3.9.2007 | 12:43
Hvaðan kemur hugmyndin um Guð?
Hvaðan kemur hugmyndin um Guð?
Margir þekkja rithöfundinn Douglas Adams og bækur hans um Arthur Dent, eina jarðabúa sem lifir af þegar jörðinni er eytt til að skapa rými fyrir hraðbraut um vetrarbrautina. Færri vita að hann var mikill hugsuður og dýraverndunarsinni. Hann kallaði sjálfan sig fanatic atheist", eða ofsa(ó)trúarmann. Hér á eftir er þýðing hluta af ræðu sem hann hélt í Cambridge, Bretlandi í September 1998. Það lýsir snilligáfu hans að ræðan var óundirbúin. Hana má lesa í heild sinni á Ensku hér.
Hvaðan kemur hugmyndin um Guð? Ég held við höfum skakka sýn á margt, en reynum að sjá hvaðan þessi sýn kemur.
Ímyndið ykkur frummanninn. Frummaðurinn er, eins og allt annað, þróuð vera og hann lifir í heimi sem hann hefur náð einhverjum tökum á. Hann er byrjaður að búa til verkfæri og notar þau til að breyta umhverfi sínu. Hann notar umhverfi sitt til að búa til verkfæri sem hann notar svo til að breyta umhverfinu.
Tökum sem dæmi hvernig maðurinn virkar á annan hátt en önnur dýr. Sérhæfni gerist þegar lítill hópur dýra skilst að frá restinni vegna náttúruafla. Ástæðurnar geta verið náttúruhamfarir, offjölgun, hungursneyð og fleira. Einfalt dæmi, litli hópurinn er kominn á landssvæði sem er kaldara. Við vitum að eftir einhverjar kynslóðir sjá genin til þess að á dýrunum fer að vaxa þykkari feldur. Maðurinn, sem býr sér til verkfæri, þarf ekki að gera þetta. Hann getur búið á heimskautasvæðum, í eyðimörkum hann getur jafnvel lifað í New York og ástæðan era ð hann þarf ekki að bíða í margar kynslóðir. Ef hann kemur á kaldari slóðir og sér dýrin sem hafa genin sem láta þeim vaxa feld, segir hann ég ætla að fá þennan feld, takk fyrir. Verkfæri hafa leyft okkur að búa til hluti og laga heiminn að okkur, svo okkur líði betur í honum.
Ímyndum okkur frummanninn, búinn að smíða sín verkfæri, horfandi yfir landið að lokum dags. Hann horfir í kring um sig og sér heim sem veitir honum ómælda ánægju. Bak við hann eru fjöll með hellum. Fjöll eru frábær, því hann getur farið og falið sig í hellunum. Hann getur skýlt sér fyrir regni og birnir geta ekki náð þér. Fyrir framan hann er skógur með hnetum, berjum og öðru góðgæti. Það rennur lækur sem er fullur af vatni sem gott er að drekka. Svo er hægt að sigla á bátum á læknum og gera alls konar hluti við hann.
Þarna er Ug frændi. Hann var að veiða mammút. Mammútar eru frábærir. Þú getur borðað þá, klætt þig í skinnin og svo er hægt að nota beinin til að vúa til vopn til að veiða fleiri mammúta. Þetta er frábær heimur!
Nú hefur frummaðurinn okkar smá tíma aflögu og hann hugsar með sér, þetta er athyglisverður heimur sem ég er í og hann spyr sjálfan sig hættulegrar spurningar sem er algjerlega tilgangslaug og merkingarlaus. Spurningin kemur til vegna þess hver hann er, vegna þess að hann hefur þróst í þessa veru sem gengur svona vel. Maðurinn, skaparinn, horfir yfir heiminn sinn og hugsar, hver bjó allt þetta til? Þú getur ímyndað þér hvers vegna þetta er hættuleg spurning. Frummaðurinn hugsar með sér, ég veit bara um eina veru sem býr til hluti, þannig að hver svo sem bjó þetta til hlýtur að vera mikið stærri og öflugri vera, og hún er auðvitað ósýnileg. Þetta er vera eins og ég, og þar sem ég er sterkari og geri allt, hlýtur veran að vera karlkyns. Þannig erum við komin með hugmyndina um Guð.
Við búum til hluti sem ætlum að nota. Frummaðurinn spyr sig því, ef hann bjó þetta til, hver er tilgangurinn? Hér er gildran, því hann hugsar, þessi heimur passar mér bara mjög vel. Allir þessir hlutir sem aðstoð mig, hjálpa mér, fæða og klæða., og hann kemst að þeirri niðurstöðu að heimurinn var skapaður fyrir hann.
Þetta er svipað og ef pollur vaknað einn morguninn og hugsaði með sér, þetta er athyglisverður heimur sem ég er í, skemmtileg hola sem ég er í. Passar mér bara nokkuð vel, ekki satt? Hún smellpassar mér. Holan hlýtur að hafa verið búin til fyrir mig! Þegar sólin rís og loftið hitnar og pollurinn minnkar, heldur pollurinn dauðahaldi í þessa hugmynd, að allt verði í lagi því að heimurinn var skapaður fyrir hann. Það kemur pollinum mikið á óvart þegar andartakið kemur og hann hverfur.
Ég fann þessa ræðu óvart fyrir 2-3 árum síðan þegar ég var að leita að einhverju öðru. Hún vakti strax athygli mína og ég hætti ekki fyrr en ég var búinn að lesa hana á enda. Hún er löng, en greip mig með töng. Síðan þá hef ég verið mikill aðdáandi Douglas Adams. Hann er einn fyndnasti rithöfundur sem ég hef lesið.
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkar: Bloggar, Bækur, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:49 | Facebook
Athugasemdir
Trúarbrögð eru ekkert nema tilbúningur manna frá a-ö, það furðulega er að nútíma menntaðir menn gleypa þetta... sem er líklega bara ótti við dauðann og fleira í þeim dúr
DoctorE (IP-tala skráð) 3.9.2007 kl. 13:23
Ég vil trúa á hið góða. Að það hafi kraft til að hvetja okkur til góðra verka.
Takk fyrir mjög áhugaverða grein.
Jenný Anna Baldursdóttir, 3.9.2007 kl. 15:57
Ég held ég hafi lesið þetta í "The Salmon of Doubt", bókinni sem gefin var út eftir dauða hans. Sú bók var bráðskemmtileg lesning.
Billi bilaði, 3.9.2007 kl. 16:06
Jenný. Hið góða býr í okkur sjálfum. Við getum svo notað Guð til að afsaka ófullkomleika okkar þegar við "óvart" gerum eitthvað af okkur. "Ég ætlaði ekki að nauðga stelpunni. Ég er bara veikur maður. Guð fyrirgefi mér." Allt of auðvelt þegar maður getur falið sig bak við Guðinn sinn.
Billi, gott ef ekki. Ég á eftir að lesa hana. Var þetta ekki ókláraða bókin um Dirk Gently með einhverjum ritgerðum og öðru smotteríi hent inn? Þetta hefur eflaust verið kenning sem hann gekk með í hausnum. Væri þó gaman að vita hvaðan hún kom og hvenær, hvort hann hafi "uppgötvað" hana á þessari ráðstefnu.
Villi Asgeirsson, 3.9.2007 kl. 16:23
einsog mér leiðist svona væl um það hvað trúarbrögð eru hræðileg, trú mikið bull, hugtakið guðir tilheyrandi forneskju og á leið út vegna vísindanna og allt það, þá finnst mér þú komst mjög vel frá því hér ég vissi ekki að Douglas Adams hefði verið dýraverndunarsinni en það er alger snilld, takk fyrir þessar upplýsingar og þessa ræðu. En ég fyrir mitt leiti er mjög trúuð og ég veit alveg fyrir víst að Guð er til - það angrar mig ekki neitt þó að aðrir hafi aðra skoðun, en mér leiðist þessar ranghugmyndir þeirra sem halda því fram að fólk trúi í blindni eða vegna heilaþvottar, það er alls ekki rétt. Ég hef óteljandi sannanir og gæti aldrei annað en trúað á æðri máttarvöld.
halkatla, 3.9.2007 kl. 23:45
Trúrbrögð eru alls ekki hræðileg á meðan fólk misnotar þau ekki. Að kalla trú bull er jafn vitlaust og að vera sannfærður um eigin sannfæringu og halda því fram að allir hinir fari til fjandans. Það er engin leið að sanna neitt, á hvorn veginn sem er. Ég held að flestir sem pirra sig á trúuðum séu ekki að pirrast á fólki eins og þér, heldur ofsatrúarmönnum, þeim sem nota trú fólks til að kúga aðra og þá sem ekki geta haft hana fyrir sig og stoppa ekki fyrr en allir eru eins og þeir. Fólk má trúa á tannálfinn mín vegna, á meðan það reynir ekki öllum stundum að sannfæra mig um að hann sé til og komi því svo til leiðar að heilu heimsálfurnar geti bara borðað súpu og ekkert annað því falskar eru honum ekki þóknanlegar.
En um dýravininn Douglas Adams. Hann skrifaði bókina Last Chance to See um ferðir sínar og líffræðingsins Mark Carwardine um heiminn í leit að dýrum í útrýmingarhættu. Þetta er fyndin bók eins og við má búast, en það skín líka í gegn reiði hans á mannkyninu á því hvernig það fer með önnur dýr. Ég mæli með henni.
Villi Asgeirsson, 4.9.2007 kl. 08:39
þetta er bók sem ég vil lesa, takk. og þetta gerir Adams bara ennþá æðislegri en hann var fyrir
halkatla, 4.9.2007 kl. 10:42
Púkinn er fullkomlega sammála, eins og oft hefur komið fram. Það er annars skondið að þegar þeir sem trúa á tilvist einhvers guðs eru beðnir um sannanir fyrir þeirri tilvist enda þeir annaðhvort á að vísa í sín eigin trúarrit, eða þá að þeir koma með eitthvað almennt sem má allt eins nota til að styðja tilvist havaða annars guðs sem er.
Púkinn, 4.9.2007 kl. 16:02
Mitt svar við öllum þessum hugleiðingum um tilvist ellegar ótilvist Guðs felst í einu erindi mínu í hinum enn óútgefnu ´Hávamálum inum nýju,´sem ég orti um árið. En það vers hljóðar svona:
"Geðveikin ein!
- Á Gram að trúa
í hryggðar-heimi þessum.
En á hina hönd
væri heimur án Grams
óbærilegur með öllu."
Góðar stundir.
Swami Karunananda, 4.9.2007 kl. 16:25
Þetta er frábær færsla og ég ætla taka athugasemd nr. 7 til fyrirmyndar... takk Villi
Gunnar Helgi Eysteinsson, 4.9.2007 kl. 16:43
Púki, það er rétt að þeir nota eigin rit eða eitthvað sem má skýra á annan hátt.Málið er að trú þarf, eðlis síns vegna, ekki að sanna. Maður trúir eða ekki. Það er mál hvers einstaklings hvort hann geri það.
Takk fyrir, Gunnar.
Villi Asgeirsson, 4.9.2007 kl. 18:53
Skemmtilegur og áhugaverður pistill. Hugmyndir Douglas Adams eru væntanlega byggðar á hans pælingum og hugarheimi um lífið og tilveruna eins og svo margra annarra sem reyna að sanna eða afsanna tilvist guðs.
Sjálf aðhyllist ég ekki trúarbrögð, er búin að pæla mikið í trúmálum alla mína æfi, og fann virkilega fyrir frelsi þegar ég sleppti tökunum á öllum trúarhugmyndum og kenningum og fann minn sannleika.
Það er erfitt fyrir fólk að sleppa tökunum á trúnni og sérstaklega er það erfitt hjá þeim sem eru aldir upp við trúarótta eða guðsótta. Fólk virkilega trúir því að ef það sleppi hendinni og huganum af bókstafnum eða því sem því hefur verin talin trú um að sé rétt, þá verði það verra á einhvern hátt. Fólk á erfitt með að treysta því að maðurinn geti verið kærleiksríkur, upplýstur og viljað góða hluti fyrir annað fólk ef það er ekki trúað.
Trúarbrögðin og kenningar þeirra hafa litað fólk og sýkt af ýmsum ósóma í gegnum aldirnar eins og margir vita og gera enn. Ágætasta fólk skrifar undir fordóma og misskiptingu sem trúarbrögðin standa fyrir í krafti þeirrar mötunar að svona eigi hitt og þetta að vera sem hefur verið og er ennþá tíundað mikið sem sannleikur guðs og það sem guð vill. Það má t.d. benda á það að ennþá loðir það við fólk sem ekki einu sinni telur sig mjög trúað, að það þurfi nauðsynlega að skíra nýfædd börn sem ekki er hugað líf (svo þau lendi ekki í forgarði helvítis) Eftir þessu hlaupa prestar enn þann dag í dag.
Sem betur fer eru margir farnir að skilja það að trúarritin snúast um trú, og eru pælingar og skrif fjölda manna um trúmál og um guð. Það eru líka afar margir farnir að sjá peningavaldið sem trúarbrögðin virðast hafa og ekki þarf annað en að líta til páfagarðs til að sjá allt puntið og prjálið þar og miklar eignir, sem væru betur varið til að byggja upp samfélög sem hafa orðið illa úti.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 4.9.2007 kl. 19:27
Ég held að sannfæringin frelsi mann, hvort sem maður finni Jesú eða trúleysi. Það virðist vera sprengja í trúarumræðu á blogginu og mér sýnist flestir vera frekar á móti trúarbrögðum, ekki sérstaklega trú. Það geta predikaranir sjálfum sér um kennt.
Villi Asgeirsson, 4.9.2007 kl. 20:30
So long and thanks for all the fish......
Skemmtileg lesning og vel í lagt.
Sævar Finnbogason, 4.9.2007 kl. 23:00
Villi: Það er hægt að sannfæra fólk um ýmsa hluti og mata það. Margir slíkir telja sig frelsaða og vera sannfærða í sinni trú.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 5.9.2007 kl. 23:58
Óvissan er verst. Sé maður viss í sinni sök líður manni betur, hvort sem maður hefur rétt fyrir sér eða ekki.
Fólk sem gargar halelúja og borgar í sértrúarsöfnuð er sennilega alveg jafn hamingjusamt og ég og þú. Það virðist þó flest hafa verið óhamingjusamt einhvern tíma í fortíðinni. Spurning hvort trú virki þá sem einhverskonar happy pill. Það er samt annað mál og á bara við ofstækisfólk.
Villi Asgeirsson, 6.9.2007 kl. 10:49
Ég man ekki eftir mér öðruvísi heldur en fullvissri um það að guð væri til, hann var bara alltaf þarna innra með mér og allstaðar ég er ekkert að reyna sannfæra aðra um það,,,,, svona er þetta bara fyrir mér.
En mér finnst alltaf gaman að fylgjast með ykkur öllum rökræða um þessi mál
Eva , 6.9.2007 kl. 16:16
Flestum, mér innifalið, er kennd trú frá blautu barnsbeini. Ég er ekki viss um að þú hefðir fundið þessa vissu hefði enginn minnst á Guð. Hver veit, enginn hefur getað sannað eða afsannað tilvist Guðs ennþá svo að kannski þú hafir rétt fyrir þér.
Það skiptir svo sem engu máli. Manneskja sem er hamingjusöm í sinni trú eða trúleysi án þess að troða skoðunum sínum á aðra er í fínu lagi. Ég þekki auðvitað fullt af trúuðu fólki og það síðasta sem ég vil gera er að gera lítið úr því. Enda er það ekkert að bögga mig og mitt trúleysi.
Ef allir hugsuðu svona væri heimurinn enn betri en hann er.
Villi Asgeirsson, 6.9.2007 kl. 18:21
Sammála....
Eva , 6.9.2007 kl. 23:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.