Hvíl í friði, Nýja Ísland.

Atburðarrásin fyrir ári síðan var eins og í bíómynd. Leynifundir að næturlagi, heilt þjóðfélag ryðar til falls en enginn James Bond eða Jack Ryan til að bjarga því. Það sem tók við voru svo hrikalegar hamfarir að enginn gat ímyndað sér að svoleiðis gæti gerst. Stjórnmálamenn horfðu í kringum sig, klóruðu sér í hausnum og reyndu að sparsla í þetta.

Þjóðin sameinaðist í sundrunginni, allir reyndu að gera sitt. Nú myndum við standa saman og búa til þjóðfélag sem við virkilega vildum lifa í. Gamla Ísland var hrunið. Kominn tími til að byggja Nýja Ísland. Það sem gerðist var þó að það var settur plástur á báttið og allt átti að verða eins og fyrir hrun. Við búum enn á Gamla Íslandi, en hripleku. Við bíðum eftir að kafbáturinn sem sökkti okkur komi og bjargi okkur. Velkomin í ESB.

Ég var og er erlendis, svo ég gat ekki veifað fána og barið á pott. Ég setti upp síðuna Nýja Ísland. Hugmyndin var að safna upplýsingum um hrunið og ástæður þess, búa til samfélag þar sem fólk gæti talað um landið sem það vildi byggja upp og safna nógu mörgum meðlimum til að geta haft áhrif. Ástæða þess að síðan varð til varð henni að falli. Ég var ekki á Íslandi og gat ekki kynnt hana almennilega. Hún lifði í einhvern tíma, en var farin að safna kóngulóarvefjum upp úr áramótum. Lítið sem ekkert hefur gerst á spjallinu síðan þá.

Ísland fékk nýja stjórn sem er jafnvel verri en sú fyrri. Við fengum nýjan stjórnmálaflokk sem sprakk svo í loft upp nokkrum vikum eftir kosningar. Bankamennirnir og útrásarvíkingarnir eru enn að fjárfesta meðan þeir eru ekki sötrandi kokkteila á snekkjunum. Þjóðin er sokkin í skuldafen og hefur hvorki áhuga né þrek til að synda. Hún bíður eftir að einhver hendi í hana kút, einhverjum stóra sannleik sem mun leysa öll okkar vandamál. Jóhanna virðist trúa því að hún hafi fundið kútinn, en skilur ekki að hún er að strjúka tundurduflinu.

Síðan Nýja Ísland verður ársgömul um miðjan október. Þá þarf að endurnýja lénið og það kostar pening sem er ekki til. Hrunið er spennusaga sem endaði illa. Nýja Ísland mun engu um það breyta. Við komumst út úr þessu einhvern daginn, með eða án einhverrar heimasíðu.

Nýja Ísland, hvíl í friði. 


mbl.is Rauðri málningu slett á hús Hreiðars Más
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hægt er að taka undir þetta að mörgu leyti.

Staðan er erfið, og ljóst er að samkvæmt kenningum Keynes þá á að láta það vera að skera niður Ríkisútgjöld í kreppu. Staðan er bara með þeim hætti að það hefur heldur ekki verið mögulegt.

Orsakavaldar kreppunnar, eru annars vegar aðilar í viðskiptum, sem hafa fengið að leika lausum hala, með óvönduðum hætti.

Það er hreinlega með ólíkindum hve eftirlitskerfið hefur verið ómarkvisst.

Hér hefur fólk fallið í þá gryfju að dæma fólk í allt of mörgum tilfellum eftir pólitískum línum. Það er nákvæmlega EKKI það sem þjóðin þarf. Í raun er afar lítill  munur á áherslum flokkana, en það sem þarf að gera er að SIÐVÆÐA.

Við erum með duglega þjóð, og marga frjóa einstaklinga.

Hins vegar hefur eftirlitskerfið verið tekið úr sambandi, og nú virðast þeir aðilar sem komu þjóðinni í þessa stöðu ætla að halda áfram með uppteknum hætti.

Verið er að koma til bjargar, en er einhver áhugi fyrir því?

Hlustum við á fordómalausan hátt á annað fólk?

Hve margir eru ekki tilbúnir í það að dæma FYRIRFRAM?

Síðan er rætt um fagleg vinnubrögð, gagnrýna hugsun osfrv. Höfum við almennt séð viðhaft það? Nei

Ég var búinn að sjá hvernig málum var háttað hér, og sagði frá. Viðbrögðin voru þau með fáum undantekningum að ekki var hlustað á gagnrýnisraddir. Þær voru að vísu ekki leyfðar af fv. Stjórnvöldum og ráðist var á viðkomandi á beinan og óbeinan hátt. Bæði í starfi og með öflugasta vopninu : rógnum.

Fólk virðist ætíð vera tilbúið til að hlusta á rógbera. Því miður.

Rógberi er aðili sem fer vísvitandi með lygar. Það virðast ýmsir stjórnmálamenn og þeim tengdir leyfa sér.

Ég held og veit raunar að þetta tímabil gengur yfir, en vanda þarf til stjórnunarstarfa. Hreinsa þarf út spillinguna, og koma á raunverulegu Lýðræði. Við getum þetta.

Góðar stundir.

Erlingur Þ (IP-tala skráð) 25.9.2009 kl. 07:44

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Við getum þetta. Við getum líka misst 10 kíló. Það þarf bara vilja til og hann er eitthvað sem hefur vantað. Grilla og græða, það var mottó íslendinga og væri enn hefði spilaborgin ekki hrunið.

Villi Asgeirsson, 26.9.2009 kl. 12:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband