Stjórnin fallin!

Þegar þetta er skrifað hafa 99.4% atkvæða verið talin.

Væri Ísland eitt kjördæmi hefði stjórnin nú 48.4% atkvæða, hún væri því fallin. Sennilega með 30 eða 31 þingmann. Við eru enn föst í gamla kjördæmakerfinu og því er komin upp sama staða og í Bandaríjunum árið 2000 að eiginlegur sigurvegari hefur tapað. Al Gore hafði meirihluta kjósenda á bak við sig en George Bush komst inn í Hvíta Húsið með þeim afleiðingum sem við öll þekkjum. Stjórnin heldur velli með minnihluta kjósenda á bak við sig, þökk sé kerfi sem mismunar atkvæðum eftir búsetu.

Hvað um það, raunveruleikinn er sá að stjórnin stendur, naumlega þó. Hvaða möguleikar eru í stöðunni?

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn (32 þingmenn) gætu haldið núverandi stjórn lifandi, þó sjúk sé. Það er þó ólíklegt, held ég. xB er þreyttur flokkur og þjóðin vill hann ekki í stjórn. Verði það þó ofan á má gera ráð fyrir óvinsælli stjórn sem nær ekki að lifa fram að næstu kosningum, árið 2011.

Kaffibandalag Samfylkingar, VG og Frjálslyndra (31 þingmaður) yrði minnihlutastjórn og því afar veik. Það er ólíklegt að þessi stjórn kæmi miklu í verk nema að gert væri samkomulag við Framsókn um að standa ekki í vegi fyrir frumvörpum. Þetta gæti kannski verið sniðugur leikur fyrir Framsókn, vera í stjórnarandstöðu, en hafa þó mikil völd og tækifæri til að laga almenningsálitið í leiðinni.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar (42 þingmenn) yrði sterkasta stjórnin í stöðunni eins og hún er núna, með 42 þingmenn á móti 21. Ég spái að þetta verði ofan á. xD er hægriflokkur og Samfylkingin er meira á miðjunni en til vinstri, svo þeir ættu að geta unnið saman. Auðvitað eru ágreiningsmál sem þyrfti að strauja út en það er yfirleitt svoleiðis. Þessi stjórn myndi sennilega halda áfram á svipaðri braut og gamla stjórnin þar sem sjálfstæðismenn eru sterkari flokkurinn. Það er hugsanlegt að eitthvað verði hægt á stóryðjumálum í bili, en þegar hægir um og stjórnin er búin að koma sér fyrir fer það allt af stað á ný. Vilji Samfylkingarinnar til að stoppa stóriðju er ekki nógu sterkur til að eitthvað gerist í þeim málum.

Sjálfstæðisflokkur og Vinstri Grænir (33 þingmenn). Sjá VG hér að neðan um af hverju þetta gæti verið góð hugmynd.

En hvað er best fyrir flokkana?

xB - Framsókn er best að koma sér úr stjórn og leita til vinstri flokkanna. Komandi kjörtímabili væri best varið í að hreinsa af sér núverandi ímynd spillingar og gamaldags hugsanaháttar. Framsókn gekk vel í kosningunum 1995 og hún þarf ekki að vera dauð, en best væri að halda sig frá stjórnarsetu í a.m.k. fjögur ár og koma með nýjan lista með nýju fólki fyrir næstu kosningar.

xD - Sjálfstæðisflokkurinn er að gera það gott, enda tók Framsókn á sig allt skítkastið sem stjórnin fékk. Það eru allar líkur á að flokkurinn haldi áfram í stjórn og að Geir sitji áfram sem forsætisráðherra. Þetta gæti þó orðið erfitt kjörtímabil og sjálfstæðismenn verða að vanda sig vilji þeir ekki lenda í vandræðum með almenningsálit og spillingu. Það sýnir óánægja með tiltekna alþingismenn og möguleikar til stjórnarsamstarfs.

xF - Frjálslyndir eru smáflokkur sem náði að halda sínu með því að búa til hávaða. Þeir eiga litla sem enga möguleika á að komast í stjórn. Þeirra stærsta mál næstu fjögur árin er að lifa af.

xI - Íslandshreyfingin kom fram með fallegar hugmyndir en dæmið gekk ekki upp. Þau væru með tvo þingmenn væri Ísland eitt kjördæmi, en það er ekki svo. Spurning hvað fór úrskeiðis, en ég er hræddur um að liðhlaupar úr öðrum flokkum hafi ekki hjálpað til. Mitt persónulega álit var alltaf að Ómar og co. hefðu virkað betur sem þrýstihópur. Spurning hvort það verði hlutverk Íslandshreyfingarinnar, því framtíð á þingi er ólíkleg.

xS - Samfylkingin er í erfiðri stöðu. Kaffibandalagið er dautt nema Samfylkingin og Framsókn neiti að vinna með xD. Það yrði veik minnihlutastjórn og ekki líkleg til að bæta ímynd vinstri flokkanna. Veik vinstristjórn yrði bara til að sópa atkvæðum til hægri í næstu kosningum. Stjórn með sjálfstæðismönnum yrði sterk ef flokkarnir vinna saman, en Samfylkingin hefur átt erfitt með að spila samhljóða svo það er erfitt að segja til um hvað gerist í stjórn. Samfylkingin er milli steins og sleggju, að fara í stjórn sem kjósendur hennar styðja ekki, fara í minnihlutastjórn sem brotnar sennilega við fyrsta skerið eða halda sig í stjórnarandstöðu og sjá hvað setur. Þetta er sennilega sá flokkur sem á erfiðustu valkostina fyrir höndum.

xV - Vinstri Grænir eru í góðum málum. Þeir vinna á og geta farið í stjórn eða ekki og haldið andlitinu. Þeir fljóta með. Hér eru þrír valkostir. Stjórnarandstaða, minnihlutastjórn eða stjórn með Sjælfstæðismönnum. Já, því ekki? Sjálfstæðismenn eru ágætir í fjármálum og VG sér til þess að græðgin fari ekki úr böndunum og að vel verði haldið á umhverfismálum. Þetta er sennilega besta stjórnin sem hugsanleg er eftir kosningarnar í gær.

Það verður gaman að sjá hvort að Hægri-Vinstri stjórn verði rædd á næstu dögum.


mbl.is Miklar sviptingar í þingsætum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir fína og skiljanlega útskýringu á útkomu kosninga.

Ég er sammála því að fá græna og bláa saman í hægri-vinstri stjórn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert góða hluti og við byggjum ekki í þessu samfélagi ef ekki væri fyrir þá. Vinstri-Grænir ættu að geta haft stjórn á græðginni hjá sjálfstæðismönnum og togað þá aðeins niður í veruleikann úr þeirri skýjaborg sem þeir telja sig búa í. Er líka ekki gott að vera jafnvígur á báðar hendur heldur enn bara þá hægri?

Ef af þessu verður þá vona ég samt að sjálfstæðismenn fari ekki með VG einsog þeir fóru með framsókn sem var notuð einsog tuska til að þrífa upp blá og skítug fótspor fráfallandi ríkisstjórnar. Ég held líka að Steingrímur láti nú ekkert tuska sig til.

Oli (IP-tala skráð) 13.5.2007 kl. 08:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband