Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Er þetta virkilega eitthvað sem við viljum ganga í?

Evrópa er ríkasta svæði í heimi. Þó leggjumst við svo lágt að heimsækja þriðjaheimsríki og biðja um peninga? Kína er á barmi hruns og við mjálmum í þeim að styðja Evrópu í krísunni?

Er ESB gengið af göflunum? Er ekki snefill eftir af sjálfsvirðingui hjá þessu fólki? Skilja þessir "háu herrar" ekki að ef Kína fer að fjármagna einhverskonar gervibata - því án uppstokkunar kerfisins erum við ekki að leysa neitt - vilja þeir hafa eitthvað um evrópumál að segja? Trúum við virkilega að kínverjar muni hjálpa okkur af því þeir eru svo góðir í sér? Viljum við að ríki sem drepur þegnana án dóms og laga*, leyfir barnaþrælkun og gefur skít í mannréttindi yfirleitt hafi eitthvað með okkur að gera? Viljum við gefa Kína höggstað á okkur?

Svo er þetta skemmtilegt. "Barroso gerði lítið úr mótmælum og verkföllum í einstökum evruríkjum vegna efnahagsástandsins og sagði að það væri réttur fólks að mótmæla í opnum samfélögum." Auðvitað gerir hann lítið úr þessu, því Brussel elítunni er skítsama um hvað fólki finnst. Evrópustórnarskráin er gott dæmi. Þegar fólk í nokkrum evrópulöndum hafnaði henni, var nafninu breytt í Lissabonsáttmála og sett í lög. Það þarf nefninlega ekki að kjósa um einhvern sáttmála. Og þegar ekki er hjá kosningum komist, er kosið aftur og aftur þar til rétt niðurstaða fæst. Svo aldrei meir.

Ísland hefur ekkert í þetta samband að sækja. Ekki í bili allavega. Fyrst verðum við að taka til heima hjá okkar, koma efnahaginum í þokkalegt horf. Það getur ekki verið gott að setjast að samningaborðinu með allt niður um sig. Hvernig eigum við að geta samið um nokkurn skapaðan hlut í þeirri stöðu sem við erum nú? Svo er ágætt að bíða átekta þar til róast um evruna og ástandið almennt innan ESB áður en við ákveðum að ganga í sambandið.

ESB er ólýðræðislegt og smáríki hafa sama og engin völd. ESB málið hefur orðið til þess að núverandi stjórn hefur klofnað og ekki komið brýnari málum í verk.

Tökum þessu rólega. Vinnum í okkar málum og fylgjumst með ESB úr fjarlægð. Okkur liggur ekkert á. 

* Sjá þessa frétt. Vara við myndum sem geta komið fólki úr jafnvægi. http://barbadosfreepress.wordpress.com/2008/10/03/would-bussa-have-accompanied-barbados-chief-justice-and-prime-minister-to-chinese-embassy-celebration/


mbl.is ESB þróast áfram þrátt fyrir krísuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glópagull

Efnahagskerfi heimsins hrundi haustið 2008. Ísland og fleiri ríki fundu fyrir því af hörku á meðan sum sluppu tiltölulega vel. En þetta er ekki búið. Dollarinn er veikur, evran riðar til falls. Báðir gjaldmiðlarnir hafa fallið um allavega fjórðung á liðnu ári. Kreppan er ekki búin, því það er ekki verið að ráðast á rót hennar. Ríki heimsins hafa aldrei verið skuldugri en einmitt núna og það sér ekki fyrir endann á lántökunum. Kreppan er rétt að byrja, nema við stokkum kerfið upp. Það er ekki að gerast.

photo 2

Erlendir kaupmenn reyna að hafa eðalmálma af íslendingum. Hér úti í heimi er þetta ekkert öðruvísi. Við höfum fengið sömu auglýsinguna inn um bréfalúguna af og til síðasta árið. Eigið þið gull sem þið viljið selja? Við greiðum hæstu verðin! Gullverð er í hæstu hæðum, en þó vilja þeir sem vitið hafa á þessum málmum ólmir kaupa það. Og borga vel fyrir. Merkileg tímasetning.

Þeir vita nefninlega að ef allt fer sem horfir, verða peningar eins og við þekkjum þá verðlitlir eftir einhver misseri. Þegar stærstu gjaldmiðlar heims riða til falls og ríkisskuldabréf og verðbréf eru of áhættusöm, er öruggast að fjárfesta í alvöru hlutum. Ekki peningunum sem eru bara tölur í tölvu og hafa enga eiginlega merkingu, ekki hlutabréfum sem geta fallið um tugi prósenta á örskömmum tíma. Nei, fasteignir og eðalmálmar eru öruggasta fjárfestingin. Eðalmálmarnir eru bestir, því þeir eru færanlegir.

Það er ekki gott ef menningarverðmæti eru að hverfa úr landi og eru eyðilögð í einhverri bræðslu. En burtséð frá því, er gott að hugsa málið til enda. Ef þeir sem vit hafa á eðalmálmum vilja ólmir kaupa þá þegar verð er í hámarki, ættu viðvörunarbjöllur að hljóma í hausnum á okkur. 


mbl.is Skart stöðvað á leið úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryðjuverk?

Arion Banki ber fyrir sig hryðjuverkum. Að fái hann ekki að njósna um landsmenn, geti þeir stutt við bakið á hryðjuverkastarfsemi.

Mér hefur sýnst á undanförnum árum að bankarnir, ekki síst þessi, séu að fremja stærsta hryðjuverk sem íslendingar hafa orðið fyrir. Bankarnir tóku stöðu gegn krónunni. Þeir spiluðu fjárhættuspil með fé landsmanna. Þeir settu þjóðina á hausinn og græða nú á tá og fingri.

Maður þarf ekki að sprengja eitthvað í loft upp til að eyðileggja samfélag. 

Hafi ég rangt fyrir mér, vil ég endilega heyra það. 


mbl.is Setur dagsektir á Arion banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefum vínsölu frjálsa!

Ég er eiginlega orðlaus, en ætla samt að pikka inn smá færslu.

Á Íslandi er áfengi litið hornauga. Þetta er bölvaldur, bakkus er harður húsbóndi, við drepumst öll úr alkóholisma ef þetta helvíti er ekki bannað!

Ef maður skoðar tölur, kemur eitthvað allt annað í ljós. Samkvæmt AA samtökunum eru hvergi fleiri hjálparhópar á haus en á Íslandi. 800 á milljón, á móti 0.6 í Portúgal, sem er með fæstu hópana. Portúgalar drekka 2 1/2 lítra á móti hverjum lítra okkar íslendinga. Þeir virðast kunna á áfengi, á meðan við gerum það ekki.

En svo ég tali bara af reynslunni. Ég bý í Hollandi. Hér er bjór og léttvín selt í matvöruverslunum. Kassi af bjór kostar u.þ.b. átta evrur. 24x30cl flöskur. Þetta er Heineken, ekki sá ódýrasti. Mig minnir að Lidl selji þýskan bjór, 24x33lc, á fimm evrur. Flaska af rauðvíni frá þremur evrum. Sterk vín eru seld í vínbúðum. Viskíflaskan kostar frá 12-13 evrum og upp. Samkvæmt heimspekilegum vangaveltum lífhræddra íslendinga ættu allir að vera ælandi í ræsinu hér, dauðadrukknir og lagstir í gröfina um fimmtugt. Það er auðvitað fjarstæða. Fólk drekkur meira magn hér en á Íslandi, en það dreyfist yfir vikuna. Bjór eftir vinnu og rauðvínsglas með matnum safnast saman. Íslendingar drekka örlítið minna, en demba öllu í sig á djamminu um helgar. Maður spyr sig, hvort ætli sé verra fyrir heilsuna?

Það er reyndar margsannað að 1-2 glös af rauðvíni á dag er gott fyrir skrokkinn. Það getur komið í veg fyrir hjartakvilla og skerpir hugsun.

Er ekki kominn tími á að íslendingar skríði upp úr holunum sem hræddir bindindismenn grófu fyrir 100 árum? Hættum að væla, hjálpum þeim sem ekki kunna að fara með áfengi og látum hina vera. Njótum þess að fá okkur ískaldan bjór eftir vinnu og gott rauðvinsglas með matnum. Leyfum matvöruverslunum að selja áfengi á eðlilegu verði og njótum lífsins.


mbl.is Áfengi hættulegasta eiturlyfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fari IMF og spillingarpakkið fjandans til!

Það mátti loka Þjóðleikhúsinu og öðrum menningarstofnunum, en bankarnir skyldu fá sitt? Ef þetta sýnir ekki geðveikina, að peningamafían er á annarri plánetu en við hin, þá veit ég ekki hvað ætti að gera það. Íslendingar byggðu upp menningarlíf sem fáar þjóðir geta státað af. Íslenskar bókmenntir, leiklist, myndlist, tónlist. Er þetta minna virði en peningar?

Pabbastrákarnir fóru í útrás í boði spillingarhunda í embættismannakerfinu. Þeir spiluðu af sér og töpuðu öllu, eins og þeir væru dauðadrukknir unglingar á sóðabar i rauðu hverfi í einhverri hafnarborginni. Svo koma dólgarnir sem notfærðu sér heimsku pabbastrákanna og vaða um allt á skítugum skónum.

Svo heyrum við endalausar fréttir af því hvað IMF (ég segi enn IMF, neita að íslenska nafnið á þessum glæpasamtökum) finnst þjóðir heims eigi að gera. Herða sultarólina. Borga meiri skatta. Skera niður þjónustu. Drepa gamalmenni með því að leyfa því að frjósa í hel, afskiptalaust. Segja okkur að kyngja því að nú er kreppa og að hún er pínulítið okkur að kenna en að feitu grísirnir með bindin séu nú alveg að reyna að bjarga okkur. En taka þeir sjálfir nokkurn tíma ábyrgð? Nei, auðvitað ekki. Þeir setja allt á hausinn, koma svo og sópa allt til sín.

Er ekki komið nóg af arðráni og spillingu. Eins og einhver ímynduð tala á einhverjum bankareikningi, sem eiginlega er ekki til ef maður spáir í það, sé mikilvægari en leikhús, söfn, listir og menning? Þvílík sturlun!

Ég þakka núverandi stjórnvöldum fyrir að hafa þó haldið skítugum IMF krumlunum frá menningarstofnununum sem þjóðin hefur byggt upp á áratugum. Hún má þó eiga það.


mbl.is AGS vildi loka Þjóðleikhúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk pyntar fólk.

Stundum les maður fréttir sem fær blóðið til að sjóða. Pyntingar á börnum er það ógeðslegasta sem hægt er að hugsa sér. Ég vona að Assad og aðrir með jafn viðbjóðslegt innræti mæti þeim örlögum sem þeir eiga skilið.

Því miður er það þó svo að maður er farinn að taka öllum svona fréttum með fyrirvara. Ekki að ég efist um að þetta sé að gerast, að sýrlensk börn séu tekin, brennd með sígarettum, gefið raflost og fleira. Að æsku þeirra sé rænt. Ég efast ekki um að svipaðir hlutir gerist í mörgum löndum, um allan heim. Svona fréttir koma bara svo oft upp vegna þess að vesturlönd vilja fara í stríð við viðkomandi land. Vonum að það sé ekki málið hér.

Þegar yfirvöld standa fyrir morðum og pyntingum, þurfa þau hjálp einstaklinga sem eru tilbúnir til að framkvæma voðaverk sem venjulegt fólk getur ekki ímyndað sér. Þetta gerist yfirleitt í nafni einhvers guðs sem fólk telur gefa sér einhvern rétt til að homa fram við aðra af algerri vanvirðingu því þeir aðhyllast ekki sömu hjátrú. Þetta gerist líka vegna óttans við einhvern leiðtoga. Maður er hlekkur í keðju og þorir ekki að fylgja samviskunni vegna þess að þá eru einhverjir bitlingar teknir af manni, eða að refsingin við að óhlýðnast er samviskunni yfirsterkari. Það er betra að pynta börn, en að eiga það á hættu að lenda á svarta lista yfirvalda. Stundum er það geðveiki sem fær fólk til að pynta og drepa, stundum meðvirkni og stundum ótti.

Bradley Manning á að hafa lekið skjölum sem voru svo birt af Wikileaks. Skjölum sem sýndu að hermenn bandamanna voru ekki alltaf að berjast við vondu kallana fyrir hin góðu öfl. Þau sýndu að hermennirnir okkar, sem við sendum til Íraks, Afganistan og Lýbíu með samþykki okkar, voru kerfisbundið að myrða og pynta óbreytta borgara. Skjölin sýndu að við erum ekki góði kallinn. Við erum nasistarnir sem stilltu fólki upp við vegg og skutum það fyrir minnstu sakir, rómverjarnir sem útrýmdu heilu þorpunum ef þau voru ekki til friðs. Við vorum innrásarherinn og við höguðum okkur þannig. Allt gerðist þetta í okkar nafni, því íslendingar samþykktu þessi stríð.

Hann á að hafa lekið þessum skjölum og var því hnepptur í gæsluvarðhald. Honum var haldið vakandi í 23 tíma á dag, hann fékk ekki að tala við neinn nema lögfræðing, hann fékk enga ábreiðu í pínulitla klefanum. Hann var pyntaður, niðurlægður og brotinn niður andlega. Haldið í þessu ástandi í hálft annað ár án þess að vera ákærður. Pyntaður án dóms og laga.

Bandaríkjamenn hafa reynt að þaga tilvist hans í hel síðan málið kom upp. Fæstir sem ég tala við hafa nokkra hugmynd um hver Bradley Manning er, þaðan af síður af hverju þau ættu að vita af honum. Þegar minnst er á hann í fjölmiðlum, er oft tekið fram að hann sé hommi, eins og til að gera minna úr málinu. Snúa því upp í hálfgert grín, beina umræðunni annað.

Af og til koma svo fréttir sem fá mann til að brosa og trúa á mannkynið. 

Í dag tók Hreyfingin stórt skref þegar hún tilnefndi Bradley Manning til friðarverðlauna Nóbels. Hvort hann fái verðlaunin er erfitt að segja, en þetta mun auka umfjöllun um hann í heimspressunni. Fólk mun hugsanlega heyra af honum í fyrsta sinn, skilja af hverju hann hefur verið í haldi án dóms og laga og sjá að heimurinn er ekki endilega eins og okkur er talin trú um. Að við séum ekki endilega góðu kallarnir, að það sé ekki hægt að fara í stríð til að halda friðinn, að ástæðan er ekki að viðhalda mannréttindum og bjarga þjóðum heimsins frá illum einræðisherrum. Að það hangi alltaf eitthvað á spítunni þegar ríki fara í stríð. Kannski að fólk fari að skilja að fyrsta fórnarlamb hverrar styrjaldar er sannleikurinn. Almennir borgara fylgja svo fast á eftir.

Almenningsálitið endaði Víetnam stríðið. Það getur líka endað stíðið við hryðjuverkin ef fólk veit um hvað það snýst. Án þegjandi samkomulags þegnanna, geta ríki ekki farið í stríð. Án hermanna sem tilbúnir eru til að drepa, yrði ansi fámennt á vígvöllunum.

Hreyfingin er lítill flokkur á Íslandi, en í dag hafði hún mikil áhrif á heimsvísu. Hún sýndi að örfáir einstaklingar geta haft mikil áhrif. Að við skiptum öll máli. Ég óska þeim innilega til hamingju. 


mbl.is Börn pyntuð á skelfilegan hátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna móðgar...

...húsnæðiseigendur landsins með þessum útúrsnúningum. Hvernig getur beinasta leiðin verið í gegn um Brussel, samninga sem enn þarf að klára, setja í þjóðaratkvæði (það á að kjósa um þetta, ekki satt?) og skrifa undir? Svo þarf að tala um þetta í þinginu og setja í framkvæmd.

Er ekki einfaldara að hósta upp frumvarpi og bera fyrir Alþingi? Málið gæti klárast fyrir vorið! Hvernig getur það verið flóknara?

Svo er eitt sem gleymist oft að nefna. Þó verðtryggingin sé ekki almennt notuð innan ESB, er hún langt í frá bönnuð. ESB aðild er því engin trygging fyrir því að þessari bölvun verði létt af landanaum. 


mbl.is Beinasta leiðin að ganga í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurning um spillingu?

Ein spurning brennur á mér. Í stjórn félagsins Greið Leið ehf situr Kristján nokkur Möller. Hann er þingmaður og mun því væntanlega fá að greiða atkvæði um það hvort skattpeningar verða notaðir í þetta verkefni. Hann situr því beggja megin borðsins. Hvernig getur þetta mál flækst um alla fjölmiðla landsins, þing og nefndir, án þess að nokkur geri athugasemd við það? Er þetta ekki gamla Ísland, spillingarlandið í hnotskurn?

Það er lítil hætta á öðru en að hann muni sitja áfram eftir kosningar og greiða atkvæði um þetta mál, því þetta er kjördæmapot af verstu gerð.

Svo eru aðrar spurningar eins og, hvernig á þetta að standa undir sér? Ef þetta er arðbært, af hverju fer ekki einhver einkaaðili í þetta, í stað þess að ríkið sé að eyrnamerkja pening sem það á ekki?

En aðal spurningin er, höfum við ekkert lært? Ætlum við að leyfa þingmönnum að vaða um allt á skítugum skónum? Er ekki kominn tími á lög sem banna þingmönnum að vera í viðskiptum, til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra?


mbl.is Vilja Vaðlaheiðargöng á áætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrikaleg ógn við persónufrelsið

Fréttin segir sína sögu. Verði þessi lög að veruleika, munu öll samskipti á netinu verða hleruð og ritskoðuð. Sért þú með "óæskilegar" skoðanir, verðurðu settu(ur) undir smásjá. Yfirvöld munu engar heimildir þurfa, stórfyrirtæki í skemmtanabransanum geta rukkað þig fyrir að nota hluta úr dægurlagatextum. Vefsíður munu ekki geta fjallað um efni sem verndað er að höfundarétti. Wikipedia, youTube og Facebook gætu horfið, því enginn grundvöllur verður fyrir starfsemi þeirra.

Það sem mestu máli skiptir, er að netið verður eins og gamli sveitasíminn. Yfirvöld munu alltaf vita hvað þú ert að segja og gera.

Hér er myndband sem útskyrir í einföldu máli um hvað þetta snýr.

 

Og hér er hægt að setja sig á undirskriftalista gegn þessu skrímsli: http://www.avaaz.org/en/eu_save_the_internet/?tta 

Ég vona svo sannarlega að íslenskir þingmenn hafi rænu á að samþykkja þessi lög ekki. 


mbl.is ACTA verra en SOPA og PIPA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með ósk um gott gengi...

Ég get ekki sagt að ég sé ánægður með þessa ríkisstjórn. Hún hefur hingað til ekki staðið við stóru orðin. Gengdarlausar persónuárásir á þau fara þó hrikalega í taugarnar á mér. 

Kosningar nú yrðu stórslys. Aðeins Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð að grafa sínar skotgrafir og ynni sennilega stórsigur, þrátt fyrir að hafa siglt skútunni í strand fyrir þremur árum. Vonum að Jóhanna nái að klára sín mál svo að þjóðin geti átt möguleika á einhverskonar upprisu. Hægri stjórn nú væri ekkert annað en að fara aftur fyrir byrjunarreit.

Þó ég sé ekki stuðningsmaður þessarar stjórnar, óska ég þeim góðs gengis og vona að þau nái að klára sín mál. 


mbl.is Vill klára málin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband