Vegasalt

Ég man þá tíð þegar "hægri" menn voru í ríkisstjórn. Allt sem hægt var að einkavinavæða var einkavinavætt. Vinahringurinn endaði í bankakerfi sem var 11 sinnum stærra en hagkerfið og steypti landinu í dýpstu kreppu síðan fyrir stríð. Og landið okkar hefur séð ansi djúpar kreppur. Voru það ekki hægrimenn sem töngluðust á því að vinstrimenn kynnu ekki að fara með peninga?

Þeir töluðu um að við þyrftum að vernda landið fyrir óæskilegum útlendingum. Sögðu það kannski ekki hreint út, en létu það allavega ekki fara í taugarnar á sér þegar fólki var hent úr landi eftir áralangt hringl í kerfinu. Þeir berjast á móti ESB aðild með öllum ráðum. Björn kom okkur þó í Schengen og opnaði þannig landið fyrir hverjum sem koma vildi, nema kannski brúna fólkinu úr þriðja heiminum.

Hægrið studdi stríð sem allir hefðu átt að sjá að byggt var á lygum. Var það af því að Davíð var besti vinur bandaríkjaforseta eða hékk eitthvað annað á spýtunni?

Allir vilja verðtrygginguna burt, en enginn tekur af skarið. Sjálfstæðisflokkurinn hafði 17 ár til að gera eitthvað í málinu, en var of upptekinn við annað.

Það er auðvelt að setja út á hægrið eftir 17 ára setu í ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn skildi við landið í rúst. Vandinn er þó að vinstri stjórnin er ekki að standa sig neitt betur. Verðtryggingin lifir enn, við studdum innrásina í Líbýu, heimilin eru mergsogin af bönkunum, nýju stjórnarskránni er stungið undir stól eins og skýrslunni um stöðu bankanna forðum. Það skiptir engu hver er í stjórn. Pólitíkusar hugsa fyrst og fremst um sjálfa sig. Henda svo í okkur einhverri mylsnu fyrir kosningar svo þeir missi ekki vinnuna.

Núverandi kerfi þar sem stjórnmálaflokkar skiptast á að ráðskast með almúgann virkar ekki. Vegasaltið fer upp en svo kemur maður niður á rassinn og andstæðingurinn fer upp. Það er allt í lagi, því við förum upp næst. Á meðan við erum í stjórnarandstöðu, vitum við allt betur. Þegar við fáum tækifæri til að breyta einhverju, gerist ekki neitt.

Hér er hugmynd. Ekki ný, en kannski verð að skoða. Við kjósum fólk á þing. Enginn er í stjórn. Engin stjórnarandstaða. Fólk er inni á þingi fyrir kjósendur. Allir þingmenn geta lagt fram frumvörp og allir þingmenn geta kosið um frumvörpin. Ekkert hægri, ekkert vinstri. Engir flokkar. Bara fólk sem kosið var af öðru fólki.

Læt litla stuttmynd sem ég gerði um helgina fylgja með, fyrst ég minntist á stríði sem við studdum þegar við gengum í hóp hinna undirgefnu.

 


mbl.is Þakkar fyrir að salur Alþingis sé ekki stærri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sérkennileg árátta hjá mörgum að taka enga afstöðu til þess sem BB segir, heldur beina athyglinu að einhverju allt öðru.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.9.2011 kl. 07:52

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Er það ekki bara af því að það sem BB segir er marklaust? Hvað náði hann og hans flokkur að minnka ríkisumsvif mikið? Það er einfalt mál að gelta við útidyrnar en gera svo ekkert þegar maður kemst inn. Hann er ekki einn um það. Núverandi ríkisstjórn var fín í stjórnarandstöðu.

Villi Asgeirsson, 20.9.2011 kl. 07:59

3 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Þetta er allt rétt hjá BB. Reynslan af þessari stjórn hefur verið sú að sé um tvo kosti að velja (slæman og verri) þá fundinn sá þrijðji og langversti.

Hvernig stendur þá á að stjórnin situr?

Það er vegna þess að almennt er ekkert traust til stjórnmálamanna og flokka. Það er heldur ekkert traust til fjármála- og eftirlitsstofnanna, dómstóla og annarra megininnviða landsins. Meir að segja semi-ríkisstofnanir eins og þjóðkirkjan er búin að drulla upp á bak.

Og hvernig bregðast svo trúðarnir í hringleikahúsinu við Austurvöll við þessu ástandi? Reyna þeir að hegða sér eins og menn, skapa traust? Nei, þeir kjósa að láta eins og hálfvitar!

Viðbjóðurinn á þessu öllu er það eina sem heldur helferðarstjórninni við völd - og hún er ekkert á förum

Haraldur Rafn Ingvason, 20.9.2011 kl. 09:15

4 identicon

Já af hverju fáum við ekki að kjósa fólk. Það er vegna þess að þá missa flokkarnir tökin, það gengur auðvitað ekki að hver sem er komist að spillingunni sem viðgengst hér, svo gæti einhver komist inná þing sem hefur sjálfstæða skoðun, hugsaðu þér hvað þetta er hræðileg tilhugsun :)

En tilfellið er að hér er alltaf talað um að það sé svo flókið að hafa persónukjör. Í Noregi er bæði flokka og persónukjör, a.m.k. í sveitarstjórnar og fylkisþingskosningum, og þar gengur þetta upp. Þar er hægt að telja og útdeila sætum án vandræða. Þar eru menn að hoppa upp og niður lista um allt að tugi sæta og flokkseigendur geta ekki sett sína menn i efstu sæti til að tryggja sig. Litlir flokkar geta boðið fram, ég sá í einni kommúnunni að þar voru flestir flokkar með 40-60 frambjóðendur en svo var lítill flokkur með 7 frambjóðendur. Ég spurði kunningja minn hvað væru margir í sveitarstjórninni, 45 var svarið. En hvað gerist ef þessi litli flokkur fær 10 sæti? jú þeir sem eru efstir í næstu flokkum miðað við fylgi, þeir fá sætin. Ok, sagði ég, en hvað gerist ef þessir 7 skyldu nú allir verða veikir, Heyrðu, sagði norsarinn, við erum að ráða þetta fólk í vinnu og það vinnur sína vinnu. Þetta er bara eins og í fyrirtæki ef einhver stjórnandi getur ekki mætt á fund, þá þýðir þá missir hann af þeim ákvörðunum sem teknar eru á þessum fundi. En ef hann er alltaf veikur, þá ráðum við bara annan eftir 4 ár.

Mér finnst þetta svo stórkostleg nálgun á pólitíkina hjá þeim.

Svona eigum við að hafa þetta.

Larus Sigurðsson (IP-tala skráð) 20.9.2011 kl. 10:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband