Maður án nafns

Hollendingar eru klikk og ef ég væri ekki fastur hér kæmi ég heim hið fyrsta. Spurning með að búa til eitthverja áætlun, plan sem miðar að því að koma manni heim. Spurningin er svo hvort Ísland sé eitthvað betra. Veit ekki, því þar sem möppudyrin skjóta rótum er voðinn vís.

Þannig er mál með vexti að það er ungi á leiðinni. Hann eða hún á að koma í heiminn í byrjun febrúar. Þetta er þó komið það langt að ef unginn kemur í heiminn núna, eru góðir möguleikar á að hann spjari sig bara fínt og vaxi úr grasi. Það var því kominn tími á að "viðurkenna" faðernið. Ef maður er ógiftur á maður ekkert tilkall til barnsins. Komi eitthvað fyrir mömmuna er pabbinn réttlaus og foreldrar hennar fá forræði. Móðurbróðirinn á meira tilkall til barnsins. Fjarskyld frænka mömmunnar á meira tilkall. Það þarf því að "viðurkenna" faðernið áður en unginn kemur í heiminn.

Við fórum til sýslumanns í gær til að ganga frá þessu formsatriði. Ætti ekki að vera stórt mál, nema skriffinnska setji strik í reikninginn. Í þessu landi er lítil hætta á öðru. Við vorum spurð hvað barnið ætti að heita. Furðu lostin sögðumst við ekki vita það. Nei, ættarnafnið. Ó, ég skil. Ættarnafn dömunnar er ekki yfir drifið fallegt, svo við völdum föðurnafn mitt. Í Hollandi getum við ekki fylgt íslenskum reglum, svo ég get ekki kennt barnið við mig. Við erum send inn í einhverja kompu, þar sem við bíðum í góðan hálftíma. Þá kemur sleggjan.

Möppudýr kemur inn í kompuna og segir að það sé vandamál. Allt í lagi, hugsa ég. Eitthvað formsatriði sem hægt er að leysa. Onei. Málið er að föðurnafn mitt er ekki ættarnafn. Ég má ekki búa til ættarnafn úr því, samkvæmt íslenskum lögum. Þar fyrir utan er einn reitur fyrir nafn á íslensku fæðingarvottorði og þar stendur mitt fullt nafn. Það er því ekki sagt skýrum stöfum hvað eftirnafnið er. Ég heiti því þremur eigin nöfnum og er á eftirnafns. Ef ég streytist á móti og krefst þess að mitt nafn verði notað, mun unginn fá eigið nafn og svo mitt fullt nafn sem eftirnafn. Nema að það eru eigin nöfn og ekki ættarnöfn og því má það ekki. Möppudýrið snérist því í hringi en lét okkur vita að hann gæti ekki hjálpað okkur. Ekki nema barnið fengi ættarnafn móðurinnar. Á þessu stigi vorum við orðin harðákveðin að það myndi ekki gerast.

Þetta er sem sagt möppudýravandamál á versta stigi og eins og hollendingum er lagið er svarið, því miður getum við ekkert gert. Bless. Það besta var að hann fór að líkja þessu við það hvernig múslímar blanda saman nöfnum pabbans, afans og langafans. Þannig átti ég að skilja að það sé ekki hægt að þjóna endalausum sérhagsmunum minnihlutahópa. Ég sagði honum að þetta hefði ekkert með múslíma að gera, ég væri ekki að blanda neinu saman og hvort hann vildi ekki bara skella eftirnafi mínu á barnið. Nei, það var ekki hægt.

Það er vonandi að svör og lausn fáist á Íslandi, því hér er enga lausn að fá. Frekar en fyrri daginn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

En ef þið giftið ykkur? Það getur varla verð mikið mál að gifta sig nema A) að maður taki giftingu mjög hátíðlega, og þar af leiðandi að maður taki sambúð og barn ekki mjög hátíðlega með því að vilja ekki negla það með giftingu. Eða B) að maður taki giftingu ekki hátíðlega og þá bíttar hvort eð er ekki máli hvort maður gerir það eða ekki.

En það leysir málið e.t.v. ekki? En ef þið eigið barnið á Íslandi? Er það e.t.v. ekki hægt nema þið séuð gift? Þá er 1. málsgrein lausnin.

Auðvitað er óþolandi að þurfa að gifta sig út af bjúrókratíu annarra; alls ekki réttlátt. En heimurinn er bara alls ekki alltaf réttlátur. Fullt af bulli í gangi sem fylgir þeim pakka að vera einstaklingur í samfélagi manna. Sumt er gott, annað slæmt. Og það er ekki hægt að segja sig úr þessum pakka; ég prófaði það einhverntímann og heimtaði að verða ríkisfangslaus. Það var ekki hægt (alveg óþolandi að fá ekki að ráða því sjálfur) :(

Núna þarf serbnesk kunningjakona mína, sem er gift Grikkja, að gefa frumburðinum nafn föður eiginmannsins afþví að reglurnar eru þannig hér. Ég veit ekki hvort það er beinlínis í lögum en allavega er það hefðin. Hún er ekkert sérlega sátt við það en beygir sig undir það vegna þess að það fylgi pakkanum, þ.e. þeirri ákvörðun hennar að giftast Grikkja á sínum tíma.

Hvernig verður með ríkisborgararétt barnsins? Mig minnir einhvernveginn að Ísland gúdderi ekki tvöfaldan ríkisborgararétt, en önnur lönd sumhver geri það?? Hvernig er það?

gerður rósa gunnarsdóttir, 2.11.2006 kl. 12:20

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Að giftast til að þóknast möppudýrum? Ekki geri ég það nema allt annað klikki. Annars get ég sennilega ekki gift mig heldur ef ég heiti ekkert. Það hlýtur að vera til lausn einhversstaðar í Dómsmálaráðuneytinu.

Þetta með ríkisfangið. Ég myndi þurfa að gefa upp íslenskan ríkisborgararétt til að fá hollenskt vegabréf, held ég. Hefur ekki reynt á það, enda hef ég ekki áhuga á að gerast hollendingur. Hins vegar held ég að barnið megi vera með tvöfalt ríkisfang, en að ég þurfi að sækja um það sérstaklega eftir að það er fætt. Að vera ríkisfangslaus, eins og þú vildir, er ekki hægt. Maður verður að tilheyra einhverjum klúbbi, vera með vegabréf.

Þetta kemur allt í ljós. Ég pikka þetta inn hér á bloggið svo aðrir geti lært af því. 

Villi Asgeirsson, 2.11.2006 kl. 12:31

3 Smámynd: Villi Asgeirsson

Þetta virðist vera leyst. Þjóðskrá sendir mér plagg sem stimplað er af utanríkisráðuneyti sem segir svo ekki sé um villst að Ásgeirsson sé virkilega eftirnafn mitt. Það ætti að vera nóg möppudýrafóður í bili.

Villi Asgeirsson, 2.11.2006 kl. 19:56

4 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Haha, gott á þá ;) Minnir mig á þegar ég þurfti að fá einhvern merkispappír hérna, konan sem sá um að afgreiða það sagði mér hvaða pappírum ég þyrfti að redda, ég kom aftur með allt sem hún sagði mér að hafa, hún leit yfir það, leit svo upp með lúmskum ánægjuglampa í augum, og sagði mér að ég þyrfti einn pappír í viðbót. Ég horfði á hana smástund, naut mómentsins, dró svo hægt pappírinn sem hún vildi fá upp úr veskinu. Og gat líklega ekki dulið sigurgleðina. Ég hafði nefnilega með mér aukalega alla þá pappíra og kópíur sem henni mögulega gæti dottið í hug að heimta þó hún hefði ekki sagt mér það. Farin að þekkja mitt heimafólk. Það kom ægilegur vonbrigðasvipur á konuna og hún var fljót að stimpla alltsaman og sem næst henti mér út að því loknu. LOL

gerður rósa gunnarsdóttir, 3.11.2006 kl. 13:52

5 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Þú hljómar voðalega fordómafullur gagnvart Hollendingum.   

Ég held að það séu óþolandi möppudýr í öllum löndum… því miður.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 3.11.2006 kl. 17:51

6 Smámynd: Villi Asgeirsson

Það er alveg á herinu að það eru möppudýr í hverju landi, en það er bara staðreynd að hollendingar eru einna verstir. Ég hef búið hér og unnið í níu ár og þurft að eiga við fólk í flestum löndum Evrópu. Bretar eru slæmir en hafa sem betur fer húmor fyrir því, en hollendingar eru verstir að eiga við og hafa lítinn húmor.

Þetta eru ekki fordómar, heldur reynsla. 

Villi Asgeirsson, 3.11.2006 kl. 18:36

7 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Nei, nei, það er enginn verri en Grikkir í möppumálunum. En engir betri í þeim heldur. Stundum redda þeir hlutunum á örskotshraða og eru ekkert að velta sér allt of mikið upp úr smáatriðunum. Í önnur skipti er maður sendur á milli staða fram og tilbaka svo mánuðum skiptir þangað til maður fær botn í málið. Svo hef ég heyrt að Frakkar séu slæmir líka. Þar þurfti ég að fá einhvern stimpil til að mega dvelja þar. Til að fá stimpilinn þurfti ég að hafa bankareikning. Til að mega hafa bankareikning þurfti ég stimpilinn. Svona á að gera þetta!

gerður rósa gunnarsdóttir, 5.11.2006 kl. 19:16

8 Smámynd: Villi Asgeirsson

Svipuð saga og þegar ég flutti til Hollands. Ég þurfti vinnu til að fá að dvelja í landinu. Til að mega vinna þurfti ég bankareikning. Til að fá bankareikning þurfti ég sofi-númer (kennitölu). Til að fá kennitölu þurfti ég að hafa landvistarleyfi. Til að fá landvistarleyfi þurfti ég að hafa vinnu. Til að... Ég var sendur fram og til baka í mánuð á milli stofnana þar sem flest skjöl voru á hollensku (sem ég talaði ekki það). Ég fann að lokum banka sem var til í að opna reikning fyrir mig, en það var geðþóttaákvörðun gjaldkerans. Án svoleiðis fólks væri töluvert erfiðara að lifa í þessum heimi.

Villi Asgeirsson, 5.11.2006 kl. 19:54

9 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Og þá dettur mér í hug áhugavert konsept, sem er lög og reglur. Það virðist stundum gleymast að reglurnar eru settar okkur til hagsbóta, (okkur sem hóp, en einnig okkur sem einstaklingum). Stundum festast menn alveg í reglum og gleyma að nota kommon sensið, því reglur geta aldrei náð yfir öll tilfelli. En svo er það línan í milli algers stjórnleysis og þess að fylgja reglunum ´skynsamlega´ svo þær komi að því gagni sem þær upphaflega voru settar til að þjóna.

gerður rósa gunnarsdóttir, 6.11.2006 kl. 09:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband