26.2.2012 | 10:16
Framsal Ríkisvalds?
Stjórnarskrármálið er orðið að frasa, eins og svo margt annað í íslenskri stjórnsýslu. Síðustu þrjú árin hafa einkennst af klúðri á klúður ofan. Það eina sem núverandi stjórn hefur sér tl málsbóta er að fyrri stjórnir voru enn verri.
Við verðum að fara að klára þetta mál. Koma nýrri stjórnarskrá á koppinn. Eða hvað? Ég hef ekki lesið hana alla. Mun gera það fljótlega, en ég man að þegar ég rann yfir hana á sínum tíma hnaut ég um eina greinina. Trúði varla eigin augum.
111. gr. Framsal ríkisvalds
Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft.
Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst.
Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi.
Í fyrsta lagi finnst mér að framsal ríkisvalds megi ekki vera leyfilegt. Viljum við gera það í framtíðinni, ætti að þurfa stjórnarskrárbreytingu. Þessi grein er eins og sérpöntuð af Samfylkingunni svo þau geti komið okkur í ESB tiltölulega vandræðalaust. En skoðum þennan texta.
Okkur er heimilt að framselja ríkisvald alþjóðastofnunum. Við gætum þess vegna gengið NATO á hönd. IMF er alþjóðastofnun, ef maður teygir hugtakið. Hvalveiðiráðið er alþjóðastofnun, sem og Asíubandalagið og NAFTA. Það má ganga að því vísu að hugtakið verði teygt þegar einhver þrýstihópurinn vill tilheyra einhverjum klúbbnum.
Framsal ríkisvalds skal vera afturkræft? Ef við afsölum okkur sjálfstæðinu, höfum við ekkert um það að segja. Við ráðum okkur ekki sjálf. Önnur setning í greininni fellur því um sjálfa sig.
Það má segja að þjóðaratkvæðagreiðsla sé öryggisventillinn, en er það svo? Segjum að Kína vilji innlima Ísland og það sé fólk hér á landi sem hafi áhuga á að koma okkur þar inn. Hversu erfitt verður að snúa þjóðinni? Við erum svo lítil að það þyrfti ekki nema einhverja skiptimynd til að múta okkur. Segjum að Kína byggi glæsilegt sjúkrahús, borgi upp Hörpuna, lofi að borga upp skuldir landsins og bora göng í gegn um öll fjöll landsins? Klink fyrir þetta stórveldi. Það er erfitt að standast slíkt boð. Hvað myndi þjóðin kjósa?
Og hverjar eru líkurnar á því að Kína leyfði okkur að öðlast sjálfstæðið aftur, eins og við segjumst eiga rétt á í setningu númer tvö?
111. grein hefur auðvitað ekkert með Kína, IMF eða NATO að gera. Hún er alveg örugglega hönnuð sem farmiði inn í ESB. En hana má misnota á svo marga vegu að ég get ekki stutt nýju stjórnarskrána óbreytta.
Ég vona að dagarnir fjórir í mars verði vel nýttir.
Furða sig á farvegi stjórnlagamálsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Gaman væri að vita hver fékk þetta i gegn í stjórnlagaráði? Ekki það að ég þykist þó vita það! Þessi grein er svo galin að maður verður nánast agndofa, að Íslendingur geti látið sér detta þetta í hug að hafa þetta ákvæði i sinni stjórnarskrá!
Ingolf Torfason (IP-tala skráð) 26.2.2012 kl. 11:40
Þetta ákvæði verður til þess að ég mun ekki greiða þessu frumvarpi mitt atkvæði. Það eru takmörk fyrir hvað hægt er að bjóða manni, og ég treysti ekki Samfylkingunni né Vinstri Grænum til að fara með þetta vald. Jafnvel þó ljóst sé að þau verða ekki við stjörnvölin eftir næstu kosningar sem betur fer.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.2.2012 kl. 13:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.