15.10.2008 | 12:32
Aftur til 1984 og til baka
Ísland var alltaf land óðaverðbólgu, flokkaspillingar, vinagreiða og einangrunar. Í kjölfar hernáms breta í maí 1940 breyttist flest, en þó ekki allt. Einangrunin hvarf með hersetunni, inngöngu í Nato og Sameinuðu Þjóðirnar og svo endanlega 1994 með undirritun samningsins um EES. Óðaverðbólgan hvarf eftir þjóðarsáttina og var komin niður í eðlilega tölu upp út 1990. Spillingin og vinagreiðarnir héldu þó velli.
Í kjölfar hrunsins í síðustu viku er Ísland komið í sömu spor og við vorum í 1984. Við erum einangruð með ónýtan gjaldmiðil, óðaverðbólga og fjöldagjaldþrot framundan. Allt er breytt. Ísland verður aldrei eins og það var. Auðvitað munum við vinna okkur út úr þessu veseni, en hvað mun það taka langan tíma? Erum við að tala um ár eða áratugi?
Traust okkar í milli hefur aldrei verið mikilvægara en nú. Við höfum ekki efni á að vera í innbyrðis deilum. Við verðum að standa saman og vinna okkur upp úr þessu. Við verðum að veita stjórnmálamönnum og öðrum sem fara með okkar vald aðhald. Flokksskírteini eiga ekki að skipta máli lengur. Vinagreiðar verða að heyra sögunni til. Íslenskt þjóðfélag verður að vera eins krystaltært og gegnsætt og mögulegt er.
Fyrir einhverju síðan skráði ég lénið FreeIceland.com. Er ekki kominn tími til að nota það? Ég ætla að setja upp spjallvef þar sem fólk getur tjáð sig um hvað sem það vill, komið með hugmyndir að betri framtíð og sagt sína sögu. Bloggið er fínt, en almennur spjallvefur er annars eðlist. Það hittist fólk og ræðir málin. Þar verður hægt að setja þrýsting á ráðamenn og aðra. Sjái fólk þörf fyrir aðgerðir, verður hægt að skipuleggja þær þar sem allir sjá til. Umfram allt verður hægt að sameina krafta sem flestra. Í staðinn fyrir að tuða hvert í sínu horni, getur fólk talað saman og sameinast gegn því sem miður fer. Stjórnmála- og viðskiptamenn eru bara menn (hér er auðvitað átt við bæði kynin) og þeir þurfa líka hönd til að halda í. Það verður hægt að gagnrýna það sem miður fer, en hrósa því sem vel er gert. Vonandi verður umræðan þess eðlis að fólk í stjórnunarstöðum geti notað vefinn til að sjá hvað fólkinu í landinu finnst um hin ýmsu mál.
Ég mun setja síðuna upp sem fyrst. Ég vonast til að hafa hana tlbúna og á netinu fyrir helgi. Hafi fólk hugmyndir um það hvers konar spjallrásir eigi að byrja á, má setja það í athugasemdir hér að neðan. Ég vona að síðan dafni og muni skipta máli í umræðunni.
Spáir 75% verðbólgu á næstunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Vefurinn | Aukaflokkar: Bloggar, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.