14.10.2008 | 07:17
Daginn eftir...
Ólafur Ragnar gekk of langt og viðurkenndi það, bretinn brúni lét eins og fífl og mun tapa næstu kosningum, Ísland er í skítnum og framtíðin er björt.
Það sem mér fannst athyglisverðast í þessu viðtali var bjartsýnin. Það getur vel verið að þetta hafi verið silkiorð stjórnmálamanns, en ég vil trúa því sem ÓRG sagði. Íslendingar eru sterk þjóð og munu komast í gegn um þá erfiðleika sem framundan eru. Við lifðum Móðuharðindin af. Auðvitað voru það gallharðir bændur og sjómenn sem kölluðu ekki allt ömmu sína, en við þurfum ekki að gera annað en fara inn á vef íslendingabókar til að sjá hvað við erum náskyld þeim. Ég þarf ekki annað en að hugsa til afa sem nú háir sitt stríð og hans foreldra sem voru ekkert frábrugðin þeim sem horðu upp á allar sínar skepnur drepast, rúri öld fyrir þeirra fæðingu. Við erum sama fólkið og beit á jaxlinn þá, sama fólkið og lifði af sjö aldir í frosnum moldarkofum, sama þjóðin og mótmælti í Köben í den. Rassarnir okkar hafa kannski mýkst í Range Rover sætum undanfarinna ára, en við erum hörð inni við beinið.
Annað sem ÓRG minntist á er að við megum ekki missa fólk úr landi. Það hlýtur þá líka að þýða að komi týndu sauðirnir heim, séum við betur sett. Þar kæmi auðvitað tungumálakunnátta og þekking á umheiminum inn í landið. Ég er að spá í hugmynd sem gæti laðað okkur, íslendinga erlendis, heim. Ég blogga um það seinna.
Framtíðin er björt ef við tökum forfeður okkar til fyrirmyndar og stöndum saman.
Ólafur Ragnar: Ótrúleg ósanngirni breskra stjórnvalda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Viðskipti og fjármál, Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér fyrir bjartsýnina, ég er ein þeirra fjölda íslendinga sem deili henni með þér. Við horfum bjartsýn fram á veginn og vinnum saman, rifjum upp gömul gildi og verum minnug þess jákvæða sem fylgdi útrásinni og kraftinum sem hrinti henni af stað en lærum af þeim mistökum sem voru gerð.
Soffía (IP-tala skráð) 14.10.2008 kl. 08:10
Já stjórnmálamennirnir reyna að fylla okkur bjartsýni svo við förum nú ekki að mótæla eins og kjánar, og þeir geti haldið áfram að henda peningunum okkar í einhverja hvítflippa og flokksgæðinga, eins og þeir eru nú þegar farnir að gera, í formi þess að koma þeim á spena inn í bönkunum. Okkar bjartsýni felst í því að heimta að hlutlausir erlendir eftirlitsaðilar komi til landsins og fylgist með bönkunum og stjórmálamönnunum.
Þórhallur, 14.10.2008 kl. 09:49
Ég tek undir orð hennar Soffíu.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 14.10.2008 kl. 10:55
Allt er breytt. Lesið færsluna að ofan. Notum dug og þol þjóðarinnar til að rísa upp gegn spillingunni sem enn er ekki dauð. Ég spyr, hvað þarf til að við hættum að láta eins og apar í bananalýðveldi?
Villi Asgeirsson, 14.10.2008 kl. 12:38
Við erum á marga lund verr stödd nú en í lok móðuharðindanna. Þá þekkti þessi þjóð ekki önnur lífskjör og betri en þau að hver sem ekki bjargaði sér á gæðum lands og fiskimiða var hungrinu ofurseldur. Í dag kunna fáir af yngri kynslóð að bjarga sér á eigin forsendum og þeirra verðmæta sem fyrri kynslóðir nýttu sér til bjargar. Sá sem ekki getur spurt exel forrit er örbjarga eigi hann ekki ríkan pabba eða góðvild í Flokknum. Svo einfalt er nú það.
Við vorum barin í hausinn með þungri sleggju. Þegar við röknuðum úr rotinu blasti við nú veröld og óvinsamleg. Það fyrsta sem nú er sýnilegt til bjargar er ný sýn á eigin tilveru í þeirri ógnvekjandi veröld sem þeir sem nenntu gátu lesið um í bókum eða kynnst með því að spyrja afa og ömmu. En var sú veröld eins ógnvekjandi og umræðan gefur til kynna? Hún byggðist á því að hver væri ábyrgur fyrir eigin lífi. Flóknara er þetta mál nú ekki í mínum huga.
Árni Gunnarsson, 14.10.2008 kl. 15:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.