Kreppan er komin til mín

Sterling fór á hausinn. Menzies Aviation á Kastrup fór á hausinn í kjölfarið. Kreppan er komin til mín.

Ég vinn fyrir Menzies Aviation á Schiphol. Ég vann mikið fyrir Sterling. Þeir voru með fjögur flug á dag frá Amsterdam. Tvö til Köben, tvö til Osló. Þessi flug eru auðvitað horfin. Fleiri flugfélög á okkar vegum eru að draga saman seglin. Á sumrin var ekki óalgengt að ég ynni sex daga í viku. Vaktirnar voru mislangar, frá þremur tímum upp í 14 og stundum 16. Ég gat lifað á þessu. Nú er búið að skera mínar vaktir niður fyrir 50% og meiri niðurskurður er á leiðinni. Ég mun því finna illa fyrir kreppunni á komandi mánuðum. Þetta má, ég hef ekkert um málið að segja. Mér er ekki sagt upp, því það er of dýrt. Ég verð bara að sætta mig við styttan vinnutíma. Verði mér einhvern tíma sagt upp, verða bæturnar stórskertar, því þar er miðað við síðustu laun, og maður er ekki mikið á 50% eða minna. Ég heyrði reyndar útundan mér að sennilega verði 30% fljótlega nærri lagi.

Nýlega var framkvæmdastjóra Menzies á Schiphol sagt upp. Með honum fékk aðstoðarmaðurinn að fjúka, sem og yfirmaður, sem er kona, LCC deildarinnar. LCC er Low Cost Carriers og þar falla EasyJet, Jet2, Sterling, Sky Europe og fleiri undir. Ástæðan var spilling, fjárdráttur og klúður í stjórnun. Menzies fór í verkfall í sumar. Það var óþarfi, því aðeins 1.5% skildi á milli. Þetta þótti höfuðstöðvunum í Skotlandi ekki sniðugt, því verkfallið kostaði meira en launahækkunin sem farið var fram á. Enn ein ástæðan var að yfirmaður okkar sá um að setja upp Menzies Aviation á Kastrup, sem nú er komið í greiðslustöðvun. Hann þótti standa það illa að verkinu að HQ sagði allt það fé sem fór í verkið væri glatað og aðeins tímaspursmál hvenær það dótturfélag sykki. Það hefur nú gerst.

Það eru því blikur á lofti hér, eins og heima. Ég er kominn í vonda stöðu. Ég væri betur settur hefði ég verið rekinn strax. Ég býð mig því hér með lausan. Hafi einhver skemmtilegt og krefjandi starf á fyrir mig er ég til. 


mbl.is Keðjuverkun vegna gjaldþrots Sterling
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tækifæri fyrir Skjá 1

Eitt af því sem nefnt er í fréttinni er óvissa með verð erlends efnis. Það hlýtur að verða 2-3x dýrara en áður, eins og annað. En er þetta ástand endilega alslæmt?

Í morgun skrifaði ég um hugmynd Bjarkar og félaga þar sem atvinnulausum yrðu greidd 10-50% laun ofan á atvinnuleysisbætur. Þetta myndi halda fólki í vinnu og fyrirtæki gætu farið í verkefni sem annars væru of dýr.

Árlega eru framleiddir tugir eða hundruð stuttmynda á Íslandi. Þær sjást hvergi. Hvernig væri ef Skjár 1 tæki sig til og keypti fullt af stuttmyndum sem þegar hafa verið gerðar? Þeir gætu svo keypt myndir sem enn eru ógerðar, en eru ekki mjög dýrar í framleiðslu því launakostnaður er lægri en áður. Svo væri hægt að framleiða framhaldsþætti og kvikmyndir fyrir brot þess kostnaðar sem áður var.

Þetta er gullið tækifæri fyrir Skjá 1. Þar sem ekkert starfsfólk er eftir, geta þeir byjað með autt blað og gert það sem þeir vilja. Svona ná þeir sér í ódýrt efni, skapa fólki atvinnu og sér velvild þjóðarinnar.


mbl.is Skjárinn segir öllum upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minn Sproti - Allra Hagur

Ég horfði á Kastljós á netinu í gær. Björk hafði mikið til síns máls. Spa hugmyndin var frábær. Þetta er það sem sumir hafa verið að segja í mörg ár. Ekki öll eggin í sömu körfuna. Dreifum áhættunni og gerum eitthvað sem íslendingum finnst gaman að vinna við. Eitthvað sem bætir lífskjör okkar og ímynd út á við.

Hugmyndin með að atvinnulausir drýgi tekjurnar hjá fyrirtækjum sem hafa ekki efni á starfsfólki er ekkert annað en snilld. Þannig þarf fólk ekki að svelta á allt of lágum bótum, það fer út fyrir dyrnar í stað þess að rotna heima, fyrirtæki sem annars næðu ekki að byggjast upp geta það nú og atvinnu- og efnahagslíf staðnar ekki. Það er alveg sama hvernig ég skoða þetta, hugmyndin er tær snilld.

Hvernig myndi ég notfæra mér svona kerfi? Ég er að klára kvikmyndahandrit. Þar sem ég á ekki fullt af peningum, skrifaði ég það þannig að ekki þyrfti hópsenur eða stórar leikmyndir. Það væri ekki erfitt að taka upp mynd sem stæði undir sér ef ég væri að borga 10-50% laun til fólks sem annars sæti heima. Íslenskar myndir eru oft það dýrara að þær hafa enga möguleika á að standa undir sér. Þær geta ekki þrifist án styrkja. Með þessu kerfi, sterkum handritum sem tiltölulega einfalt er að taka upp og nútíma tækni væri hægt að framleiða fullt af íslenskum kvikmyndum sem stæðu undir sér. Því fleiri myndir sem gerðar yrðu, því stöndugra yrði fyirtækið og einn góðan veðurdag gæti það farið að borga full laun. Atvinnuleysisbæturnar hyrfu og þjóðin gengi inn í nýja tíma.

Þetta er mitt dæmi. Spa hugmyndin gerði það sama á öðrum vettvangi. Ef þúsundir íslendinga virkjuðu sína þekkingu, væri framtíðin björt. 

Björk, hvenær get ég byrjað? 

Þessi grein birtist líka á NyjaIsland.is


mbl.is Gríðarleg viðbrögð við grein Bjarkar í The Times
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband