28.5.2009 | 08:02
Hrunið rétt að byrja?
Það eru ekki bara læknar sem munu láta sig hverfa. 18.000 atvinnulausir með lán sem hækka með hverri afborgun munu skilja lykilinn eftir í skránni þegar þeir fara úr landi. Við viljum ekki styggja útlendingana því án útflutningstekna erum við ekkert, en erum við ekki að leggjast lægra en 14 ára stelpa á heróíni?
Við getum ekki borgað Icesave. Við getum ekki heldur borgað 350 milljarða afglöp Seðlabankans frá því korteri fyrir hrun. Afskrifum það, eða reynum allavega að semja um hvað skal greiða. Að taka þetta á sig gerir ekkert annað en að steypa okkur í skuldir sem við ráðum ekki við. Gleymum ESB í bili. Innganga yrði í fyrsta lagi eftir 2-3 ár og evran kæmi mikið seinna. Þegar það er allt komið í gegn verður enginn eftir til að borga skuldirnar sem við tókum á okkur. Nema kannski fatlaðir og gamalmenni sem komast ekki úr landi.
IMF (neita að nota íslensku skammstöfunina því þessi stofnun á ekkert erindi á Íslandi) vinnur ekki að uppbyggingu íslenska efnahagslífsins. IMF hefur það markmið að fá íslendinga til að greiða eins mikið af skuldunum til baka og hægt er. Þeir eru ekki að vinna fyrir okkur. 3-6faldir vextir á við nágrannalöndin eru ekki til þess gerðir að koma atvinnulífinu í gang aftur. Það er verið að mjólka íslenska lántakendur eins og mögulega hægt er. Fyrirtæki og einstaklinga. Fyrirtæki geta ekki rétt úr sér meðan þau eru að borga skatt til erlendra auðhringa. Að stofna fyrirtæki á Íslandi hefur ekkert upp á sig. Fjölskyldur geta ekki komið sér út úr skuldafeninu meðan höfuðstóll lána hækkar við hverja afborgun, ofan á vexti sem þekkjast hvergi nema hér.
Ég var að skoða fasteignasíðu MBL. Ódýrasta íbúðin í Reykjavík kostar um 10 milljónir. Fyrir 18 milljónirnar sem var lágmarksverðið fyrir ári, er hægt að fá yfir 100 fermetra 4 herbergja íbúð með útsýni yfir sundin blá. Ég reiknaði út lán á 13 milljóna króna íbúð og fékk yfir 80.000 á mánuði, og það fór hækkandi vegna ofurvaxta og verðtryggingar. Dæmið gengur einfaldlega ekki upp, sérstaklega hjá þeim sem keypu sér íbúð eftir miðjan áratuginn.
Ísland er ekki að virka. Það gerist ekkert með því að tala kurteysislega og passa sig á að móðga engan. ESB er ekki töfralausn, allavega ekki skammtímatöfralausn. Það eru skammtímalausnir sem við þurfum, áður en vinnufæra fólkið lætur sig hverfa. Við erum fámenn þjóð og það munar um hverja 1000 íslendinga sem flytjast úr landi. Þegar skriðan er farin af stað, verður erfitt að snúa við. Hvar verðum við þá eftir 10 ár eða 20? Vakni stjórnvöld ekki strax, má gera ráð fyrir að hrunið sé rétt að byrja.
Læknar flýja kreppuland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Það var áhugaverð heimildarmynd í Sjónvarpinu í gær. Þar kom m.a. fram að yfir 100.000 hjúkrunarfræðingar frá Fillipseyjum eru starfandi utan landsins. Á sama tíma er ekki hægt að mann stöður á sjúkrahúsum landsins. Ég reikna með að þetta sé það sem við stöndum frammi fyrir: Stórir hópar lykil stétta hverfa annað til starfa.
Marinó G. Njálsson, 28.5.2009 kl. 08:50
Það er orðið slæmt þegar við erum farin að bera okkur saman við þriðja heims lönd, en ef ekkert verður gert er kannski kominn tími til að venjast því.
Villi Asgeirsson, 28.5.2009 kl. 08:58
Við erum gömul nýlenda sem átti nokkra áratugi í ríka hópnum og erum nú komin aftur gamla staðinn aftur enda allar tilraunir til ríkidæmis bygðar á lánum.
Héðinn Björnsson, 28.5.2009 kl. 11:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.