30.1.2007 | 11:03
Nýtt Líf
Ég var varla búinn að sleppa orðinu, segja að það væru níu dagar í heimsenda, þegar þrumurnar byrjuðu. Mamman var búin að fá nóg af því að líða eins og hvalur á þurru og unginn, af einstakri tillitssemi, ákvað að hjálpa mömmu sinni og koma í heiminn.
Mats Kilian fæddist í Amsterdam klukkan 22:28 á laugardagskvöld, 27 janúar 2007. Hann er voða sætur og góður, nema þegar hann er svangur, en þá á hann það til að láta heyra í sér.
26.1.2007 | 09:06
Níu dagar í heimsendi
Heimsendir er útreiknaður þann 4. Febrúar 2007, á sunnudaginn eftir viku. Það er allavega heimsendir hvað mitt gamla líf varðar. Það er dagurinn sem unginn ætti að láta sjá sig. Allt mun breytast, ekki spurning. Það er kannski hægt að segja að síðustu mánuðirnir hafi verið æfing, þar sem við höfðum allt of mikið að gera við að lappa upp á hluti, lagfæra og endurnýja eldhúsið.
Alla vega, þetta er komið á tíma. Ef allt fer eins og ætlast er til, verður húsið orðið hávaðasamt og lyktandi innan örfárra daga. En hvað tekur við? Barnið veit það ekki ennþá, en það er auðvitað hálfur íslendingur. Það þýðir tvær fjölskyldur með ólíkan bakgrunn og tungumál. Ættingi minn á Íslandi varaði okkur við tungumáladæminu. Málið er að börn fædd erlendis tala oft ekki tungumál fjarfjölskyldunnar og ef þetta er ekki enskumælandi land, eru miklar líkur á að það geti alls ekki talað við ættingja sína.
Ég hef verið að lesa greinar um þetta og þær mæla með því að foreldrarnir tali eigin tungumál við barnið. Hún hollensku og ég íslensku. Við verðum að vanda okkur því að barnið notar okkur til að skilja tungumálin að. Ef ég tala hrærigrautinn sem ég tala núna, sambland þriggja tungumála, mun barnið ruglast, ekki skilja hvaða tungumál er hvað, og lenda í erfiðleikum seinna. Þá stend ég frammi fyrir tveimur vandamálum. Ef ég tala bara íslensku, hvernig tjái ég mig við fólk hér? Það sem verra er, það er ótrúlega erfitt að tala íslensku eftir að hafa verið erlends í 14 ár. Þegar ég kem heim stama ég og hika í nokkrar múnútur áður en móðurmálið kemst í gang. Það er ekki erfitt, því það eru allir að tala þetta í kringum mann. Að rausa þetta einn útí heimi er allt önnur gella. Spurning með að kenna beibinu ensku og fá ættingjana til að senda barnaefni með íslensku tali, svo það sé bara formsatriði að komast inn í málið seinna. Veit ekki.
Annars er baðið komið í hús. Ójá, þetta verður fæðing í vatni. Betra svona, því hollendingar eru strangir á því að fólk fæði heima hjá sér.
PS. Myndirnar tók ég hér í Halfweg í desember.
Seinna!!!
18.1.2007 | 10:44
Föðurland
Föðurland. Hvað er það? Ég skil að það er yfirleitt landið þar sem maður fæddist, þar sem rætur manns eru. Manni líður vel þar og þekkir til. Maður skilur tungumálið og almenna siði. En föðurland er eitthvað miklu meira.
Ég get ekki ímyndað mér að fólk sem býr allt sitt líf í heimalandi sínu geti skilið til fulls hvað föðurland er. Það er erfitt að meta landið ef maður er alltaf umlukinn því. Maður saknar hlutanna ekki fyrr en maður hefur misst þá, saknar fólksins síns ekki ef maður umgengst það dags daglega.
Ég hef oft verið spurður hvort ég sakni ekki Íslands. Standard svarið hefur verið nei, ég sakna landsins ekki en ég sakna fólksins. Þetta er samt ekki svona einfalt. Þegar ég var á Íslandi siðasta sumar naut ég landsins jafn mikið og fólksins. Ég dró djúpt andann og fann lyktina af íslenskri náttúru. Ég horfði í kringum mig og dáðist af þessu stórbrotna og stórkostlega landslagi. Ég gerði eins og páfinn, lagðist í jörðina og faðmaði landið mitt. Ég naut þess að hlusta á útlendingana sem komu með, talandi um hvað litirnir í íslenskri náttúru væri sérstakir. Ég tók eftir að það skipti ekki máli hvort við stæðum frammi fyrir sandauðnum eða fjöllum, samspil náttúrunnar var það sem gerði ísland stórkostlegt.
Mig hafði lengi grunað þetta, en ég fékk staðfestingu á því að Ísland, og ekkert annað land, er land mitt og ég mun koma heim einhvern daginn.
10.1.2007 | 22:21
Mig langar í svona
7.1.2007 | 10:26
Sluppum...
Það er merkilegt hvað lífið getur verið brothætt. Ég fór að hugsa um þetta í gærkvöldi eftir að líf okkar breyttist næstum því.
Þannig var að við vorum í Haarlem að versla. Það var orðið dimmt þegar við keyrðum út á hraðbrautina á leið heim. Það byrjaði að rigna. Eins og gengur í Hollandi var töluverð umferð. Hámarkshraði þar sem við vorum er 120KM, en þar sem var dimmt og rigningin að versna keyrði fólk eitthvað hægar. Regnið versnaði enn og skyggni var orðið slæmt. Við vorum að nálgast slaufu og þar var röð af rauðum ljósum. Ég hægði á mér, var kominn niður í 90, held ég. Allt í einu var eins og öll umferð á hægri akreininni snarstoppaði. Ég var á vinstri akreininni, en sá sem var rétt á undan mér hægra megin lenti aftan á röðinni. Hann hentist yfir á vinstri akreinina. Við sluppum, en þetta var sentimetraspursmál. Hann fyllti upp í baksýnisspegilinn. Ég vona að sá sem var á eftir mér hafi náð að stoppa og ekki lent á honum. Við keyrðum áfram. Það ver engin ástæða til að stoppa. Það var umferðaröngþveiti þarna og nóg af fólki ef einhvern vantaði hjálp. Allir eru með síma, svo það er engin spurning að kallað hefur verið á hjálp. Við hefðum bara verið fyrir.
Ég fór að hugsa um það sem hafði gerst. Ég vona innilega að enginn hafi meiðst. Ég er líka feginn að við lentum ekki í þessu, að ég var ekki fimm metrum aftar en ég var. Þá hefðum við lent í hörkuárekstri, sennilega hraðbrautasúpu. Mér er nokkuð sama um mig, ég hefði verið í lagi með beltið og loftpúðann, en það er ekki hægt að segja það sama um konuna sem sat við hliðina á mér, komin rúma átta mánuði á leið. Hvað hefði gerst, hefði beltið hjálpað eða gert hlutina verri? Hvað gerir beltið þegar það þrýstir á bumbuna? Ég vildi ekki hugsa það til enda.
Það er svo merkilegt hvað hlutirnir geta breyst snögglega. Hvað ef... ?
Við erum í lagi. Ég vona að enginn hafi slasast, allavega ekki alvarlega.
5.1.2007 | 08:50
Spáin fyrir 2007
Halló öll og Gleðilegt Ár! Seint í rassinn gripið að segja þetta núna þegar þrettándinn er innan seilingar, en það er bara svona. Ég ákvað að taka mig frekar hátíðlega og setja inn færslu á nýársdag, eitthvert Nýársávarp sem yrði svo fastur liður um alla framtíð, en tíminn var ekkert að bíða eftir mér. Sem sagt, hátíðleikinn fokinn og það er bara fínt.
Ár hvert er málið að strengja áramótaheit, en ég ákvað að sleppa því í ár. Árið 2007 verður ár breytinga svo ég læt það bara koma og við sjáum hvað eftir stendur í árslok. Hvað mun breytast? Einfalda svarið er allt, en hér er smá útskýring.
Til að skilja það sem er að gerast er best að fara í gegn um það sem þegar er breytt. Árið 2004 hóf ég nám í kvikmyndagerð. Það er búið og ég hef verið að byggja upp dæmið síðan. 2006 var undirbúningsárið mikla. Ég sagði upp góðri vinnu og tók stórt stökk inn í fjárhagslegt óöryggi. Spurning hvort ég hafi verið of fljótur á mér, en málið er að ég hefði ekki komið neinu í verk hefði ég haldið áfram. Kvikmyndir eru samt bara lítill hluti. Það er ungi á leiðinni og það þýddi að við þurftum að taka húsið í gegn. Eldhúsið var orðið einhverra áratuga gamalt. Unginn þarf herbrgi svo tómstundaherbergið þurfti að fjúka. Við erum búin að vera í byggingavinnu síðan í september, fyrst í eldhúsinu, síðan á háaloftinu þar sem tölvurnar eru nú og núna erum við að klára barnaherbergið.
Það er ekki hægt að segja að manni leiðist. Vinna, viðhald (ekki önnur kona samt) og breytingar og svo kvikmyndadæmið. 24 tímar á dag eru ekki nóg. Í gær var ég að vinna á Schiphol frá 5 um nótt til 2 eftir hádegi. Síðan var ég á fundi þar sem nýja fyrirtækið sem verður stofnsett á mánudag var rætt. Við ræddum líka um verkefnin sem framundan eru. Þar á meðal er heimildamynd um Rúmeníu, um Amsterdam-Dakar keppnina, einhverjar hljómleikamyndir og heimildamynd um hluti sem gerðust á Íslandi um aldamótin 1900. Svo erum við líka að plana íslenska framhaldsþætti, en framtíð þeirra veltur á því hvernig hugmyndinni verður tekið heima. Ég var kominn heim um 7, borðaði og fór svo í að svara emilum frá fólki sem er að taka þátt í stuttmyndinni og myndinni um Rúmeníu. Dagsverkinu var lokið um 21:30. Ég held ég hafi verið sofnaður rétt eftir tíu. Þetta er bara ósköp venjulegur dagur. Ég vona innilega að þetta dæmi fari að skila einhverju af sér.
Árið eins og það lítur nú út er einhvernvegin svona:
Janúar - fjárlögin fyrir Rúmeníu eru tilbúin.
lok-Janúar - tónlistin er tilbúin.
4. Febrúar - nýr einstaklingur kemur í heiminn.
mið-Febrúar - stuttmyndin er tilbúin.
lok-Febrúar - stuttmyndin hefur verið skoðuð og fínpússuð og er tilbúin fyrir DVD.
Mars - undirbúningi Rúmeníu lokið.
mið-Mars - DVD diskurinn er tilbúinn og stuttmyndin er tilbúin til dreyfingar.
2. Apríl - stuttmyndin frumsýnd.
Apríl - unnið að íslenskri heimildamynd.
Maí - upptökur í Rúmeníu.
Maí - undirbúningur framhaldsþáttanna hafinn.
Júní - undirbúningur að kvikmynd hafinn.
Júlí - Rúmenía tilbúin.
Ágúst - Amsterdam-Dakar (ég fer sennilega ekki með).
Ágúst - Rúmenía tilbúin til dreifingar.
Ég þori ekki að plana lengra. Ég vona að þetta gangi upp og ég sé ekki að drepa sjálfan mig. Það er að vísu svo að þó ég sé að mestu leyti sjálfur að vinna í þessum verkefnum enn sem komið er, mun ég fá annað fólk til að axla ábyrgð á nýja árinu. Þannig er ég í sambandi við fyrirtæki í Rúmeníu sem er að vinna í fjáröflun, við kvikmyndagerðarmann þar sem mun sjá um tökur og fyrirtæki í Rotterdam sem mun hjálpa til við undirbúning og að afla þekkingar. Það sama mun gerast á Íslandi þegar undirbúningur að framhaldsþáttunum hefst. Ég vil líka finna gott fólk í íslensku heimildamyndina. Ég fer ekki með í kappaksturinn (held ég). Þetta virðist því vera að færast meira í áttina að framleiðslu. Við sjáum til. Svo er bara að sjá hvort beibið éti upp allan minn tíma.
Hvort sem 2007 verður gott ár eða ekki, er það alveg a hreinu að það verður ekki langdregið. Ég býst við að halda upp á 2008 í næstu viku.