21.10.2008 | 08:41
Ég get ekki tjáð mig um málið á þessari stundu
Blaðamaður: Er lán frá IMF í höfn?
Formaður Aðfaraflokksins: Við erum að skoða ýmislegt og margt kemur til greina.
B: Hvað annað er hægt að gera í stöðunni?
FA: Gát er best með forsjá. Við getum ekki rasað að neinu. Það ber að skoða okkar möguleika á erlendum vettvangi og útiloka ekki neitt.
B: Væri heppilegt ef seðlabankastjóri segði af sér?
FA: Það held ég ekki. Við eigum ekki að vera að ráðast á einstaka menn í þjóðfélaginu. Við verðum að standa saman og leysa úr málunum. Það hjálpar engum ef við erum í einhverjum benda-á-mann leik. Nú verðum við að standa saman.
B: Má ekki gera ráð fyrir að við verðum tekin alvarlegar erlendis ef seðlabankastjóri og ríkisstjórnin færi frá?
FA: Það held ég ekki. Við erum með traust fólk og ættum að gefa þeim vinnufrið.
B:Finnst þér ekki að stjórnmálamenn megi vera hreinskilnari við fólkið í landinu? Er ekki allt of mikill feluleikur í gangi?
FA: Það held ég ekki. Fólk fær að heyra hvað við erum að gera þegar þar að kemur. Það hjálpar engum að vera að gaspra út um allt. Við verðum að standa saman og vera yfirveguð.
B: Sagt er að IMF sé ljót stofnun, að ráðskast sé með heilu löndin og að auðurinn komi í hendur örfárra auðmanna. Er þetta besti kosturinn fyrir Ísland?
FA: Það er auðvitað bara bull að IMF séu einhver glæpasamtök. Ég vísa svoleiðis samsæriskenningum á bug. Enda er ekkert annað í stöðunni.
B: Hvað með Ghana?
FA: Það varð að nútímavæða það land, en annars get ég ekkert verið að tala um einstaka lönd. Við erum öðruvísi, enda stofnfélagar IMF.
B: Stórnmálamenn áttu mikinn þátt í að skapa þá stöðu sem við erum í.
FA: Nei nei, við gerðum það ekki...
B: Þið settuð reglurnar og sváfuð svo á verðinum. Stunguð skírslum undir stól.
FA: Við í Aðfaraflokknum gerðum það ekki. Það voru Sjálfstæðismenn. Við höfum alltaf barist gegn...
B: Þið áttuð þátt í einkavæðingunni og sögðuð ekkert meðan spilaborgin var reist.
FA: Sko, við höfum oft bent á að kapp sé best með nauðsyn og að of hratt væri farið.
B: Hvenær?
FA: Ha?
B: Hvenær bentuð þið á að of hratt væri farið?
FA: Oft.
B: Hvenær?
FA: Á fundum.
B: Hvaða fundum?
FA: Er þetta ekki að verða gott?
Kæru lesendur. Þetta viðtal var aldrei tekið, en það hljómar eins og þau öll. Hvenær ætlum við að vakna og gera eitthvað? Ríkisstjórn xD og xB einkavæddi bankana. Kaupendur voru ekki hæstbjóðendur, heldur vinir og kunningjar. Bankarnir okkar voru gefnir. Svo var farið í víking. Íslendingar voru orðnir forríkir, en auðurinn var þó ekki til. Þetta var allt tekið á lánum. Það má kannski kenna þjóðinni um, en voru allar upplýsingar réttar? Var ástandinu lýst rétt? Fengu allir góðar ráðleggingar?
Ríkisstjórn xD og xS hefði átt að sjá hrunið fyrir en gerði ekkert fyrr en það var orðið of seint. Þegar farið var af stað, var farið með þvílíku offorsi að allt kerfið hrundi eins og spilaborgin sem það var. Ríkisvæðing Glitnis voru mistök sem eru að kosta þjóðina sex milljarða dala. Ég reyni ekki einu sinni að nefna krónutölu, því hún verður gjörbreytt á morgun. Við sem engan þátt tóku í sukkinu og byggingu spilaborgarinnar megum borga lán frá IMF sem er þekkt fyrir allt annað en vettlingatök. Við og okkar afkomendur verðum að borga fyrir sukkið og mistökin. 20.000 dollara á mann, meira ef við tökum vexti inn í dæmið. það eru allir að taka lán upp á þrjár milljónir. Smábörn og gamalmenni líka. Og ófædd börn.
Við vitum ekki einu sinni hvort 3.000.000 á mann er nóg því það er ekki allt komið í ljós. Við vitum ekki hvort 20.000 dollarar séu þrjár milljónir eða fimm, því enginn veit hvað krónan er lítils virði. Fólk, sveitarfélög og félagasamtök í útlöndum eru að undirbúa mál á hendur íslendingum. Við megum borga brúsann, meðan þeir sem settu reglurnar og gleymdu að veita aðhald sitja sem fastast. Við megum borga meðan þeir sem létu milljarða lán falla þá þjóðina láta sig hverfa í einkaþotum, svo þeir geti slappað af á snekkju í sólarlöndum, langt frá pirrandi væli fólksins.
Við verðum að gera eitthvað. Standa saman, breyta Ísland í þjóðfélagið sem við viljum búa í. Ekki eitthvert gjörspillt bananalýðveldi. Ef við notum ekki tækifærið núna, breytist ekkert.
Endilega kíkið á Nýja Ísland og takið þátt í að breyta samfélaginu til hins betra. Komum umræðunni af stað! Ef við vinnum saman, getum við skipt máli. Ef ekki, fer allt aftur í sama horfið. Bara með hærri lánum.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Vefurinn, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:43 | Facebook
Athugasemdir
þetta viðtal var aldrei tekið, það skýrir hvers vegna fréttamaðurinn var svona aðgangsharður, okkar alvöru fréttafólk er í einhverri klemmu, annaðhvort skortir þau basic vitsmuni og sjálfstæða hugsun, eða þau eru kúguð (fjárhagslega, eða siðferðislega) af ráðandi öflum til þess að "haga sér".
ég minnist viðtals sverris stormsker, við guðna framsóknarforingja, hann fór í fússi, virðist ekki hafa gert sér ljóst, að sverrir er engum bundinn og fer á eftir spillingargosum með krafti sem er frískandi og endurnærandi,
viðtalið við guðna er aðgengilegt af síðu sverris, hlustið endilega á það.
Gullvagninn (IP-tala skráð) 21.10.2008 kl. 09:22
veistu, þjóðin fær engar upplýsingar um málin frá hehumm, afsakið mig smástund... "ráðamönnum" þjóðarinnar, þeir hlaupa undan fréttamönnum hvern einasta dag og segja ekki neitt, vísa á Geir sem bullar og úff, horror, ég get ekki hugsað um þetta einu sinni. Stundum er hægt að lesa stórar greinar í erlendum blöðum á morgnana um það sem er að gerast í málunum sem Geir og Árni vilja ekki tala um, jibbí,,, svo gerist ekkert og fólk er að springa. Maður reynir allt til að fylgjast með en fær ekkert af viti frá þessu liði, alþingismenn vita ekki einu sinni hvað snýr upp og hvað snýr niður á þessum fundum. Ég vorkenni þeim ekkert að þurfa að sitja fundi dag og nótt, þau eiga það sko amk skilið og hver veit nema þarna sé bara eitthvað eyes wide shut dæmi í gangi???
Fólk af öllu tagi er að reyna að redda því sem það getur í eigin lífi þessa dagana, þessir óþokkar eru ekkert betri en við og í þá verður sparkað!
Ef þetta verður einhverntímann rannsakað af óháðum aðilum þá er íslenska ríkisstjórnin (XD) í algjöru fokki og þeir vita það. Það er barist í bökkum hér.halkatla, 21.10.2008 kl. 13:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.