Færsluflokkur: Evrópumál

Vegna umsóknar um pláss...

Velkomin inn í hinn staðlaða heim ESB þar sem allir sitja prúðir í sínum staðlaða kassa, kaupa staðlað grænmeti*, lesa staðlaðar leiðbeiningar og keyra á stöðluðum hámarkshraða. Inngönguferlið er líka staðlað. Ekki útgönguferlið þó. Okkur hefur ekki komið saman um hvernig best er að segja sig úr ESB og höfum því enga staðla þar að lútandi. Þar til svo verður, er ekki hægt að segja sig úr sambandinu. Við biðjumst afsökunar á öllu ónæði sem kann að verða að þessu, en erum viss um að fulllur skilningur ríki meðal þegna vors.

Við í ESB skiljum að þið séuð öðruvísi en aðrar þjóðir, en allar þjóðir eru örlítið öðruvísi en aðrar. Þar af leiðandi höfum við þurft að staðla háttarlag, umbúðir og allt sem fólk gerir, kaupir og segir svo að okkur komi saman. Það er ekki einfalt mál að láta 27 þjóðir með mismunandi menningu og sögu syngja sama sönginn, en það hefur þó tekist með því að staðla allt. Enginn er fyllilega ánægður með lífið í ESB, en enginn er neitt sérstaklega óánægður heldur. Lífið er bara eins og það er og ef þú ert ósammála, getur þú fyllt út eyðublað og málið verður tekið fyrir við fyrsta tækifæri.

Ég veit að þið viljið sér meðferð, þið viljið halda fiskinum og orkunni og öllu því. Við skiljum þetta allt saman og munum reyna allt sem við getum til að hjálpa ykkur, svo framarlega sem það snertir ekki við stöðlunum okkar.

Það hjálpar ykkur auðvitað ekki að koma svona skríðandi á hnjánum. Þið hefðuð átta að koma þegar allt var í gúddí (orði eytt, stenst ekki staðlaða málfræði, vinsamlega breyta). Þið hefðuð ekki átt að setja ykkur svona upp á móti okkur. Og regla númer 1 2 og 3, ekki pirra Þýskaland, Bretland eða Frakkland. Í þessari röð.

Annars óskum við ykkur til hamingju og hlökkum til að ræða málin á þar til gerðum eyðublöðum sem fást á skrifstofum Alsherjarnefndar ESB í Brussel. Þau kosta 20.000 evrur og óskast fyllt inn í þríriti. Tekið er fram að fylla þarf inn eitt eyðublað fyrir hvern íbúa Íslands, tvö ef um börn innan 12 ára aldurs er að ræða, eða fólk komið á eftirlaun. Ekki er nauðsynlegt að fylla inn eyðublöð fyrir fólk á aldrinum 25-35 ára með lán sem nema 2.5 sinnum árstekjum, því það mun flytja frá Íslandi innan fimm ára.

Bestu kveðjur frá ESB 

*Athugið að nýlega var ESB reglum um grænmeti breytt. Agúrkur þurfa ekki lengur að vera teinréttar. Æskilegt er þó að þær séu ekki bognari en sem svarar 27° og séu jafn sverar frá einum enda til annars, nema endarnir sjálfir, sem teljast vera 7.5% heildarlengdar gúrkunnar. Tómatar í einni pakkningu mega nú vera misstórir, þó má ekki muna meira en 12% í þyngd á léttasta og þyngsta. Þeir skulu allir hafa sama pantone gildi (lit).


mbl.is Umsókn metin á staðlaðan hátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland - Tilraunin sem mistókst

Vér mótmælum allir. 1918. 1944. Fallegar minningar þjóðar sem taldi sig geta staðið á eigin fótum í hörðum heimi. Danir höfðu kúgað okkur í aldir, kirkjan og kóngur höfðu haft okkur að fíflum, en sjálfstæð yrðum við eigin herrar í eigin landi. Við myndum byggja ríki sem aðrir öfunduðu okkur af.

Það hefði ekki átt að vera svo erfitt. Íslendingar eru harðduglegir, heiðarlegir, gestrisnir. Voru það allavega einhvern tíma. Hvenær það breyttist veit ég ekki.

Íslandssagan er ekki beysin. Við dunduðum okkur við að drepa hvert annað, gengum noregskonungi á hönd þegar útséð var að við gætum ekki séð um okkar mál sjálf, þræluðum fyrir kaþólsku kirkjuna, svo fyrir danakonunga. Vorum sjálfum okkar verst og vorum dugleg við að framfylgja furðulegum duttlungum og dómum erlendu herranna. Þegar við loksins fengum að ráða okkur sjálf, tóku við höft og skattpíning. Innflutningshöft, gjaldeyrishöft. Ofurskattar á áfengi því alþingismenn vildu hafa vit fyrir alþýðupakkinu. Óðaverðbólga hefur verið landlæg svo lengi sem elstu menn muna. Nema síðustu 15 ár, en þá var sukkað svo hroðalega að það mun taka okkur 2-3 sinnum þann tíma að jafna okkur. Þegar ég útskýrði verðtryggingu fyrir hollenskum vini í gær, datt hann næstum af stólnum. Hann hafði aldrei heyrt af eins frábæru kerfi fyrir bankana. Og hann vinnur í fjármálageiranum.

Það er rétt sem við sögðum fyrir hrun. Útlendingarnir skilja okkur ekki. 

Nú er sagan búin. Við klúðruðum sjálfstæðinu, erum komin á hausinn vegna óstjórnlegrar eyðslu og sofandaháttar. Ísland var sjálfstætt í nokkra áratugi. Við réðum ekki við það. Nú er um að gera að ganga nýjum konungi á hönd. Það rignir hvort eð er alltaf á 17. júní.


mbl.is Aukafundur EFTA ef Ísland sækir um aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrunið rétt að byrja?

Það eru ekki bara læknar sem munu láta sig hverfa. 18.000 atvinnulausir með lán sem hækka með hverri afborgun munu skilja lykilinn eftir í skránni þegar þeir fara úr landi. Við viljum ekki styggja útlendingana því án útflutningstekna erum við ekkert, en erum við ekki að leggjast lægra en 14 ára stelpa á heróíni?

Við getum ekki borgað Icesave. Við getum ekki heldur borgað 350 milljarða afglöp Seðlabankans frá því korteri fyrir hrun. Afskrifum það, eða reynum allavega að semja um hvað skal greiða. Að taka þetta á sig gerir ekkert annað en að steypa okkur í skuldir sem við ráðum ekki við. Gleymum ESB í bili. Innganga yrði í fyrsta lagi eftir 2-3 ár og evran kæmi mikið seinna. Þegar það er allt komið í gegn verður enginn eftir til að borga skuldirnar sem við tókum á okkur. Nema kannski fatlaðir og gamalmenni sem komast ekki úr landi.

IMF (neita að nota íslensku skammstöfunina því þessi stofnun á ekkert erindi á Íslandi) vinnur ekki að uppbyggingu íslenska efnahagslífsins. IMF hefur það markmið að fá íslendinga til að greiða eins mikið af skuldunum til baka og hægt er. Þeir eru ekki að vinna fyrir okkur. 3-6faldir vextir á við nágrannalöndin eru ekki til þess gerðir að koma atvinnulífinu í gang aftur. Það er verið að mjólka íslenska lántakendur eins og mögulega hægt er. Fyrirtæki og einstaklinga. Fyrirtæki geta ekki rétt úr sér meðan þau eru að borga skatt til erlendra auðhringa. Að stofna fyrirtæki á Íslandi hefur ekkert upp á sig. Fjölskyldur geta ekki komið sér út úr skuldafeninu meðan höfuðstóll lána hækkar við hverja afborgun, ofan á vexti sem þekkjast hvergi nema hér.

Ég var að skoða fasteignasíðu MBL. Ódýrasta íbúðin í Reykjavík kostar um 10 milljónir. Fyrir 18 milljónirnar sem var lágmarksverðið fyrir ári, er hægt að fá yfir 100 fermetra 4 herbergja íbúð með útsýni yfir sundin blá. Ég reiknaði út lán á 13 milljóna króna íbúð og fékk yfir 80.000 á mánuði, og það fór hækkandi vegna ofurvaxta og verðtryggingar. Dæmið gengur einfaldlega ekki upp, sérstaklega hjá þeim sem keypu sér íbúð eftir miðjan áratuginn.

Ísland er ekki að virka. Það gerist ekkert með því að tala kurteysislega og passa sig á að móðga engan. ESB er ekki töfralausn, allavega ekki skammtímatöfralausn. Það eru skammtímalausnir sem við þurfum, áður en vinnufæra fólkið lætur sig hverfa. Við erum fámenn þjóð og það munar um hverja 1000 íslendinga sem flytjast úr landi. Þegar skriðan er farin af stað, verður erfitt að snúa við. Hvar verðum við þá eftir 10 ár eða 20? Vakni stjórnvöld ekki strax, má gera ráð fyrir að hrunið sé rétt að byrja.


mbl.is Læknar flýja kreppuland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æi, verið ekki með þetta endalausa pot.

Fyrst vil ég leiðrétta Moggann. Hún sagði víst "strategic partner". Það er ekki hernaðarlegt mikilvægi, heldur hefur það meira með stefnu ESB að gera. Hver er þessi stefna? Ekki er hún að borga skuldirnar sem við eigum víst að taka á okkur. Væri það málið, þá hefði ESB ekki verið svona í mun að klína þeim á okkur.

Stelpan

Þetta endalausa pot að utan sýnir að ESB getur ekki beðið eftir að við göngum þeim á hönd. Hvað höfum við sem ESB vill? Við höfum fiskimiðin sem við megum stjórna sjálf í einhvern tíma - hugsanlega - en munum svo væntanlega þurfa að afhenda Brussel. Við eigum við orku sem á að teljast hrein, þó svo sé ekki með núverandi stóriðjustefnu. ESB vill sennilega það sem eftir er af henni. Ef ESB ræður ekki yfir allri orku innan bandalagsins, verður því sjálfsagt kippt í liðinn í framtíðar uppfærslu.

Ef ég er ekki að misskilja stelpuna, virðist hún vilja éta fiskinn okkar og virkja árnar okkar. Og kannski hjálpa eitthvað við að borga skuldina sem við erum að taka á okkur af því að ESB krafðist þess þótt það virðist ekki vera lagastoð fyrir henni. ESB er að fá allt fyrir ekkert.

Eða er ég að misskilja hana? 


mbl.is Vill Ísland í Evrópusambandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband