Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hver togar í strengi?

Eitt hefur ekki komið fram í þessu máli. Hver er á bak við tillöguna um að hætta við landsdómsmálið? Fékk Bjarni Ben þessa hugmynd sjálfur, eða var honum sagt að setja þetta mál fram? Sé svo, hver var það? Davíð? Geir sjálfur?

Ef einhver veit hvaðan hugmyndin að sleppa þessu kom, væri ég meira en til í að heyra hana. 


mbl.is Tillagan ekki afskipti af dómsmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alræðisríkið Ísland?

Ögmundur er að missa sig í ruglinu. Eftirfarandi frétt birtist á Pressunni, Er CERT-ÍS nýr stóri bróðir? Fær heimildir til að skoða netsamskipti Íslendinga án dómsúrskurðar.

Í frumvarpinu er CERT-ÍS fengin heimild til að skoða samskipti á netinu án dómsúrskurðar. Hvað er næst? Húsleitir án dómsúrskurðar ef einhver hefur það á tilfinngunni að maður sé ekki að hlýða lögum? Ég sé engan mun á því að yfirvöld gramsi í tölvupóstinum og venjulega póstinum, án þess að fá til þess heimild.

Þór Saari sagði eftirfarandi í athugasemd á fésbókarsíðu Evu Hauksdóttur. "Það var reynt að keyra frumvarpið gegnum þingið með hraði og án skoðunar fyriri jól en var stoppað af nefndinni (umhverfis- og samgöngunenfd) einmitt vegna þessara heimilda." Innanríkisráðherrann virðist ekkert vilja láta hið svokallaða lýðræði flækjast fyrir sér.

Þetta er skref í alræðisátt og verður að stoppa. Big brother is watching you.

Spurning af hverju ekki einu orði er eytt í þetta á MBL... 

Af einhverjum ástæðum get ég ekki sett in hlekk, en hér er slóðin: http://www.pressan.is/frettir/lesafrett/er-cert-is-nyr-stori-brodir-faer-heimildir-til-ad-skoda-netsamskipti-islendinga-an-domsurskurdar 


Dýr og Tré

Íslenskt samfélag er helsjúkt. Það er helsjúkt eins og barn í þriðjaheims ríki. Lækningin er til, en ekki til staðar.

Við lifum í réttarríki. Öll dýrin eru jöfn. Það á þó til að vera ekki alveg svona einfalt í raunveruleikanum. Stundum eru dýrin sem setja reglurnar jafnari en önnur. Þau geta brotið af sér, en enginn getur snert þau. Þau geta sópað til sín auðlindir og fjármagn, löglega og ólöglega, en þau eru yfir lögin hafin. Ekki formlega. Öll dýr eru jöfn. Það getur bara verið svo erfitt fyrir embættismenn innan dómsvaldsins að slá á höndina sem réttir þeim bitlinga í formi utanlandsferða, fjárframlaga og fleira. Það er kannski ekki við stjórnmálamenn og aðra embættismenn að sakast. Kannski er þetta bara mannlegt eðli. Við erum alltaf hrædd við að eiga ekki nóg, að verða blönk á einhverjum tímapunkti. Best að safna í sarpinn. Svo er svo erfitt að pirrast út í þá sem fjármagna kosningabaráttuna og annað sem nauðsynlegt er. Eins og hundurinn, passa þeir upp á þann sem gefur þeim að éta.

Kjósendur verða bara að sjá um sig sjálfir. Redda sér. Enda hafa þeir ekkert fjármagn til að kaupa sér velvild þeirra sem setja lögin. Verðtryggingin er að sliga þjóðina. 40.000 heimili skulda meira en þau eiga. Yfir hundrað þúsund manneskjur, þriðjungur þjóðarinnar eða meira, er í svo til vonlausri stöðu. Sum þeirra geta sjálfum sér um kennt. Þau eyddu um efni fram. En flestir sem ég þekki lifðu lífinu eins og hvert annað meðaldýr. Unnu allan daginn og vonuðu að þetta slyppi um mánaðamótin. Þau keyptu sér hús og bíl og fóru til útlanda á 2-3 ára festi. Lifðu ósköp venjulegu lífi. Þau eru ekki fórnarlömb eigin mistaka, heldur voru þau í röngu landi á röngum tíma. Kerfið hrundi og ákvað að heimilin skyldu bæta það sem miður fór.

Hið svokallaða hrun, eins og sumir eru farnir að kalla það, er langt í frá orðinn fjarlægur kafli í íslandssögunni. Það er enn í fullum gangi. Á meðan verðtryggingin er við lýði, á meðan bankamennirnir sem spiluðu með þjóðina, viðskiptaséníin sem keyptu og seldu stórfyrirtæki og bjuggu til falskt góðæri og stjórnmálamennirnir sem sáu hvert stefndi en gerðu ekkert... á meðan þetta fólk er ekki látið svara fyrir sig, á meðan hrunið er ekki gert upp, á meðan fólk er borið út af heimilum í nafni bankanna, mun þetta svöðusár á þjóðarsálinni ekki gróa. Á meðan löggjafavaldið tekur fram fyrir hendurnar á dómsvaldinu, getum við ekki sagt að við búum við réttarríki. Á meðan stjórnmálamenn leyfa kaupsýslumönnum að segja sér fyrir verkum, búum við ekki við lýðræði.

Af hverju gerist ekkert ef þriðjungur þjóðarinnar er á hausnum og þúsundir flytja ár hvert af landi? Af hverju mætir einn þúsundasti þjóðarinnar á fund um verðtrygginguna? 0.3% þeirra sem eru í vanda vegna hennar. Sömu hræðurnar og voru þarna síðast? Hvernig getur fámennur hópur haldið heilli þjóð í gíslingu? Svarið er einfalt. Við sjáum ekki trén fyrir skóginum. Vandamálin eru svo stór að við skiljum þau ekki eða gefumst upp á þeim. Við tuðum yfir stráka- og stelpuís. Við rífumst um það hvort konur eigi að raka sig eða ekki. Við missum okkur í smámálum sem skipta engu máli því við skiljum þau. Á meðan erum við heilaþvegin af öflum sem vilja halda í völdin, sama hvernig farið er að því. Við flytjum úr landi, dragandi skuldahalann á eftir okkur, eða rífumst um ís, trúandi því að þetta hrun hafi kannski aldrei orðið.

Við munum kjósa fólk á þing innan árs. Eigum við ekki að vanda okkur svolítið?


mbl.is Unga fólkið flytur út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hatur er sjálfsmark.

Þeir sem hata, eru mest fyrir sjálfum sér og valda sér meiri skaða en þeim sem hataður er. Það hefur því lítið upp á sig að hata. Hatur er sjálfsmark.

Ég hef fylgst með málflutningi þingmanna eftir atkvæðagreiðsluna á föstudag. Ég hef ekki séð neitt hatur. Ég hef séð vonbrigði, pirring, jafnvel reiði, en ekkert hatur. Já-sinnar vilja flestir Geir fyrir Landsdóm til að fá upplýsingar frá vitnunum sem boðuð hafa verið. Mér sýnist fólk ekkert vera neitt sérstaklega upptekið af því að henda Geir í steininn. Væri hann svona voðalega hataður, væri málflutningurinn allt annar.

Nei-sinnar virðast nota veikari rök, eru meira á tilfinniganótunum. Það skal ekki ákæra einn, ef hin þrjú komust undan. Á við hér en hvergi annars staðar í réttarkerfinu, en hvað um það. Þetta er mannréttindabrot gegn forsætisráðherranum fyrrverandi. Aðrir mega lifa við að þurfa að svara fyrir sig séu þeir grunaðir um að hafa gerst brotlegir við lög, en hvað um það. Stundum er bara skellt á þetta samsæris stimpli og sagt að Samfó sé að ná sér niðri á Sjöllunum. Kannski eitthvað til í því að það hafi verið pólitískt að sleppa hinum þremur, en gerir það Geir sjálfvirkt stikkfrí?

Hvað um það, lítið eða ekkert hatur í gangi. Annað hvort er Einar K. að plata okkur og þeyta ryki í fólk, eða hann hefur litla tilfinningu fyrir hugarástandi fólks sem hann þekkir og vinnur með. Hvoru tveggja er afar slæmt þegar viðkomandi er í ábyrgðarstöðu.

Mér sýnist hann allavega vera að lesa kolvitlaust í stöðuna.

Ég vona að Sjálfstæðismenn hætti þessu væli, taki til heima hjá sér og fari að læra að vera málefnalegir. Eða eru það ekki málefnin sem þeir hafa áhuga á?


Sleppum Geir og komum Sjálfstæðisflokknum í stjórn.

Þetta mun taka vikur, kannski fram á vor. Kannski vona Bjarni, Ögmundur (hvað er hann að gera í þessum hópi?), Össur og félagar að stjórnin falli fyrir þann tíma. Kosningar. Koma þessu 40% fylgi sjálstæðismanna inn á þing. Þá er hægt að afgreiða málið í eitt skipti fyrir öll. Vísa því frá. Gleyma svo þessu meinta hruni sem fólk er alltaf að tuða yfir.

Nei, Össur vill stjórnina ekki feiga. Hann vill bara ekki fara í vitnastúkuna.

Bjarni vill þessi 40% inn á þing.

Ögmundur? Vill hann ekki bara formannssætið í VG og gott sæti í hægri-vinstri stjórn?

Svo kemur sér ágætlega að þetta mál tekur tíma sem annars hefði farið í að ræða tillögur stjórnlagaráðs.

Þessir þingmenn eru ekki að vinna fyrir þjóðina. Þeir eru i fléttuleik, klækjapólitík. Þeir eiga ekki heima á þingi. 

Eða hvað veit ég? Kannski vilja þeir allir vel.


mbl.is „Við munum vanda okkur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB = Skýjaborg?

Ég er tiltölulega hlutlaus þegar kemur að ESB. Bý þar og hef það ágætt. Ekkert rosalega ríkur eða þannig, en skrölti. Stundum duga launin, stundum ekki. Er á rétt meðallaunum og borga hátt í 50% skatt. En...

Evrópa er með ónýtan gjaldeyri sem riðar til falls. Evran hefur haldið sér sæmilega undanfarið, en hún er undir gífurlegum þrýstingi.

Bankarnir hér í Hollandi eru svo sterkir að þeir þurftu beilát. Ég borgaði 1700 evrur af skattpeningunum til ABN Amro og enn meira til ING. Ég hef sennilega borgað meira, því þetta er meðaltal sem ég reiknaði út einhverntíma. Tók þar með hvert mannsbarn, líka börn og gamalmenni. Fyrrverandi fjármálaráðherra er bankastjóri ABN Amro. Sér einhver tengslin?

Ríkisfyrirtæki hér hafa verið seld með þeim afleiðingum að þjónusta versnar og verð hækkar. Þess má geta að ESB hefur þvingað Grikkland til að selja ríkiseigur eins og hafnir og aðrar nauðsynjar. Yrði þetta öðruvísi á Íslandi? Fengjum við "góðan díl" í fiskimálinu? Ég stórefast um það.

Þegar þær þjóðir sem fengu tækifæri til að tjá sig höfnuðu evrópsku stjórnarskráni, var nafninu breytt í Lissabonsáttmála og þar með þurfti ekki að ræða það meir. ESB er gott í að komast undan atkvæðagreiðslum og kjósa þar til rétt niðurstaða fæst og svo ekki meir.

Það er fínt að búa í ESB, en ekki halda að hlutirnir hér séu eitthvað betri eða bjartari en heima. Það er allt í lagi að skoða inngöngu, en ekki búa til skýjaborgir sem gufa svo upp í kastljósi raunveruleikans.
 

mbl.is „Gegndarlaus áróður ESB"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

5%

Ekkert nema gott um það að segja að fólk stofni stjórmnálaflokka. Ekki eru þeir gömlu að virka. En það er hængur á. Því fleiri smáframboð sem koma fram, því tvístraðri verða atkvæðin. Allt sem nær ekki fimm prósentum er dæmt úr leik og það er gott fyrir fjórflokkinn.

Ég óska aðstandendum Öldu til hamingju og vona að þau nái allavega fimm prósenta fylgi.


mbl.is Kynna tillögur um stofnun stjórnmálaflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Froða.

Önnur þingkonan skilur hvað er að gerast. Hún veit að þjóðin fylgdist með og var ekki skemmt. Hún skilur að traustið á Alþingi er næstum ekkert.

Ragnheiður talar froðu og hefur ekkert til málanna að leggja. Nema að hún nefndi eina flokkinn sem hélt trúverðugleika sínum. Hreyfinguna.

Froða flýtur yfirleitt á yfirborðinu, er það sem fyrst sést, en ristir sjaldan djúpt og er yfirleitt ekki aðalatriðið. Þingmenn sem tala froðu virka yfirleitt yfirborðskenndir.

Ég samgleðst Ragnheiði því það er alltaf gott að vera stoltur af eigin gjörðum. Ég vona að hún trúi virkilega því sem hún segir, því fátt er verra en pólitíkus sem ekki fylgir samfæringunni.

Ég er þó hrifnari af þingmönnum sem tala af viti, skilja hvað þeir eru að segja og bera hag almennings fyrir brjósti. Birgitta er mín. Eða ég hennar. Skiptir ekki öllu.


mbl.is Ekki aukið virðingu almennings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er einhver áhugi á uppgjöri?

Það er þá komið á hreint. Meirihluti þingheims hefur ekki áhuga á að gera upp hrunið. Það er rausað um að ljótt sé að kenna einum manni um það sem miður fór. Ég get ekki séð að nokkur maður sé að gera það. Málið snýst alls ekki um Geir H. Haarde.

Fleiri tóku þátt í fylleríinu. Auðmenn, bankamenn, útrásarvíkingar, stjórnmálamenn. Hrunið byrjaði um svipað leyti og uppsveiflan. Bankar voru seldir vinum fyrir lánsfé úr hinum bönkunum. Viðskiptalífið sveik, svindlaði og stakk undan á meðan embættismenn horfðu í hina áttina, fullir á freyðivíni í boði útrásarinnar. Geir var ekki einn um að gera ekkert. Allt kerfið var sjúkt.

Kosið var um hvort lögsækja ætti fjóra þingmenn. Á endanum var einn valinn, Geir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005 og forsætisráðherra til 2009. Það var fullkomið pólitískt klúður að sleppa hinum þremur, en það gerir Geir ekki stikkfrí. Ekki frekar en maður sleppti einum af því hinir þrír sem tóku þátt í ráninu (nauðguninni eða hvaða glæp sem framinn hefði verið) komust undan á hlaupum. Geir var í hringiðunni sem fjármála- og forsætisráðherra og hlýtur að bera einhverja ábyrgð. Hversu mikil hún er, veit maður ekki og það kemur ekki í ljós ef málið verður látið niður falla.

Hlutverk Landsdóms er ekki að hengja Geir. Ég hef engan sérstakan áhuga á að sjá hann í litlum klefa á Litla Hrauni. Efast um að margir hafi áhuga á því. Það sem ég vil sjá er uppgjör á áratugnum fyrir fall bankanna. Opið, hreinskilið og ýtarlegt. Það varð alsherjarhrun og við sjáum ekki fyrir endann á afleiðingunum. Ef við ræðum ekki málin, veltum steinum og skoðum ormana sem leynast undir þeim, komumst við aldrei upp úr þessu kviksyndi. Þjóðin á það skilið að vita hvað gekk á. Vita hvaða reikninga hún er að borga og af hverju.

Það er gott að halda til haga hvaða þingmenn kusu um málið og hvernig. Gæti hjálpað í næstu kosningum. Ég veit að enginn í "nei" hópnum fær mitt atkvæði.

já:

Arna Lára Jónsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Birgitta Jónsdóttir, Björn Valur Gíslason, Eygló Harðardóttir, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hjörvar, Jóhanna Sigurðardóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Lúðvík Geirsson, Magnús M. Norðdahl, Magnús Orri Schram, Margrét Tryggvadóttir, Mörður Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Siv Friðleifsdóttir, Skúli Helgason, Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson, Þuríður Backman

nei:

Atli Gíslason, Árni Páll Árnason, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Ásmundur Einar Daðason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Birgir Ármannsson, Birkir Jón Jónsson, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Bragi Sveinsson, Illugi Gunnarsson, Jón Bjarnason, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Kristján L. Möller, Lilja Mósesdóttir, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Ögmundur Jónasson, Össur Skarphéðinsson

fjarvist:

Höskuldur Þórhallsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson

fjarverandi:

Björgvin G. Sigurðsson 


mbl.is Frávísun felld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær kemur Íslenska vorið?

Ég var að skoða bloggfærslur sem ég skrifaði fyrir þremur árum. Búsáhaldabyltingin var þá í fullum gangi. Ég skrifaði um táragasið sem lögreglan beitti gegn mótmælendum og þögnina úr forsætisráðuneytinu. Ísland var að upplifa eitt hrikalegasta efnahagshrun sögunnar og forsætisráðherrann sá enga ástæðu til að tala við þjóðina. Hann beitti lögreglunni þó óspart.

Er það þetta sem við vijum? Sjálfstæðisflokkinn í stjórn aftur? Flokkinn sem keyrði okkur upp í skerjagarðinn og kennir núverandi stjórn um hrunið? Flokkinn sem hikar ekki við að siga löggunni á mótmælendur?

Bjarni Ben vill að alþingi kjósi aftur um það hvort Geir eigi að fara fyrir Landsdóm. Það verður að vera þingmeirihluti fyrir því, segir hann. Var ekki þingmeirihluti til staðar? Var fyrri kosningin ómerk að einhverjum ástæðum? Ef svo er, væri þá ekki hugmynd að kjósa um ráðherrana fjóra sem rannsóknarnefndin mælti með að færu fyrir Landsdóm?

Bjarni er að leika sama leik og ESB, að kjósa um mál þar til rétt niðurstaða fæst og svo ekki meir.

En hvað um það, þetta mál er móðgun við þjóðina. Það er móðgun við fólkið sem missti allt, sem sá sér ekkert annað fært en að flýja land. Það er móðgun við þá sem stóðu á Austurvelli í janúarkuldanum, börðu á potta og pönnur í von um sanngjarnara þjóðfélag og lét sig hafa það að vera spreyjað með piparúða.

Það er sannarlega móðgun við níumenningana sem Ögmundur gat ekki skipt sér af vegna stöðu sinnar sem ráðherra. 

Ég vona sannarlega að þingmenn hafi rænu á að fella þessa tillögu. Ekki af því ég vilji sjá Geir H. Haarde dæmdan og lokaðan inni. Alls ekki. Hann má sýkna ef Landsdómi finnst ekki ástæða til annars. Ég vil einfaldlega að allar upplýsingar sem þjóðin á skilið að fá, komi upp á yfirborðið svo hægt verði að gera hrunið upp. Án uppgjörs munum við halda áfram að sleikja sárin og vantreysta hvoru öðru. Við getum ekki byggt upp mannsæmandi samfélag ef við þorum ekki að horfast í augu við fortíðina.

Þjóðin á það inni hjá þingmönnum að þeir geri það eina rétta í stöðunni og láti dómsmál hafa sinn gang afskiptalaus.

 


mbl.is Næstversta niðurstaðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband