11.6.2006 | 08:38
Eru Íslandsvinir tímasóun?
Ég var að finna síðu Íslandsvina. Þetta er hópur sem lætur sér annt um náttúru Íslands. Hægt er að ná í lítinn bækling á síðunni þar sem sjónarmiðum þeirra er komið á framfæri. Þau koma með góð rök á móti stóriðju og mæli ég með að allir lesi þetta skjal, hvort sem þeir eru með eða á móti. Sé maður á móti frekari stóriðjuframkvæmdum styrkist mður í þeirri trú við lesturinn. Sé maður meðfylgjandi frekari framkvæmdum ætti maður að geta komið með mótrök. Ef svo er ekki, þá er kannski kominn tími til að hugsa málið.
Ég minntist á tímasóun í titlinum. Að berjast fyrir landi sínu er auðvitað hetjudáð, ekki tímasóun. Að vera annt um náttúru Íslands og jarðar yfirleitt ber vott um þroska. Svoleiðis sé ég það allavega. Þegar stjórnlaus græðgin tekur völd og öllu má fórna fyrir skyndigróðann ber það varla merki um þroska. Við erum að tala um skyndigróða því svo til öllum fyrirtækjum er stjórnað með skammtímasjónarmið í huga. Við verðum að græða í ár, segir frmkvæmdastjórinn, því annars missi ég vinnuna þegar fjárfestarnir pirrast. Það að stóriðja á Íslandi sé fjárfesting í framtíðinni er bull. Þesi fyrirtæki fara um leið og þau geta grætt meira annars staðar.
Hvað um það, tímasóun? Á síðu Íslandsvina er hægt að skrifa undir áskorun þar sem stjórnvöld eru beðin um að hætta frekari stóriðju og fara að einbeita sér að því að byggja upp þjóðina, gera Ísland samkeppnishæft á sviðum sem virkilega skila arði, að sjá til þess að íslendingur framtíðarinnar þurfi ekki endilega að vera verkamaður í verksmiðju. Það er auðvitað gott og gilt að standa að svoleiðis undirskriftasöfnun, en ég hef mínar efasemdir. Þó að 150.000 undirskriftir safnist, mun það skipta einhverju máli? Munu stjórnvöld snúa við blaðinu? Munu þau hætta við áform sem unnið hefur verið að áratugum saman eða verður þetta einfaldlega endurunnið og notað sem skeinibréf?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.6.2006 | 20:25
Tungumál Myndarinnar? Skoðanakönnun!
Undirbúningur stuttmyndarinnar er kominn vel á veg. Þetta virðist allt líta vel út. Samt er ein efasemd að naga í mig. Ég samdi handritið á ensku. Þetta var engin spurning, ég er erlendis og mun markaðssetja myndina í Evrópu. Enska var því sjálfgefin. Ég valdi leikara sem menntaðir eru erlendis og reyndi að gera söguna eins hlutlausa og hægt er, hún ætti að geta gerst hvar sem er.
Svo var farið að hræra í hausnum á mér. Ég var að tala við hollenska konu um daginn og hún spurði af hverju ég tæki þetta ekki upp á íslensku. Þetta var svo furðuleg spurning, fannst mér, að ég spurði hvers vegna ég ætti að gera það. Henni fannst að myndin yrði meira spennandi, hún ætti meiri möguleika á að verða "cult" mynd á "útlendu" tungumáli. Svo sagði hún að hversu góð sem enskukunnátta leikaranna væri, yrði leikurinn sennilega betri og meira sannfærandi á móðurmálinu.
Rökin fyrir enskunni eru að það skilja hana flestir og mikið stærri hópur ætti að geta lifað sig inn í myndina. Markaðssetning ætti að vera auðveldari, þó að markaður fyrir stuttmyndir sé að vísu mjög takmarkaður.
Ég er sem sagt alls ekki viss um hvað skal gera. Ég get snarað handritinu yfir á íslensku og notað það sem þegar er skrifað sem texta, en ég get líka bara haldið minu striki og gert enskumælandi mynd.
Það væri gaman að sjá hvað fólki finnst, svo endilega takið þátt í skoðanakönnuninni hér til vinstri. Kannski að það hjálpi til...
4.6.2006 | 13:04
Ég hata fólk
Maður leggur bílnum og það næsta sem maður veit er að það er búið að stórskemma hann. Einhver hálfviti keyrði utan í bílinn og lét sig svo hverfa. Aumingjar.
Eins og einhver rússneskur Czar sagði um árið, því meira sem ég umgengst fólk, því vænna þykir mér um hundinn minn.
Nú er bara spurningin, keyrir maður um á bíl sem lítur út eins og gömul drusla eða lætur maður tíuþúsundkallana fjúka?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)