Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ísland stendur loksins við sitt!

Ég er búsettur í Hollandi og hér sér fólk málið öðruvísi, enda er það matreitt öðruvísi af hérlendum fjölmiðlum.

Tengdó voru í mat. Þau eru auðvitað ánægð með það sem var í fréttunum í dag, að Ísland ætli loksins að borga það sem því ber. Ég leiðrétti misskilninginn í mörghundruðasta sinn. Það dugði ekki til. Ég sagði þeim því sögu af ING, stærsta banka Hollands. Hvað myndi gerast ef... og ég sagði Landsbankasöguna. Breytti bara nafninu og upphæðunum yfir í Hollenskan veruleika. Endaði söguna á því að spyrja, hvað mynduð þið gera. Greiða þúsundir milljarða evra til Þýskalands og Bandaríkjanna (tvö mikið stærri vinveitt lönd) vegna fyrirtækis sem er ekki í eigu þjóðarinnar. Nei, það fannst þeim ekki réttlátt.

Ég vona svo sannarlega að þjóðin fái að stoppa þessa geðveiki aftur. 


mbl.is Icesave-samningur samþykktur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýst eftir þjóð

Við viljum nýja ríkisstjórn. Við viljum þjóðstjórn, utanþingsstjórn, hægristjórn. Við viljum aðra stjórn. Hvað sem er, bara ekki vinstri velferðarstjórnina.

Eða hvað? Yrði önnur stjórn betri, réttlátari, meira í takt við þjóðina? Erfitt að segja, nema maður viti hvað þjóðin er að hugsa og ég efast um að hún viti það sjálf. Við viljum ekki borga Icesave. Skiljanlegt. Við viljum lífsgæðin sem við vorum vön fyrir hrun. Við viljum loka augunum og þegar við opnum þau aftur eru öll okkar vandamál horfin. Við viljum fara til baka, pota í "load saved game" og halda áfram frá þeim punkti áður en við gerðum mistökin. Leikurinn virðist vera tapaður og ef við bara förum aftur í tímann, kannski til 2006, getum við sleppt Icesave, bjargað bönkunum og lifað í vellystingum.

En lífið er ekki tölvuleikur. Við getum ekki ýtt á "save" takkann áður en við tökum afdrifaríkar ákvarðanir. Kannski eins gott, því það verður voðalega leiðinlegt til lengdar ef maður er alltaf að svindla á leiknum. Maður er nefninlega að svindla á sjálfum sér með því að læra ekki neitt, taka alltaf auðveldustu leiðina.

Hvað er annars vandamálið á Íslandi anno 2010? Er það Icesave? Er það yfirgangur fyrrverandi vinaþjóða okkar? Er það verðtryggingin, skattahækkanir, Steingrímur eða Jóhanna? Eða er vandamálið dýpra og nær okkur sjálfum? Erum við vandamálið?

Einhverntíma bloggaði ég um breytinguna á þjóðinni á fyrstu árum aldarinnar. Ég flutti til Hollands 1997, en fann fljótlega fyrir heimþrá. Hún entist þó ekki lengi. Þetta byrjaði allt þegar nýbyggingar spruttu upp út um allt. Þetta voru ekki hús, þetta voru hallir. Ég hafði oft sagt útlendingum frá því, fullur stolti, að við ættum synfóníu, óperu, fullt að kvikyndahúsum, leikhúsum og guð má vita hvað. En þegar verslanamiðstöð #300 spratt upp og hún var stærri en flest það sem sést í milljónaborgum erlendis, fór ég að hætta að fatta. Já, við vorum æði, gátum haldið úti menningu og verslun sem umheimurinn gat varla dreymt um, en þetta var að fara út í öfgar. Þetta gat aldrei staðið undir sér. Svo var það virkjanaáráttan. Allt skyldi virkja. Hvað var í gangi?

Þjóðin var að missa vitið. Ég sá þjóðfélagið með gestsauganu. Skildi tungumálið og þekkti þjóðarnadann en var ekki nógu oft á landinu til að samdaunast. Í hverri heimsókn sá ég breytingu. Ég hef yfirleitt komið heim tvisvar á ári. Ég man ekki hvenær hlutirnir fóru að breytast, en ég held ég hafi verið farinn að horfa stórum augum á framkvæmdirnar á árunum 2001-2003. Það var um svipað leyti sem þjóðin breyttist.

Alls snérist um peninga, allt kostaði helling, það þótti lítið mál að borga svimandi upphæðir fyrir einföldustu hluti. Það var eins og það væri flott að borga of mikið. Hér í Hollandi pössuðum við okkur á að fara (tiltölulega) vel með peningana. 10-20 evrur fyrir gallabuxur, sem var 800-1500 kr fyrir hrun þótti mikið. Á íslandi var fólk að borga tífalt verð. Án þess að blikka. Þótti sjálfsagður hlutur.

Fjárútlátin voru samt ekki það versta. Eftir því sem peningaflæðið jókst, Range Roverunum fljölgaði, fækkaði brosunum. Það var kominn einhver drambssvipur á þjóðina, stundum jafnvel heift. Ef einhver gekk á mann í Kringlunni, strunsaði sá hinn sami áfram, pirraður yfir því að ég hafi verið að flækjast fyrir. Enda skiljanlegt, sá pirraði var eflaust á leiðinni á mikilvægan fund og ég var fyrir. Í flestum borgum Evrópu hefði fólk stoppað og beðið hvort annað afsökunar. Skiptir ekki máli hver gekk á hvern, þetta er bara sjálfsögð kurteysi. En hún hafði verðið gerð útlæg á Íslandi. Sama við kassana í verslunum. Fólk var dónalegt við starfsfólk, var pirrað, að flýta sér og var móðgandi. Ég vorkenndi fullt af kassadömum á þessum tíma.

Ég ólst upp við sögur að fátæku fólki í burstabæjum sem buðu alla velkomna og deildu því litla sem það átti. Ef þreyttan og kaldan ferðalang bar að garði, var honum boðið inn. Þótt aðeins einn kjötbiti væri til á bænum, var ferðalangnum umsvifalaust boðið að borða. Það hefur líka sýnt sig að því meira sem fólk á, því minna gefur það. Mér varð oft hugsað til gamla Íslands, þar sem fólk bjó við raka og kulda, átti varla í sig og á, en virtist vera hamingjusamara. Það var hamingjusamara, því það átti hvort annað. Því maður er manns gaman. Range Roverarnir, Ipottarnir og utanlandsferðirnar voru allt í lagi, en þetta "drasl" kom ekki í staðinn fyrir mannlega þáttinn, samskipti við annað fólk.

Íslenska þjóðin er sterk. Við erum gestrisnir harðjaxlar sem getum hvað sem er. Inni við beinið. Við erum bara orðin svo feit að það er djúpt á alvöru íslendinginum í okkur. Nú er að hefjast nýtt ár. Ekkert merkilegt, svo sem. Bara einhver tala á almanaki. En hvernig væri að nota það sem nýtt upphaf. Reyna að finna íslendinginn í okkur? Ekki þjösnarlegu frekjudós síðustu ára, heldur það sem býr í okkur öllum. Brosandi harðjaxla liðinna alda. Ef við stöndum saman, getum við hvað sem er.

Gleðilegt ár. Megi 2011 vera upphafið á einhverju betra. 


mbl.is Vill nýja ríkisstjórn um tiltekin verkefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uninspired by Iceland

Ísland er land tækifæranna. Gæti allavega verið það ef við værum ekki að drepast úr möppudýramennsku og húmorsleysi.

Milljónir, sjálfsagt hundruð milljóna, eru settar í landkynningu. Inspired by Iceland. Allt gott og blessað, en það virðist vera jafn innihaldslaust og fótósjoppað súpermódel að gefa til kynna að maður komist inn undir hjá henni og hverri sem er með boddíspreyinu sem verið er að auglýsa. Við þykjumst vera rosa hipp og kúl og segjum að Ísland sé land frelsisins og whatever. En á sama tíma erum við að spá í að kæra tökulið Top Gear sem nær sennilega til fleira fólks en auglýsingaherferð ESB-sleikjanna. Margfalt.

Hafi verið unnin spjöll, sem ég efast um, eru það ekkert í líkingu við það sem íslendingar sjálfir og löggan gerðu. Þar fyrir utan eru meira krefjandi mál sem bíða afgreiðslu á Íslandi. En við viljum ekki styggja "fjármagnseigendur".

Það er ekki hægt að segja að ég sé "inspired by Iceland" þessa dagana. 


mbl.is Löggan skoðar Top-gear
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væluskjóða

Er þetta ekki maður sem var fenginn í ráðherrastól utan úr bæ? Átti hann ekki að hafa vit á fjármálum og vera laus við flokkspólitískt bull?

Af hverju er hann orðinn kaþólskari en páfinn? Af hverju er hann að troða umræðunni í svaðið? Af hverju er hann að eyðileggja þetta tækifæri sem við fengum til að byggja betra land?

Er ekki bara málið að hann segi af sér sjálfur fyrst hann er svona ósáttur og láti ríkisstjórnina um að ákveða hvað hún vill gera?

Væluskjóða. 


mbl.is Gylfi: Stjórnin frá ef Icesave fellur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurning til Steingríms...

Kæri Steingrímur,

Gott að þú ert í beinu sambandi við kollega þína í Bretlandi og Hollandi. Ef þú komst ekki inn á það í dag, gætirðu þá spurt Wouter Bos af hverju hann heldur því staðfastlega fram í hollenskum fréttum að forsetinn hafi sett Icesave samkomulagið í hættu? Viltu spyrja hann af hverju hann heldur því fram að íslendingar hafi ákveðið að borga ekki krónu? Hann er nefninlega að segja það við landa sína. Ég hef það á tilfinningunni að hann sé að upphefja sigg á okkar kostnað, að veiða atkvæði með því að sverta okkur.

Takk fyrir að taka þetta til greina. 


mbl.is Steingrímur til Bretlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjálm, væl, bull...

Voðalegt mjálm er þetta. Málið snýst alls ekki um hvort borgað verður, heldur skilmálana. Á að sökkva landinu og stela auðlindunum ef við upplifum ekki þúsund prósenta hagvöxt strax, eða á að borga eftir getu? Ef við borgum eftir getu, borgum við. Ef við erum þvinguð til að borga, hvort sem við erum á hausnum eða ekki, munum við ekki borga. Getum það ekki. Kannski að Rás Fjögur hafi þá rétt fyrir sér, en bara öfugt?

Allt sama bullið, mjálmið og lygi út um allt. Er það nema von a fæstir skilji þetta mál?

PS, gott að vera farinn að blogga aftur... 


mbl.is Ekki lengur spurning um hvenær heldur hvort
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilegt ár?

Ætla ekkert að kommenta á heimsfréttirnar frá árinu 2009. Það vita allir að Samfó gerði allt til að selja okkur ESB, að VG sveik öll loforð, að Framstæðisflokkarnir þvoðu af sér alla sekt vegna hrunsins og létu eins og það kæmi þeim ekki við, að enginn sem máli skiptir hefur verið dreginn til saka, að forsetinn sem setti það fordæmi að ekki þyrfti að skrifa undir öll lög virðist ætla að skella við skollaeyrum þegar þjóðin grátbiður um að hlustað sé. Við vitum líka að Landsbankinn er galtómur og Icesave verður skellt á þjóðina. Við vitum að Wouter Bos vill endilega breyta bankakerfi Evrópu svo að lönd lendi ekki í vanda, komi til kerfishruns. Það segir hann við hollendingana sína, meðan hann snýr upp á handlegg íslensku þjóðarinnar. Gordon Brown borgar innistæðueigendum sem greitt hafa í breska ríkskassann, en ekki öðrum. Íbúar Isle of Man fá ekkert þegar banki hrynur, því þeir heyra undir krúnuna, ekki þingið, og hafa því ekki borgað skatta í Bretlandi. Það virðist þó ekki stoppa hann í að krefja íslendinga um greiðslu, þótt bretar hafi yfirleitt ekki verið að borga skatta á íslandi.

2009 var skemmtilegt ár fyrir Ísland.

Það var líka stórfínt hér. Stærsta verkefni sem ég hafði unnið að var sett á hilluna. Ekki opinberlega. Það bara gerðist ekkert. Engin hljómleikamynd var gefin út. Mér leiddist meira í útlandinu en nokkru sinni. Klúðraði kannski soldið sjálfur og hef endað í einhverju svartholi í árslok. En það er bara eins og lífið er. Upp og niður. Hef þó það sem þarf til að gera 2010 frábært ár. Allavega þegar fer að líða á. Þekki fólk sem ég þekkti ekki eða þekkti lítið sem mun hjálpa mér að lyfta mér á hærra plan. Veit hvað ég vil og vil ekki. Það er allavega ágætis byrjun, ekki satt?

Stundum þarf að brjóta allt niður og byrja upp á nýtt.

Vér óskum landsmönnum öllum gæfu og hamingju á nýja árinu. Megi það verða betra en það sem á undan er gengið. 


mbl.is Völvan spáir spennandi tímum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geðveiki

Ísland var eitt síðasta land í heimi sem viðhélt kommúnísku paranojunni í garð áfengis. Selja þetta eitur nógu dýrt og það er hugsanlegt að það verði ekki alveg allir alkar fyrir tvítugt. Það má allavega gefa þeim það að bjórinn var kældur niðrí bæ þangað til pólitíkusar í landi á barmi gjaldþrots fóru að mjálma yfir því. Höfðu víst ekkert annað að gera, elskurnar. Þetta er bara svo heimskt. Áfengi var alltaf selt í einokunarverslun ríkisins, var spes vara, sérstakt, tabú, dýrt. Eitthvað sem lítið og áhrifagjarnt fólk getur ekki látið eiga sig.

Hvað vinnst með háu verði á áfengi? Ekkert. Fólk kaupið þetta dýrum dómum og fer því sem næst á hausinn við að fá sér vín með matnum, það eyðir aleigunni í þetta ef það á í einhverjum vandræðum eða kaupir sér sprútt. Landinn er fínn þangað til annað kemur í ljós. Við erum að ala krakkanu upp í að misskilja áfengi, þau hafa ranghugmyndir, skilja það ekki, verða alkarnir sem við óttumst svo.

Jújú, látum helvítis alkana borga fyrir útrásina. Látum alla borga fyrir IMF bullið og ESB austurinn. Hvað sem við gerum, snertum ekki hár á höfði þeirra sem stóðu að hruninu. Skattleggjum bara alla í botn þangað til þeir vinnandi láta sig hverfa til Noregs eða Nepal. Skiptir ekki máli meðan það er ekki skerið.

Ég elska Ísland en mikið ofboðslega fara íslenskir stjórnmálamenn í taugarnar á mér. 


mbl.is Áfengisgjaldið hækkar um 42% á einu ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

McDeath

Wall-Mart mun ekki taka neitt af okkur. Þeir bjóða ekki upp á persónulega þjónustu.

Er þetta kannski það sama og veitingahúsaeigendur sögðu þegar McDonalds var að byrja? Var þetta viðmótið hjá kaupmanninum á horninu þegar stórmarkaðir fóru að spretta upp?

Það kostar morð fjár að hrökkva. Það eru serimóníur, kistur, blóm og annað tilfallandi sem gerir það að verkum að hinn almenni borgari hefur ekki efni á að deyja. Þar sem þetta er óumflýjanlegt og eitthvað sem maður getur víst ekki hummað fram af sér, eru jarðarfaratryggingar big business hér í Hollandi.

Stundum er það ekki þjónustan sem við þurfum, heldur lægri verð. Ef hægt er að bola manni ofan í kistu og holu fyrir 80% lægra verð, munu margir láta þjónustuna eiga sig.

Eins og írarnir segja ef þeim er virkilega vel við þig, "I wish you a good death". 


mbl.is Wal-Mart hefur sölu á líkkistum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lygar eða bundnar hendur?

Núverandi ríkisstjórn hefur alltaf haldið því fram að IMF lánin yrðu ekki notuð í neitt nema að styrkja tiltrú heimsins á krónunni og íslenska efnahagslífinu. Þessum peningum yrði ekki eytt. Þetta sögðu tvær fyrri ríkisstjórnir líka. Ekki að maður hafi trúað því, en það mátti auðvitað vona. 

Hvað er að gerast þarna? Hvað er stjórnin að spá? Af hverju er logið hægri og vinstri? Hvers á fólk að gjalda? Fólkið og fyrirtækin í landinu eru að missa allt sitt til bankanna. Bankarnir eru að falla í hendur erlendra spekúlanta og fjárfesta. Og svo er logið í hvert sinn sem tækifæri gefst.

Annað hvort er stjórnin á mála IMF og erlendu fjárfestanna, eða hendur hennar eru bundnar. Sé hið fyrra rétt, eru þetta landráðamenn, upp til hópa. Sé hið seinna rétt, í guðs bænum, gerið hreint fyrir ykkar dyrum svo eitthvað traust skapist í þessu svokallaða þjóðfélagi.


mbl.is Nota forðann í afborganir lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband