stoppa. Það var umferðaröngþveiti þarna og nóg af fólki ef einhvern vantaði hjálp. Allir eru með síma, svo það er engin spurning að kallað hefur verið á hjálp. Við hefðum bara verið fyrir.

Ég fór að hugsa um það sem hafði gerst. Ég vona innilega að enginn hafi meiðst. Ég er líka feginn að við lentum ekki í þessu, að ég var ekki fimm metrum aftar en ég var. Þá hefðum við lent í hörkuárekstri, sennilega hraðbrautasúpu. Mér er nokkuð sama um mig, ég hefði verið í lagi með beltið og loftpúðann, en það er ekki hægt að segja það sama um konuna sem sat við hliðina á mér, komin rúma átta mánuði á leið. Hvað hefði gerst, hefði beltið hjálpað eða gert hlutina verri? Hvað gerir beltið þegar það þrýstir á bumbuna? Ég vildi ekki hugsa það til enda.

Það er svo merkilegt hvað hlutirnir geta breyst snögglega. Hvað ef... ?

Við erum í lagi. Ég vona að enginn hafi slasast, allavega ekki alvarlega. 


Spáin fyrir 2007

Halló öll og Gleðilegt Ár! Seint í rassinn gripið að segja þetta núna þegar þrettándinn er innan seilingar, en það er bara svona. Ég ákvað að taka mig frekar hátíðlega og setja inn færslu á nýársdag, eitthvert Nýársávarp sem yrði svo fastur liður um alla framtíð, en tíminn var ekkert að bíða eftir mér. Sem sagt, hátíðleikinn fokinn og það er bara fínt.

Ár hvert er málið að strengja áramótaheit, en ég ákvað að sleppa því í ár. Árið 2007 verður ár breytinga svo ég læt það bara koma og við sjáum hvað eftir stendur í árslok. Hvað mun breytast? Einfalda svarið er allt, en hér er smá útskýring.

Til að skilja það sem er að gerast er best að fara í gegn um það sem þegar er breytt. Árið 2004 hóf ég nám í kvikmyndagerð. Það er búið og ég hef verið að byggja upp dæmið síðan. 2006 var undirbúningsárið mikla. Ég sagði upp góðri vinnu og tók stórt stökk inn í fjárhagslegt óöryggi. Spurning hvort ég hafi verið of fljótur á mér, en málið er að ég hefði ekki komið neinu í verk hefði ég haldið áfram. Kvikmyndir eru samt bara lítill hluti. Það er ungi á leiðinni og það þýddi að við þurftum að taka húsið í gegn. Eldhúsið var orðið einhverra áratuga gamalt. Unginn þarf herbrgi svo tómstundaherbergið þurfti að fjúka. Við erum búin að vera í byggingavinnu síðan í september, fyrst í eldhúsinu, síðan á háaloftinu þar sem tölvurnar eru nú og núna erum við að klára barnaherbergið.

Það er ekki hægt að segja að manni leiðist. Vinna, viðhald (ekki önnur kona samt) og breytingar og svo kvikmyndadæmið. 24 tímar á dag eru ekki nóg. Í gær var ég að vinna á Schiphol frá 5 um nótt til 2 eftir hádegi. Síðan var ég á fundi þar sem nýja fyrirtækið sem verður stofnsett á mánudag var rætt. Við ræddum líka um verkefnin sem framundan eru. Þar á meðal er heimildamynd um Rúmeníu, um Amsterdam-Dakar keppnina, einhverjar hljómleikamyndir og heimildamynd um hluti sem gerðust á Íslandi um aldamótin 1900. Svo erum við líka að plana íslenska framhaldsþætti, en framtíð þeirra veltur á því hvernig hugmyndinni verður tekið heima. Ég var kominn heim um 7, borðaði og fór svo í að svara emilum frá fólki sem er að taka þátt í stuttmyndinni og myndinni um Rúmeníu. Dagsverkinu var lokið um 21:30. Ég held ég hafi verið sofnaður rétt eftir tíu. Þetta er bara ósköp venjulegur dagur. Ég vona innilega að þetta dæmi fari að skila einhverju af sér.

Árið eins og það lítur nú út er einhvernvegin svona:
Janúar - fjárlögin fyrir Rúmeníu eru tilbúin.
lok-Janúar - tónlistin er tilbúin.
4. Febrúar - nýr einstaklingur kemur í heiminn.
mið-Febrúar - stuttmyndin er tilbúin.
lok-Febrúar - stuttmyndin hefur verið skoðuð og fínpússuð og er tilbúin fyrir DVD.
Mars - undirbúningi Rúmeníu lokið.
mið-Mars - DVD diskurinn er tilbúinn og stuttmyndin er tilbúin til dreyfingar.
2. Apríl - stuttmyndin frumsýnd.
Apríl - unnið að íslenskri heimildamynd.
Maí - upptökur í Rúmeníu.
Maí - undirbúningur framhaldsþáttanna hafinn.
Júní - undirbúningur að kvikmynd hafinn.
Júlí - Rúmenía tilbúin.
Ágúst - Amsterdam-Dakar (ég fer sennilega ekki með).
Ágúst - Rúmenía tilbúin til dreifingar.

Ég þori ekki að plana lengra. Ég vona að þetta gangi upp og ég sé ekki að drepa sjálfan mig. Það er að vísu svo að þó ég sé að mestu leyti sjálfur að vinna í þessum verkefnum enn sem komið er, mun ég fá annað fólk til að axla ábyrgð á nýja árinu. Þannig er ég í sambandi við fyrirtæki í Rúmeníu sem er að vinna í fjáröflun, við kvikmyndagerðarmann þar sem mun sjá um tökur og fyrirtæki í Rotterdam sem mun hjálpa til við undirbúning og að afla þekkingar. Það sama mun gerast á Íslandi þegar undirbúningur að framhaldsþáttunum hefst. Ég vil líka finna gott fólk í íslensku heimildamyndina. Ég fer ekki með í kappaksturinn (held ég). Þetta virðist því vera að færast meira í áttina að framleiðslu. Við sjáum til. Svo er bara að sjá hvort beibið éti upp allan minn tíma.

Hvort sem 2007 verður gott ár eða ekki, er það alveg a hreinu að það verður ekki langdregið. Ég býst við að halda upp á 2008 í næstu viku. 


Gleðileg Jól

Jólin voru einn af þessum föstu hlutum í lífinu. Þau voru alltaf á sama tíma og þau voru alltaf eins. Við fórum í kirkjugarðinn til að heilsa upp á liðna ættingja og fórum svo í bíltúr að smala pökkum. Stundum kom fólk með pakkana sjálft. Það var horft á teiknimyndir, því það virðist sem tíminn hafi liðið hægar í þá daga. Aðfangadagur var auðvitað sá dagur sem lengst var að líða. Klukkan sló svo sex og allir settust við borðið og átu lambahrygg. Svo voru það pakkarnir, konfekt, smákökur. Á jóladagsmorgun var svo fengið sér heitt súkkulaði með smákökum í morgunverð.

Jólin voru alltaf eins. Einu sinni borðuðum við svín og það komu engin jól. Ekki af því að svínið hafi verið slæmt, það var bara ekki jólamaturinn.

Ég flutti erlendis 1993 en ég sá til þess að ég kæmist heim um jólin. Það breyttist þegar ég flutti til Hollands. Nú var maður farinn að búa og þurfti að útskýra, rökræða og hliðra til. Jólin komu ekki lengur á aðfangadag, heldur á jóladag. Pakkarnir voru opnaðir þegar allir sáu sér fært að vera á einum stað í einu, stundum þremur dögum eftir jól. Það var erfitt að útskýra fyrir íslendingunum heima hvers vegna maður væri ekki búinn að opna gjafirnar sem þau höfðu sent.

Nú er komin einhver regla á þetta. Jólin koma ennþá á jóladag. Þau fatta aðfangadag ekki. Þau fara alltaf í kirkju á aðfangadagskvöld, svo að þau eru í allt annari pælingu. Á jóladag hittumst við svo, étum og opnum pakka. Ég verð að gefa konunni það að hún gerir sitt besta á hverju ári til að koma einhverjum hátíðarbrag á jólin, en það vantar bara eitthvað hér í Hollandi. Kannski er það af því að fólk skreytir voða lítið. Kannski þriðja hvert hús hér í götunni er skreytt ljósum, þau eru öll hvít og slökkt á þeim á daginn. Sum blikka. Kannski er þetta ekki þeim að kenna. Það er lítil hefð fyrir jólum í Hollandi. Er þetta kannki einhver fortíðarþrá í mér. Kannski eru það ekki ljósin og lambið sem maður saknar á jólum.

Jólin eru eins falleg eða eins óspennandi og við gerum þau. Jólin eru ekki hátíðleg að sjálfu sér. Jólin, eins og lífið, eru það sem við gerum úr þeim. Verum góð við hvort annað um jólin og á nýju ári.

Gleðileg Jól! 


Tunglmyrkvi 337

Tunglmyrkvi

Ofboðslega getur heimurinn verið spennandi! Ég var að tékka á hvenær fullt tungl verður á næstunni. Það er nebbla þannig að kérlingabækurnar segja að börn eigi það til að fæðast við slík tækifæri. Þar sem tilvonandi afkvæmi undirritaðs er væntanlegt innan tveggja mánaða vildi ég sjá hvaða dagsetningar væru líklegastar.

Ég komst að þvi að almyrkvi verður 3. mars 2007. Hann verður vel sýnilegur í Evrópu ef veður leyfir. Þetta fannst mér voða spennandi og hef lesið heilmikið um þetta fyrirbæri. Spurning með að beina HD camerunni í átt að tunglinu og ná góðu vídeói af þessu. Gæti verið gaman.

Þetta er tíminn (CET þar sem ég er á meginlandinu). Ég held að íslendingar þurfi að draga klukkutíma frá.

                   Total Eclipse of the Moon

                   Zone:  1h East of Greenwich

                                                      Moon's
                                                Azimuth   Altitude
                                     h  m            o        o
Moonrise               2007 Mar 03  19:04          81.8     ----
Moon enters penumbra   2007 Mar 03  21:16.4        81.0     31.2
Moon enters umbra      2007 Mar 03  22:30.0        78.6     49.0
Moon enters totality   2007 Mar 03  23:43.8        71.6     66.7
Middle of eclipse      2007 Mar 04  00:20.9        61.4     75.2
Moon leaves totality   2007 Mar 04  00:58.0        29.5     82.1
Moon leaves umbra      2007 Mar 04  02:11.7       295.1     74.3
Moon leaves penumbra   2007 Mar 04  03:25.4       281.6     57.0
Moonset                2007 Mar 04  07:24         275.3     ---- 


Maður án nafns II - The Möppudýr Strikes Again

Eins og hægt var að lesa hér, áttum við í smá veseni við möppudýr hér í Hollandi þegar við vildum votta að hinn óborni ungi sé minn og að ég muni koma til með að sjá um hann. Möppudýrið á skrifstofunni vildi meina að ég héti ekkert og án nafns gæti ég ekki átt barn. Ekki að ég væri alveg nafnlaus, heldur að ég bæri ekkert eftirnafn. Ég skal fúslega viðurkenna fyrir hverjum sem er að ég ber ekki ættarnafn, en að ég hafi ekki eftirnafn er auðvitað bara della.

Það var sem sagt engin leið að fá "manninn" til að skilja að eftirnafn mitt væri eftirnafn. Ég hafði samband við Þjóðskrá (takk mamma) og þau sendu mér bréf á ensku sem vottar að Ásgeirsson sé eftirnafn mitt. Glæsilegt, hugsa ég með sjálfum mér og panta tíma hjá Sýslumanni. Við þurfum bæði að mæta, svo hún tók sér frí í vinnunni í tilefni dagsins. Við mætum á sýslumannsskrifstofu klukkan níu með vegabréfin og hið gullna bréf merkt Þjóðskrá.

Til að gera stutta sögu langa get ég sagt að þetta gekk ekki upp. Við sáum sama möppudýrið standandi þarna. Hann sagði góðan morgunn án þess að meina það. Tók vegabréfin og pappírana og ljósritaði og spurði svo hvenær við vildum koma til að votta faðernið. Núna, segi ég og velti fyrir mér hvaða bull sé nú í gangi. Nei, það er ekki hægt. Ef ég leiðrétti eftirnafnið þitt í kerfinu verðum við að bíða þangað til á morgun. Ókei, slepptu þá að leiðrétta nafnið og vottum faðernið. Ég get komið seinna án hinnar óléttu móður til að leiðrétta kerfið. Nei, það er ekki hægt. Það verður að leiðrétta kerfið fyrst og það tekur dag. Af hverju sagður þú það ekki fyrr? Hún tók sér frí til að koma hingað. Af hverju spurðir þú ekki, svaraði hann og snéri við í átt að tölvunni. Hann pikkaði eitthvað og sagði svo að við gætum komið afur á morgun til að votta faðernið.

Við létum hann heyra að við værum ekki sátt og snérum við til að fara. Viljið þið bóka tíma til að ganga frá faðerninu, heyrði ég rödd hans segja fyrir aftan okkur. Nei, sagði ég, fyrst verður hún að sjá hvenær hún getur tekið sér frí aftur. Verður sennilega í desember, bætti hún við. Gleðileg jól.

Nú er bara að sjá hvenær hún kemst úr vinnu til að redda þessu. Ég hefði getað farið í gær til að ganga frá nafninu svo að allt væri klárt í dag. Máli er bara að þessi mannfýla virðist hafa gaman að því að gera fólki lífið leitt. Skiptir ekki máli, við göngum frá faðerninu og kvörtum svo í sýslumann. Þessi maður er ekki starfi sínu vaxinn. 


Samferða...

Ég var að taka til á háaloftinu. Það þarf að búa til pláss svo að unginn komist fyrir þegar þar að kemur. Það er mikið að gera, tonnum af gömlum blöðum og tímaritum er hent og allt gamla draslið sem maður þurfti svo á að halda en gleymdi svo er fokið. Það er nefninlega alveg merkilegt hvað maður er góður að safna að sér rusli.

Það er samt annað sem situr eftir, eftir svona dag. Ég fann kassa með bréfum sem mér voru send í gegn um árin og hélt að væru löngu týnd. Elstu bréfin eru yfir tuttugu ára gömul. Þetta eru bréf frá skólafélögum á Skógum og Laugavatni. Seinni bréf voru send þegar ég var í London um miðjan síðasta áratug. Einhver eru yngri en það, en tölvupóstur fór að taka við um 1997.

Það er merkilegt hvað maður kynnist mörgum persónulega, verður vinur og býst við að þekkja viðkomandi það sem eftir er, en svo dettur þetta allt upp fyrir. Það hjálpar sennilega að hafa flakkað svona um því þetta er fólk frá Bretlandi, Þýskalandi, Ástralíu, Póllandi, Svíþjóð, Írlandi og fleiri löndum. Svo eru það bréfin frá íslendingum, fjölskyldunni sem er núna allt of langt í burtu. Þetta er eins og að ferðast aftur í tímann.

Stundum er ég ekki viss um að ég hafi tekið rétta ákvörðun með að flytjast úr landi. Af hverju var ég að yfirgefa allt og alla? Hitt er svo annað mál að hefði ég ekki farið, hefði ég ekki kynnst mörgum af bestu vinum mínum. Vinum sem ég hef ekki lengur samband við og sakna þegar ég er minntur á þá.

Af hverju hættum við að vera í sambandi við fólk sem okkur er kært um? Er einhver sem veit það?

PS! Endilega lesa þessa færslu og kjósa svo. 


Maður án nafns

Hollendingar eru klikk og ef ég væri ekki fastur hér kæmi ég heim hið fyrsta. Spurning með að búa til eitthverja áætlun, plan sem miðar að því að koma manni heim. Spurningin er svo hvort Ísland sé eitthvað betra. Veit ekki, því þar sem möppudyrin skjóta rótum er voðinn vís.

Þannig er mál með vexti að það er ungi á leiðinni. Hann eða hún á að koma í heiminn í byrjun febrúar. Þetta er þó komið það langt að ef unginn kemur í heiminn núna, eru góðir möguleikar á að hann spjari sig bara fínt og vaxi úr grasi. Það var því kominn tími á að "viðurkenna" faðernið. Ef maður er ógiftur á maður ekkert tilkall til barnsins. Komi eitthvað fyrir mömmuna er pabbinn réttlaus og foreldrar hennar fá forræði. Móðurbróðirinn á meira tilkall til barnsins. Fjarskyld frænka mömmunnar á meira tilkall. Það þarf því að "viðurkenna" faðernið áður en unginn kemur í heiminn.

Við fórum til sýslumanns í gær til að ganga frá þessu formsatriði. Ætti ekki að vera stórt mál, nema skriffinnska setji strik í reikninginn. Í þessu landi er lítil hætta á öðru. Við vorum spurð hvað barnið ætti að heita. Furðu lostin sögðumst við ekki vita það. Nei, ættarnafnið. Ó, ég skil. Ættarnafn dömunnar er ekki yfir drifið fallegt, svo við völdum föðurnafn mitt. Í Hollandi getum við ekki fylgt íslenskum reglum, svo ég get ekki kennt barnið við mig. Við erum send inn í einhverja kompu, þar sem við bíðum í góðan hálftíma. Þá kemur sleggjan.

Möppudýr kemur inn í kompuna og segir að það sé vandamál. Allt í lagi, hugsa ég. Eitthvað formsatriði sem hægt er að leysa. Onei. Málið er að föðurnafn mitt er ekki ættarnafn. Ég má ekki búa til ættarnafn úr því, samkvæmt íslenskum lögum. Þar fyrir utan er einn reitur fyrir nafn á íslensku fæðingarvottorði og þar stendur mitt fullt nafn. Það er því ekki sagt skýrum stöfum hvað eftirnafnið er. Ég heiti því þremur eigin nöfnum og er á eftirnafns. Ef ég streytist á móti og krefst þess að mitt nafn verði notað, mun unginn fá eigið nafn og svo mitt fullt nafn sem eftirnafn. Nema að það eru eigin nöfn og ekki ættarnöfn og því má það ekki. Möppudýrið snérist því í hringi en lét okkur vita að hann gæti ekki hjálpað okkur. Ekki nema barnið fengi ættarnafn móðurinnar. Á þessu stigi vorum við orðin harðákveðin að það myndi ekki gerast.

Þetta er sem sagt möppudýravandamál á versta stigi og eins og hollendingum er lagið er svarið, því miður getum við ekkert gert. Bless. Það besta var að hann fór að líkja þessu við það hvernig múslímar blanda saman nöfnum pabbans, afans og langafans. Þannig átti ég að skilja að það sé ekki hægt að þjóna endalausum sérhagsmunum minnihlutahópa. Ég sagði honum að þetta hefði ekkert með múslíma að gera, ég væri ekki að blanda neinu saman og hvort hann vildi ekki bara skella eftirnafi mínu á barnið. Nei, það var ekki hægt.

Það er vonandi að svör og lausn fáist á Íslandi, því hér er enga lausn að fá. Frekar en fyrri daginn. 


Umturn

Ó hvað það hata mig allir. Allir segja að ég sé svo heimskur og að ég sé að henda öllu frá mér og að ég sé að setja fólk í stórhættu. Það er eins og það sé 1943 og ég sé með gyðing í kjallaranum eða 1437 og ég sé að telja páfa trú um að jörðin sé kúla, þvílíkur er óttinn. We are all going to die!!! Eitthvað svoleiðis.

Þetta hefur sennilega eitthvað með heilaþvott, kaþólisma, Bildenburg, kassalaga hausa eða bara hreinan aulaskap að gera. Annars er þetta sennilega bara mismunandi hugsanagangur mismunandi þjóða. Svona er málið...

Eins og alþjóð varla veit er ég að hætta í vinnunni. Ég hef unnið á þessari skrifstofu í næstum fimm ár og safnað spiki. Ég hef lært að vera ekki fyndinn, vera ekki með læti, taka heiminum eins og hann er og trúa því að hlutirnir séu bara alveg eins og þeir eigi að vera og að allt sé samkvæmt áætlun. Ég hef samþykkt og þakkað fyrir að vera í fastri vinnu þar sem ég þarf að spyrja fallega hvort ég megi fara með konunni í ómskoðun. Ég hef líka lært að þakka fyrir mig ef svarið er nei af því að vinnufélagi bað um frí tíu mínútum fyrr. Sem sagt, ég er aumt, feitt og sveitt möppudýr sem lætur taka sig aftan frá svo það missi nú ekki vinnuna sem það vill svo sem ekkert vera í en þorir ekki öðru.

Mér fannst komið nóg. Ég fór í skóla og lærði eitthvað nýtt. Ég komst að því að ég er bara alls ekkert svo lélegur í nýja faginu og ákvað að taka það alvarlega. Ég talaði við bossann og það varð úr að ég myndi fara að vinna þrjá daga í viku. Helvískt fínt þar sem ég héldi einhverri innkomu en hefði líka tíma til að sinna nýja faginu. Það kom svo á daginn að einhverjum var ekki alvara, eða hafði bara skipt um skoðun, og mér var sagt að ég myndi sko bara vinna fimm daga í viku. Ég hélt ekki og sagði upp. Loforð á að standa við og mér fannst ég vera svikinn af bossanum.

Síðasti dagurinn í vinnunni er á fimmtudag og það er eins og himinn og jörð séu að farast. Hollendingarnir trúa því bara alls ekki að hlutirnir eigi eftir að ganga upp. Ég á örugglega eftir að fara á hausinn og ég mun draga konuna og ófæddan ungann með mér til helvíts. Er ég svona fáránlega bjartsýnn eða eru hollendingarnir skræfur sem búið er að berja allan karakter úr keð kassalaga kirkjudeildum og aldagömlu konungsveldi? Það er spurning. Það er svo sniðugt að allir hér eru stórhneykslaðir á mér en fjölskyldan heima (íslendingarnir) segja allir að ég hafi tekið rétta ákvörðun. Hollendingunum finnst ég hafa átt að taka þessu og finna mér vinnu áður en ég sagði upp. Það er svo mikið öryggi í því.

Merkilegur, þessi munur á þjóðunum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband