11.4.2007 | 12:28
Aðfaraflokkurinn III
Fyrir um ári síðan skrifaði ég tvær færslur þar sem Aðfaraflokkurinn var kynntur. Því miður hef ég verið vant við látinn og kosningabarátta okkar ekki fengið þá athygli sem nauðsynleg er til að komast í Kastljós. Við munum því ekki komast á kjörseðla heldur. Hér til vinstri hef ég því sett upp skoðanakönnun þar sem fólki gefst kostur að kjósa þann flokk sem það vill. Þetta eru okkar mini-kosningar. Aðra flokka þekkja lesendur sennilega, svo ég læt mér nægja að kynna stefnuskrá Aðfaraflokksins
Áttir og Meðlimir:
Aðfaraflokkurinn sér sig hvorki sem vinstri eða hægri flokk. Það er kerfi er löngu úrelt. Dæmi hver fyrir sig hvar við erum. Athugasemdir eru vel þegnar svo við getum valið lit á lógóið. Meðlimir flokksins eru ekki á veggspjöldum hér og þar því við trúum því að stefnumál, ekki sæt fés og vinapólitík skipti máli.
Fjárlög og Skattar:
Skattar munu haldast óbreyttir. Ísland er ekki það ofurskattland sem það var. Við viljum sem minnst aðhafast beint á vinnumarkaði, en ríkið hefur sínar skyldur sem því ber að sinna og þar þarf fjármagn til.
Almannaheill:
Spítalar, dagheimili, skólar og almenningssamgöngur skulu vera á vegum ríkisins. Einkavæðing banka og margra fyrirtækja er hið besta mál, en stofnanir sem fara með almannaheill skulu ekki einkavædd því það stríðir gegn þjónustuhlutverki þeirra. Þau eru best sett sem eign þjóðarinnar.
Landsvirkjun má undir engum kringumstæðum verða einkavædd.
Langvarandi atvinnulausir (3 mán.) skulu eyða þremur dögum í viku á þartilgerðum skrifstofum þar sem þeim er veittur aðgangur að blöðum, netinu og ráðgjöf. Eftir 12 mánaða atvinnuleysi er fólki sköffuð atvinna, sem getur verið allt frá gatnavinnu til hreingerninga og annars viðhalds á almannastöðum. Enginn á að þurfa að vera atvinnulaus á Íslandi.
Atvinnumál:
Atvinnuleysi er hverfandi á Íslandi. Flestir vinna hjá fyrirtækjum sem ekki eru rekin af ríkinu. Þetta er stefna sem Aðfaraflokkurinn mun fylgja og skerpa. Ríkið hefur það hlutverk að hlúa að fyrirtækjum, sérstaklega sprotafyrirtækjum, og skapa umhverfi sem hvetur einstaklinga og fyrirtæki til að skapa auðævi. Hátækni- og ferðamannaiðnaður munu fá sérstakan stuðning því fjölbreytni og menntun er lykillinn að bjartri og öruggri framtíð.
Stóriðja:
Stóriðja á rétt á sér upp að vissu marki. Því marki hefur verið náð og mun Aðfaraflokkurinn beita sér fyrir stoppi á frekari virkjun landsins. Ástæðurnar eru þrjár:
- Náttúra landsins er meira virði en það sem fæst fyrir rafmagn í stóriðju. Sé svo ekki nú, verður það svo í náinni framtíð og er því engin ástæða til að eyða þeim möguleika fyrir fullt og allt
- Menntaðir íslendingar vilja fjölbreytt atvinnulíf. Þó að vinna í álveri sé ekki endilega slæm eru sennilega flestir sammála því að fjölbreytt atvinnulíf er meira virði en einhæft.
- Þeir peningar sem ríkið annars hefði fjárfest í stíflum er betur varið í aðrar atvinnugreinar. Erlend lán og þensla er ekki að borga sig, vextir eru of háir, aðrar framkvæmdir eru látnar sitja á hakanum.
Innflytjendur:
Ísland er frjálst og opið land. Fólki er því frjálst að flytjast hingað ef það vill. Þó skal það vera skilyrðum háð:
- Allir innflytjendur skulu tala íslensku innan tveggja ára. Ríkið mun sjá til þess að allir geti sótt námskeið. Þótt það sé ekki skylda að sæjka námskeið, skulu innflytjendur þó þurfa að standast próf.
- Á Íslandi ríkir trúfrelsi. Fólki er ekki mismunað eftir trú, en trú gefur heldur engin auka réttindi.
- Sömu atvinnuleysisreglur skulu gilda um alla. Innflytjendur munu þurfa að vinna til að eignast rétt á bótum á Íslandi.
Alþjóðamál:
Ísland er friðsamt land og þjóðin skal gæta fyllsta hlutleysis á alþóðavettvangi. Þetta þýðir þá líka að Ísland mun ekki taka þátt í stríði, nema það sé bundið til þess, svo sem með NATO sáttmálanum. Ísland skal aldrei styðja innrás í annað land.
Þetta er fyrsta uppkast svo ég hef sennilega gleymt einhverju, en athugasemdir eru vel þegnar og ég mun reyna að svara þeim eftir bestu getu.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 12:30 | Facebook
Athugasemdir
Fyrst hélt ég að þetta væri gömul grein.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 11.4.2007 kl. 19:14
Þetta lítur út fyrir að vera alvarlegra en það er, held ég.
Villi Asgeirsson, 11.4.2007 kl. 22:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.