Hvalveiðar - Moggapistill 8 ágúst 2003

Ég skrifaði þetta fyrir þremur árum þegar hvalveiðar voru fyrst á dagskrá. Maður hefur fundið fyrir því að ímynd Íslands hefur dofnað eitthvað síðan. Datt í hug að setja þetta hérna inn:

Hvaða þjóð hefur jákvæðustu ímynd í heimi? Ísland. Fólkið er fallegt og gáfað, landið er stórbrotið og tónlistin er sérstök.

Það er gaman að vera íslendingur í útlöndum. Allir eru svo spenntir yfir hvaðan maður kemur og vilja vita allt um land og þjóð. Er ekki ofsalega kalt? Þekkirðu Björk? Hvernig er það með þetta vetnisprógramm? Verða íslendingar orðnir óháðir olíu eftir nokkur ár?

Svo er það efnahagurinn. Meðan Evrópa og Ameríka engjast um og sjá ekki fram á efnahagsbata og velta fyrir sér hvað gerðist, meðan atvinnuleysi í stærstu löndum Evrópu skríður yfir 10%, eru íslendingar að græða sem aldrei fyrr. Virkjanir, hugmyndir og svo auðvitað fiskur.

Ísland er sem sagt eina landið í heiminum sem er að gera það gott. Ísland er kraftaverk. Lítil þjóð í stóru landi sem gengur betur en stærri þjóðir í smærri löndum. Ísland er líka laust við blóðuga fortíðina sem flest lönd þurfa að lifa við. Að mestu leyti allavega. Fyrir utan hvalina. En maður getur alltaf sagt að við séum löngu hætt að veiða hvali. Núna eyðum við milljónum í að flytja einn hval norður í haf svo að hann geti jafnað sig og gleymt grimmd kvikmynda og dýragarða. Núna förum við með túrista í hvalaskoðun og skiljum ekki af hverju við vorum að drepa þetta í den. Við græðum miklu meira á ferðamennskunni en hvalkjöti.

Þess vegna skil ég ekki hvað Alþingi var að hugsa þegar það ákvað að hefja hvalveiðar á ný. Meirihluti þjóðarinnar virðist líka standa á bak við þessa ákvörðun. Þetta er allt ofsalega einfalt. Útlendingarnir skilja þetta bara ekki. Það eru rúmlega 40 þúsund hrefnur við Íslandsstrendur. Mikið fleiri annars staðar í Atlantshafi. Hvaða máli skipta 38 hvalir? Þetta er innan við 0,1%. Hvalkjöt er gott og okkar færustu kokkar eiga eftir að sanna það fyrir yngri kynslóðinni. Svo er þetta bara í vísindaskyni. Við verðum að vita hvað þessi kvikyndi eru að éta. Til að byrja með, að minnsta kosti. Þetta er bara fyrsta skrefið í að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni. En verum ekkert að hafa allt of hátt um það. Þeta er allt í lagi. Hvað með það þó að nokkrir þýskir grænfriðungar fari í fýlu og rölti um götur Dusseldorf með grímur og málaða bómullardúka?

Vandinn er að þetta hefur ekkert með Greenpeace að gera. Heimurinn er allur á móti hvalveiðum. Bandaríkin hafa fitlað við orðið viðskiptaþvinganir. Stórverslanakeðjur í Evrópu munu hætta að selja íslenskar vörur vegna þrýstings frá viðskiptavinum. Ferðalangar munu fara til annara landa. Það er vitað mál að fólk sem heimsækir Ísland eru svonefndir “ecotourists”, þeir hrífast af náttúru, bæði plönu og dýraríki og fallegu landslagi. Þeir hafa hingað til séð Ísland sem ríki sem græðir upp landið, verndar villt dýr og setur upp þjóðgarða hér og þar svo að land haldist óspillt. Þeir hafa ekki áhuga á að fara í hvalaskoðun til að sjá uppáhalds dýrin sín skotin með nýju, fínu sprengiskutlunum. Ef þetta væru bara nokkrir hippar sem tíminn gleymdi, væri þetta kannski allt í lagi. En sannleikurinn er að íslendingar eru að fremja pólitískt sjálfsmorð á alþjóðavettvangi.

Hvers vegna? Er þetta þrjóska? Þjóðremba? Varla getur verið að þessi 38 dýr muni skila svo miklum arði í ríkissjóð að það sé þess virði að sverta ímynd Íslands á alþjóðavettvangi. Ekki sjá þeir fram á hvalveiðar muni skipta meiru máli en ferðaþjónustan? Hvers vegna er þá verið að buna sér út í þetta núna? Af hverju er verið að fórna Íslandi fyrir þennan málsstað? Við vorum orðin heimsborgarar. Hvenær ætla íslendingar að taka ofan lambhúshettuna?

VGA 8.08.2003 


mbl.is Hvalaskoðunarsamtök Íslands mótmæla fyrirhuguðum veiðum á 50 hrefnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Staðreyndin er nú samt sú að Bandaríkjamenn drepa flesta hvali á ári. Því er það þjóðremba þeirra að hóta viðskiptaþvingunum. Það skiptir kannski ekki miklu máli fyrir ríkissjóð en þegar eru fyrirtæki sem hafa það að atvinnu að veiða hvali. Það þarf ekkert að vera veiða hvalina fyrir framan ferðaþjónustuna, frekar væri hægt að afmarka svæði fyrir hvalveiðar.

Ragnar (IP-tala skráð) 15.6.2006 kl. 14:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband