Lýst eftir þjóð

Við viljum nýja ríkisstjórn. Við viljum þjóðstjórn, utanþingsstjórn, hægristjórn. Við viljum aðra stjórn. Hvað sem er, bara ekki vinstri velferðarstjórnina.

Eða hvað? Yrði önnur stjórn betri, réttlátari, meira í takt við þjóðina? Erfitt að segja, nema maður viti hvað þjóðin er að hugsa og ég efast um að hún viti það sjálf. Við viljum ekki borga Icesave. Skiljanlegt. Við viljum lífsgæðin sem við vorum vön fyrir hrun. Við viljum loka augunum og þegar við opnum þau aftur eru öll okkar vandamál horfin. Við viljum fara til baka, pota í "load saved game" og halda áfram frá þeim punkti áður en við gerðum mistökin. Leikurinn virðist vera tapaður og ef við bara förum aftur í tímann, kannski til 2006, getum við sleppt Icesave, bjargað bönkunum og lifað í vellystingum.

En lífið er ekki tölvuleikur. Við getum ekki ýtt á "save" takkann áður en við tökum afdrifaríkar ákvarðanir. Kannski eins gott, því það verður voðalega leiðinlegt til lengdar ef maður er alltaf að svindla á leiknum. Maður er nefninlega að svindla á sjálfum sér með því að læra ekki neitt, taka alltaf auðveldustu leiðina.

Hvað er annars vandamálið á Íslandi anno 2010? Er það Icesave? Er það yfirgangur fyrrverandi vinaþjóða okkar? Er það verðtryggingin, skattahækkanir, Steingrímur eða Jóhanna? Eða er vandamálið dýpra og nær okkur sjálfum? Erum við vandamálið?

Einhverntíma bloggaði ég um breytinguna á þjóðinni á fyrstu árum aldarinnar. Ég flutti til Hollands 1997, en fann fljótlega fyrir heimþrá. Hún entist þó ekki lengi. Þetta byrjaði allt þegar nýbyggingar spruttu upp út um allt. Þetta voru ekki hús, þetta voru hallir. Ég hafði oft sagt útlendingum frá því, fullur stolti, að við ættum synfóníu, óperu, fullt að kvikyndahúsum, leikhúsum og guð má vita hvað. En þegar verslanamiðstöð #300 spratt upp og hún var stærri en flest það sem sést í milljónaborgum erlendis, fór ég að hætta að fatta. Já, við vorum æði, gátum haldið úti menningu og verslun sem umheimurinn gat varla dreymt um, en þetta var að fara út í öfgar. Þetta gat aldrei staðið undir sér. Svo var það virkjanaáráttan. Allt skyldi virkja. Hvað var í gangi?

Þjóðin var að missa vitið. Ég sá þjóðfélagið með gestsauganu. Skildi tungumálið og þekkti þjóðarnadann en var ekki nógu oft á landinu til að samdaunast. Í hverri heimsókn sá ég breytingu. Ég hef yfirleitt komið heim tvisvar á ári. Ég man ekki hvenær hlutirnir fóru að breytast, en ég held ég hafi verið farinn að horfa stórum augum á framkvæmdirnar á árunum 2001-2003. Það var um svipað leyti sem þjóðin breyttist.

Alls snérist um peninga, allt kostaði helling, það þótti lítið mál að borga svimandi upphæðir fyrir einföldustu hluti. Það var eins og það væri flott að borga of mikið. Hér í Hollandi pössuðum við okkur á að fara (tiltölulega) vel með peningana. 10-20 evrur fyrir gallabuxur, sem var 800-1500 kr fyrir hrun þótti mikið. Á íslandi var fólk að borga tífalt verð. Án þess að blikka. Þótti sjálfsagður hlutur.

Fjárútlátin voru samt ekki það versta. Eftir því sem peningaflæðið jókst, Range Roverunum fljölgaði, fækkaði brosunum. Það var kominn einhver drambssvipur á þjóðina, stundum jafnvel heift. Ef einhver gekk á mann í Kringlunni, strunsaði sá hinn sami áfram, pirraður yfir því að ég hafi verið að flækjast fyrir. Enda skiljanlegt, sá pirraði var eflaust á leiðinni á mikilvægan fund og ég var fyrir. Í flestum borgum Evrópu hefði fólk stoppað og beðið hvort annað afsökunar. Skiptir ekki máli hver gekk á hvern, þetta er bara sjálfsögð kurteysi. En hún hafði verðið gerð útlæg á Íslandi. Sama við kassana í verslunum. Fólk var dónalegt við starfsfólk, var pirrað, að flýta sér og var móðgandi. Ég vorkenndi fullt af kassadömum á þessum tíma.

Ég ólst upp við sögur að fátæku fólki í burstabæjum sem buðu alla velkomna og deildu því litla sem það átti. Ef þreyttan og kaldan ferðalang bar að garði, var honum boðið inn. Þótt aðeins einn kjötbiti væri til á bænum, var ferðalangnum umsvifalaust boðið að borða. Það hefur líka sýnt sig að því meira sem fólk á, því minna gefur það. Mér varð oft hugsað til gamla Íslands, þar sem fólk bjó við raka og kulda, átti varla í sig og á, en virtist vera hamingjusamara. Það var hamingjusamara, því það átti hvort annað. Því maður er manns gaman. Range Roverarnir, Ipottarnir og utanlandsferðirnar voru allt í lagi, en þetta "drasl" kom ekki í staðinn fyrir mannlega þáttinn, samskipti við annað fólk.

Íslenska þjóðin er sterk. Við erum gestrisnir harðjaxlar sem getum hvað sem er. Inni við beinið. Við erum bara orðin svo feit að það er djúpt á alvöru íslendinginum í okkur. Nú er að hefjast nýtt ár. Ekkert merkilegt, svo sem. Bara einhver tala á almanaki. En hvernig væri að nota það sem nýtt upphaf. Reyna að finna íslendinginn í okkur? Ekki þjösnarlegu frekjudós síðustu ára, heldur það sem býr í okkur öllum. Brosandi harðjaxla liðinna alda. Ef við stöndum saman, getum við hvað sem er.

Gleðilegt ár. Megi 2011 vera upphafið á einhverju betra. 


mbl.is Vill nýja ríkisstjórn um tiltekin verkefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

gleðilegt nýtt ár og ég þakka fyrir mjög svo góðan pistil.

ég fésann !

Óskar Þorkelsson, 31.12.2010 kl. 22:27

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Gleðilegt MMX1 og takk fyrir að deila þessu!

Villi Asgeirsson, 1.1.2011 kl. 01:53

3 Smámynd: Heimir Tómasson

Frábær pistill. Ég er að flytja heim eftir tæp 4 ár erlendis (Seattle), get ekki annað sagt en að ég kannist við margt sem að þú skrifar þarna. Það eru blendnar tilfinningarnar við að flytja heim, en eins og sagt er í óopinbera þjóðsöngnum okkar; Ísland er land þitt.

 Ég setti pistilinn inn á Snoppuskinnu.

Heimir Tómasson, 4.1.2011 kl. 09:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband