Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Áróðursmaskínan ræst

Píratar mælast með mikið fylgi. Meira en Sjálfstæðisflokkurinn. Tvö ár eru til kosninga og ekkert sem bendir til að núverandi stjórn lifi þær af. Það var auðvitað fyrirsjáanlegt að Mogginn færi í áróðursstríð.

Fyrstu skotunum hefur verið hleypt af. Píratar eru vændir um að vera gutlflokkur sem ekkert vit hefur á þingmálum. Mynd sem notuð er við fréttina á Facebook er að Jóni Þóri, þingmanni Pírata. Hann er myndarlegur maður, en á myndinni virðist hann vera hálf hissa. Hun er notuð til að koma skilaboðum á framfæri. Fæstir sjá áróðurinn sennilega ekki. Éta bara fréttina upp hráa.

Ástæðan fyrir fylgisaukningu Pírata er að þau eru málefnaleg og taka ekki þátt í leðjuslagnum sem íslensk stjórnmál eiga það til að vera. Vonandi fellur fólk ekki fyrir áróðurstækni Moggans. Eina von íslensku þjóðarinnar er að koma gömlu öflunum út og taka sjálf ábyrgð á framtíð landsins.

Ég læt orð Helga Hrafns, þingmanns Pírata fylgja með. Þau útskýra ástæðuna fyrir hjásetunum ágætlega.

"Þetta er pínlega einfalt. Við erum þriggja manna þingflokkur í 8 fastanefndum og ríkisstjórnin, EES og aðrir þingmenn mega leggja fram mál óháð því hversu mikinn tíma við höfum. - Þannig að þau gera nákvæmlega það. Við erum háð sömu eðlisfræðilegu takmörkunum og annað fólk, nefnilega þeirri að geta ekki verið á tveimur stöðum á sama tíma og sömuleiðis að búa við 24 klukkustunda sólarhring.

Þetta er engu flóknara heldur en ástæðan fyrir því að ein manneskja getur ekki lyft bíl. Við höfum einfaldlega takmarkaðan mannafla og takmrakaðan tíma. Þetta er hvorki flókið né ætti að koma nokkrum á óvart. Það er nákvæmlega ekki neitt sem við getum gert í þessu annað en að greiða atkvæði án þess að vita hvað við erum að greiða atkvæði um.

Einnig eru nefndarfundir lokaðir þannig að við getum ekki farið yfir fundi sem við neyðumst til að sleppa, t.d. um helgar (ekki að maður hafi ekki miklu meira en nóg að gera þá líka). Aftur; við erum 3 þingmenn í 8 fastanefndum plús öðrum sem ekki eru fastanefndir, plús okkar eigin málefni.

Fólk virðist halda að Alþingi sé sett upp þannig að nægur tími sé búinn til handa öllum til að fjalla nógu vel um hvert mál til að taka upplýsta afstöðu, eða að fjöldi atkvæðagreiðslna taki tillit til stærðar þingflokka. Það er einfaldlega ekki þannig."


mbl.is Greiðir bara upplýst atkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Planið

Ég held ég sé búinn að fatta plottið. Af hverju hlusta ráðherrar ekki á þjóðina? Af hverju liggur svona mikið á að losa sig við ESB? Og hvað með allar allar lygarnar?

Þetta snýst um það sama og flest önnur spilling á Íslandi. Stíflur. Virkjanir.

Kaupfélagsstjórinn er búinn að eigna sér nær allar jarðir með vatnsréttindi í Skagafirði og nágrenni. Hefur dundað sér við að kaupa þær á síðustu 15 árum eða svo. Þar skal koma virkjun. Nokkrir hlutir þurfa að gerast til að hún verði að möguleika. Planið fæðist.

1. Koma í veg fyrir að stjórnarskrármálið sé klárað, svo að þjóðin sé ekki að skipta sér af.

2. Koma sínu fólki í ríkisstjórn, með hvaða aðferðum sem er. Nytsömum sakleysingjum í ráðherrastóla. Stjórnarandstaða kemur ekki til greina. Ef nauðsynlegt er að ljúga upp í opið geðið á þjóðinni, þá verður bara að hafa það. Þótt það kosti flokkinn næstu kosningar, skiptir það ekki máli. Eitt kjörtímabil er nóg.

3. Kominn í stjórn. Koma náttúruverndarlögunum fyrir kattarnef svo hægt sé að virkja þar sem þarf. 

4. Losa sig við ESB strax. Það má ekki dragast, því ef sambandið fer að skipta sér af innanríkismálum getur það gert athugasemdir við hugsanleg náttúruspjöll og spillingu. Það er nefninlega þannig að sandkassaleikurinn á Íslandi er illa séður í útlandinu.

5. Koma virkjunaráformunum í jarðveg eins hratt og auðið er. Á kjörtímabilinu, svo næsta stjórn geti ekki snúið ferlinu við.

6. Njóta ávaxtanna á meðan þjóðin étur mylsnuna sem fellur af borðinu.

Það er viðbúið að flokkurinn gjörtapi næstu kosningum, en það skiptir ekki máli. 1-2 kjörtímabil utan ríkisstjórnar er fórnarkosnaður sem hægt er að sætta sig við, ef planið virkar. Því peningarnir munu streyma. Þar fyrir utan, eru okkar menn í öllum stofnunum og geta gert framtíðarstjórn erfitt fyrir, svo að hún muni ekki getað virkað almennilega, og tapar því þarnæstu kosningum.


Lögregluríki?

Þegar ég heyrði af handtöku Ómars í dag, skrifaði ég eftirfarandi athugasemd á DV.
 
"Afsakið orðbragðið, en hvaða helvítis lögregluríki er þetta fáránlega drullusamfélag orðið? Hvað í fjandanum hefur Ómar gert til að eiga það skilið að vera handtekinn? Þetta er eins og gamla Sovét og sögurnar sem maður er að heyra frá USA. Sleppið honum strax og biðjist afsökunar, ef þið viljið ekki algerlega missa almenningsálitið í skítinn."
 
Eiður Guðnason, fyrrverandi ráðherra lét svo hafa þetta efitir sér. "Við búum greinilega ekki í réttaríki heldur lögregluríki."
 
Ríkisstjórnin fór illa af stað. Tók ákvarðanir sem féllu í grýttan jarðveg. Virðist hafa lítinn áhuga á að efna stórkostlegu loforðin frá í vor.
 
Það er staðreynd að íslendingar eru ekki mikil uppreisnarþjóð. Við höfum leyft hinum og þessum að ráðskast með okkur í aldir. Í fljótu bragði, man ég eftir tveimur undartekningum. Vér mótmælum allir Jóns Sigurðssonar og Búsáhaldabyltingin þar sem Hrunstjórnin hrökklaðist frá völdum.
 
Við höfum sýnt að við getum látið heyra í okkur þegar okkur er misboðið. Ég hef það á tilfinningunni að núverandi stjórnvöld séu að storka örlögunum. Íslenska þjóðin lætur sig hafa allan fjandann, en ef henni er endalaust misboðið, ef heiðarlegt fólk er handtekið með ruddaskap, ef ekkert verður gert til að leiðrétta það sem er að í stjórnsýslunni... þá kann fjandinn að vera laus.
 
Nýlenda skuldaþræla sem stjórnað er með harðri hendi er ekki landið sem við viljum að Ísland verði. Það er löngu kominn tími á að venjulegt fólk með eðlilegar skoðanir fari að stjórna í þessu landi. 

mbl.is Eiður: „Löggan tók mig fyrst“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingana Heim

Það er gott mál ef Ísland er að ná til sín hátæknifyrirtækjum. Þjóðin er vel menntuð og á að geta verið brautryðjandi í flestu sem henni dettur í hug að taka sér fyrir hendur.

Fólksflótti eftir hrun getur þó sett strik í reikninginn. Fólk sem flytur að heiman virðist yfirleitt vera vel menntað, fólk sem kemst tiltölulega auðveldlega í góð störf í nágrannalöndunum. Þessu fólki þarf að ná til baka.

Ég hjó eftir þessu í fréttinni: "...meðal annars var Alvogen veittur frestur til þriggja ára á greiðslu gatnagerðargjöldum í Reykjavík."

Væri það ekki hugmynd að gera svipað fyrir íslendinga sem vilja koma heim? Gefa fólki sem átt hefur lögheimili erlendis í fimm ár eða lengur skattaafslátt, fella niður gatnagerðagjöld eða eitthvað svipað fyrstu 1-3 árin?

Málið er nefninlega að þjóðin er verðmætasta auðlind okkar, og ef við látum það óafskipt að best menntaða fólkið fari úr landi og komi ekki aftur, erum við í vanda. Framsækin fyrirtæki með vel menntað fólk innanborðs er sennilega besta tekjulind sem til er.

Svo er það auðvitað bónus að fá fólk heim sem kynnst hefur öðrum samfélögum, því víðsýni hlýtur að vera af hinu góða.


mbl.is Stórt heilbrigðisfyrirtæki skoðar Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirmyndarlandið?

Hvernig getur þetta staðist? Það er nógu hrikalegt að fá krabbamein, þótt það þýði ekki gjaldþrot í leiðinni. Hvar er mannúðin í þeim sem semja fjárlögin? Hvað mun krabbameinsmeðferð kosta þegar sjúkrahús eru farin að láta eins og hótel?

Er þetta fyrirmyndarlandið? Er þetta Íslandið sem við viljum búa í? Erum við stolt af þessu?

En þetta er allt í lagi, því það er frítt að fara í kirkju. Spurning með að taka up gamla kerfið og biðja bara guð um hjálp ef maður veikist.


mbl.is Milljón úr eigin vasa í meðferðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíð Íslands...

„En þeir eru til sem hafa ekki trú á Íslandi, þeir sem ala á sundrung og þeir sem aðhyllast öfgakennda hugmyndafræði og líta á hvern þann vanda sem upp kemur í samfélaginu fyrst og fremst sem tækifæri til að innleiða þær öfgar,“ sagði Sigmundur Davíð.

„Íslandssagan í meira en 1100 ár sýnir að þegar við Íslendingar höfum trú á landinu okkar og okkur sjálfum og þegar okkur auðnast að standa saman en látum ekki sundrung og niðurrifsöfl draga úr okkur þrótt, þá farnast okkur vel.“ 

Merkileg orð sem forsætisráðherra lét falla. Á meðan girðingar og lögreglumenn halda "skrílnum" frá þingmönnum, talar hann um niðurrifsöfl og "þá sem ala á sundrung og aðhyllast öfgakennda hugmyndafræði".
 
Ég get ekki betur séð en að SDG (innlend skammtöfun) og hans félagar séu þeir einu sem ala á sundrungu og öfgakenndri hugmyndafræði. Við hverju bjóst ríkisstjórnin? Grjótkasti? Mólótov kokkteilum? Í hvernig hugarheimi lifir þetta fólk? Og sé hætta á þessum öfgakenndu ofbeldisverkum, er þá ekki eitthvað að í þjóðfélaginu? Er ekki hugmynd að finna meinið og vinna á því í sátt við kjósendur, fólkið sem kom SDG og félögum á þing?
 
Sá þessa auglýsingu á MBL.
Þjóðin er sundruð. Það er enginn vafi á því. En af hverju? Er það af því stjórnvöld og peningaöflin hafa alið á sundrungu eða er það af því íslendingar eru svo heimsk þjóð?
 
Við höfum verið mötuð á stóriðjustefnunni í mörg ár. Allt er ál sem glóir. Verksmiðjur eru fyrir alvöru fólk. Jafnvel þegar sýnt er að álvinnsla er í vanda, vilja þeir virkja meira, skemma meira, svo hægt sé að byggja fleiri álver.
 
Listir og menning er eitthvað sem fólk getur dundað sér við í tómstundum ef það nennir. Útlendingar, þessir leiðinlegu túristar, eru til þess eins að blóðmjólka og senda svo heim. Þeir gefa sama og ekkert af sér hvort eð er.
 
Nei, stóriðjan er málið. Eitthvað annað er ekkert.
 
Flugvöllurinn skal fara. Skiptir ekki máli hvort við höfum efni á því að byggja nýjan ákkúrat núna eða ekki.
 
ESB er útlensk skammstöfun og útlendingarnir skilja okkur hvort eð er ekki. 
 
Svo sér maður þjóðina klofna, rífast, sveitavarginn bölva lattelepjurunum. Þeir gefa okkur bein til að rífast um og við hlýðum eins og barðir hundar.
 
Við erum ein þjóð í einu landi. Við getum haft það fínt. En aðeins ef við hættum að láta ata okkur saman í einhverjum tilgangslausum hanaslag. Það eru öfl í samfélaginu sem ala á sundrungu því þau vita að ef þjóðin ákveður að standa saman, verður bylting. Ekki með pottum og pönnum, bensínsprengjum og líkamsárásum, heldur bylting hugarfars.
 
Og bylting hugarfars, að þjóðin klifri upp úr skotgröfunum og sættist, er það eina sem "þau" eru hrædd við.
 
Texti við mynd sést víst ekki almennilega, en hann er: Sá þessa auglýsingu á MBL. "Eftir að rekstur hefst..." Nákvæmlega. Þá er búið að rústa náttúrunni sem fer undir vatn. Disinfo, DoubleSpeak, eins og þeir segja í útlandinu. 

mbl.is Minnkar um 20 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðin til Fasisma?

Sterk fyrirsögn, en stundum velti ég fyrir mér hvert við erum að fara.

Ég man þegar öryggisverðir voru eitthvað sem þeir höfðu í útlöndum. Íslendingar myndu aldrei fara svo lágt að það þyrfti að verja og vernda þingmenn eitthvað sérstaklega.

En eins og einhver sagði, öfgaskríllinn er að eyðileggja þessa virðulegu athöfn.

Virðuleikinn kemur okkur ekki upp úr skuldafeninu sem vanhæfar ríkisstjórnir hafa komið okkur í. Mótmæli við setningu alþingis eru ekkert óvart. Það er ástæða fyrir því ef þingmönnum finnst þeir þurfi að læðast með veggjum.

Hvernig væri að laga það sem að er í þjóðfélaginu, frekar en að þýpka gjáina milli þings og þjóðar enn frekar? 


mbl.is Undirbúa setningu Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósum með, ekki á móti.

Nú er að kjósa. Ef þú vilt ekki Ólaf áfram, er bara ein leið. Ef þú ert ekki með okkur, ertu á móti Nýja Íslandi. Þá styður þú hið gamla, með allri sinni spillingu.

Þetta er einföldun sem oft er slegið fram þegar þarf að hópa fólki um viss málefni. Virkar líka oft. En þetta er meingölluð hugmyndafræði sem elur á ótta. Ef við viljum nýtt Ísland, ef við viljum breytingar, verðum við að hætta að vera hrædd. Það er nefninlega svo auðvelt að stjórna þeim sem hræðast.

Það eru sex frambjóðendur á kjörseðlinum. Ekki tveir. Sex valkostir, með sínum kostum og göllum. Við höfum heyrt þau og séð, vitum nokkurn veginn hvað þau vilja gera verði þau kosin. Það er okkar að móðga ekki lýðræðið og kjósa þann frambjóðanda sem við viljum sjá á Bessastöðum. Ekki kjósa á móti þeim sem við viljum ekki, heldur velja þann sem við viljum. Segja já, ekki nei.

Það tók mig töluverðan tíma að ákveða mig, en ég hef ákveðið að Andrea er minn frambjóðandi. Hún er ekki hrædd við að nýta embættið til að hjálpa heimilunum í landinu. Hún er ekki hrædd við að slá á puttana á ráðherrum sem eru ekki að standa sig. Hún er ekki hrædd við að vera í beinu sambandi við stjórnvöld og setja fram tillögur ef þjóðin fer fram á það. Hún yrði virkur forseti, og það er nákvæmlega það sem við þurfum á komandi árum. Forseti sem er með fingurinn á púlsinum og veitir Alþingi aðhald. Forseti sem lætur sig afkomu og hamingju þjóðarinnar varða. Forseti sem tekur fólkið í landinu fram yfir fjármagnsöflin.

Ég er ekki að kjósa Ólaf með því að velja Andreu. Ég er heldur ekki að kjósa Þóru með því að kjósa ekki Ólaf. Ég er að kjósa jákvæðar breytingar.


mbl.is Tæp 30.000 atkvæði greidd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með eða á Móti?

Ég var spenntur fyrir forsetakosningunum. Kominn tími á nýja manneskju og nýja tíma. Fékk þó fljótt leið á baráttunni. Valið stóð um núverandi forseta með sínum kostum og göllum og einhverskonar Vigdísi. Enginn minntist á alla hina frambjóðendurna. Enda áttu þeir aldrei séns. Eða hvað? Það munum við aldrei vita, því fjölmiðlar brugðust hlutverkinu.

Svo er þetta allt komið út í neikvæðni og us versus them. Við klúðruðum baráttunni.

Ég nota Apple tölvur. Hef gert síðan 2004. Ef einhver vill vita af hverju, get ég svarað já eða nei. Verið jákvæður eða neikvæður. Sagt að Makkinn sé frábær tölva, eða verið neikvæður og sagt að Windows sé drasl. Hvort virkar betur?

Reynum að láta þessa síðustu viku fyrir kosningar vara á jákvæðu nótunum. Það er svo miklu skemmtilegra og uppbyggilegra. Og kjósum þann sem okkur þykir bestur, ekki einhvern sem á séns á að koma höggi á þann sem okkur þykir verstur.


mbl.is Hvöttu Ara til að hætta við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsal Ríkisvalds?

Stjórnarskrármálið er orðið að frasa, eins og svo margt annað í íslenskri stjórnsýslu. Síðustu þrjú árin hafa einkennst af klúðri á klúður ofan. Það eina sem núverandi stjórn hefur sér tl málsbóta er að fyrri stjórnir voru enn verri.

Við verðum að fara að klára þetta mál. Koma nýrri stjórnarskrá á koppinn. Eða hvað? Ég hef ekki lesið hana alla. Mun gera það fljótlega, en ég man að þegar ég rann yfir hana á sínum tíma hnaut ég um eina greinina. Trúði varla eigin augum.

111. gr. Framsal ríkisvalds

Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft.

Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst.

Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi. 

Í fyrsta lagi finnst mér að framsal ríkisvalds megi ekki vera leyfilegt. Viljum við gera það í framtíðinni, ætti að þurfa stjórnarskrárbreytingu. Þessi grein er eins og sérpöntuð af Samfylkingunni svo þau geti komið okkur í ESB tiltölulega vandræðalaust. En skoðum þennan texta.

Okkur er heimilt að framselja ríkisvald alþjóðastofnunum. Við gætum þess vegna gengið NATO á hönd. IMF er alþjóðastofnun, ef maður teygir hugtakið. Hvalveiðiráðið er alþjóðastofnun, sem og Asíubandalagið og NAFTA. Það má ganga að því vísu að hugtakið verði teygt þegar einhver þrýstihópurinn vill tilheyra einhverjum klúbbnum.

Framsal ríkisvalds skal vera afturkræft? Ef við afsölum okkur sjálfstæðinu, höfum við ekkert um það að segja. Við ráðum okkur ekki sjálf. Önnur setning í greininni fellur því um sjálfa sig.

Það má segja að þjóðaratkvæðagreiðsla sé öryggisventillinn, en er það svo? Segjum að Kína vilji innlima Ísland og það sé fólk hér á landi sem hafi áhuga á að koma okkur þar inn. Hversu erfitt verður að snúa þjóðinni? Við erum svo lítil að það þyrfti ekki nema einhverja skiptimynd til að múta okkur. Segjum að Kína byggi glæsilegt sjúkrahús, borgi upp Hörpuna, lofi að borga upp skuldir landsins og bora göng í gegn um öll fjöll landsins? Klink fyrir þetta stórveldi. Það er erfitt að standast slíkt boð. Hvað myndi þjóðin kjósa?

Og hverjar eru líkurnar á því að Kína leyfði okkur að öðlast sjálfstæðið aftur, eins og við segjumst eiga rétt á í setningu númer tvö?

111. grein hefur auðvitað ekkert með Kína, IMF eða NATO að gera. Hún er alveg örugglega hönnuð sem farmiði inn í ESB. En hana má misnota á svo marga vegu að ég get ekki stutt nýju stjórnarskrána óbreytta.

Ég vona að dagarnir fjórir í mars verði vel nýttir. 


mbl.is Furða sig á farvegi stjórnlagamálsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband