Síðasta messan...

Ég settist niður, á sálmabók. Ég lyfti mér vandræðalega og fjarlægði hana. Gamla konan sem sat við hliðina á mér leit á mig með fyrirlitningu. Ég hélt að sálmarnir væru prentaðir á A4 með skemmtilegri klippart nú til dags, sagði ég og brosti. Hún leit í hina áttina og tuldraði eitthvað sem ég skildi ekki. Fyrirgefðu? Ekki síðan pappírsskömmtuninni var komið á! Helvítis kínverjarnir þurfa víst að skeina sér líka. Einmitt það, ég vissi það ekki. Þetta breyttist fyrir sjö árum, ég ætti að fara oftar í kirkju. Já, kannski. Trébekkurinn var ekki lengi að láta finna fyrir sér og afturendinn sveið. Þetta átti kannski að vera "helvíti nær í afturendann á þér-hermir".

Presturinn gekk hægt upp að altari. Hann baðaði út höndum og leit upp á altaristöfluna. Ég man að einhvern tíma voru altaristöflur málverk af Ésú í ýmsum stellingum. Ein er mér minnisstæð úr æsku, sennilega vegna þess að ég fékk martraðir eftir að hafa farið í kirkju. Það var Ésú á krossinum og einhverjur rómverjar að pota í hann. Seinna skildi ég ekki af hverju hann lemdi þá bara ekki eins og Ástríkur og Steinríkur.

Friður sé með yður og um alla jörð! rumdi í presti. Ég hrökk upp úr hugsunum mínum og sálmabókin datt í gólfið. Konan leit á mig aftur. Presturinn snéri baki í söfnuðinn. Ég tók up bókina og prestur sagði troðið eigi Guðs orði í svaðið og hafið eigi að spé-i. Hann snéri sér við og horfði alvarlegur á söfnuðinn. Mig, fannst mér.

Drottinn er minn féhirðir! Hann mun ekkert skorta! Ég var að fara yfir um. Ekki spurning. Prestur lét hendur falla og orgeltónlist tók við. Ég leit laumulega útundan mér á gömlu konuna. Hún sat með andlitið grafið í sálmabók og raulaði með. Hún leit upp og starði á mig með forundran. Ég brosti aftur og tók mér sálmabók í hönd. Ég fletti eins og óð fluga fram og til baka og fann sálminn um það bil sem síðasta línan var endurtekin í síðasta skipti.

Prestur leit upp. Eins og við öll vitum var faðirinn, sonurinn, vinurinn... pása... sem hér liggur... pása... okkur öllum kær. Hann var öllum góður, vildi öllum hjálpa, var fyrstur til að standa upp í strætó fyrir gömlum konum. Gamla konan leit á mig með fyrirlitningu og baulaði eitthvað ofaní sálmabókina sem hún hélt ennþá á. Ég hagræddi mér. Bekkurinn var að gera sitt besta sem helvítis-hermir. Mig svimaði. Einhver snökti fyrir aftan mig.

Hann var forkvöðull og hjartahlýr. Einhver hóstaði. Gjafmildur... einhver annar hóstaði meira. ...og allir gengu að opnum dyrum heima hjá honum. Kirkjan hljómaði eins og holdsveikraspítali, þó héldust nefin á andlitunum hér þegar hóstað var.

Svona gekk þetta lengur en ég nenni að segja. Þó var eitt sem ég skildi ekki og skil enn ekki. Presturinn talaði ekki bara um Ésú heldur minntist hann líka á mig nokkrum sinnum. Ekki veit ég hvers vegna því að ekki tel ég sjálfan mig til dýrðlinga. Reyndar hef ég ekki hugmynd um hvað ég var að gera í kirkjunni þennan dag. Það hefur sennilega verið ástæða fyrir því en ég man það ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband