Hver vill vera húsbóndinn minn?

Ég hef búið í Hollandi í tíu ár, í hjarta Evrópusambandsins. Meðan Ísland hefur verið í bullandi uppsveiflu siðustu ár, hefur atvinnuleysi og (óopinber) verðbólga varað hér, sérstaklega eftir að evran var tekin upp. Það er ekki svo að Holland sé fátækt land eða að það gangi svo illa hér, heldur draga stóru löndin sem eru ekki að gera það svo gott restina á eftir sér. Þýskaland hefur verið að berjast í bökkum síðan það sameinaðist. Frakkland hefur alltaf verið eftir á fjárhagslega, Spánn og Ítalía líka. Þetta eru þó löndin sem munu ákveða hvað íslenska efnahagslífið er að gera. Það þarf að ausa peningum í austur-Evrópu svo að hún komist á sama plan og gamla vestur-Evrópa. Svo eru það miðin, sem verða ekki okkar lengur. Voru þorskastríðin tímasóun?

En svo maður setji þetta í form sem fólk skilur. Jón er ekki ríkur, en er í vinnu og á eitthvað eftir um hver mánaðamót. Hann safnar því saman og getur þannig keypt sér nýjan bíl á þriggja ára fresti og farið í utanlandsferð allavega einu sinni á ári. Hann er ekki ríkur, en honum líður vel.

Einhverjum datt í hug fyrir tíu árum að ef allir vinirnir keypu saman stórt hús og settu launin sín inn á sameiginlegan reikning myndi mikið sparast. Þetta hljómar vel, það er líklegt að Jón geti keypt sér jeppa næst. Hann slær því til og bætist í hópinn. Hann rekur sig þó fljótt á að um leið og launin eru komin inn á reikninginn þurfa allir að vera sammála um hvernig á að ráðstafa fénu. Það geta því liðið mánuðir áður en allir 25 vinirnir samþykkja að Jón geti keypt sér nýjan bíl. Hann þarf samþykki allra til að kaupa sér nýja tölvu. Hann þarf að hætta að reykja vegna þess að hópurinn er ekki samþykkur eyðslu í svoleiðis hluti.

Þetta var bara ákvarðanatakan. Þetta hafði verið hópur 15 þokkalega vel efnaðra vina, en á síðustu mánuðum hafa bæst við 10 vinir sem eiga lítið annað en gjaldfallin lán og gamlar druslur sem verður að endurnýja því þær kosta of mikið viðhald. Jón verður því að sætta sig við að það sem hann átti aflögu fer í að rétta nýju vinina af svo allir geti verið á svipuðu róli fjárhagslega. Þeir verða að ganga fyrir því annars verða verstæðisreikningarnir og gjaldföllnu lánin að stóru vandamáli fyrir alla 25 vinina.

Jón er fastur. Bíllinn er orðinn sex ára, hann hefur ekki komist í utanlandsferð í þrjú ár og húsið hans var sett í púkkið. En það þýðir ekkert að suða, hann tók sína ákvörðun.


mbl.is Stuðningur við ESB-aðild eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Þú settir þetta nú bara á form til að allir gætu skilið misskilninginn þinn; ESB er miklu frekar eins og að Jón og félagar hafi allir verið verkamenn, en hafi ákveðið að stofna saman fyrirtæki til þess að geta hjálpast að með alla fyrirhöfnina sem þeir voru að standa í sjálfir. Þannig spara þeir sér allir kosnað við að vera að vinna hluti í sitthvoru lagi og geta hver um sig farið að einbeita sér að því sem þeir eru góðir í - þannig að allir græða. Fyrirtækið virkar samt bara þannig að smá prósenta af tekjum hvers fer í pott sem er notaður í reksturinn, og hluti af ákvörðunum eru teknar saman - en utan við það er hver verktaki bara að gera það sem hann vill. Svo er reyndar alltaf hægt að fara rífast um hversu langt á að ganga í þessum fyrirtækjarekstri, sérstaklega þegar sumir verða fúlir þegar fátækir verkamenn frá austur evrópu eiga allt í einu að fá að vera með. 

Írland og Finnland eru t.d. lönd sem hafa verið í ESB og verið með mun meiri hagvöxt en Íslendingar nokkurntímann, atvinnuleysi þar hefur minnkað og verðbólga mun minni (enda er verðbólga á Íslandi mun hærri en í nokkru ESB landi) - þannig að þótt að þú takir dæmi um stór ríki eins og Frakkland og Þýskaland sem eru í vandræðum, þá ættum við frekar að vera bera okkur saman við þau ríki sem við líkjumst og viljum líkjast! við erum ekki að fara glíma við arfleið kommúnisma hér á Íslandi t.d. 

Hérna þurfum við stöðugan gjaldmiðil og tiltekt í tollaumhverfinu okkar - ESB veitir okkur akkurat það, við erum aðilar að næstum öllu öðru í samstafinu. Ótti um sjávarútveginn er liðin tíð - það er löngu ljóst að við munum ein sitja að veiðum hér eftir inngöngu alveg eins og nú. 

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 10.9.2007 kl. 13:48

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Skil hvað þú átt við Villi... flott sagt.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 10.9.2007 kl. 14:04

3 Smámynd: Villi Asgeirsson

Allt í lagi. Segjum sem svo að þú hafir rétt fyrir þér, hvaða áhrif heldur þú að aðild að ESB myndu hafa á Íslandi? Hvað myndi breytast? Hvernig mun fólk finna það í sínu daglega lífi?

Villi Asgeirsson, 10.9.2007 kl. 14:05

4 Smámynd: Fannar frá Rifi

En síðan eru allir þeir sem ekki eru í vina hópi þeirra hunsaðir og útilokaðir. þannig eru þeir sem eru td. góðir í því að rækta korn og geta gert það á mun ódýrari hátt útilokaðir. td. eins afríkubúar. eða þeir sem geta verið með vefnaðar framleiðslu á mun ódýrari hátt fá takmarkaðan á aðgengi að þessum vinum. eins td. kína. 

En Jónas við munum glíma við arfleifð kommíunista í austur evrópu. við munum glíma við öll þau vandamál sem ESB vill að við glímum við.  Síðan þegar þeir bæta við í stjórnarskránna, ég meina nýja sáttmálan sem ekki má kalla stjórnarskrá, herskyldu vegna stríðsátaka þá lendum við í því að fara í her og heyja stríð fyrir erlenda valdhafa.

Og já ef við skoðum söguna þá er undirliggjandi átök í evrópu og evrópu manna við aðrar þjóðir ekki eitthvað sem breytist bara, aðþví bara? Saga evrópu er blóðidrifinn.  afhverju ætti hún eitthvað að vera öðruvísi næstu 2000árin heldur en hún var síðustu 2000 árinn??? 

Fannar frá Rifi, 10.9.2007 kl. 14:12

5 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

  1. Stöðugur gjaldmiðill eins og evra mun útríma þeirri verðbólgu sem kemur eftir að krónan fellur (sem er verðbólga sem gengur aldrei til baka þegar krónan styrkist aftur)
  2. evran mun útrýma verðtryggingunni á lánum, þannig að höfuðstóll lána mun bara hækka um þessi ~5% vexti á ári, en ekki ~11% eins og á síðasta ári vegna 6% verðbólgu
  3. Verð á mætvælum mun lækka um 40%, því verndartollar eins og eru á íslandi eru bannaðir innan ESB


Þannig að fólk mun taka eftir því að verð á matvælum lækkar mikið, og lánin þeirra hækka bara um 5% á ári í stað yfir 10% - auk þess að þessi síendurteknu verðbólguskot munu hætta.  Utan við það mun fólk ekkert taka mikið eftir því að við séum í ESB, við erum nú þegar partur af innri markaðinum í gegnum EES og svo erum við aðilar að Schengen þannig að daglegt líf verður alveg eins.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 10.9.2007 kl. 14:13

6 Smámynd: Villi Asgeirsson

En um Írland og Finnland. Finnland hefur byggt upp hátækni iðnað sem við myndum aldrei skilja, því við erum svo upptekin við að byggja stóriðju. Írland var eitt fátækasta land ESB þangað til fyrirtækjaskattar voru lækkaðir niður í næstum ekkert. Fyrirtæki sem fluttust til Írlands borguðu enga skatta fyrstu þrjú (minnir mig) árin og lægri skatta en í nágrannaríkjunum eftir það. Þegar þú ert Dell, Microsoft, IBM, Apple eða annað álíka stórt fyrirtæki geta þriggja ára skattar hlaupið á milljörðum.

Þessi tvö lönd, eins og Ísland, eru að gera það gott án hjálpar frá ESB.

Villi Asgeirsson, 10.9.2007 kl. 14:16

7 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Vill svo bara benda Fannari á 'Everything but Arms initiative' ESB, sem gefur þróunarríkjunum aðgang að markaði ESB með allt nema vopn. ESB hefur hingað til séð um 60% af allri þróunarhjálp í heiminum, og er með markaðinn sinn opinn fyrir allar vörur frá þróunarríkjunum. Ísland hinsvegar lokar á allt, og eyðir minnst allra landa í þróunarhjálp - talandi um að hunsa og útiloka.

Auk þess heldur Fannar áfram með rugl; það er ekki herskylda í einu einasta ESB landi, og mögulegt varnarsamstarf verður valfrjálst. Það er eins og þið séuð að missa vitið í að reyna finna hæpnar röksemdir gegn ESB, og þessvegna kokkið þið bara einhverja vitleysu upp. ESB var stofnað til að láta löndin vera það háð hvort öðru að þau myndu aldrei herja stríð gegn hvort öðru; það hefur heppnast fullkomnlega!

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 10.9.2007 kl. 14:20

8 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ég bý í Hollandi. Þegar evran var tekin upp hoppaði matvælaverð og hefur sennilega tvöfaldast síðan í janúar 2002. Þú getur skoðað verðbólgurit og þú sérð það ekki. Það er samt staðreynd að það sem kostaði gyllini í desember 2001 kostar nú evru. Það er hægt að hagræða tölum, virðist vera, en staðreyndin er að evran er ekki ávísun á lægra vöruverð.

Villi Asgeirsson, 10.9.2007 kl. 14:20

9 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Þessi tvö lönd, eins og Ísland, eru að gera það gott án hjálpar frá ESB.

Ha? þau eru bæði í ESB og með evru, og inngangan í ESB og uppbyggingarstyrkirnir sem fóru til Írlands t.d. þegar þeir voru að byggja upp menntakerfið sitt eru einmitt talin vera hornsteinninn að velgengi þessara þjóða. Ég sit hérna í hátæknifyrirtækinu mínu að skrifa þetta, og skil ágætlega hvað Írland og Finnland hafa verið að gera; ég vildi óska þess að Ísland færi sömu leið með áherslu á fjáramálstarfsemi.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 10.9.2007 kl. 14:23

10 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

evran er ekki ávísun á lægra mataverð, en niðurfelling tolla er það. Vandamálið sem kom upp við upptöku evrunnar var að kaupmenn notuðu tækifærið og rúnuðu upp, þannig að matarverð hækkaði. Þetta gerist á 2-3 ára fresti hér á Íslandi, þegar krónan lækkar þá hækkar allt verðlag, en það lækkar aldrei við að krónan styrkist.

Við erum með mjög háa tolla og vörugjöld á matvælum hér á Íslandi. Með því að afnema þá, eins og við þurfum að gera við inngöngu í ESB, þá mun vöruverð hér verða eins og í Danmörku og Svíðþjóð. 

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 10.9.2007 kl. 14:25

11 Smámynd: halkatla

sannar fyrir mér að ég er á réttri leið með því að vera á móti aðild að evrópusambandinu og upptöku evrunnar

halkatla, 10.9.2007 kl. 14:37

12 Smámynd: Fannar frá Rifi

Nei það er enginn herskylda í dag? en hvað með morgun daginn? það eru ekki nema rétt 62 ár síðan það var herskylda í allri evrópu. það er ekki mannsaldur síðan? Þetta er svona svipað milli bils ástand í evrópu og skapaðist eftir Napóleons stríðið. 

Nei ég vil að við getum ákveðið okkar mál sjálfir án þess að þurfa að semja við aðra um okkar réttindi og auðlyndir. 

Jónas. Afhverju ertu með ESB aðild? hvað sérðu í ESB sem ekki er hægt að gera hérna af okkur sjálfur óstudd? 

Fannar frá Rifi, 10.9.2007 kl. 14:37

13 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

hehe, enn heldur Fannar áfram með "í framtíðinni gæti ESB trampað á okkur" rökin sín.. þetta er meira ruglið, ESB er til að hjálpast að, ekki til að níðast á neinum.  Við þurfum að semja við Noreg og ESB um hluta af fiskveiðinum okkar í dag Fannar, það mun aldrei breytast. ESB hefur engan rétt né áhuga á því að nýta auðlindirnar okkar; sameiginlega auðlindarstefnan þar er fyrir sameiginlegar auðlindinr, ekki fyrir staðbundna stofna eins 80% kvótans er hér við Ísland - þess vegna mun reglan um hlutfallslegan stöðuleika tryggja okkur að við munum ein sitja að auðlindinni. Það er rugl að halda því fram að þessu verði breytt allt í einu, þetta er grundvallarregla í sambandinu.

Ég er með ESB aðild því að reynslan af EES samningnum er svo góð; ég fýla frjálsan markað og hlutabréfamarkað sem við fengum sem tilskipun frá ESB og tel að landbúnaðarkerfinu hér verði ekki breytt nema með utanafkomandi þrýstingi. Besta leiðin til að fá betra landbúnaðakerfi og losna við gjaldmiðilinn er ESB aðild. 

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 10.9.2007 kl. 14:46

14 Smámynd: Villi Asgeirsson

Þú ert sem sagt að segja að við eigum að ganga í ESB af því höfum ekki getu eða vit til að stjórna landinu sjálf? Ég er hjartnlega sammála að tolla megi endurskoða á Íslandi. Ég er 100% sammála að frjáls markaður sé af hinu góða. Ég sé samt ekki að við þurfum að ganga í ESB til að það sé hægt. Ef íslendingar vilja lækka tolla er það þeim í sjálfs vald sett, ólíkt því sem yrði við inngöngu í ESB.

Svo er hæpið að kalla spekúleringr um framtíð ESB rugl, nema maður eigi kristalkúlu og kunni að nota hana.

Villi Asgeirsson, 10.9.2007 kl. 15:14

15 Smámynd: Fannar frá Rifi

"ég fýla frjálsan markað"

Nei núna ertu að ljúga. Mesta styrkja kerfi heims? Kerfi sem lætur íslenska landbúnaðarkerfið lýta út eins opið hagkerfi á ríkisafskipta.

Og afhverju ættu stórveldinn sem ekki er svo langt síðan sugu allt líf úr öðrum heimsálfum ekki að gera hið sama núna? Hvað er öðru vísi við daginn í dag en það var fyrir 100 árum? 

EF þú hefur ekki náð því þá er sameiginleg fiskveiðistjórnun í ESB. Það er að öll stjórnun á fiskveiðum er staðsett í ESB og verður stjórnað þaðan. Allt annað er annað hvort lýgi eða þú veist ekki betur. Stjórnun fiskveiða í esb hefur ekki verið stjórnað eftir högum þeirra sem eiga þau mið. eins og dæminn sanna þegar svíar vildu friða þorsk á sínu hafsvæði. Það var bara haldið kjafi við ráðum.

80% kvótans hér við land er aðlögun. ESB ráðamenn hafa stöðugt sagt það ef þeir eru spurðir af því. neitaru því að allt sem við semjum um í ESB verði aðlögun að því kerfi sem er um að ræða í ESB? eða helduru að þeir séu svo rosalega ólmir í að fá okkur í ESB að það verði gerð sérstök undanteknin varðandi okkur? að við fáum special treatment?

Fannar frá Rifi, 10.9.2007 kl. 15:24

16 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Fannar; styrkir til landbúnaðar á Íslandi eru tvöfalt hærri en löglegt er innan ESB, og því þyrftu þeir að lækka mjög hér á landi við inngöngu. Einnig hafa landbúnaðarstyrkir í ESB verið að lækka, en hér á Íslandi fara þeir í raun hækkandi. Sameiginleg fiskveiðistjórnun fer fram á sameiginlegum fiskstofnum, malta t.d. stjórnar sínum staðbundnu stofnum.  80% kvóta aðlögun hvað? 80% fiskstofna við íslandsmið eru staðbundnir, sem þýðir að þeir fara ekki í lögsögu annara þjóða og eru því okkar auðlind en ekki sameiginleg. Við munum alltaf halda fullri stjórn yfir þeim parti auðlindarinnar og munum aldrei þurfa að úthluta nokkrum manni parti af henni nema við kjósum að gera það sjálfir! þetta kemur ESB ekkert við.  Lestu http://evropa.blog.is/blog/evropa/entry/267840/ til að glöggva þig betur á hvernig hlutirnir eru í raun og veru væni.

Villi; ég er ekkert að segja um að við höfum ekki getu til að stjórna landinu sjálf, enda þýðir innganga í ESB ekkert að við munum hætta að stjórna landinu. ESB kemur með ramma sem löndin vinnan innan, og meirihluti þessa lagaramma eru í gildi á Íslandi nú í dag. T.d. vinna öll ráðuneyti nema landbúnaðar og sjávarútvegs innan nær fulls lagaramma ESB, og öll löggjöf þingsins sem snýr að atvinnu og efnahagslífinu verður að samræmast ESB gerðum. Það að bæta við landbúnaðar og sjávarútvegs lagarömmunum til að fá evru er bara góður díll, þar sem að landbúnaðakerfi ESB er mun betra en það Íslenska (sérstaklega fyrir neytendur) og að sjávarútvegsstefna ESB samræmis þeirri íslensku alveg gjörsamlega. Það er grunnforsenda þess að taka þátt í ESB að vera sjálfstæð fullvalda þjóð, og við munum halda því áfram þrátt fyrir að sjávarútvegs og landbúnaðarkerfi ESB verður tekið upp hérna. Það mun í raun fátt annað breytast en þeir hlutir sem ég taldi upp hér áður - og stjórn landsins verður nær alveg eins.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 10.9.2007 kl. 15:40

17 Smámynd: Ellý

Jamm, fyrrverandi var mikið ósátt þegar Evran var tekin upp í Austurríki. Alltíeinu var matur dýrari á meðan launin stóðu í stað, eins og fólk myndi bara ekki taka eftir því af því að þau "kunnu ekki á nýja peninginn"? Fussum svei! Ég vil ekki sjá Evrur eða ESB hérna. Góð grein hjá þér.

Ellý, 10.9.2007 kl. 19:10

18 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Góð samlíking hjá þér Villi.

Jórunn Sigurbergsdóttir , 10.9.2007 kl. 21:01

19 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Villi, þakka þér þennann pistil.

Auðsjáanlega svíður nokkuð undan honum meðal Evrópusinna.  Skiljanlega.

 Við höfum þann furðulega sess í Evrópu, að hafa allt opið, bæði til vesturs og austurs, það eru afar margir Evrópumenn, sem öfunda okkur af þeirri stöðu og einni gþeirri að ÞURFA ekki að selja auðlindir okkar til útlendra ,,Gróðapunga" líkt og Goldmann og félaga (líst bara skelfilega á nafnið) Það er ekki víst, að þeir verði skilningsríkir við afkomendur mína, þegar kemur að því, að þeir þurfi að ,,díla" við þa´ um verð á heitu vatni og svoleiðis.

Takk og aftur TAKK

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 11.9.2007 kl. 15:54

20 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Algjörlega sammála Jónasi Tryggva í þessu máli. Inn í ESB sem allra fyrst. Það er nú þegar kominn meirihluti fyrir, ekki aðeins aðildarviðræðum heldur hreint og beint inngöngu í ESB. 48% landsmanna vilja inn, 33% vilja ekki inn og 19% eru óákveðnir. Ef gengið yrði til kosninga nú og óákveðnir myndu ekki kjósa, yrði niðurstöðuna eitthvað um 59% fyrir inngöngu og 41% á móti samkvæmt mínum útreikningum. Auðvitað myndu hluti óákveðna kjósa en ég held þau atkvæði myndu splittast 50/50 með og á móti. 

En það er allavega nokkuð ljóst að við eigum að fara drulla okkur í aðildarviðræður. 58% vilja byrja þær sem eru miklu fleiri heldur en þær sem eru á móti því. Meira segja helmingur kjósenda Sjálfstæðisflokksins vill byrja viðræður.

Að virða ekki þennan vilja þjóðarinnar er hreinlega fáránlegt. 

Jón Gunnar Bjarkan, 11.9.2007 kl. 18:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband