Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
4.12.2008 | 07:39
Sjálfsmorð
Síðan kreppan skall á, fyrir rúmum tveimur mánuðum síðan, hefur mikið verið talað um krónur, evrur, pund, dollara, verðtryggingu, vexti og ábyrgð hinna og þessa. Ég man ekki eftir að hafa séð neina frétt um andlega heilsu þjóðarinnar. Það má vel vera að ég hafi misst af því, en málið er að við erum að stara svo mikið á peningana, eða vöntun á þeim, að við gleymum okkur sjálfum og hvoru öðru.
Skammdegið er skollið á. Þetta er erfiður tími fyrir marga í venjulegu árferði. Sjálfsmorðstíðni á Íslandi er með því hæsta sem gerist. Hefur einhver skoðað hvað er að gerast núna í kjölfar hrunsins? Er þeim að fjölga eða megum við eiga von á holskeflu eftir áramót?
Málið er að þegar einn maður tekur líf sitt, er það ekki hans einkamál. Hann dregur fjölskylduna, börn, forelda, systkyni og ástvini með sér inn í heim vonleysis. Það er líklegt að börn þeirra sem eigið líf taka muni aldrei ná sér að fullu. Eins og árar, megum við ekki við fjöldasorg á Íslandi í vetur.
Mikið sótt í úthlutun fyrir jólin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.10.2008 | 16:54
✝ Guðgeir Sumarliðason - minningargreinar
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.10.2008 | 23:02
.
Ég vaknaði upp við vondan draum í London fyrir 15 árum. Mig dreymdi að þú værir farinn. Þú, af öllum. Ég var svo langt í burtu og ég ég átti þér svo margt að þakka. Sem betur fer var þetta draumur. Þegar ég hringdi í þig var allt í lagi. Þegar ég kom heim naut ég þess að vera nálægt þér. Ég vissi hvað ég var heppinn að þekkja þig.
Ég sagði þér aldrei frá því hvað mig dreymdi. Það skipti ekki máli.
Þegar ég byrjaði að blogga, fyrir rúmum tveimur árum, vissum við að eitthvað var að. Vissum ekki hvað það var, en þér leið illa. Þegar ég kom heim um sumarið, vildi ég fara með þig austur í Meðalland svo þú gætir séð æskuslóðirnar einu sinni enn, en þú varst of veikur. Sem betur fer náðir þú þér aftur. Þú gast notið lífsins, þótt óverðursskýin neituðu að hverfa. Ég minntist aldrei á þig á þessari síðu. Ekki vegna þess að ég vildi það ekki, ég vildi öskra til alheimsins að þarna færi fallegasta manneskja sem ég hef nokkru sinni kynnst. Ég vildi enda hverja færslu á kveðju til þín. En ég gerði það ekki því ég vildi láta þitt stríð í friði. Leyfa þér að berjast án þess að draga athygli að því.
Ég sagði þér aldrei að allt sem ég hef gert síðan, var fyrir þig. Ég tileinkaði þér ekki stuttmyndina því þú varst enn meðal okkar. Þú ert það enn, sem betur fer. En ég vil að þú vitir að ég gerði hana fyrir þig. Þegar ég geri kvikmyndina verður hún tileinkuð þér því ég hefði aldrei fengið hugmyndina án þín. Ég væri ekki sá sem ég er án þess að hafa kynnst þér og lært af þér.
Ég er óendanlega þakklátur fyrir að hafa fengið að sýna þér Mats Kilian og sjá þig halda á honum. Ég mun aldrei gleyma litla augnablikinu áður en þið fóruð frá Skotlandi og þú komst inn í herbergi þar sem hann lá sofandi. Ég mun aldrei getað þakkað þér almennilega fyrir það, en þess þarf ekki.
Ég vildi að ég gæti verið hjá þér í nótt.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.10.2008 | 07:17
Daginn eftir...
Ólafur Ragnar gekk of langt og viðurkenndi það, bretinn brúni lét eins og fífl og mun tapa næstu kosningum, Ísland er í skítnum og framtíðin er björt.
Það sem mér fannst athyglisverðast í þessu viðtali var bjartsýnin. Það getur vel verið að þetta hafi verið silkiorð stjórnmálamanns, en ég vil trúa því sem ÓRG sagði. Íslendingar eru sterk þjóð og munu komast í gegn um þá erfiðleika sem framundan eru. Við lifðum Móðuharðindin af. Auðvitað voru það gallharðir bændur og sjómenn sem kölluðu ekki allt ömmu sína, en við þurfum ekki að gera annað en fara inn á vef íslendingabókar til að sjá hvað við erum náskyld þeim. Ég þarf ekki annað en að hugsa til afa sem nú háir sitt stríð og hans foreldra sem voru ekkert frábrugðin þeim sem horðu upp á allar sínar skepnur drepast, rúri öld fyrir þeirra fæðingu. Við erum sama fólkið og beit á jaxlinn þá, sama fólkið og lifði af sjö aldir í frosnum moldarkofum, sama þjóðin og mótmælti í Köben í den. Rassarnir okkar hafa kannski mýkst í Range Rover sætum undanfarinna ára, en við erum hörð inni við beinið.
Annað sem ÓRG minntist á er að við megum ekki missa fólk úr landi. Það hlýtur þá líka að þýða að komi týndu sauðirnir heim, séum við betur sett. Þar kæmi auðvitað tungumálakunnátta og þekking á umheiminum inn í landið. Ég er að spá í hugmynd sem gæti laðað okkur, íslendinga erlendis, heim. Ég blogga um það seinna.
Framtíðin er björt ef við tökum forfeður okkar til fyrirmyndar og stöndum saman.
Ólafur Ragnar: Ótrúleg ósanngirni breskra stjórnvalda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.8.2008 | 20:30
Loftur "ríki" Guttormsson klúðraði arfinum mínum
Krafðist arfs frá Noregskonungi sem lést á 14.öld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.7.2008 | 08:40
Ég er kona
Konan fór í viðskiptaferð til Tyrklands í gær og kemur aftur á fimmtudagskvöld. Við, strákarnir, erum einir heima. Amma er að vinna þessa daga, svo það er ekkert annað að gera. Þetta er svo sem ekkert í fyrsta skipti, því hún hefur þurft að fara til Ítalíu, Frakklands, Kína og fleiri landa síðan hann fæddist, fyrir tæpum 18 mánuðum. Hún fer svo til Búlgaríu í lok mánaðarins.
Kannski er mér treyst því það er engin önnur lausn í stöðunni. Kannski erum við bara minna gamaldags en sumir. Þetta gengur vel. Hann er ánægður, fær að éta, er settur í bælið og það er skipt á honum. Var settur í bað í gærkvöld. Allt eins og það á að vera. Ég neita því ekki að hún er betri í barnastússinu, en það er auðvitað bara eðlilegt, enda eru konur hannaðar með börn í huga, meðan við karlarnir eigum að fara út og ná í mammút í matinn.
En hvernig get ég verið að skrifa bloggfærslu ef ég er svona góður pabbi? Hvar er barnið? Hann situr hérna við hliðina á mér og hjálpar við að pikka. Séu ritvillur í textanum, eru þær hans!
Konan láti karlinn læra af reynslunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.4.2008 | 13:39
Kilian
Ég er hissa að það taki fólk ekki meira en 45 klst. að finna nöfn á barnið sitt. Við vorum lengur að því. Hér í Hollandi er það þannig að barnið þarf að vera komið með nafn strax við fæðingu. Mig minnir að ég hafi haft þrjá virka daga til að skrá hann hjá sýslumanni, og þá auðvitað undir fullu nafni.
Við sátum yfir barnanafnabókum síðustu þrjá mánuði meðgöngunnar. Nafnið mátti ekki vera sérhollenskt eða íslenskt. Það varð að virka alls staðar. Það var ekki svo auðvelt. Mörg hollensk nöfn er erfitt að bera fram og íslensk nöfn eru síst betri. Við fundum þó stráka- og stelpunöfn sem við vorum sátt við að lokum. Það var svo laugardaginn 26. janúar að ég fékk efasemdakast. Mamman var ekkert hress með mig. Þegar ég sagði að það væri bara seinna nafnið, andaði hún léttar. Ég fór á netið og leitaði eins og brjálaður maður. Ég fann nafnið, bar það undir hina óléttu og hún var himinlifandi. Mats Kilian fæddist svo 24 tímum síðar.
Rétta nafnið skiptir máli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.3.2008 | 11:36
Ég passa í dag og á morgun...
Mats er að verða 14 mánaða. Hann hefur verið meira og minna veikur, með kvef og flensur, síðan í október. Hann fer á dagheimili tvo daga í viku, á fimmtudögum og föstudögum. það er hægt að bóka að á sunnudegi er hann kominn með hor í nös og á mánudegi er hann með hita. hann er rétt að ná sér um miðja vikuna þegar hann fer aftur á dagheimilið og nær sér í næstu pest. Læknarnir segja að veturinn í ár sé sérstaklega slæmur, en að hann sé kannski viðkvæmari en gengur og gerist. 1. apríl verða teknir úr honum nefkirtlarnir. Þetta er rútínuaðgerð, á hverjum morgni fara fimm börn í þessa aðgerð á Spaarne sjúkrahúsinu í Hoofddoorp, þar sem hann mun fara.
Við eru að koma heim á sunnudaginn, svo það var ákveði að Mats færi ekki á dagheimilið í þessari viku. Við nennum ekki að vera með flensubarn á ferðalagi. Ég tók mér frí í vinnunni til að passa hann þessa tvo daga. Það er vonandi að hann verði sprækur i næstu viku.
Flensufaraldur vekur ugg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.2.2008 | 23:38
Sérstakt
Það er ekki oft sem ég blogga um fjölskylduna en ég ákvað að gera það núna. Bara lítið. Miriam, mamma Mats er í París, svo við erum bara tveir heima. Það þýðir samt ekkert að detta í bjór og snakk. Hann er allt of ungur.
Ég lét vatn renna í baðið, notalega heitt. Á meðan það var að gerast hitaði ég mjólk. Þegar mjólkin var orðin heit, setti ég smá (hvað heita hvítu flögurnar sem maður setur í barnamjólk?) út í, setti túttuna á og hristi vel. Svo greip ég litla svínið og fór upp stigann og inn á baðherbergi. Ég klæddi litla dýrið úr og setti það í baðið. Mikið var buslað og ég henti 15 gúmídýrum út í vatnið. Kisan kom og stökk up á brúnina. Það var auðvitað skett smá vatni á hana, en hún lét sig hafa það.
Þegar Mats var orðinn hreinn, var hann þurrkaður með handklæði sem hafði verið hitað á ofninum. Hann var svo klæddur í náttföt og settur í rúmið. Loksins fékk hann að drekka mjólkina. Hann sofnaði um leið og pelinn var tæmdur.
Það er eitthvað sérstakt við að hugsa um eigið barn. Ég hef aldrei séð sjálfan mig sem "barnafólk". Geri það ekki enn, en þau geta bara verið svo mikil krútt.
Þess má svo geta að kökumyndin var tekin í eins árs afmælinu, 27. janúar.
Pabbar auka hamingjuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.2.2008 | 09:35
Óttinn er ekki svo slæmur
Fyrir rúmu ári stóð ég uppi á þaki fjölbýlishúss og horfði niður. Það var ekkert öryggisnet, en ég ákvað samt að stökkva. Ég er ennþá í fallinu og veit ekki hvort ég muni lenda á fótunum. Það verður að koma í ljós.
Líf okkar er ekki svo langt. Klisja, en það er bara svoleiðis. Flest látum við eins og við höfum ótakmarkaðan tíma. Það kemur þó að því að lokastundin nálgast og þá getur verið erfitt að horfa til baka. Hvað gerði ég? Var líf mitt einhvers virði? Skil ég eitthvað eftir mig? Skiptir það einhvern einhverju máli hvort ég hafi lifað eða ekki? Börnin manns eru yfirleitt fegin að við höfum verið til og þar með gert þeim mögulegt að vera til, en lífið gengur ekki bara út á að vera útungunarvélar.
Það er gott að geta skapað, hvort sem það er í frístundum eða ekki. Það er örugglega gaman að hafa skapað merkilega hluti og sjá börn manns komast á aldur og uppgötva hvað "sá gamli/gamla" gerði. Það hlýtur að vera frábær tilfinning að gramsa í gamla dótinu uppi á háalofti og uppgötva óútgefna bók eftir afa sinn, eða kannski bara vel skrifuð bréf eða greinar. Þetta gat hann þá, hugsar maður og veltir fyrir sér því sem maður vissi ekki um gamla manninn. Maður fer aftur í tímann og kynnist fólki sem er farið.
Þegar ég kláraði Svarta Sandinn um daginn, hugsaði ég með mér, ef ég dey á morgun mun Mats ekki þekkja mig. Hann mun ekki muna eftir pabba sínum. Allt sem hann hefur eru ljósmyndir og það sem aðrir hafa sagt honum. Kannski hann myndi kynnast mér betur ef hann fyndi eintak af myndinni uppi á hálofti eftir 20 ár. En ég er ekkert að spá í að hrökkva alveg strax.
Það er gaman að lesa um framtak Ólafar. Ég vona að sem flestir finni þetta eitthvað sem gerir líf þeirra pínulítið meira virði með því að stökkva fram að brúninni, hvort sem það er gert með öryggisneti eða ekki.
Markmiðið að stíga inn í óttann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |