2.10.2008 | 09:38
Hæfileikaheimavistin, hljómleikar og kvikmynd
Stóri dagurinn er runninn upp. Kvikmyndasmiðjan, eða the Talent Campus, byrjar í kvöld. Klukkan sex þarf ég að vera úti í Norræna Húsi og súpa seyði. Eða eitthvað. Þeir kalla þetta kokkteilboð. Á ég kannski ekki að fá bílinn hennar systu lánaðan? Hvernig kemst maður bíllaus á milli staða í Reykjavík? Er það yfirleitt hægt? Hvað kostar í strætó?
Spurning með að hitta fólk og kíkja á myndir þangað til. Í gærkvöldi fór ég í Iðnó að sjá dönsku myndina Frygtelig Lykkelig (Skelfilega Hamingjusamur). Hún var fín. Ekki fullkomin, en fjandi góð. Hún verður sýnd tvisvar í viðbót og ég mæli með henni. Mér fannst kvikmyndatakan stundum vera að flækjast pínulítið fyrir sögunni, en ekki nóg til að skemma fyrir. Það er auðvitað hið besta mál að nota myndavélina á frumlegan hátt, en mér finnst kvikmyndatakan aldrei mega draga athygli að sjálfri sér. Kvikmyndataka og klipping er best heppnuð ef fólk tekur ekki eftir henni. Kannski er ég bara að rausa. Kannski tek ég eftir þessu af því ég er að spá í þessa hluti.
Ég hitti Láru Hönnu í gær. Ég ætlaði að kíkja aðeins til hennar, en sat sem fastast í 4-5 tíma. Fór af því að systa var búin að vinna og bauðst til að sækja mig svo ég gæti haft bílinn um kvöldið. Ég var aldrei í vafa um að það væri mikið spunnið í Láru og heimsóknin staðfesti það bara. Þetta er kjarnakvendi og allir ættu að hlusta á hana.
Ísland er svo lítið og sætt. Ég sendi aðalleikurunum úr Svörtum Sandi handritið að löngu myndinni áður en ég kom heim. Jóel spurði hvort hann mætti ekki senda vini sínum eintak til að krítísera. Jú, allt í lagi. Seinna kom það upp að þessi vinur er Davíð, sonur Valdísar Óskarsdóttur. Hann býr á hæðinni fyrir ofan Láru, en var ekki heima. Hann er á leiðinni til Suður Kóreu að kynna Sveitabrúðkaup og ætlað að lesa Undir Svörtum Sandi í vélinni. Sjáum hvað hann hefur að segja.
Að lokum. Ég var að fá emil frá umboðsmanni norskrar stelpu sem er að gera það gott í tónlistarheiminum og hefur fengið mikla spilun undanfarið. Hún spilar á nokkrum hljómleikum í Hollandi í nóvember og þau vilja að ég taki eina upp fyrir hugsanlega DVD útgáfu. Þetta verður tíu dögum fyrir Uriah Heep hljómleikana, svo ég get sennilega notað sama upptökulið. Sjáum til.
Ég ætla því að leyfa mér að koma með bjartsýnisspá fyrir sjálfan mig. Tvær hljómleikamyndir fyrir árslok. Kvikmynd í fullri lengd á næsta ári. Svo vil ég auðvitað Gullna Eggið um helgina. Ég tek það fram að ég er ekki búinn að vinna það og get ekki fullyrt að ég muni gera það. Fólk er eitthvað að misskilja draumóra síðustu færslu. Ég er ekki með Gullið Egg upp á vasann. Sjáum til með það líka.
Meginflokkur: Kvikmyndir | Aukaflokkar: Bloggar, Tónlist | Facebook
Athugasemdir
Gaman væri að þú fengir gullna eggið.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 2.10.2008 kl. 14:57
Það var verulega gaman að fá þig í heimsókn. Komdu sem fyrst aftur!
Lára Hanna Einarsdóttir, 2.10.2008 kl. 21:31
Þú ert örugglega á réttri leið.
Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 3.10.2008 kl. 09:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.