Já og nei

Kvótakerfið er klúður frá upphafi til enda. Það brennur á fólki og fátt annað en alger uppstokkun dugar til að leiðrétta þetta næst stærsta klúður í sögu lýðveldisins.

ESB brennur ekki á fólki. Hrunið brennur á fólki. Samfó fékk trúboðafylgi. Samfó kom að hruninu, þvoði hendur sér og sýndi okkur veginn til lausnar eins og hvítklæddur trúboði í Afriku. Það tókst furðulega vel. Fólk klofaði yfir gluggapóstinn sem inniheldur fleiri núll en áður, meðal annars vegna mistaka Samfó, til að fara og kjósa Samfó.

Til hamingju Samfylking. Ekki gleyma hvers vegna þið unnuð. Ekki vegna þess að fólk treystir ykkur til að koma okkur í ESB, heldur vegna þess að fólk treystir Sjálfstæðisflokkinum ekki og þorir ekki að kjósa lengra til vinstri. Fylgið ykkar er óánægjufylgi, svo það er eins gott að halda kjósendunum ánægðum. Þið gerið það með því að taka á hruninu og afleiðingum þess, ekki tala endalaust um ESB sem einhverja töfralausn.

Göngum við í ESB við þær aðstæður sem nú eru, verður kvótakerfið þriðja stærsta klúður lýðveldisins. 


mbl.is Ólína: Kvótakerfið og ESB brenna á fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland Framtíðarinnar?

Maður er kjaftstopp. Það er fjórar ástæður fyrir því.

1. Það eru varla til hús í Reykjavík sem eru meira en nokkurra ára gömul. Verði gamli miðbærinn "uppfærður", eigum við ekkert eftir.

2. Það er ekki pláss í miðbænum fyrir "glæsibyggingar", bílastæði og umferðaræðar sem þær þarfnast.

3. Þurfum við virkilega meira af "glæsibyggingum", glæsibílum, glæsi þessu og glingur hinu? Hvað er að hja okkur? Ég er ekki að segja að við eigum að fara aftur inn í moldarkofana, en þetta nýríkisbull er farið út í öfgar. 

4. Þetta er verst. Löggan virðist vera að vinna skítverkin fyrir verktakann eða einhvern í kring um hann. Þessar aðfarir eru algerlega út úr kortinu. Ættu kannski við í lögregluríki þar sem fólk er skotið á færi fyrir að hlýða ekki. Þetta er ekki Íslandið eins og ég þekkti það. Ekki Íslandið sem ég vil koma heim til. Hvert erum við að fara? Verðum við fangar einhverra afla sem við höldum að séu búin að vera? Þetta er þá allavega stofufangelsi, því sætin okkar eru mjúk.

Vona að ég sé að meika sens. Er að verða of seinn í vinnu, svo ég hef ekki tíma til að lesa þetta yfir of lagfæra. Vil bara biðja fólk um að fylgjast með. Ekki leyfa Íslandi að verða að einhverju lögregluríki. Við vitum hver við erum, inni við beinin. Við erum betri en þeir. Eða hvað? 


mbl.is Fékk hland fyrir hjartað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til Lengdar

Kerfið okkar og alls heimsins er gallað. Það þarf hagvöxt til að þrífast. Til að hagvöxtur geti átt sér stað þarf að kaupa meira, framleiða meira, nota meira hráefni. Ganga frekar á það sem jörðin hefur að bjóða. Þetta er enginn nýr sannleikur, en þetta gleymist. Hagvöxtur gengur ekki. Okkur vantar eitthvað annað.

20070310-Oxford_Tire_Pile_08_MR

 


mbl.is Hagvöxtur þarf að vera 4,5% á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þekking eða peningar?

Surtsey hefur verið notuð til að sjá hvernig lífríki þróast. Hvernig plöntur stinga rótum, hvaða dýr láta sjá sig. Þetta hefur verið viðurkennt í næstum fimmtíu ár. Surtsey hefur fengið að þróast og kenna okkur í næstum hálfa öld, en nú á að fara að græða á henni. Eða redda hruninu. Eða eitthvað. Veit ekki.

Sú þekking sem tapast við ferðamannatraðk er meira virði en nokkrir hundraðþúsundkallar sem fara í að borga vextina af IMF láninu hvort eð er.

Íslendingar, reynið að hugsa svona einu sinni. 


mbl.is Vill fá að flytja ferðamenn í Surtsey
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Into The Real kvikmyndað

Julia Noack

Ég er að dunda mér við að gera myndband fyrir þessa stelpu. Hún heitir Julia Noack og býr í Berlín. Flott lag, frábær karakter og ég held að myndbandið verði skemmtilegt. Þetta gekk að vísu svolítið brösuglega. Ég sótti hana klukkan 6:45 að morgni með það í huga að kvikmynda hana í fyrstu sólargeislunum, en göturnar eru svo mjóar og húsin svo há í Amsterdam að við sátum í skugganum. Ég notaði þá bara tækifærið og tók myndir af henni. Hún þurfti svo að vera mætt í útvarpsviðtal korter í átta, svo við urðum að hætta um það leyti sem sólin lér sjá sig.

Svo ætluðum við að taka upp atriði kvöldið eftir, en það klikkaði vegna anna. Notuðum því daginn. Við tókum upp helling framan við grænan skerm, vonandi að þetta yrði nothæft. Þegar við vorum rétt að byrja sá ég bandið, nýtt, öðruvísi og betra fyrir mér í hausnum. Vandamálið gerði það að verkum að myndbandið verður betra.

Julia Noack

Henti laginu inn hér til hliðar. Njótið.

 

Afsakið annars að ég nenni ekki að blogga um pólitík þessa dagana. Það breytist hvort eð ekkert. 


Skyrta

Þarf að vinna í kvöld. Þurfti að þvo skyrturnar svo ég lykti ekki eins og þurfalingarnir sem nappa stubbum úr sandbökkunum utan við flugstöðina.

20090403Shirt


Hefði orðið áttræður í dag

Afi minn, Guðgeir Sumarliðason, hefði orðið áttræður í dag. Ég man eftir glottinu í augunum þegar hann sagðist vera með skemmtilega hugmynd um það hvernig hann vildi halda upp á það. Þetta var í ágúst í fyrra, um það bil sem myndin til hliðar var tekin. Hann greindist með krabbamein vorið 2006. Átti ekki að lifa það ár, en afi var alltaf sterkur og lifði ekki bara 2006, heldur 2007 líka. Það dró af honum, en á tímabili virtist ekkert ætla að koma í veg fyrir að hann næði að halda upp á afmælið í dag. Það varð þó ekki. Hann lést í október.

20080809Afi

Ein síðasta minningin sem ég á með honum er ávarp forsætisráðherra. Við stóðum í eldhúsinu, ég, hann og amma. Viku seinna fór ég aftur til Hollands og viku eftir það var hann farinn. Okkar allra síðasta stund saman var erfið. Við vissum að hann ætti ekki langt eftir, en hann hafði alltaf kvatt með brosi, við sjáumst næst. Ekki í þetta síðasta skipti. Hann var hálf sofandi í stólnum sínum, tók í höndina á mér og vildi ekki sleppa. Mér fannst við standa þarna í langan tíma. Við vissum báðir að þetta var okkar síðasta stund saman. Það lá einhvern vegin í loftinu. 10 dögum seinna var ég kominn heim aftur til að bera hann til grafar.

Margir íslendingar hafa flutt af landi brott eftir hrunið. Enn fleiri eru sennilega að spá í það. Ég flutti í burtu fyrir mörgum árum. Fórnaði mörgum árum sem við hefðum getað verið saman, gert upp fortíðina og kynnst hvorum öðrum sem fullorðnir menn. Það er svo auðvelt að fara, svo erfitt að vera farinn. Maður er alltaf á leiðinni heim, en áður en maður veit af eru 15 ár liðin og fólkið manns farið. Á endanum er kannski ekkert eftir sem dregur mann heim til Íslands. Kannski hafa börnin manns ekkert með þetta land að gera og koma aldrei heim.

Til hamingju afi, hvar sem þú ert. Ég hugsa til þín og mun alltaf gera það. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband