Saga Myndarinnar - þriðji bútur

Tökum er því sem næst lokið. Við tókum upp atriði við Elliðavatn á sunnudag og á þriðjudag á Skógum og í Reynisfjöru milli Dyrhólaeyjar og Reynisdranga. Þá kom langþráð frí sem ég notaði til að sýna hollendingunum í hópnum Þingvelli, Gullfoss og Geysi. Nú eru allir farnir nema ég. Það á eftir að taka upp tvö atriði, en þau eru mjög einföld og ég fer einn með Jóel á morgun, sunnudag, og klára þau. Þá er tökum lokið og kominn tími á eftirvinnsluna.

Ég flýg aftur til Hollands á föstudag og fer beint í að koma myndinni inn í tölvu og gera hana tilbúna til klippingar. Þetta verður töluverð vinna, við tókum upp 10 klukkutíma af efni sem verður svo klippt niður í hálftíma. Allavega geri ég ráð fyrir að þetta verði hálftími. Ég ætla bara að láta það ráðast. Ef að myndin virkar sem 20 mínútur verður hún það. Ef hún þarf að vera 45 mínútur, lengi ég hana. Þetta fer bara eftir sögunni. Mér finnst mikilvægara að hún komist til skila og að maður leyfi henna að ráða þessu en að ákveða lengdina fyrir fram.

Ég verð að segja að þetta er allt að fara fram úr björtustu vonum. Leikararnir gáfu sig alla fram og allir sem komu að myndinni stóðu sig frábærlega. Ég er að endurtaka mig, en það er bara svona. Það er svo gaman að sjá fólk taka þetta verkefni svona alvarlega. Ég var búinn að vinna við handritsskrif og undirbúning í einhverja mánuði áður en ég kom til landsins og það var gaman að sjá að fólk var að gefa allt sitt í þetta. Fólki virtist þykja vænt um þetta verkefni og mér þykir vænt um það.

Ég á líka eftir að þakka fólki sem hjálpaði til við gerð myndarinnar á annan hátt, en það kemur seinna. 

Framhaldið er sem sagt eftirvinnsla. Ég geri ráð fyrir að vera kominn með gróft klippta útgáfu eftir mánuð (ég verð ennþá að vinna fullt starf út september) og þá fer tónlistin í gang. Hún verður samin af Henk Hofstede, reyndum manni og þekktum í Hollandi. Það þarf svo að fínklippa, leika sér með liti, skoða hvort þarf að lagfæra eitthvað, gera texta á einhverjum tungumálum þar sem hún var tekin upp á íslensku og gera DVD. Þá er komið að dreyfingu. Ég geri ráð fyrir að myndin verði tilbúin til sýninga seint á árinu. Það er bara vonandi að einhver taki þá að sér að sýna þetta. Ég hef ekki miklar áhyggjur, því ef klipping og tónlist tekst eins vel og tökurnar verður þetta mynd sem hægt er að vera stoltur af. Það er einhver markaður fyrir svona myndir erlendis, en ég vona að hún fái einhvern stuðning hér heima líka.

Þetta er sem sagt búið að ganga mjög vel og ég hlakka til að sjá hvað verður úr þessu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Ég hlakka bara til að sjá myndina þegar hún er fullbúin. Ég er viss um að hún verður sýnd hér. Bestu kveðjur Jórunn

Jórunn Sigurbergsdóttir , 26.8.2006 kl. 13:21

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þetta er hið besta mál. Óska þér velgengni með myndina. Reiknar þú með að hún verði ókeypis á netinu, eða er hugmyndin að reyna að selja hana? Hef alltaf gaman af stuttmyndum.

G. Tómas Gunnarsson, 26.8.2006 kl. 14:04

3 Smámynd: Villi Asgeirsson

Takk fyrir það. Ég ætla að reyna að selja hana. Þetta er stórt verkefni og hefur kostað tíma og fé. Það kemur svo allt í ljós seinna á árinu hvar hægt verður að sjá myndina.

Annars er það að frétta að ég er kominn aftur til Hollands og er að undirbúa eftirvinnsluna. Það má því búast við fleiri færslum hér á komandi dögum og vikum.

Villi Asgeirsson, 2.9.2006 kl. 08:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband