Flug í hríð

Ég er að missa af þessari lægð ein og friðarsúlunni, en eins og sönnum íslendingi ber, hef ég lent í ýmsu sem útlendingar varla trúa. Ekkert merkilegt á okkar mælikvarða, en þó gaman að rifja það upp.

Fyrstu hremmingarnar sem ég man eftir voru uppi á Hellisheiði. Amma átti Land Rover sem hún notaði meðal annars í póstflutningunum í flóanum. Þetta byrjaði eins og venjuleg vetrarferð en það skall á blindbylur og enginn sá neitt. Hún keyrði fram á trukk sem var fastur og þurfti að stoppa. Allt í einu heyrum við mikið brambolt aftur í. Það var Toyota sem hafði ekki séð okkur og var komin vel inn í Land Roverinn. Þetta endaði þannig að afturhurðin var bundin föst því ekki var hægt að loka henni aftur.

Löngu seinna var ég að keyra leigubíl. Þetta var snemma að morgni og ég hafði verið að alla nóttina. Veðrið hafði verið til friðs, að mestu leyti, strekkingur og smá skafrenningur. Ég sæki fólk og keyri af stað suður í Keflavík. Veðrið versnaði hratt og við Voga var kominn blind bylur. Aksturinn gekk hægt og að lokum var ég farinn að nota vögguaðferðina. Þegar bíllinn hallar til hægri, beygja til vinstri og öfugt. Fyrir ofan Njarðvík var þetta orðið vonlaust mál, brottfarartíminn að nálgast og bílar fastir út um allt. Þegar við festumst þversum gafst ég upp. ...í nokkrar sekúndur. Ég kallaði í stöðina, sem hringdi og lét vita af farþegunum. Ég fór út og gróf bílinn upp með höndunum, ákvað að kaupa skóflu við fyrsta tækifæri, og komst upp af stað með hjálp vinalegs jeppaeiganda sem var í því að draga fólk upp úr sköflum. Við komumst út á flögvöll og ég heyrði seinna frá konunum tveimur að þær hefðu komist út í vél og í fríið. Það var þó kvartað yfir mér. Syninum, sem hafði ekki verið með, fannst þetta hafa tekið og langan tíma og kvartaði. Þegar mamman kom heim féll málið dautt því hún var svo ánægð með hvernig þetta fór.

Síðasta ævintýrið var svo 2. janúar 2000 þegar við vorum sjálf að fara af landi brott. Færðin til KEF var allt í lagi en völlurinn sjálfur var á kafi í snjó. Ekki var hægt að nota brýrnar, svo fólk varð að rölta út í vél. Þegar allir voru sestir sagði flugstýran að þetta myndi taka svolítinn tíma. Það þyrfti að grafa flugvélina upp. Hún kæmist ekki af stað. Hún sagði eitthvað fallegra á ensku svo að útlendingarnir yrðu ekki hræddir. Íslendingarnir þoldu sannleikann, virtist hún vera að segja.

Afsakið hugsanlega heimskulega orðaðar setningar og innsláttarvillur. Ég pikkaði þetta á ofsahraða áður en ég fór í vinnuna útá Schiphol. 


mbl.is Flutningi úr flugvélum lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Já vetraræfintýrin hér. góð færsla.

Jórunn Sigurbergsdóttir , 9.2.2008 kl. 12:25

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Orri, ef geðheilsan má ekki við meira bulli en þessu, þá er bara að fara í lampameðferð eða eitthvað.

Kveðjur til vetrarlandsins úr sólinni, logninu og 15 stiga hitanum í Hollendingalandi... 

Villi Asgeirsson, 9.2.2008 kl. 12:54

3 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég er búinn að lesa færsluna en hef ekkert að segja.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 9.2.2008 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband