Sjö að Morgni

VagnÉg komst heim í þrjá daga helgina fyrir páska. Það var yndislegt að komast heim, það var verra að stoppa svona stutt. Ég hefði viljað hitta fleira af fólkinu sem ég þekki, eyða meira tíma með þeim sem ég hitti og kannski hitta nýtt fólk, eins og kannski einn eða fimm bloggara. Svo vildi ég hitta fólkið sem hjálpaði mér með myndina, en komst ekki í það. Ég hitti Jóel því hann þurfti að lesa inn texta sem verður í myndinni. Ég hefði viljað hitta Önnu Brynju, Sonju og alla hina. Það þýðir samt ekkert að kvarta. Ég fékk þrjá yndislega daga og þeir munu duga mér þangað til ég kemst heim næst.

HrafnÞað er merkileg tilfinning að búa erlendis, að vera ekki innan um fólkið sitt. Ég er viss um að við vanmetum flest vini og fjölskyldu þegar við erum alltaf hangandi utan í hvoru öðru. Þetta er samt ekki svo slæmt. Að búa erlendis víkkar sjóndeildarhringinn og hjálpar manni sennilega að "finna" sjálfan sig. Mér finnst að flestir ættu að prófa það í ár eða svo. Þaður skilur sjálfan sig betur, þá sem eru manni kærir og landið sem maður er uppalinn í.

ÁlftirEitt það besta sem ég gerði meðan ég var heima var að fara í göngutúr. Klukkan var sex að morgni og Mats, sem var í heimsókn hjá íslensku fjölskyldunni, vaknaði. Hann þurfti sína næringu. Mamman gerði skyldu sína og reyndi svo að sofna aftur. Mats var ekki á því og vildi vaka. Ég ákvað að fara fram úr og leyfa henni að sofa, enda tekur það á að sjá um svona lítið barn. Mats fór í vagninn og við fórum út. Við gistum hjá systur minni í Keilufellinu svo við röltum upp að kirkju, svo niður fyrir hana og niður að Elliðaánum. Mats var sofnaður svo ég rölti bara út í óvissuna og naut þess að hafa landið mitt undir fótum mér og hafa það út af fyrir Álftirmig. Ég mætti einhverjum skokkurum en þar fyrir utan var enginn á ferð. Myndavélin kom að sjálfsögðu með, eins og myndirnar hér sýna. Ég rölti niður með ánni að stíflunni og svo upp brekkuna og upp í hóla . Ég gekk Vesturbergið á enda og svo til baka. Þegar við komum til baka voru tveir tímar liðnir og við báðir endurnærðir eftir hreina loftið og hreyfinguna.

Ég gerði þetta því ég hafði tækifæri til þess. Ég man ekki eftir að hafa farið í margar gönguferðir meðan ég bjó heima. Spurning hvað maður gerir ef maður flytur heim
 einhvern daginn, hvort maður kunni þá ennþá að njóta umhverfisins eins og nú.

ÁlftirÞið sem búið heima, njótið hvers annars, njótið umhverfisins og ef þið vaknið of snemma, farið fram úr og út að labba. Það er ekkert eins gott og að koma aftur heim eftir að hafa verið einn með sjálfum sér og landinu sínu snemma að morgni.

Og að lokum, takk fyrir athugasemdirnar sem ég hef lesið en ekki svarað á liðnum vikum. Ég les þær allar en svara ekki alltaf. Það á eftir að lagast.


Heimsborgarinn

Mats Kilian - 9 viknaMats Kilian er búinn að koma í heimsókn til Íslands. Langafi hans varð 78 á mánudag og það var ekkert annað að gera en að gefa honum bestu afmælisgjöfina sem ég gat ímyndað mér. Við flugum heim á föstudag og eyddum helginni í faðmi fjölskyldunnar sem sér allt of lítið af okkur.

Flugið gekk vel. Mats svaf allan tímann, nema smá á bakaleiðinni, en þá brosti hann bara út að eyrum. Spurning hvort hann verði flugmaður.

Nú verð ég að hætta því hann er svolítið viðhaldsfrekur. 


Um Land, Þjóð, Fána og Þjóðsöng

Spaugstofan grínaðist með þjóðsönginn og virðist þar með hafa opnað box Pandoru. Margir eru móðgaðir yfir þessu "virðingarleysi". Það eru jú lög sem kveða á um að ekki megi flytja hann í breyttri mynd. En hvað er þjóðsöngur og hvert er hlutverk hans?

ReykjanesÞað er engin spurning að af hinni þjóðlegu þrenningu, landinu, fánanum og söngnum er landið dýrmætast. Án landsins er fáninn og söngurinn einskis virði.

Þjóðsöngurinn á að fjalla um landið, hversu dásamlegt það er og okkur dýrmætt. Þjóðsöngurinn okkar fjallar hins vegar um Guð meira en hvað annað. Kristin trú er þjóðtrúin og nenni ég því ekki að kvarta um það. Að söngurinn sé torsunginn hafa aðrir skrifað um. Það er sennilega rétt. Allavega kann ég hann ekki og gæti sennilega ekki sungið hann þó svo væri. Ekki að ég hefði neinn sérstakan áhuga, því ef ég hugsa um landið mitt vil ég ekki endilega blanda Guði eða trú inn í það. Ísland, landið sjálft, er það dýrmætasta sem íslenska þjóðin á og landið á skilið alla þá virðingu og ást sem við getum gefið. Landið er okkar, landið ar þeirra sem á undan lifðu og landið er þeirra sem á eftir koma. Það er merkilegt að sjá fólk sem styður stórvægilegar skemmdir á landinu, óafturkræfar skemmdir, móðgast þegar þjóðsöngurinn er notaður til að verja landið. Þjóðsöngurinn ætti að vea eign allra landsmanna, sameiningartákn. Ef að gerð er þungarokksútgáfa er það betra en núverandi ástand þar sem flestum er nokkuð sama um þetta "kórlag".

Fáninn er líka svolítið skemmtilegt fyrirbæri. Hann er kross, tákn trúarinnar, en litirnir tákna eld, ís og haf. Það sem mér finnst hvað merkilegast hér er að fáninn má ekki snerta jörðina, jörðina sem hann er tákn fyrir. Það er sennilega ástæða fyrir því, en ég get ekki ímyndað mér hver hún er.

Þjóðin sem býr í landinu hefur rétt á að nýta það, njóta þess og elska. Þjóðin hefur ekki rétt til að þurrmjólka það svo að ekkert standi eftir fyrir komandi kynslóðir.

Það að standa vörð um fánann og þjóðsönginn en eyðileggja landið er hræsni. Á sennilega mikið sameiginlegt með fólki sem ver kirkjuna en gengur þvert á það sem trúin boðar. Þjóðsöngvar og fánar eru tákn fyrir landið, rétt eins og kirkjur og krossar eru tákn trúarinnar. Okkur væri hollast að bera virðingu fyrir því sem virkilega skiptir máli, landinu sjálfu og þjóðinni. Þá kemur virðing fyrir öðrum hlutum af sjálfu sér.


mbl.is Spaugstofumenn brutu lög um þjóðsönginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver vill sjá myndina?

Eins og bloggvinum og öðrum er sennilega ljóst, er stuttmyndin Svartur Sandur um það bil tilbúin. Við erum ennþá að laga og bæta, en þetta eru smáhlutir sem pússast af með fínum sandpappír. Það eru ennþá smá vandamál með hljóð sem verða leyst í vikunni, örfáir staðir þar sem klippingin hefði mátt vera pínulítið öðruvísi.

Nú er spurningin einfaldlega, er eitthvað varið í ræmuna? Er þetta frábær mynd sem mun umbylta íslenskri kvikmyndagerð eða er þetta della, tímasóun fyrir alla sem komu að þessu? Hvorugt sennilega, en hvar á skalanum er hún? Ég get ekki dæmt um það. Ég samdi handritið, framleiddi og leikstýrði, hélt yfirleitt á kamerunni. Ég er svo samdauna myndinni að ég hef enga hugmynd um hvað fólki mun finnast um hana. Þannig að...

Ég var að spá í að fá vel valið fólk, sem þekkir mig og minn hugsanahátt sama og ekkert, til að horfa á myndina þegar hún er tilbúin. Hún er gerð á Íslandi, fyrir íslendinga. Ég hef hins vegar engan aðgang að íslendingum í mínu daglega lífi. Þessi síða er því staðurinn til að finna fólk sem maður þekkir lítið sem ekkert.  Ef lesendur þessa bloggs vilja sjá myndina þegar þar að kemur, eftir 1-2 vikur, er um að gera að láta mig vita. Þetta er auðvitað endurgjaldslaust, en fólk verður að skrifa mér og segja mér hvað því fannst um myndina. Var hún vel gerð eða amatörsleg, spennandi eða leiðinleg, auðskiljanleg eða óskiljanleg? Skildi hún eitthvað eftir sig og þá hvað? Hvað hefði mátt vera öðruvísi? Það er sem sagt hægt að sjá myndina endurgjaldslaust, en það þarf að vinna fyrir því.

Látið mig endilega vita á info@oktoberfilms.com ef áhugi er fyrir hendi. 


Svartur Sandur í vinnslu

Við erum á fullu að klára myndina. Enski, íslenski og hollenski textinn er tilbúinn og ég er að klára DVD valmyndina, menuinn, whatever. Myndin sjálf ætti svo að vera tilbúin um helgina.

Hvað um það, mér datt í hug að henda inn smá óopinberu sýnishorni. Þetta er DVD Main Menu. Voða einfalt, en gefur kannski einhverja hugmynd.

Svo er bara að koma myndinni fyrir augu almennings, og ykkar sem hafið fylgst með hér á blogginu.



SVARTUR SANDUR

Nú fer alveg að koma að því, myndin, sem hefur bara verið kölluð myndin fram að þessu, er svo gott sem tilbúin. Ég var að koma frá klipparanum þar sem við horfðum á hana og töluðum um hvað þarf enn að gerast.

Það þarf enn að leiðrétta örfá klippimistök og fínpússa hér og þar. Það þarf að velja stafagerð svo að allir titlar líti rétt út og leiðrétta pínulítið, þar sem ég virðist ekki geta pikkað án þess að pota í vitlausan takka. Mitt eigið nafn var meira að segja vitlaust stafað. Svo þarf ég að þýða myndina á hollensku og gera íslenska, enska og hollenska textann tilbúinn fyrir prufudiskinn. Við gerum ráð fyrir að þessi vinna verði búin í vikunni og að við getum gert prufudiska eftir viku.

Það sem gerist næst er að við sýnum völdu fólki myndina og heyrum hvað það hefur um hana að segja. Ef það sér mistök verða þau leiðrétt. Ef eitthvað er einstaklega hallærislegt verður það lagað ef hægt er en látið standa ef ekki.

Hvað finnst fólki svo um nafnið sem ég er loksins búinn að finna? SVARTUR SANDUR eða BLACK SAND eins og hún verður kölluð í erlandi? 

Svo er bara spurningin, hvar á maður að sýna hana fyrst? 


Mats stækkar en myndin ekki

Mats fer að sofaFyrst er það Mats. Honum gengur vel að aðlagast heiminum. Stundum er hann ósáttur við okkur, sérstaklega þegar við tökum hann úr öllum fötunum, en hann er yfirleitt ljúfur sem lamb, eða kind eins og hollendingar kalla börn.

Svo var ég að horfa á myndina í gær. Hún er næstum því tilbúin. Það voru nokkrir smápunktar sem þurfti að lagfæra, en ég held við getum farið í litaleik um helgina og textun og DVD hönnun í næstu viku. Þetta er allt að koma. Ég held hún sé orðin eitthvað styttri en hún var. Er ekki viss.

Meira seinna. Ef einhver veit um tímastrekkingartæki vil ég endilega fá svoleiðis.


Mats Kilian

Mats Kilian 4 dagaEins og þeir sem reynt hafa vita, tekur nýtt barn allan tíma frá þér. Vinna og barn, það er allt sem lífið snýst um. Það er samt allt í lagi þegar barnið er eins ljúft og Mats. Hann tekur lífinu með jafnaðargeði og er bara sáttur á meðan frumþörfunum þremur er sinnt, bleyjum, mjólk og svefni.

Amman í föðurætt kom í heimsókn og náði að taka fimmþúsund myndir. Ég held henni hafi bara litist vel á. Það var allavega nóg um Gucci, Gucci, Gucci hjá henni. Spurning hvort hún sé að lofa upp í ermina. Annars er þetta strákur og á að fá Boss eða Armani, ef maður er að fara út í eitthvað merkjabull.

Það er skrítið að verða pabbi. Þetta er reyndar í fyrsta skipti sem ég kalla mig það, 10 dögum seinna. Þetta er svo mikil breyting. Allt er breytt. Veit ekki hvernig á að lýsa þessu, en ef reynslumeiri pabbar lesa þetta, endilega skrifið athugasemdir svo ég geti lesið hvernig mér líður.

Meira seinna. Ætli sé ekki bleyja bíðandi. Og svo var ég að fá stuttmyndina frá klipparanum. Þarf að horfa á hana og sjá hvort hún sé tilbúin eða hvort ég þurfi að biðja um fínpússningu.


Nýtt Líf

Ég var varla búinn að sleppa orðinu, segja að það væru níu dagar í heimsenda, þegar þrumurnar byrjuðu. Mamman var búin að fá nóg af því að líða eins og hvalur á þurru og unginn, af einstakri tillitssemi, ákvað að hjálpa mömmu sinni og koma í heiminn.

Mats Kilian fæddist í Amsterdam klukkan 22:28 á laugardagskvöld, 27 janúar 2007. Hann er voða sætur og góður, nema þegar hann er svangur, en þá á hann það til að láta heyra í sér. 


Níu dagar í heimsendi

Sólarupprás í HalfwegHeimsendir er útreiknaður þann 4. Febrúar 2007, á sunnudaginn eftir viku. Það er allavega heimsendir hvað mitt gamla líf varðar. Það er dagurinn sem unginn ætti að láta sjá sig. Allt mun breytast, ekki spurning. Það er kannski hægt að segja að síðustu mánuðirnir hafi verið æfing, þar sem við höfðum allt of mikið að gera við að lappa upp á hluti, lagfæra og endurnýja eldhúsið.

Alla vega, þetta er komið á tíma. Ef allt fer eins og ætlast er til, verður húsið orðið hávaðasamt og lyktandi innan örfárra daga. En hvað tekur við? Barnið veit það ekki ennþá, en það er auðvitað hálfur íslendingur. Það þýðir tvær fjölskyldur með ólíkan bakgrunn og tungumál. Ættingi minn á Íslandi varaði okkur við tungumáladæminu. Málið er að börn fædd erlendis tala oft ekki tungumál fjarfjölskyldunnar og ef þetta er ekki enskumælandi land, eru miklar líkur á að það geti alls ekki talað við ættingja sína.

Ég hef verið að lesa greinar um þetta og þær mæla með því að foreldrarnir tali eigin tungumál við barnið. Hún hollensku og ég íslensku. Við verðum að vanda okkur því að barnið notar okkur til að skilja tungumálin að. Ef ég tala hrærigrautinn sem ég tala núna, sambland þriggja tungumála, mun barnið ruglast, ekki skilja hvaða tungumál er hvað, og lenda í erfiðleikum seinna. Þá stend ég frammi fyrir tveimur vandamálum. Ef ég tala bara íslensku, hvernig tjái ég mig við fólk hér? Það sem verra er, það er  ótrúlega erfitt að tala íslensku eftir að hafa verið erlends í 14 ár. Þegar ég kem heim stama ég og hika í nokkrar múnútur áður en móðurmálið kemst í gang. Það er ekki erfitt, því það eru alSólarupprás 1lir að tala þetta í kringum mann. Að rausa þetta einn útí heimi er allt önnur gella. Spurning með að kenna beibinu ensku og fá ættingjana til að senda barnaefni með íslensku tali, svo það sé bara formsatriði að komast inn í málið seinna. Veit ekki.

Annars er baðið komið í hús. Ójá, þetta verður fæðing í vatni. Betra svona, því hollendingar eru strangir á því að fólk fæði heima hjá sér.

PS. Myndirnar tók ég hér í Halfweg í desember.

Seinna!!! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband