Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
31.12.2007 | 11:41
Nýársvarp
Góðir íslendingar og aðrir,
Nú árið er liðið, að mestu. Þetta hefur sennilega verið hraðskreyðasta ár í mínu lífi. Ég man hvernig ég drakk mig ekki fullan í síðustu viku til að halda upp á hið nýja ár, 2007. Ég man hvernig ég pikkaði færslu þar sem ég sagði frá öllu því sem ég ætlaði að gera á árinu. Það varð auðvitað ekkert af neinu, nema að ég man eftir að hafa farið á klósettið einu sinni. Restin er eitt stórt blör, svört hola sem gleypti allt. Þannig lagað.
Á árinu 2007 var ég með svipað í tekjur og fyrstu tvo mánuði 2006. Ég sagði nebbla upp vinnunni og ákvað að gerast kvikyndagerðarmaður. Það hefur ekkert með pening að gera, virðist vera, því ég fór í hlutastarf og það er ennþá að borga reikningana... þannig lagað. En var 2007 gott ár? Sjáum til.
Í janúar fæddist unginn. Ég var varaður við að hann myndi umturna öllu og að áætlanir mínar myndu breytast hraðar en. Það var rétt. Hann er sætur og góður, en étur upp allan minn tíma, fyrir utan það þegar ég er að rembast við að nappa pening á Schiphol flugvelli. Kvikmyndagerð? Þetta er að breytast í tómstundagaman án tómstunda. Við komum í heimsókn til Íslands í apríl til að halda upp á afmæli afa. Sambúð vor var vígð í Skotlandi í júní. Kisan dó í haust og við fengum okkur nýja.
Ekki gerði ég heimildamynd um Rúmeníu. Stuttmyndin var ekki tilbúin fyrr en í ágúst. Kvikmyndin í fullu lengdinni er ekkert annað en hálfklárað handrit. Ég hjálpaði þó við gerð tveggja hljómleikamynda þar sem gamlir raggíguðir frá Jamæku komu fram í Hollandi, þeir Winston Francis og Alton Ellis. Einnig gerði ég tólf myndbönd fyrir hollendinginn Rick Treffers, sem eru sýnd meðan hann spilar lög af nýútkomnum diski sem enginn hefur heyrt. Við erum svo að fara út í að gera alvöru myndband við lag af diskinum fyrrnefnda.
2008? Veit ekki. Ég er hættur að rembast, í bili. Handritið er enn í vinnslu og ég er með slatta af hugmyndum, svo einn daginn verður myndin gerð. Svo hitti ég stelpu um daginn. Við fórum að tala og það fæddist hugmynd. Gæti verið stórskemmtilegt. Hvað gerir geimvera á jörðinni ef hún kemst ekki til baka? Þessi hugmynd varð til eftir að Svarti Sandurinn fór á netið. Við vildum sjá hvort hægt væri að taka það dæmi, dreifingu á netinu, lengra. Meira um það seinna, en ef þú veist hvað strönduð geimvera myndi gera meðal oss, láttu endilega vita.
Sem sagt, 2007 skilur eftir blendnar tilfinningar og 2008 er óvissan ein. Sjáum til.
Vér óskum öllum óbrenndra áramóta og gleðilegs árs.
Ráðleggur hvernig efna megi nýársheitin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.12.2007 | 09:42
Gleðileg Jól til allra!
Það er leiðinlegt að lesa um hve margir þurfa á hjálp að halda um jólin, en jafnframt gott að vita til þess að til er nóg af fólki sem vill hjálpa. Ég ætlaði að segja að það sé fórn að eyða jólunum í að sjá um aðra, langt frá ættingjum, en sennilega er það ekki rétt. Að hjálpa til hjá Hjálpræðishernum og öðrum er sennilega það mest gefandi sem hægt er að gera um jólin.
Ég sendi bestu kveðjur til allra, héðan úr hinu hvíta Hollandi. Ég þakka þeim 820 sem sótt hafa stuttmyndina og þeim sem hjálpað hafa á árinu sem er að líða.
Ég hefði viljað skrifa meira eða bara eitthvað skemmtilegra, en í kjöltu minni er smábarn sem var ekki komið í heiminn um síðustu jól, og það þarf athygli.
Allir eigi samastað um jólin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.12.2007 | 07:10
Stytta af ferjumanninum sem drukknaði
Síðan ég var barn hef ég vitað af því að langa-langafi minn, Runólfur Bjarnason, drukknaði í Iðu aðeins 37 ára gamall. Hann var þar ferjumaður. Langamma var ekki orðin fjögurra ára þegar hún missti föður sinn.
Það er fallegt að minnast þeirra sem fóru með sviplegum hætti. Það væri gaman að geta heiðrað Runólf einhvern tíma með styttu við bakka árinnar á þeim stað sem hann hvarf.
Runólfur Bjarnason var fæddur í Skurðbæ í Meðallandi, V-Skaft. 12. mars 1866. Hann lést 18. september 1903.
Minnisvarði um Jón Ósmann ferjumann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 07:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.10.2007 | 08:08
Júbbí
Við fundum hann liggjandi í ganginum á laugardagskvöld. Hann gat varla staðið upp. Ég fór með hann til dýralæknis. Hún fann blóð í þvaginu og vildi skoða hann betur, svo ég skildi hann eftir. Við skoðun kom í ljós að hann var með rifu á þvagblöðrunni og slitin liðbönd í vinstri afturlöpp. Það lítur út fyrir að hann hafi fengið mikið högg milli lappanna. Hann hefur sennilega dottið einhverja metra niður á eitthvað, eða einhver hefur sparkað í hann. Það er sennilega líklegast, því á liðböndunum var að sjá að höggið kom innan frá. Hann hefur því ekki orðið fyrir bíl eða lent milli stafs og hurðar. Hann var í góðu formi og svoleiðis kettir lenda yfirleitt á fótunum ef þeir detta. Hann hafði verið hjá dýra síðan um helgina og á mánudag leit út fyrir að hann myndi jafna sig, en hann dó um átta leytið.
Við munum sakna hans, en það er líka leiðinlegt að Mats mun ekki geta leikið við hann. Þeir voru farnir að dúlla sér saman. Júbbí vissi auðvitað af Mats frá upphafi, en Mats hefur verið að uppgötva hann á síðustu vikum. Stundum sá maður þá saman. Þá hafði Júbbí komið upp að Mats til að þefa eða hvað það er sem kettir gera, og þá hafði Mats gripið til hans. Ef Mats náði taki á honum var togað, en aldrei gerði Júbbí neitt til baka. Dýr eru svo skynsöm, þau skilja að um óvita er að ræða. Svo var svo sniðugt að sjá þegar Mats var í barnastólnum, fór Júbbí upp á afturlappirnar og þefaði af hendinni og fékk bros og hlátur þegar Mats fann fyrir blautu nefinu. Svo kom Júbbí oft þegar Mats lá í fanginu á manni. Hann vildi vera með og það tókst því Mats fór, eins og dáleiddur, að fitla við feldinn. Það var eins og þeir væru orðnir perluvinir.
Júbbí var næstum því 10 ára. Hann fæddist í nóvember 1997. Hann hefur því fylgt mér síðan ég kom til Hollands. Leiðinlegt að hann sé farinn.
Þá vitið þið það.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 08:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.4.2007 | 22:21
Summertime
It's summertime, and the living is easy...
Allavega hér í Hollandi. Ég held að opinber hiti hafi verið um 25 stig í dag, en mælirinn í garðinum fór í 33 stig. Mælirinn er í skugga. Þá er bara eitt að gera, grilla pulsurnar sem mamma kom með. Á laugardag var ég allan daginn á hestamannamóti að kvikmynda hross að hoppa yfir hindranir. Það er soldið fyndið fyrir íslending að gera þetta því hollendingarnir fara öðruvísi að. Hér eru engir pelar eða lopapeysur. Menn eru uppáklæddir í rauð föt og líta út eins og pínulitlir tindátar úr Napoleon stríðunum á risastórum hestunum.
Svo er ég að kynnast Mats betur og hann okkur eftir því sem hann eldist og þroskast. Ég hef tekið upp á því að vagga honum þegar hann er óvær. Ég set tónlist á og þá erum við bara tveir einir í heiminum. Það er ekki sama hvað spilað er, en Fade to Black með Dire Straits er vel þegið, lengri Pink Floyd lögin, Katie Meluha. Uppáhaldið er samt útgáfa Paul McCartney á Summertime. Þetta er skemmtilega hrá og blúsuð útgáfa og Mats róast um leið og hann heyrir upphafstónana. Hann er yfirleitt sofnaður þegar lagið endar. Merkilegt að hann skuli taka eitt lag fram yfir önnur, en svona er það samt.
Meira seinna. Nú þarf ég að fara að sofa. Löng vika framundan.
10.4.2007 | 07:56
Sjö að Morgni
Ég komst heim í þrjá daga helgina fyrir páska. Það var yndislegt að komast heim, það var verra að stoppa svona stutt. Ég hefði viljað hitta fleira af fólkinu sem ég þekki, eyða meira tíma með þeim sem ég hitti og kannski hitta nýtt fólk, eins og kannski einn eða fimm bloggara. Svo vildi ég hitta fólkið sem hjálpaði mér með myndina, en komst ekki í það. Ég hitti Jóel því hann þurfti að lesa inn texta sem verður í myndinni. Ég hefði viljað hitta Önnu Brynju, Sonju og alla hina. Það þýðir samt ekkert að kvarta. Ég fékk þrjá yndislega daga og þeir munu duga mér þangað til ég kemst heim næst.
Það er merkileg tilfinning að búa erlendis, að vera ekki innan um fólkið sitt. Ég er viss um að við vanmetum flest vini og fjölskyldu þegar við erum alltaf hangandi utan í hvoru öðru. Þetta er samt ekki svo slæmt. Að búa erlendis víkkar sjóndeildarhringinn og hjálpar manni sennilega að "finna" sjálfan sig. Mér finnst að flestir ættu að prófa það í ár eða svo. Þaður skilur sjálfan sig betur, þá sem eru manni kærir og landið sem maður er uppalinn í.
Eitt það besta sem ég gerði meðan ég var heima var að fara í göngutúr. Klukkan var sex að morgni og Mats, sem var í heimsókn hjá íslensku fjölskyldunni, vaknaði. Hann þurfti sína næringu. Mamman gerði skyldu sína og reyndi svo að sofna aftur. Mats var ekki á því og vildi vaka. Ég ákvað að fara fram úr og leyfa henni að sofa, enda tekur það á að sjá um svona lítið barn. Mats fór í vagninn og við fórum út. Við gistum hjá systur minni í Keilufellinu svo við röltum upp að kirkju, svo niður fyrir hana og niður að Elliðaánum. Mats var sofnaður svo ég rölti bara út í óvissuna og naut þess að hafa landið mitt undir fótum mér og hafa það út af fyrir mig. Ég mætti einhverjum skokkurum en þar fyrir utan var enginn á ferð. Myndavélin kom að sjálfsögðu með, eins og myndirnar hér sýna. Ég rölti niður með ánni að stíflunni og svo upp brekkuna og upp í hóla . Ég gekk Vesturbergið á enda og svo til baka. Þegar við komum til baka voru tveir tímar liðnir og við báðir endurnærðir eftir hreina loftið og hreyfinguna.
Ég gerði þetta því ég hafði tækifæri til þess. Ég man ekki eftir að hafa farið í margar gönguferðir meðan ég bjó heima. Spurning hvað maður gerir ef maður flytur heim
einhvern daginn, hvort maður kunni þá ennþá að njóta umhverfisins eins og nú.
Þið sem búið heima, njótið hvers annars, njótið umhverfisins og ef þið vaknið of snemma, farið fram úr og út að labba. Það er ekkert eins gott og að koma aftur heim eftir að hafa verið einn með sjálfum sér og landinu sínu snemma að morgni.
Og að lokum, takk fyrir athugasemdirnar sem ég hef lesið en ekki svarað á liðnum vikum. Ég les þær allar en svara ekki alltaf. Það á eftir að lagast.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 08:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.4.2007 | 22:23
Heimsborgarinn
Mats Kilian er búinn að koma í heimsókn til Íslands. Langafi hans varð 78 á mánudag og það var ekkert annað að gera en að gefa honum bestu afmælisgjöfina sem ég gat ímyndað mér. Við flugum heim á föstudag og eyddum helginni í faðmi fjölskyldunnar sem sér allt of lítið af okkur.
Flugið gekk vel. Mats svaf allan tímann, nema smá á bakaleiðinni, en þá brosti hann bara út að eyrum. Spurning hvort hann verði flugmaður.
Nú verð ég að hætta því hann er svolítið viðhaldsfrekur.
11.2.2007 | 09:38
Mats stækkar en myndin ekki
Fyrst er það Mats. Honum gengur vel að aðlagast heiminum. Stundum er hann ósáttur við okkur, sérstaklega þegar við tökum hann úr öllum fötunum, en hann er yfirleitt ljúfur sem lamb, eða kind eins og hollendingar kalla börn.
Svo var ég að horfa á myndina í gær. Hún er næstum því tilbúin. Það voru nokkrir smápunktar sem þurfti að lagfæra, en ég held við getum farið í litaleik um helgina og textun og DVD hönnun í næstu viku. Þetta er allt að koma. Ég held hún sé orðin eitthvað styttri en hún var. Er ekki viss.
Meira seinna. Ef einhver veit um tímastrekkingartæki vil ég endilega fá svoleiðis.
7.2.2007 | 12:02
Mats Kilian
Eins og þeir sem reynt hafa vita, tekur nýtt barn allan tíma frá þér. Vinna og barn, það er allt sem lífið snýst um. Það er samt allt í lagi þegar barnið er eins ljúft og Mats. Hann tekur lífinu með jafnaðargeði og er bara sáttur á meðan frumþörfunum þremur er sinnt, bleyjum, mjólk og svefni.
Amman í föðurætt kom í heimsókn og náði að taka fimmþúsund myndir. Ég held henni hafi bara litist vel á. Það var allavega nóg um Gucci, Gucci, Gucci hjá henni. Spurning hvort hún sé að lofa upp í ermina. Annars er þetta strákur og á að fá Boss eða Armani, ef maður er að fara út í eitthvað merkjabull.
Það er skrítið að verða pabbi. Þetta er reyndar í fyrsta skipti sem ég kalla mig það, 10 dögum seinna. Þetta er svo mikil breyting. Allt er breytt. Veit ekki hvernig á að lýsa þessu, en ef reynslumeiri pabbar lesa þetta, endilega skrifið athugasemdir svo ég geti lesið hvernig mér líður.
Meira seinna. Ætli sé ekki bleyja bíðandi. Og svo var ég að fá stuttmyndina frá klipparanum. Þarf að horfa á hana og sjá hvort hún sé tilbúin eða hvort ég þurfi að biðja um fínpússningu.
30.1.2007 | 11:03
Nýtt Líf
Ég var varla búinn að sleppa orðinu, segja að það væru níu dagar í heimsenda, þegar þrumurnar byrjuðu. Mamman var búin að fá nóg af því að líða eins og hvalur á þurru og unginn, af einstakri tillitssemi, ákvað að hjálpa mömmu sinni og koma í heiminn.
Mats Kilian fæddist í Amsterdam klukkan 22:28 á laugardagskvöld, 27 janúar 2007. Hann er voða sætur og góður, nema þegar hann er svangur, en þá á hann það til að láta heyra í sér.