Mannfyrirlitning eða "ekki ég"?

Eins og einhverjir vita, vinn ég mína dag (kvöld- helgar...) vinnu á alþjóðaflugvelli. Þeim fjórða stærsta í Evrópu, takk fyrir. Það er merkilegt hvað hlutirnir ganga oft vel fyrir sig í kaosinu. Málið er að vera með allt á hreinu, vita hvað maður er að gera og fylgja reglunum, á meðan þær eru ekki að flækjast fyrir.

bodyscan1Öryggismál eru orðin ansi þrúgandi. Ég hef séð framtíðina. Þú sennilega líka. Næst þegar þú flýgur erlendis, fylgstu með. Það eru myndavélar alls staðar. Allir eru skoðaðir. Stundum ferðu í gegn um öryggishlið sem pípir ef þú ert með lykla í vasanum, en oftar fer fólk gegn um skanna sem sýnir það sem fötin hylja. Allt sem fötin hylja.

Það sem ég vildi samt skrifa um er ekki öryggi eða framtíðin, heldur algert áhugaleysi okkar að hjálpa náunganum. Ég var að vinna á laugardag. Um 17:15 voru mér afhentir níu ferðamenn sem voru strand vegna þess að fluginu þeirra hafði seinkað. Ástæðan var víst að flugmaðurinn var of seinn út á flugvöll, en það er önnur saga, sem ég vona að hann fái að segja yfirmönnum sínum.

Þetta voru sjö ameríkanar og tveir marokkanar að koma frá Casablanca. Það var ekkert mál að redda könunum hóteli, kvöldverði, morgunverði og bóka þá í flug daginn eftir. Hinir voru vandamálið. Eru það enn þegar þetta er skrifað.

Marokkanarnir voru að fara á ráðstefnu á vegum IEEE (setur tölvustaðla, svo sem USB o.fl.) í mið-Austurlöndum. Þeir áttu að halda fyrirlestra á Sunnudagsmorgni. Það var útséð að það myndi ekki ganga upp, því það voru ekki flug þennan dag. Þeir þyrftu að fljúga daginn eftir. Því lofaði ég alla vega. Þeir voru ekki með áritanir fyrir Schengen, svo þeir gátu ekki yfirgefið flugvöllinn. Það er hótel fyrir svona strandaglópa á "airside" hluta flugstöðvarinnar. Ég lét bóka herbergi fyrir þá og fór með þá upp.

Klukkan var sex þegar hér er komið sögu. Truntan (afsakið) í móttökunni sagði, þeir geta komið hérna klukkan átta. Nú? sagði ég. Já, herbergin verða tilbúin þá. Allt í lagi, sagði ég. Hvenær vilja þeir vakna? spurði hún. Þú Þarft ekkert að vekja þá, sagði ég. Flugið fer ekki fyrr en um fimmleytið. Já, en þeir verða að vera farnir klukkan níu. Herbergið er bókað til níu. Vekja þá klukkan átta? Já, eins og þú vilt, sagði ég.

Schiphol_1Ég hringdi í mitt fólk og bað um að fá kvöldverðarmiða fyrir þá. Ég gæti ekki skilið þá eftir svona. Jú, auðvitað var það ekkert mál. Ég lét þá hafa tvo aukamiða svo þeir gætu fengið sér eitthvern morgunverð, því hótelið hefur ekkert. Þeir verða að sjá um sig sjálfir og kaupa sér samlokur á uppsprengdu verði í fríhöfninni. Ég skildi við þá tiltölulega sátta. Þeir höfðu engan farangur og voru of seinir á ráðstefnuna, en þeir vissu að ég hafði gert allt sem ég gat til að hjálpa þeim.

Á Sunnudagsmorgni var ég mættur aftur. Ég hafði annað að gera og átti ekkert að vera að stússast í vinum okkar. Ég ákvað samt að skrifa hjá mér símanúmer flugfélagsins í Hollandi svo þeir gætu látið vita af sér ef nauðsyn væri, eða ef þeir væru ekki sáttir. Ég rölti í átt að hliði E18, þar sem ég hafði verk að vinna við 747 vél sem var að koma frá Taiwan. Merkilegt nokk, ég rakst á kunningja okkar við T6 (transfer desk). Ég lét þá hafa númerið. Þeir þökkaðu fyrir sig. Gott ef þeir voru ekki fegnir að sjá mig, þótt ég hafi ekki haft tíma til að sinna þeim.

Þegar ég var að fara heim spurðist ég fyrir um þá. Hvort flugið væri á tíma. Ég fékk það svar að þeir færu ekki fyrr en á mánudag, því þeir höfðu ekki verið bókaðir í áframflugið. Það hefði upphaflega flugfélagið átt að gera, en það gleymdist. Þeir eru sem sagt strand á óspennandi flugvelli í 48 tíma. Þeir mega ekki fara út því þeir eru ekki með áritun. Ég vona að þeir reyki ekki, því það er hvergi hægt að reykja síðan 1 júlí. Það sorglegasta er að þeir lentu um 16:25. Við hefðum haft 35 mínútur til að koma þeim yfir í næstu vél. Það hefðu verið hlaup eða kappasktur í rafmagnsbíl þar sem flugvöllurinn er gríðarstór, en við hefðum átt að geta náð því. En við vorum ekki látin vita að þeir væri í þessari tímaþröng og því fór sem fór.

Sumum flugfélög og sumu fólki sem vinnur í ferðamannaiðnaðinum er slétt sama hvað verður um farþegana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þessa skemmtilegu sögu.  Þjóðfélagið allt væri betra ef við gæfum okkur meiri tíma, tíma til að sinna verkefnum í vinnunni, eða ferðast, eða versla, og sérstaklega tíma til að umgangast annað fólk og viðskiptavini, með þeirri athygli og umhyggju sem það á skilð, og það á líka við á hinn vegin, bónus barnið á skilið hlýlegt orð annað slagið.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 21.7.2008 kl. 10:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband