Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
25.6.2008 | 12:07
1000 heimili undir hamarinn og ofsahræðsla við hryðjuverk
Ég var að vinna á Schiphol í morgun. Tvennt sló mig og hafði það hvort tvegga með Bandaríkin að gera.
1. Þúsund heimili undir hamarinn.
CNN var að tala um að íbúðamarkaðurinn í Bandaríkjunum væri svo veikur að ein milljón heimila væru að fara undir hamarinn. Svo maður setji þetta í íslenskt samhengi, eru það 1000 fjölskyldur sem væru að fara á hausinn. Það væri athyglisvert ef einhver veit hver staðan er heima. Hvað eru margir að missa heimili sín? Mun þetta hrun í USA hafa áhrif á Íslandi og viðar? Mun þetta verða til að ríkir verði enn ríkari með því að sópa til sín ódýrum fasteignum?
2. Ofsahræðsla við hryðjuverk.
Ég var beðinn um að hjálpa til við hlið þar sem Royal Air Maroc var að fara til Nador í Marokkó. Það var eitthvað vesen og það þurfti "karlmann" til að tala einhverja farþega til. Málið var leyst þegar ég mætti á svæðið, en fyrst ég var þarna, hjálpaði ég til við að koma barnakerrunum út í vél.
Þetta var full Boeing 747 með 457 farþega innanborðs, svo það var nóg af kerrum. Thermos brúsi datt úr einni kerrunni og þar sem búið var að loka vélinni og enginn vasi var á kerrunni, tók ég brúsann með mér inn í flugstöð og henti honum í ruslið.
Við sátum við tölvurnar og ræddum málin þangað til vélinni var ýtt frá flugstöðinni. Klukkan var rúmlega ellefu og mitt næsta verk var að tengja brúna við El Al vél sem átti að koma að næsta hliði um 11:40. Delta átti svo að koma að hliðinu sem við vorum við og fljúga þaðan til New York.
Öryggisverðirnir mættu á svæðið til að undirbúa komu Delta farþeganna. Þeir kíktu allsstaðar og skoðuðu allt. Einn skoðaði ruslafötuna með brúsanum. Hann kallaði á félaga sinn og sagðist hafa fundið grunsamlegan hlut, Thermos brúsa. Ég sagði þeim að hafa ekki áhyggjur, brúsinn hafi komið úr kerru sem hafði farið gegn um öryggisskoðun klukkutíma fyrr. "Já", sagði öryggisvörðurinn, "en þetta er áhættuflug (high-risk flight) og við getum ekki tekið neina áhættu". Hann hringdi svo í yfirmann sinn sem sendi sérstakt fólk á vettvang.
Ég þurfti að fara og sinna mínu El Al verkefni, svo ég gat ekki fygst með eftirmálum, en ég gat ekki annað en brosað. Við erum orðin svo hrædd við hryðjuverk að það jaðrar við móðursýki. Reyndar held ég að ef einstaklingur myndi haga sér eins og Bandaríkin, yrði sá hinn sami sendur til sála.
![]() |
Glitnir spáir 7% lækkun fasteignaverðs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.6.2008 | 19:41
Steingrímur henti sér í fangið á mér...
Þetta hefur verið upp úr 1990. Hann var forsætisráðherra. Ég var að fara heim og ætlaði inn á biðstöðina við Lækjartorg. Ég tók í hurðina og hún rauk upp með látum. Hæstvirtur forsætisráðherra hentist út og í fangið á mér. Þetta var þokkalegur árekstur. Við litum á hvorn annan. Hann spurði hvort ég væri í lagi, hvort ég hefði meitt mig. Nei, allt var í fínu. Ertu viss? Þegar ég hafði fullvissað hann að ég væri ekki stórslasaður, afsakaði hann sig og þaut upp í stjórnarráð.
Þetta voru stutt kynni, en mér líkaði alltaf vel við hann eftir þetta.
![]() |
Steingrímur Hermannsson 80 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2008 | 09:14
Einn kjósandi, eitt atkvæði, eitt kjördæmi
Ég hef aldrei skilið hvernig atkvæðin virka. Ég held að það séu margir sem skilja það ekki. Mannskepnan hefur gaman af því að hanna flókin kerfi, svo það kemur ekki á óvart að einhver hafi lagt hausinn í bleyti og hannað flólkið kosningakerfi. Þetta væri allt í lagi ef kerfið virkaði, en það gerir það ekki.
Er þetta ritvilla eða sönnun þess að kerfið er meingallað? Fylgi Vinstri grænna dregst saman um tæp 4% frá síðustu könnun og segist 17,1 prósent styðja flokkinn. Samkvæmt því myndi þingflokkur Vinstri grænna telja ellefu manns, tveimur fleiri en flokkurinn hefur nú. Hvernig getur þingmönnum fjölgað við lægra fylgi? Er þar sama rökfærslan á ferð og þegar flokkur með 8% fær 5 þingmenn en flokkur með 6% einn og 4.9% engan?
Landsbyggðarfólk hefur lengi haft meiri völd en borgarbörnin, þar sem atkvæði vóg 2-3 sinnum þyngra. Jafnvel meira. Því smærra sem byggðarlagið var, því þyngra var atkvæðið.
Svo er það 5% reglan sem á að vernda okkur frá nýnasistum og rugludöllum. Hún kom í veg fyrir að Íslandshreyfingin komst að, þrátt fyrir þúsundir atkvæða.
Er ekki kominn tími til að einfalda kosningakerfið? Einn kjósandi, eitt atkvæði, jafnvel eitt kjördæmi? Er ekki kominn tími á alvöru lýðræði, eða a.m.k. eitthvað í þá áttina?
![]() |
Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar í könnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.6.2008 | 08:09
Er ekki 2008?
Þegar fregnir berast af mannréttindabrotum, kvenréttindabaráttu sem á undir högg að sækja og umburðarleysi yfirvalda yfirleitt, er oft sagt "en er ekki komið árið 2008?". Þetta hefur reyndar verið sagt svo lengi sem ég man eftir mér, en þá auðvitað með viðkomandi ár í setningunni. Er ekki komið 1976, 1983, 1995, 2000, 1532? Það er eins og fólk trúi að við lifum á tímum frelsi og upplýsingar. Sennilega lifum við á öld einhverskonar upplýsingar á vesturlöndum, þótt mikið þeirra upplýsinga sem við fáum frá stjórnvöldum séu villandi og oft hreinlega rangar. Við eru oft dregin á asnaeyrunum. Stundum kemst þetta upp og þá er talað um skandal og spillingu, en oftast vitum við ekkert fyrr en einhverjum áratugum seinna þegar einhver skjöl eru opinberuð. Þá er svo langt um liðið að við trúum að nú sé öldin önnur og að allt sé í betra horfi en þá.
Mannréttindi hafa til skamms tíma verið virt, að mestu, á vesturlöndum. Við erum að tala um örfáa ártugi í örfáum löndum. Skoði maður mannkynssöguna er lýðræði og málfrelsi sjaldgæft. Við tökum því sem sjálfsögðum hlut, því við þekkjum ekkert annað. Málið er að við erum bara svo heppin að hafa fæðst í einu fárra lýðræðislanda á sjaldgæfu tímabili í mannkynssögunni. Vitum á hvernig tímabili við munum deyja? Það fer sennilega eftir því hvernig við förum með þau réttindi sem við höfum.
Þetta breyttist auðvitað allt 11. september 2001. Nú eru vesturlönd að vinna við að takmarka málfrelsi og mannréttindi. Fólki er haldið í fangelsi án dóms og laga. Fangar eru pyntaðir. Það er ekkert nýtt, en nú er ekki lengur verið að fela það. Við erum beðin um að hafa auga með náunganum og láta yfirvöld vita ef eitthvað grunsamlegt er í gangi. Framtíðin sést kannski skýrast á flugvöllum, þar sem mannréttindi eru mikið til horfin, í nafni öryggis. Ég var að reyna að fá hurð opnaða á Schiphol um daginn. Hurð sem átti að vera opin. Öryggisverðirnir voru ekki með lykla. Ég var ekki með lykla (búinn að redda mér setti núna). Þar sem við stóðum ráðalausir, veltandi fyrir okkur hvernig stæði á þessu, hvaða öryggisreglur við gætum hugsanlega verið að brjóta með því að opna hurðina og hvernig við ættum að koma farþegunum frá borði, sagði hann svolítið sem er auðvitað alveg satt. Hann sagði, verði gerð árás með einhverju sem einhver tók með sér í handfarangri, eða verði það reynt og það mistekst, verður lokað á handfarangur. Enginn mun geta tekið neitt með sér um borð.
Hann hefur sennilega rétt fyrir sér. Samfélag okkar á það til að fara yfir um þegar kemur að öryggismalum og þau eru oft notuð til að vernda okkur fyrir sjálfum okkur, á kostnað frelsis okkar.
Það er árið 2008, en það er síður en svo sjálfvirk ávísun á frelsi og réttlæti. Það er okkar að vernda frelsi okkar, því það er alls ekki sjálfgefið.
Gleðilegan þjóðhátíðardag!
![]() |
Æ fleiri bloggarar handteknir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.5.2008 | 21:57
Löglegur Manndrápshraði
Svo lengi sem ég man eftir mér hefur hraða verið kennt um allt sem miður fer í umferðinni. Ef við keyrum bara nógu hægt deyr enginn og engin slys verða. Þetta er rétt, sé hraðanum still svo í hóf að allir hafi alltaf nógu langan tíma til að bregðast við öllum hugsanlegum hættum. Hver yrði hámarkshraði að vera til að gera umferðina örugga? Töluvert lægri en nú er.
En það er ekki hraði sem drepur. Lélegir ökumenn sem ekki kunna að keyra eftir aðstæðum drepa. Fólk sem blaðrar í símann undir stýri drepur. Léleg færð, hálka og slæmt skyggni drepur. Bílar í lélegu ástandi drepa, hugsanlega. Myndavélar sem hannaðar eru til að ná í aukapening fyrir stjórnvöld leysa engan vanda. Ef eitthvað er, bæta þær á hann. Fólk veit hvar þær eru og hægja á sér rétt á meðan keyrt er fram hjá þeim. Oft er snarbremsað rétt áður en keyrt er fram hjá myndavélinni og skapar það aukna hættu á aftanákeyrslum. Ég bý í landi hraðamyndavéla, ég ætti að vita þetta.
Þegar ég var krakki var 80 km hámarkshraði á þjóðvegum landsins. Þá keyrði fólk um á bílum sem engum er bjóðandi í dag, bílum sem voru töluvert óöruggari með verri bremsur og slæmir í stýri. Mestmegnis á malarvegum. Nú keyrum við um á bílum sem geta farið hringi kring um gömlu bílana vegna betri akstureiginleika. Við keyrum um á rennisléttum malbikuðum og oft upplýstum vegum, en hámarkshraði hefur varla breyst. 90, 10 km meira en þegar mælaborðið skrölti og rykið fyllti vitin.
Hér í Hollandi er mikil umferð. Það getur tekið u.þ.b. 70-90 mínútur að keyra 20-30 km leið kring um Amsterdam. Jafnvel meira. Mengunin er ansi slæm á hringveginum kring um borgina. Hvað var tekið til bragðs? Hámarkshraðinn var lækkaður úr 100 km í 80. Þetta átti að minnka stress og þannig greiða fyrir umferð, og minna mengun, þar sem keyrt yrði hægar. Áhrifin voru stórkostleg. Öngþveitið er nú algert. Hver bíll er lengur úti á götunum, sem eykur á umferðarþunga, þ.a.l. mengun og teppur. Slysum hefur ekki fækkað.
Er ekki kominn tími til að horfa á eitthvað annað en bara hraðann?
![]() |
Hraðamyndavélar á Suðurnesjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.5.2008 | 09:50
Björgum Heiminum!!!
Þetta gæti verið slagorð hins fanatíska hóps virkjanasinna. Þeir segja okkur að með því að "nýta" alla orku sem landið getur mögulega gefið af sér, séum við að bjarga heiminum því orkan okkar sé svo hrein. Þetta er auðvitað argasta bull. Landið er eyðilagt til frambúðar, gufan sem ælt er út í loftið eykur á groðurhúsaáhrifin og það sem mestu máli skiptir, það munar ekkert um þessi skitnu vött sem við getum kreyst út. Þau eru dropi í haf orkuþarfar heimsins. Þar fyrir utan er orkan ekki endurnýjanleg þegar um skítugar jökulár með sínum framburði ræðir. Gufuaflsvirkjanir eru ekki heldur endurnýjanlegar þegar of hart er gengið að þeim, eins og gert er á Hellisheiði.
Eina ástæðan fyrir því að okkar orka er svona vinsæl er að hún er ódýr. Hvað segir það okkur? Við og landið okkar erum á útsölu, eins og hinn fagri bæklingur, LOWEST ENERGY PRICES sannaði um árið. Meira um það á síðu Draumalandsins. Þessi virkjanaárátta er næstum því farið að verða hlægileg. Hún væri það ef landið væri ekki fórnarlamb þessa rugls. Eins og er, er hún bara sorgleg.
Ég mæli með því að fólk sem eitthvað vill gera í þessu og vill vita meira, heimsæki síðu Láru Hönnu. Hægt er að mótmæla fyrirhuguðum virkjunum fyrir ofan Hveragerði. Meiri upplýsingar um það hér og á síðunni Hengill.nu.
Gerum eitthvað. Þetta er komið út í rugl.
P.S. Einhverjum kann að finnast myndin furðuleg og ekki passa við þessa færslu, en málið er að það er stríð á Íslandi, stríð um landið.
![]() |
Vilja stækka Kröfluvirkjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.4.2008 | 10:20
Ekki gagnrýna trúarbrögð!
Þetta er í annað skiptið á stuttum tíma sem að blogg er tekið fyrir og lokað. Í þetta sinn var enginn kærður, en slæmt er það samt. Ég las færslur og athugasemdir Skúla af og til. Ég var svo til alltaf ósammála honum, en þannig er lífið. Hann átti það til að vera öfgafullur, en hann er ekkert einn um það. Ég ætla ekki að nefna neina bloggara, en það eru harðir andstæðingar Íslam, Ísraels, Palestínumanna, trúarbragða, Samfylkingarinnar, stóriðju og náttúruverndar enn að. Það er líka hið besta mál, enda búum við við málfrelsi. Svo er okkur allavega sagt.
Bloggið býður upp á að gerðar séu athugasemdir við færslur. Segi Skúli eða aðrir eitthvað sem fer fyrir brjóstið á fólki eða er einfaldlega rangt, er um að gera að skrifa athugasemd. Að grenja og kvarta í mömmu var aldrei talið neinum til framdráttar.
Það má gagnrýna allt nema trú. Skúli gagnrýndi trú. Skamm á Skúla. Eða hvað?
![]() |
Óánægja með lokun umdeilds bloggs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.4.2008 | 14:26
Rétta leiðin?
Það er kannski ekkert nema gott um það að segja að konurnar séu stikkfrí, enda eru þær fórnarlömb vændisins. En er þetta rétta leiðin? Væri ekki betra að gera dólgana refsiverða og sleppa kúnnanum og vændiskonunni?
Dólgar eru yfirleitt forkertir glæpamenn sem notfæra sér neyð kvenna. Þeir notfæra sér eiturlyfjaneytendur og innflytjendur, fólk sem á oft ekki margra kosta völ. Kúnninn er að ýta undir þessa misnotkun með því að greiða fyrir þjónustuna. Stærstur hluti greiðslunnar fer yfirleitt til dólgsins.
Vændiskonur eru misjafnar. Lang flestar hafa farið út í vændi vegna þess að þær höfðu ekki um annað að velja. Þær eru ólöglegir innflytjendur sem ekki geta farið út á almennan vinnumarkað, eða hafa hreinlega verið rænt og fluttar úr landi og eru ekkert annað en þrælar. Eiturlyfjaneytendur eru stór hluti. Kerfið hefur oft brugðist þeim. Svo eru til vændiskonur sem völdu þetta starf. Þær eru þó líklega lang fæstar.
Ef dólgarnir eru teknir úr umferð, verður sennilega allt ferlið heilbrigðara. Þar sem eru karlmenn sem vilja kynlíf og konur sem geta ekki unnið fyrir sér öðruvísi, mun vændi verða til staðar. Það er ekki hægt að útrýma því. Það er hins vegar hægt að taka milliliðinn út.
![]() |
Kaup á kynlífsþjónustu gerð refsiverð í Noregi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.4.2008 | 07:59
Umhverfisvernd um að kenna?
Síðan Al Gore byrjaði að predika yfir okkur um hinn óþægilega sannleika, hefur umhverfisvernd farið úr böndunum. Nýlega var ESB að gæla við þá hugmynd að skriðdrekar þyrftu að verða minna mengand. Gott að vita að þegar hús einhvers er sprengt í tætlur er rykið eina mengunin sem viðkomandi þarf að lifa við, lifi hann yfir höfuð. Já, og geislavirki úrgngurinn úr sprengjunni, en það er allavega ekkert CO2 í loftinu. Hybrid bílar eru í tísku, þótt sumir hafi allt of lítinn rafgeymi til að vera að notum. Fyrir utan það að framleiðslu- og förgunarferlið er allt annað en umhverfisvænt.
Þótt við séum öll orðin græn eins og engisprettur bruðlum við samt með hráefni. Ég get keypt plastleikfang með batteríum fyrir 500 kall því það er svo ódýrt að framleiða allt í Kína. Stundum furða ég mig á því hvernig það er hægt, hráefni, framleiðsla, þúsundir kílómetra í skipi, vaskur og álagning. Ef batteríið er búið kaupi ég bara nýtt dót, því það er hvort eð er ekkert mikið dýrara en að skipta um batterí, og svo miklu auðveldara. Ef ég kaupi kex, get ég verið viss um að fá ekki matareitrun, því hver kexkaka er sérpökkuð í pakkanum. Þetta er soldið vesen, því ég þarf að fara út með ruslið daglega, sem fullt er af umbúðum, en ég lifi þó annan dag og get farið út með ruslið aftur. Við látum eins og við séum að bjarga umhverfinu en virðumst hafa misst sýn á vandanum.
Eitt af því versta sem umhverfisvakningin hefur komið af stað er biodiesel. Það sem áður var matur er notað í eldsneytisframleiðslu, því öll vitum við að olían er að klárast. Gallinn er bara sá að framleiðsluferlið er dýrt og mengandi og það þarf gífurlegt magn af maís og öðru í framleiðsluna. Við erum ekkert að velta okkur upp úr því að einhver lítill brúnn kall á Haiti eða í Afríku getur ekki étið. Fyrir okkur er vandinn sá að kexpakkinn fer úr 100 kalli í 200. Bömmer, en við höfum efni á því. Litli brúni kallinn hefur það ekki og sveltur fyrir vikið. Skiptir ekki máli, því við getum verið ánægð með okkar framlag til umhverfismála, keyrandi um á poppkornsknúnum jeppa.
![]() |
Fjármálaráðherrar í áfalli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.4.2008 | 12:49
Af hverju...
![]() |
Tíbetskir munkar handteknir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |