8.12.2007 | 15:37
Pappírslaus heimur?
Fyrir mörgum árum var talað um pappírslausu skrifstofuna. Tölvur áttu að leysa þykkar möppur, skjala sem enginn las, af hólmi. Þetta gerðist ekki, heldur hefur pappírsnotkun aukist stórkostlega. Heilu bækurnar eru prentaðar út, lesnar (eða ekki) og hent. Margir prenta út emilinn. Stofnanir á vegum ríkisins (sem hefur allt í einu áhuga á umhverfinu) krefst þess að allar nótur og reikningar séu geymdir á pappír. Við erum því lengra frá pappírslausu skrifstofunni en nokkurn tíma í fortíðinni, held ég.
Ég setti stuttmyndina Svartan Sand á netið fyrir viku. Ég setti hana ekki á DVD með tilheyrandi bók og pappaumslagi. Hún fór beint á netið. Við, framleiðendur kvikmynda, verðum að líta fram á veginn og reyna að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér. Síðast þegar ég gáði hafði myndin verið sótt 745 sinnum. Ég bauð fólki upp á að greiða hvað sem það vildi fyrir myndina, 100 kall, 100.000 kall, fólk ræður því sjálft. Nú hafa níu borgað. Við sjáum til hvað gerist á komandi dögum.
Ég er viss um að þetta, eða eitthvað þessu líkt, er framtíðin. Segjum að Hollywood mynd slái í gegn. Hvað verða seld mörg eintök á DVD, sem kostar olíu, timbur og ál til að framleiða? 100.000? Milljón? Tíu milljónir? Það fer gríðarlega mikið hráefni í að framleiða diskana. Svo er það olían sem fer í að flytja þá milli staða. Það má því segja að tónlistar- og kvikmyndaiðnaðurinn hafi gríðarleg völd yfir regnskógum og olíuforða jarðarinnar. Sé milljón eintökum af kvikmynd dreift á netinu kostar það sáralítið, ef miðað er við núverandi kerfi. Af hverju að borga 2000 kr. fyrir DVD þegar hægt væri að dreifa myndinni á netinu fyrir 300 kr?
Svartur Sandur er stuttmynd og virkar því svolítið öðru vísi. Venjulega eru þær ekki seldar á DVD, heldur sýndar í sjónvarpi eða á hátíðum. Markaðurinn er sáralítill, svo þær fáu sem gerðar eru sjást aldrei. Fjölmiðlar hafa verið að tala um stuttmyndir sem eru að gera það gott erlendis, en hver hefur séð þær? Hafi fólk ekki verið að horfa á RÚV klukkan 23:30 á þriðjudagskvöldi hefur það sennilega ekki séð hana. Þá er ég að gera ráð fyrir að hún hafi yfir höfuð verið sýnd. En hvað ef fólk borgar 150kr. fyrir stuttmyndir sem því líkar og 300-400kr. fyrir kvikmyndir í fullri lengd?
Ef allir þeir 745 sem sótt hafa myndina borguðu 150kr, værum við komin með fyrir fjórðung kostnaðarins sem lagt var út í. Með betri markaðssetningu væri sennilega lítið mál að ná til 2500 manns og ef þeir allir borguðu 150kr, væri myndin komin á slétt. Við, kvikmyndafólk, höfum það ekkert slæmt. Við erum bara ekki að nota þá möguleika sem til eru.
Svo er það auðvitað næsta spurning. Mun fólk borga ef það er því í sjálfs vald sett, eða þurfum við að halda áfram að loka á neytendur, læsa skrám og hleypa engum inn nema þeim sem greitt hafa fyrir fram? Þurfum við að halda áfram að láta eins og listamenn og fólk sem nýtur verka þeirra séu tveir ólíkir þjóðflokkar sem rembast við að féfletta hvern annan? Getum við treyst fólki til að borga fyrir efni sem það hefur gaman að eða þurfum við (eða viljum við) halda áfram að kæra hina og þessa?
Náttúruvernd þarf ekki að kosta okkur lífskjörin. Ef við breytum áherslunum, hættum að kaupa diska og sækjum þá löglega á netið, erum við að vernda Amazon og aðra regnskóga, spara pening og styrkja listamenn.
Hver tapar á því?
Meira en helmingur Amazon regnskógarins gæti eyðst fyrir 2030 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Kvikmyndir, Vefurinn | Facebook
Athugasemdir
Ég leyfi mér að efast um að mörg tré sem felld eru í regnskógunum fari í pappír. Það er einfaldlega ekki leyft og pappírsframleiðendur rækta sína eigin skóga til að framleiða pappírinn. Þeim er skylt að gróðursetja fjögur tré á móti hverju sem þeir fella í pappírsframleiðsluna. Notum meiri pappír; fjölgum trjám um leið!
Sigurjón, 8.12.2007 kl. 22:36
Eitthvað fara þessi tré í, því frumskógar jarðarinnar eru að minnka. Eitthvað af timbrinu fer í "gæðavörur" þar sem þetta er goður viður, stundum er rutt fyrir landbúnað. Svo er ekki alltaf farið eftir reglum, þegar stórfyrirtæki eiga í hlut. Annars er timbur ekki eina efnið í pappír. Alls konar mengandi efni eru notuð. Svo er það olían og álið.
Það sem ég er að reyna að segja með þessari færslu er að umhverfisvernd þarf ekki alltaf að "kosta okkur" eða vera "fórn". Ef við gerum hlutina öðruvísi, getum við hjálpað til án þess að fara aftur á steinöld.
Villi Asgeirsson, 9.12.2007 kl. 05:25
Já þetta er góð spurning hvort fólk borgi ef því er í sjálfsvald sett að gera það.
Góð hugleiðing. Gangi þér vel með myndina.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 9.12.2007 kl. 13:33
Ég er búin að hlaða niður myndinni en hef ekki haft tíma til að horfa ennþá. En ég bíð eftir millifærsluupplýsingum því ég ætla að borga hvernig svo sem mér líst á myndina. Mér finnst það bara sjálfsagt.
Lára Hanna Einarsdóttir, 9.12.2007 kl. 15:59
ég grenjaði ekkert smá mikið yfir þessu hér í den, þegar ég var lítil. Var meiraðsegja oft að búa til auglýsingaspjöld sem stóð á "björgum regnskógunum" þegar ég var í 7 og 8 ára bekk, maður var svo mikill aktivisti þá. Ég var útbrunnin um 11 ára aldurinn! hehe. Annars ætla ég alveg að borga fyrir myndina þína en ég kann ekki að borga svona á netinu, á ekki visakort eða neitt
p.s það eru ekkert smá miklar hryllingssögur sem fylgja þessu um allskonar ættbálka sem hafa verið eyddir eða fluttir vegna þess að stórfyrirtækin þurfa að komast yfir landið, fella skóginn osfrv. Bara grátlegt en ég ætla samt ekki að setja grátkall yfir því að þessu sinni ;)
halkatla, 18.12.2007 kl. 00:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.