Einhverskonar heimsendir

Mannkynið er á tímamótum. Eftirstríðsárin eru að renna sitt skeið. Árin 1945-2012 verða sennilega dásömuð í framtíðinni. Þegar fólk átti nóg af öllu, nóg var til af olíu og vatni. Nýtt tímabil er að renna upp. Betra eða verra? Erfitt að segja til um það.

Það er svolítið spaugilegt að fylgjast með stjórnmálamönnum tala um lausnir. Núverandi kerfi virkar ekki og á meðan við búum við það, munu engar lausnir finnast. Flest lönd heimsins eru að sligast undan skuldaklafa, en þó virðist enginn eiga skuldirnar. Hvernig getum við öll skuldað? Einfalt. Tökum bandaríska kerfið sem dæmi. Flest peningakerfi heimsins eru byggð á sömu hugmynd.

Segjum að ríkinu vanti 100 krónur. Það fær krónurnar lánaðar hjá seðlabankanum. Þessar krónur fara í umferð, við fáum þær í laun, eyðum þeim í verslunum og borgum skatta. Eftir ár vill ríkið endurgreiða lánið sem það tók hjá seðlabankanum. 100 krónur og 3% vextir. 103 krónur. Hvaðan koma krónurnar þrjár? Þær eru ekki til, því ríkið gaf þær aldrei út. Ríkið þarf því að taka annað lán til að borga vextina. Nú eru 103 krónur í umferð, svo þær eru 3% minna virði en í fyrra og við skuldum vextina. Verðbólga. Leyfum þessu að gerjast í 100 ár og útkoman er sú að flest lönd jarðar eru að drukkna í skuldum. Það ætti að vera augljóst að við getum aldrei borgað niður skuldirnar, því við verðum að taka lán til að borga vextina.

Allt tal um að kreppunni sé að ljúka var því bull og gat aldrei staðist. Þetta vissu fjármála- og forsætisráðherrarnir sem nú tala hissa um að við séum að taka aðra dýfu. Annaðhvort vissu þeir að dýfan kæmi, eða þeir eru ekki starfi sínu vaxnir.

Þrjú prósent virkar kannski ekki mikið, og stundum eru vextirnir lægri. Hvað er vandamálið? Málið er að vextirnir bætast ofan á vextina. Þrjú prósent í dag eru töluvert hærri tala en þau voru fyrir 10 árum.

Hér er lítil saga sem sýnir hvernig ríkisskuld hefur þróast. Segjum að þú sért með tvö glös og poka af salti. Þú setur eitt saltkorn í glasið á fyrsta degi. Tvö á öðrum degi, fjögur, svo átta. Eftir 27 daga er glasið kvartfullt. Á 28 degi er það hálft. Dagur 29 og glasið er fullt. Á þrítugasta degi eru glösin bæði full. Svo eru það fjögur glös, átta glös.

Skuld sem virðist lítil í upphafi endar sem risavandamál. Það kemur að því að kerfið ræður ekki við meiri skuld og þá hrynur það. Við erum komin að þeim punkti. Á meðan valdhafar setja plástur á beinbrotið og segja sjúklingnum að ganga, grær brotið ekki. Það er ekki nóg að auka við skuldum í formi styrkja, "bailout" eða hvað þetta heitir. Við erum að berjast við eld með eldi. Auka við skuldabirgðina.

Við verðum að hugsa dæmið upp á nýtt. Draga djúpt andann. Við getum ekki borgað okkur út úr þessum vanda. Við verðum að finna upp nýtt kerfi. Við erum á tímamótum, erum að upplifa einhverskonar heimsendi. Komandi mánuðir verða erfiðir, en það er undir okkur sjálfum komið hvað bíður okkar handan við þrengingarnar.


mbl.is Heimurinn á barmi nýrrar kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Telst það morð ef ríkið fremur?

Bandarikin hljóta að vera hrokafyllsti hræsnarinn í samfélagi þjóðanna. Þau þykjast vera lýðræðislegr réttarríki og ráðast á önnur ríki ef þau erru ekki nógu lýðræðisleg. Sérstaklega ef þau drepa eigin þegna. Ríki sem gera svoleiðis er stjórnað af vondum einræðisherrum sem verður að koma frá. Sérstaklega ef olíu er að finna og einræðisherrarnir eru ekki til í að gefa Ameríku forgang í svarta gullið. Annars eru þau látin í friði.

Í nótt sýndu Bandaríkin að þau eru sjálf þriðja heims ríki sem drepur eigin þegna. Sjö af níu vitnum hafa dregið framburð sinn til baka. Eitt þeirra tveggja sem halda fast við söguna er maður sem hefur sjálfur játað á sig morðið. Það eru engar sannanir fyrir því að sá sakfelldi hafi framið glæpinn. Hann hefur neitað sakargiftum í 22 ár. En hann varð að deyja. Myrtur af ríkinu sem vill ekki viðurkenna herfileg mistök í meðferð málsins.

Hverjum er ekki sama. Hann er svartur og vitnið var hvítt. Þetta eru suðurríkin. Þar hafa þeir sína hentisemi í svona málum.

Það er alveg stórmerkilegt að vestrænt ríki skuli enn stunda morð á eigin þegnum. En þetta er svo sem ekkert venjulegt vestrænt ríki. Þetta er Ameríka hin stórfenglega, sem hikar ekki við að gera innrás í önnur lönd, ræna fólki og senda það í fangabúðir án dóms og laga. Þetta er Ameríka sem tekur það ekki í mál að Palestína verði sjálfstætt ríki. Þetta er hrekkjusvínið, hrottinn sem eignar sér skólalóðina, stelur namminu okkar og allir eru hræddir við.

Er ekki kominn tími til að við stöndum upp og látum taka nafn Íslands af lista hinna undirgefnu sem studdu stríðið í Írak og morðið á Saddam Hussain? Er ekki hugmynd að draga stuðning okkar við olíu/gull stríðið í Líbýu og hið óumflýjanlega morð á Gaddafi til baka? Hvernig datt okkur í hug að styðja þann gjörning eftir allt sem á undan er gengið?

Segjum hingað og ekki lengra. Stöndum upp í hárinu á hrekkjusvíninu. Morð eru glæpur og ættu aldrei að vera framin af ríkjum.


mbl.is Troy Davis tekinn af lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegasalt

Ég man þá tíð þegar "hægri" menn voru í ríkisstjórn. Allt sem hægt var að einkavinavæða var einkavinavætt. Vinahringurinn endaði í bankakerfi sem var 11 sinnum stærra en hagkerfið og steypti landinu í dýpstu kreppu síðan fyrir stríð. Og landið okkar hefur séð ansi djúpar kreppur. Voru það ekki hægrimenn sem töngluðust á því að vinstrimenn kynnu ekki að fara með peninga?

Þeir töluðu um að við þyrftum að vernda landið fyrir óæskilegum útlendingum. Sögðu það kannski ekki hreint út, en létu það allavega ekki fara í taugarnar á sér þegar fólki var hent úr landi eftir áralangt hringl í kerfinu. Þeir berjast á móti ESB aðild með öllum ráðum. Björn kom okkur þó í Schengen og opnaði þannig landið fyrir hverjum sem koma vildi, nema kannski brúna fólkinu úr þriðja heiminum.

Hægrið studdi stríð sem allir hefðu átt að sjá að byggt var á lygum. Var það af því að Davíð var besti vinur bandaríkjaforseta eða hékk eitthvað annað á spýtunni?

Allir vilja verðtrygginguna burt, en enginn tekur af skarið. Sjálfstæðisflokkurinn hafði 17 ár til að gera eitthvað í málinu, en var of upptekinn við annað.

Það er auðvelt að setja út á hægrið eftir 17 ára setu í ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn skildi við landið í rúst. Vandinn er þó að vinstri stjórnin er ekki að standa sig neitt betur. Verðtryggingin lifir enn, við studdum innrásina í Líbýu, heimilin eru mergsogin af bönkunum, nýju stjórnarskránni er stungið undir stól eins og skýrslunni um stöðu bankanna forðum. Það skiptir engu hver er í stjórn. Pólitíkusar hugsa fyrst og fremst um sjálfa sig. Henda svo í okkur einhverri mylsnu fyrir kosningar svo þeir missi ekki vinnuna.

Núverandi kerfi þar sem stjórnmálaflokkar skiptast á að ráðskast með almúgann virkar ekki. Vegasaltið fer upp en svo kemur maður niður á rassinn og andstæðingurinn fer upp. Það er allt í lagi, því við förum upp næst. Á meðan við erum í stjórnarandstöðu, vitum við allt betur. Þegar við fáum tækifæri til að breyta einhverju, gerist ekki neitt.

Hér er hugmynd. Ekki ný, en kannski verð að skoða. Við kjósum fólk á þing. Enginn er í stjórn. Engin stjórnarandstaða. Fólk er inni á þingi fyrir kjósendur. Allir þingmenn geta lagt fram frumvörp og allir þingmenn geta kosið um frumvörpin. Ekkert hægri, ekkert vinstri. Engir flokkar. Bara fólk sem kosið var af öðru fólki.

Læt litla stuttmynd sem ég gerði um helgina fylgja með, fyrst ég minntist á stríði sem við studdum þegar við gengum í hóp hinna undirgefnu.

 


mbl.is Þakkar fyrir að salur Alþingis sé ekki stærri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ritskoðun og breimandi þingwannabees

Mér var eytt af vinalista rétt í þessu. Veit ekki alveg hvað ég gerði af mér. Var kannski ekki alveg sammála fésbókarvininum, en ég veit það fyrir víst að ég sagði ekkert sem réttlætir Fésbókarútlegð. Kannski fór það í taugar Guðmundar Franklín að ég setti út á að hann hefði eytt tveimur statusum á tveimur dögum, eftir að ég svaraði honum. Það er kannski auðveldara að eyða þeim sem eru ósammála en að svara fyrir sig.

Það er ljótt að bölva og á kannski ekki að eiga sér stað í þingsal, en mér finnst ritskoðun öllu verri. Fólk sem vill bjóða sig fram og telur sig hafa erindi inn á Alþingi má aldrei verða uppvíst af ritskoðun. Við viljum ekki þjóðfélag sem byggir á ritskoðun og lygum. Við viljum réttlátt og opið þjóðfélag þar sem hægri og vinstri skipta engu máli. Lifa allavega í sátt. Þar sem skoðanir okkar eru virtar.

Ég þekki manninn ekki persónulega og ég er yfirleitt ósammála honum, en ég hafði gaman af því að lesa það sem hann skrifaði. Ég get það ekki lengur því hann hefur eytt mér út af sínum vinalista. Hann þarf þá ekki að hafa áhyggjur af pirrandi andsvörum frá mér. Hann er sennilega að hreinsa til, tálga vinalistann. Sjá til þess að aðeins fylgjendur og já-fólk geti svarað honum.

Ísland á betra skilið. 


mbl.is Þingmenn fari á námskeið í mannasiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband