Færsluflokkur: Menning og listir

Glópagull

Efnahagskerfi heimsins hrundi haustið 2008. Ísland og fleiri ríki fundu fyrir því af hörku á meðan sum sluppu tiltölulega vel. En þetta er ekki búið. Dollarinn er veikur, evran riðar til falls. Báðir gjaldmiðlarnir hafa fallið um allavega fjórðung á liðnu ári. Kreppan er ekki búin, því það er ekki verið að ráðast á rót hennar. Ríki heimsins hafa aldrei verið skuldugri en einmitt núna og það sér ekki fyrir endann á lántökunum. Kreppan er rétt að byrja, nema við stokkum kerfið upp. Það er ekki að gerast.

photo 2

Erlendir kaupmenn reyna að hafa eðalmálma af íslendingum. Hér úti í heimi er þetta ekkert öðruvísi. Við höfum fengið sömu auglýsinguna inn um bréfalúguna af og til síðasta árið. Eigið þið gull sem þið viljið selja? Við greiðum hæstu verðin! Gullverð er í hæstu hæðum, en þó vilja þeir sem vitið hafa á þessum málmum ólmir kaupa það. Og borga vel fyrir. Merkileg tímasetning.

Þeir vita nefninlega að ef allt fer sem horfir, verða peningar eins og við þekkjum þá verðlitlir eftir einhver misseri. Þegar stærstu gjaldmiðlar heims riða til falls og ríkisskuldabréf og verðbréf eru of áhættusöm, er öruggast að fjárfesta í alvöru hlutum. Ekki peningunum sem eru bara tölur í tölvu og hafa enga eiginlega merkingu, ekki hlutabréfum sem geta fallið um tugi prósenta á örskömmum tíma. Nei, fasteignir og eðalmálmar eru öruggasta fjárfestingin. Eðalmálmarnir eru bestir, því þeir eru færanlegir.

Það er ekki gott ef menningarverðmæti eru að hverfa úr landi og eru eyðilögð í einhverri bræðslu. En burtséð frá því, er gott að hugsa málið til enda. Ef þeir sem vit hafa á eðalmálmum vilja ólmir kaupa þá þegar verð er í hámarki, ættu viðvörunarbjöllur að hljóma í hausnum á okkur. 


mbl.is Skart stöðvað á leið úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fari IMF og spillingarpakkið fjandans til!

Það mátti loka Þjóðleikhúsinu og öðrum menningarstofnunum, en bankarnir skyldu fá sitt? Ef þetta sýnir ekki geðveikina, að peningamafían er á annarri plánetu en við hin, þá veit ég ekki hvað ætti að gera það. Íslendingar byggðu upp menningarlíf sem fáar þjóðir geta státað af. Íslenskar bókmenntir, leiklist, myndlist, tónlist. Er þetta minna virði en peningar?

Pabbastrákarnir fóru í útrás í boði spillingarhunda í embættismannakerfinu. Þeir spiluðu af sér og töpuðu öllu, eins og þeir væru dauðadrukknir unglingar á sóðabar i rauðu hverfi í einhverri hafnarborginni. Svo koma dólgarnir sem notfærðu sér heimsku pabbastrákanna og vaða um allt á skítugum skónum.

Svo heyrum við endalausar fréttir af því hvað IMF (ég segi enn IMF, neita að íslenska nafnið á þessum glæpasamtökum) finnst þjóðir heims eigi að gera. Herða sultarólina. Borga meiri skatta. Skera niður þjónustu. Drepa gamalmenni með því að leyfa því að frjósa í hel, afskiptalaust. Segja okkur að kyngja því að nú er kreppa og að hún er pínulítið okkur að kenna en að feitu grísirnir með bindin séu nú alveg að reyna að bjarga okkur. En taka þeir sjálfir nokkurn tíma ábyrgð? Nei, auðvitað ekki. Þeir setja allt á hausinn, koma svo og sópa allt til sín.

Er ekki komið nóg af arðráni og spillingu. Eins og einhver ímynduð tala á einhverjum bankareikningi, sem eiginlega er ekki til ef maður spáir í það, sé mikilvægari en leikhús, söfn, listir og menning? Þvílík sturlun!

Ég þakka núverandi stjórnvöldum fyrir að hafa þó haldið skítugum IMF krumlunum frá menningarstofnununum sem þjóðin hefur byggt upp á áratugum. Hún má þó eiga það.


mbl.is AGS vildi loka Þjóðleikhúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært

Ég ætlaði að skrifa sögu um það þegar maður borgar leigumorðingjum fyrir að drepa yfirmanninn. Var sagt að þetta væri mjög ótrúverðugt. Það myndi enginn taka svona sögu alvarlega.


mbl.is Framdi morð til að forðast brottrekstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geisp...

Ég reyni að tuða ekkert allt of mikið, en ég læt mig hafa að tuða núna. Þetta forrit, gera ljóta feita og bólugrafna manneskju fallega er svo gamalt. Það hafa verið gerðar þúsund seríur um allan heim sem allar eru eins. Þetta er auðvitað sjónvarpsefni sem fólk horfir á, nennir kannski ekkert endilega að horfa, en er ekki alveg nógu leiðinlegt til að skipta um stöð. Öll erum við með minnimáttarkomplexa og við horfum á þetta venjulega fólk verða fallegt og hugsum að svona viljum við líka verða. Þetta er svona séð og heyrt dæmi, ekkert innihald, en fólk virðist falla fyrir þessu.

Það er svo mikið að gerast á Íslandi. Heil þjóð í hremmingum. Hvernig væri að skoða hvernig kreppan er að fara með fólkið í landinu? Það er svo mikið af skemmtilegu og áhugaverðu fólki. Sagan okkar er full af dramatík sem virkilega gaman væri að heyra um. Gamla Ísland, land ómaganna, er að hverfa. Fólkið sem fæddist í torfbæjum er að hverfa. Við erum að verða of sein að ná því fólki á filmu. Ef ég væri á Íslandi, eða einhver nennti að styrkja mig... 


mbl.is Íslendingar í yfirhalningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Splittessu

Sena virðist eiga megnið af íslenskri menningu. Flestum kvikmyndum er dreift af Senu. Megnið af íslenskri tónlist er í eigu Senu. Hver sá sem eignast fyrirtækið, eignast íslenska menningu.

Ég vona að það verði vel staðið að þessu. Best væri þó ef fyrirtækið yrði bútað niður svo að enginn gæti "átt" menninguna okkar. 90% markaðshlutdeild, eða hvað Sena er með, getur ekki verið holl. 


mbl.is Sala Senu ófrágengin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

99 krónur á mann...

Þegar þjóðin stendur saman gerast kraftaverk. Í þetta skiptið var það Júróvisjón og 69.000 manns gerðu það að verkum að Síminn (eða einhver) græddi sjö milljónir. Auðvitað fylgdust miklu fleiri með útsendingunni, en rúm 20% þjóðarinnar borguðu 100 kall til að skipta máli.

Hvað er hægt að gera við 100 kall ef 20% þjóðarinnar tekur þátt? Það er hægt að gera bíómynd fyrir sjö milljónir, eins og ég hef skrifað um áður. Ef þetta er gert að áskrift, má framleiða og markaðssetja 5-10 myndir á ári. Það er hægt að gera fimm bíómyndir og senda áskrifendum á DVD. Það er hægt að framleiða framhaldsþætti, ótal stuttmyndir og aðra list. Það er hægt að borga rithöfundum til að þeir geti einbeitt sér að skrifum. Það má þýða íslenskar skáldsögur og annað yfir á útlensku. Fyrir 100 kall á mann.

Möguleikarnir eru óteljandi. Nú þegar fólk skilur að maður þarf ekki milljón til að koma sér fram úr, að það megi gera góða hluti fyrir lítið fé, mun íslensk menning kannski blómstra sem aldrei fyrr. 


mbl.is 69 þúsund atkvæði greidd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Post Collapse Stress Disorder

Þetta hljómar ansi skemmtilega. Mig dauðlangar að gera mynd eða eitthvað, byggt á hruninu. Ekki endilega um hrunið, heldur um mannlega þáttinn. Hvernig fer fyrir fólkinu í landinu sem fór á hausinn?

Ég hef verið að skoða og spá. Kannski að maður hósti einhverju upp einhvern daginn.

Allavega, nú er að sjá hvort ég geti hlustað á leikritið hérna langt útí heimi. 


mbl.is Þjóðmenningarhúsið löðrandi í blóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sendu mér eintak og ég...

Súla

Hef ekki séð austurrísku frímerkin, en þetta er fallegt. Ég var einmitt að tala við einhvern um daginn um frímerki. Hollensk frímerki eru ofsalega óspennandi, ljót eiginlega. Forljót reyndar, enda frímerkjasafnarar af skornum skammti hér. Sjálfsagt jafn margir og aðdáendur Íslands eftir hrun.

Postzegel-44

En hvað um það. Ef þú, lesandi góður, sendir mér póstkort með fallegri sögu og þessu frímerki, skal ég senda þér eintak af stuttmyndinni Svartur Sandur á DVD. Þetta er ekki keppni. Sendirðu kortið, færðu myndina.

Heimilisfangið er:

V.G. Ásgeirsson 

Wilhelminastraat 7

1165 HA Halfweg

Holland 


mbl.is Friðarsúlan hlaut bronsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veljum íslenskt? You too!

Það er gott að lesa um að fólk sé að versla heima og velja íslenskt. Sumir segja mér kannski að þegja, að þeir hefðu frekar viljað fara erlendis og að einhver hafi haft utanlandsferðina af þeim. Það er þónokkuð til í því. En úr því sem komið er, er gott að fólk tekur sig saman um að minnka innflutning eins og hægt er og styðja innlenda framleiðslu. Undanfarin ár voru blekking og því varla hægt að bera framtíðina saman við þau. En ef við tökum rétt á nútímanum, getur framtíðin orðið björt.

Ég hef talað um að sparka spillingarliðinu, svo ég held mig nú við annað. Sprotana. Það er ýmislegt hægt að gera. Menningin kemur í huga, því þar er ég að rembast. Ég var að klára kvikmyndarhandrit og get farið að undirbúa tökur. Þetta strandar auðvitað á peningum, eins og flest. Kvikmyndagerð er dýrasta listform sem hægt er að fara út í. Ég hef minnst á það áður, en ég fór að skoða vefsíðu Kvikmyndamiðstöðvarinnar. Sú stofnun getur séð framleiðanda fyrir 50% framleiðslukostnaðar. Allt í lagi með það, en það sem stendur í mér er að lágmarks kostnaður við myndina verður að vera 50 milljónir. Einhvers staðar las ég að Börn hafi verið gerð fyrir 200.000 dali, um 23 milljónir á núverandi gengi. Það þarf því engar stórar upphæðir ef handritið er þannig skrifað að framleiðslukostnaði sé haldið í skefjum. Kvikmynd sem kostar um 20 milljónir, er vel skrifuð og leikin á auðvitað mikið meiri möguleika á að skila hagnaði en dýrari mynd. Hún ætti líka að hafa meiri möguleika á að verða framleidd, því áhætta fjárfesta er minni.

Stærsti kostnaðariður í kvikmyndagerð eru laun. Sá kostnaður skilar sér því beint út í þjóðfélagið, a.m.k. þegar um íslenska leikara er að ræða. Filmukostnaður er einnig stór hluti, en stafræn tækni er nú komin á það plan að hægt er að sleppa filmum alfarið án þess að það komi niður á gæðum. Ég myndi því vilja sjá fleiri kvikmyndir fyrir þann pening sem til er. 4-6 kvikmyndir á ári er gott fyrir okkar litla þjóðfélag, en hvað ef við gætum þrefaldað þá tölu? Þar með værum við komin með þrefalt meiri möguleika á tekjum, hérlendis og erlendis, fyrir sama tilkostnað. Ég tala ekki um þau menningarverðmæti sem myndu skapast.

Gott kvikmyndahandrit er ekki bara grunnurinn að kvikmynd. Það er góð saga, og sem slík ætti hún að geta virkað sem bók. Þetta sést oft erlendis, þar sem bækur eru skrifaðar upp úr handritum og gefnar út um það bil sem myndin er frumsýnd. Íslendingar eru duglegir við að skrifa, og það sem meira máli skiptir, gæði íslenskra bókmennta eru með því besta sem gerist. Eins og sést hefur á útgáfum erlendis undanfarið eru íslenskar bækur vinsælar í Evrópu. Er ekki spurning með að stórefla þýðingar og markaðssetningu á íslensku menningarefni, bókum, kvikmyndum og tónlist, erlendis? Eins og kerfið er nú, eru allir að vinna í sínu horni. Hvað er væri til stofnun eða fyrirtæki sem hjálpaði íslendingum að koma sínu efni að heima og heiman? Málið er ekki bara að við veljum íslenskt, heldur er um að gera að fá útlendinga til þess líka.


mbl.is Jólaverslunin færist heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er með verkefni fyrir málara

Núna er ég að vinna við að koma kvikmyndinni Undir Svörtum Sandi í framleiðslu. Í einu atriðinu hangir málverk af aðalpersónunum tveimur uppi á vegg. Þetta smellpassar auðvitað við þessa setningu úr fréttinni, "Mikilvægt er einnig að tekið sé tillit til þess í styrkveitingum borgarinnar að landamæri milli listforma og menningarheima hafa opnast og að stöðugt koma fram nýjar tjáningarleiðir í listum."

Þetta verður eflaust eitt af skemmtilegum verkefnum í kring um kvikmyndagerðina.


mbl.is Vilja bæta aðstöðu fyrir listamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband