30.10.2008 | 09:31
Minn Sproti - Allra Hagur
Ég horfði á Kastljós á netinu í gær. Björk hafði mikið til síns máls. Spa hugmyndin var frábær. Þetta er það sem sumir hafa verið að segja í mörg ár. Ekki öll eggin í sömu körfuna. Dreifum áhættunni og gerum eitthvað sem íslendingum finnst gaman að vinna við. Eitthvað sem bætir lífskjör okkar og ímynd út á við.
Hugmyndin með að atvinnulausir drýgi tekjurnar hjá fyrirtækjum sem hafa ekki efni á starfsfólki er ekkert annað en snilld. Þannig þarf fólk ekki að svelta á allt of lágum bótum, það fer út fyrir dyrnar í stað þess að rotna heima, fyrirtæki sem annars næðu ekki að byggjast upp geta það nú og atvinnu- og efnahagslíf staðnar ekki. Það er alveg sama hvernig ég skoða þetta, hugmyndin er tær snilld.
Hvernig myndi ég notfæra mér svona kerfi? Ég er að klára kvikmyndahandrit. Þar sem ég á ekki fullt af peningum, skrifaði ég það þannig að ekki þyrfti hópsenur eða stórar leikmyndir. Það væri ekki erfitt að taka upp mynd sem stæði undir sér ef ég væri að borga 10-50% laun til fólks sem annars sæti heima. Íslenskar myndir eru oft það dýrara að þær hafa enga möguleika á að standa undir sér. Þær geta ekki þrifist án styrkja. Með þessu kerfi, sterkum handritum sem tiltölulega einfalt er að taka upp og nútíma tækni væri hægt að framleiða fullt af íslenskum kvikmyndum sem stæðu undir sér. Því fleiri myndir sem gerðar yrðu, því stöndugra yrði fyirtækið og einn góðan veðurdag gæti það farið að borga full laun. Atvinnuleysisbæturnar hyrfu og þjóðin gengi inn í nýja tíma.
Þetta er mitt dæmi. Spa hugmyndin gerði það sama á öðrum vettvangi. Ef þúsundir íslendinga virkjuðu sína þekkingu, væri framtíðin björt.
Björk, hvenær get ég byrjað?
Þessi grein birtist líka á NyjaIsland.is
Gríðarleg viðbrögð við grein Bjarkar í The Times | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Kvikmyndir | Aukaflokkar: Bloggar, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:36 | Facebook
Athugasemdir
Umfjöllunin er óhlutlaus að því leyti að ég er mótfallinn frekari áliðnaði. Helguvík og Bakki munu byggjast, en ég sé ekki að það sé til orka í neitt umfram þau verkefni. Sérstaklega ef við viljum byggja upp annan orkufrekan iðnað eins og gagnaver. Ég er sammála um gagnaver, ferðamannaiðnað, fiskvinnslu og olíuleit. Þetta þarf allt að nýta eins vel og hægt er. Það sem skiptir máli eru gæði, ekki endilega magn. Ef við borum eftir olíu er um að gera að fullvinna eins mikið af henni og hægt er. Sama með fiskinn og fleira.
Kvikmyndir eru ekki eins áreiðanlegar og verksmiðjur, enda set ég þær ekki fram sem einhverja töfralausn. Ég held að við gerum best með því að vera með mikið af litlum verkefnum sem gera eitt stórt. Kvikmyndir eru landkynning, fyrir utan hagnað sem þær ættu að geta skilað ef vel er að farið. Ég minntist á að gera svokallaðar "low budget" myndir sem stæðu undir sér, frekar en stórmyndir á styrkjum. Sama með spa hugmyndina sem sagt var frá í Kastljósi. Þar er stólað á ferðamenn sem koma hingað til að láta dekra við sig. Sama með CCP sem hannar og selur tölvuleik. Þessi verkefni geta ekki reddað málunum ein og sér, frekar en stóriðja, en séu nógu mörg verkefni í gangi, hlýtur atvinnulífið að blómstra.
Ég get ekki svarað fyrir Andra Snæ. Hann setti mikla umræðu af stað og það er hið besta mál. Ég er samt ekkert viss um að hann sé rétti maðurinn til að leiða okkur inn í nýja tíma. Hann opnaði kannski hurðina, en aðrir virðast vera betri í að finna út hvernig við getum nýtt okkur það að hún sé opin.
Villi Asgeirsson, 30.10.2008 kl. 21:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.